Miðvikudagur 06.07.2011 - 19:31 - 18 ummæli

ESB – afnám vörugjalda

Þegar ég kom heim úr vinnunni í dag, datt mér allt í einu í hug að skoða hvaða tekjur ríkissjóður hefði af vörugjöldum og því eyddi ég 1 1/2 tíma í að fletta í gegnum fjárlög ársins 2011 – ekki skemmtilestur. Vörugjöld eru skattur sem ég hef haft óbeit á um langan tíma. Það eru mér margir sammála um að vörugjaldið sé leiðindaskattur og er skemst að minnast frábærs minnisblaðs Samtaka atvinnulífsins, að því mig minnir frá árinu 2007. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá árinu 2007 var einmitt minnst á að nauðsynlegt væri að endurskoða lög um vörugjald og þá líklega til lækkunar á þessum gjöldum eða afnáms. Ekkert varð úr breytingum á vörugjaldi, enda var Samfylkingin meira upptekin við að útdeila peningum en að lækka skatta og einhverra hluta vegna hefur Sjálfstæðisflokkurinn alltaf – eins og öllum mætti vera ljóst – einblínt á tekjuskattinn, enda aðallega haft hagsmuni þeirra allra ríkustu að leiðarljósi, sem auðsjáanlega hagnast meira á lækkun tekjuskatts en lækkun eða afnámi vörugjalda. Vörugjöldin eru í reynd að mörgu leyti falinn tollur, því þau leggjast aðallega á varning sem ekki er framleiddur á Íslandi. Hvað sem öðru líður er þetta „neyslustýrandi“ skattur, sem oft á tíðum tekur á sig einkennilegustu mynd, líkt og minnisblað SA bendir réttilega á. Þannig er t.a.m. ekkert vörugjald á brauðrist en hins vegar 20% vörugjald mínútugrilli og því ekki sama hvort brauð er ristað lárétt eða lóðrétt. Vörugjöld eru lögð á byggingavörur og þá almennt um 15%, á heimilistæki 20% og síðan 25% á allskyns lúxus á borð við sjónvarpstæki og hljómtæki.

Innan Evrópusambandins þekkjast vörugjöld (e. excise duties) aðeins á áfengi, tóbak, kaffi, olíu, bensín, kol og rafmagn. Vörugjöld á hundruð vöruliða, sem Íslendingum hefur hugkvæmst að skattleggja, eru ekki til staðar. Nú spyrja eflaust margir sig, hvort við höfum efni á því að leggja af skatt núna, þegar ríkissjóður er ekki aðeins tómur, heldur í miklum mínus. Ég verð að viðurkenna að ég er sammála því að árið 2011 og 2012 eru kannski ekki heppilegustu árin til að afnema vörugjald eða réttara sagt að samræma löggjöf okkar löggjöf nágrannalandanna hvað vörugjöld varðar. Hins vegar ber okkur að skoða að samræming vörugjalda á við nágrannalöndin myndi aðeins kosta okkur 5-6 milljarða á ári eða 1,5% af tekjum ríkisins. Ég er viss um að stærsti hluti þessa „tekjutaps“ kæmi aftur til baka í öðrum sköttum, því ekki er líklegt að við leggum alla þá peninga í bankabók, sem færu í greiðslu vörugjalda. Vörugjöld eru ósanngjörn og tilviljanakennd gjaldtaka, sem aðallega beinist gegn ákveðnum þjóðfélagshópum, þ.e.a.s. yngra fólki sem er að byggja og koma sér upp heimili, en einnig unglingum og yngra fólki, sem kaupir meira af tækjum en þeir sem eldri eru. Það er ekki einkennilegt að Framsóknarflokkurinn hafi alltaf verið andsnúinn afnámi vörugjalda á nauðsynjum, því þeir verja einnig með oddi og egg verndartolla á landbúnaðarafurðir. Það er hins vegar einkennilegt að Sjálfstæðisflokkurinn, sem jafnan hefur barist fyrir frjálsri verslun og samkeppni og gegn neyslustýringu, hafi á 16 ára valdaferli sínum ekki tekist að afnema vörugjöld á byggingavörur, heimilistæki, hljómtæki, DVD-tæki og i-poda,

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    2 klst. og allir sáttir – sé að allir eru sáttir við vörugjaldslögin.

    Bið ykkur innilega fyrirgefninar að hafa minnst á þess réttlátu skattlagningu!

  • Ég er ekkert sáttur við vörugjöld og hef aldrei verið það. Hinsvegar reikna ég ekki með að nokkur skapaður hlutur muni breytast á Íslandi næstu árin.

    Þannig að ég leysti þetta vandamál ásamt öðrum.

    Ég mun flytja aftur til Danmerkur á næsta ári vonandi, og þá mun ég ekki flytja aftur til Íslands. Enda verð ég þá búinn að taka til eftir mig á Íslandi og passa upp á mína hluti.

  • Ég vann sem bílstjóri hjá stóru flutningafyrirtæki í nokkur ár og við getum orðað það þannig að ráðgjöf og útskýringar á tollum og vörugjöldum væri hluti af starfinu þó það hafi ekki beint verið í starfslýsingunni.

    Og það voru ansi margir hlutir sem ég og mínir kúnnar lentu í, hvort sem það tengdist eftirágreiddum vörugjöldum eða öðru „fuckupi“ sem við gætum svo auðveldlega losnað við með ESB. Tökum dæmi.

    Erlent stórfyrirtæki með útibú á Íslandi og tölvudeildina í ESB-landi sendi tölvur og annan búnað þangað til viðgerðar eftir að hafa unnið sína pappírsvinnu sómasamlega. –Þegar vélarnar koma síðan til baka fylgdi sendingunum rukkun fyrir virðisaukaskatti og tollmeðferð vegna þess að tölvudeildin hafði gengið frá sinni pappírsvinnu eins og tölvurnar væru á leið í hvert annað ESB-land.

    Frönsk kona með tímabundna búsetu á Íslandi fékk vínsflösku að gjöf frá móður sinni heima í Frakklandi. Með fylgdi reikningur upp á tæplega 18.000 kr fyrir áfengisgjaldinu. Hún vissi ekki hvaðan á sér stæði veðrið.

    Fataverslun pantaði helling af vörum frá Danmörku rétt fyrir mánaðamót. Gengið var óvenju hagstætt en varan var í tæplega viku á leiðinni til landins og á þessari sömu viku hækkaði tollgengið. Verslunareigandinn, sem leggur ekki mikið á og hafði tekið frá forpantanir setti upp skeifu þegar hún rétti mér kreditkortið.

    Og svo er auðvitað klassíska dæmið; þegar einstaklingar kaupa smáræði á netinu fyrir rétt um 1.000 kr. og þurfa síðan að greiða 450 kr. fyrir þann munað að fá að borga sinn 7% virðisaukaskatt. –Áfram Ísland!

    —-

    Eflaust er ekki hægt að koma í veg fyrir öll svona vandamál og flækjur með ESB-aðild eða niðurfellingu vörugjalda (áfengis- og tóbaksgjöldin sérstaklega) en fyrr má nú vera sér-Íslenska skrifræðið og baunatalningin.

  • Geggjun vörugjaldanna birtist kannski einna helst í því hvernig tekið hefur verið á tækninýjungum síðustu ára sem hefur verið erfitt að skilgreina skv. flokkun tollskráarinnar. Græjurnar frá Apple sýna þetta einna best.

    Upp úr aldamótum kom iPod á markaðinn, hann var í upphafi eingöngu tónlistarspilari og var afgreiddur sem slíkur af tollinum, með 25% vörugjaldi, 4% höfundaréttargjaldi og 7,5% tolli. Þessi ofurgjöld urðu auðvitað til þess að ekki nokkur heilvita maður keypti iPod í verslun á Íslandi og ríkið varð því af margfalt meiri tekjum en það fékk inn með þessum gjöldum.

    Síðar kom iPhone, snjallsími með myndavél, tónlistarspilara, myndbandsspilara, tölvupósti, netskoðun og möguleika á að setja inn óteljandi smáforrit til að gera ólíklegustu hluti. Í raun smátölva sem er hægt að hringja símtöl með. iPhone var afgreiddur sem sími af tollinum, á símtæki eru ekki lögð nein vörugjöld.

    Þá kom iPod touch, það er nákvæmlega sama tæki og iPhone og hefur alla sömu eiginlega fyrir utan það að það er ekki hægt að hringja símtöl með því. Sú græja var hinsvegar sett í flokk með tónlistarspilurum með þeim ofurgjöldum sem því fylgja.

    Loks kom iPad. Það er sama tæki og iPod touch, það keyrir sama stýrikerfið og sömu forritin og býður upp á sömu möguleika að mestu. Munurinn er að skjárinn er stærri og einn stafur í nafni tækisins var breyttur. Þá gat tollurinn allt í einu fallist á að um tölvu væri að ræða og því engin vörugjöld lögð á það tæki.

    Það er beinlínis sársaukafullt að hugsa um handahófið og ruglið í þessu kerfi.

  • Frikki Gunn.

    Það er alveg ljóst, að ef vörugjöld og tollar verða feldir niður á Íslandi, þarf að hækka aðra skatta og gjöld á móti.

    Höfum í huga að tollar og vörugjöld eru ca. 20-25% af tekjustofnun ríkisins.

    Það þyrfti því að finna þessa peninga annars staðar til að vinna upp tekjutapið.

    Nettóáhrifin fyrir neytendann yrðu því engin ef tollar og vörugjöld yrðu felld niður og aðrir skattar búnir til í staðinn.

    Annað sem við ættum að hafa í huga er að við þurfum ekki að ganga í ESB til að fella niður tolla og vörugjöld, því það eru einungis pólitísk ákvörðun.

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Frikki Gunn: Eins og Íslendingum er tamt hefur þú ekki lesið pistilinn nógu vel og strax byrjað í gagnrýninni.

    Í pistlingum tala ég um samræmingu vörugjalda við það sem gerist í Norðurlöndunum og ESB, en þar þekkjast ekki – og að því ég held varla á byggðu bóli – vörugjöld sem leggjast á þær vörutegundir sem við skattleggjum.

    Hér geturðu skoðað fjárlögin fyrir árið 2011 og ef þú smellir á PDF útgáfuna koma þau upp. Síðan setur þú „vörugjald“ inn í „search“ og þá færðu upp tekjur ríkisins af öllum mögulegum vörugjöldum.

    Hér að neðan færðu smá innsýn í heim vörugjaldanna.

    Tekjur á fjálögum af vörugjöldum

    Vörugjöld sem ekki eru lögð á varning í nágrannalöndunum:

    Innfluttar vörur: 3,9 milljarðar
    Innlend framleiðsla 1,77 milljarðar

    ——————————————————–

    Vörugjöld sem lögð eru á varning í nágrannalöndunum og innan ESB:

    Bifreiðar 1,9 milljarðar
    Bensín 12,3 milljarðar
    Kolefnisgjald 3,140 milljarðar
    Olíugjald 6,83 milljarðar
    Áfengisgjald 10,89 milljarðar
    Tóbaksgjald 4,97 milljarðar
    Rafmagnsgjald 2,221 milljarðar

    ——————————————————–

    Ég tel eðlilegt að við miðum heildartekjur ríkisins – og þá miðað við rekstrargrunn – og síðan tek ég aðeins vörugjöld af innfluttri vöru og innlendri framleiðslu, en skil hin vörugjöldin eftir sem standast skoðun og eru í samræmi við gjaldtöku almennt í nágrannalöndunum:

    5,7/472,5 = 1,20% Þá eru vörugjöld af innfluttri vöru og innlendri framleiðslu 1,2% af tekjum ríkissjóðs.

    Lesa fyrst, reikna svo og þá má byrja að setja eitthvað á blað!

  • Því fer fjarri að tollar og vörugjöld séu 20-25% af tekjustofnum ríkisins. Allir tollar og gjöld á vörur fyrir utan vsk. eru í kringum 13% af tekjustofnum ríkisins. Það er langmest sérstök vörugjöld á áfengi, tóbak, eldsneyti og bíla. Almennu vörugjöldin sem leggjast handahósfkennt á heimilistæki og „lúxus“-varning eru skitin 1-2% af tekjustofnum ríkisins.

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Bjarki:

    Þakka þér fyrir þetta en ég lagðist í að reikna þetta út og útkoman er hér fyrir ofan og um er að ræða 1,2% af heildartekjum ríkisins.

  • Frikki Gunn.

    Jú, ég las pistilinn frá þér og skildi hann vel áður en að ég sagði mina skoðun.

    Það sem ég vildi koma fram með hér er að ein röksemdin fyrir því að ganga í ESB er að þá „hverfi“ tollar og vörugjöld og þar með lækki vöruverð.

    Út frá skrifum þínum, Guðbjörn, fæ ég ekki betur séð en að þú skjótir í kaf eina af aðalröksemdarfærslum ESB-sinna fyrir aðild.

    Svo verðum við líka að hafa í huga að þó svo að tollar og vörugjöld hverfi, þá þýðir það ekki að vöruverð lækki til neytenda.

    Ég trúi nefnilega söluaðilum til að notfæra sér þetta til að hækka hjá sér álagningu og „steli“ þar með þessari kjarabót sem neytendur ættu að njóta.

    Höfum líka í huga að summa skatttekna ríkisins er alltaf „fasti“ svo við notum hugtök úr stærðfræðinni.

    Þetta þýðir að lækkun tolla og vörugjalda þýðir að aðrir skattar hækka á mót og að nýir verði til.

    Við þegnar landsins eigum nefnilega ekki að losna undan ryksugu skattmanns.

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Stefán Vignir:

    Vissulega eru útgjöld ríkisins þannig að erfitt er að skera þau niður. Það er hins vegar skoðun mín að meira svigrúm sé til staðar til hagræðingar hjá ríkinu. Að auki erum við í dag að greiða um 70 milljarða í vexti á ári og við þurfum að greiða þær skuldir til baka eins fljótt og hægt er.

    Það sem er hins vegar mikilvægast af öllu til að ná jöfnuði í ríkisrekstri og til að geta greitt til baka skuldir ríkisins, sem nema líklega um 60-70% af þjóðarframleiðslu, er að efnahagslífið fari af stað. Þar þarf að gera tvennt, þ.e.a.s. að fara í virkjunarframkvæmdir og orkufrekan iðnað, auka fiskkveiðikvótann eins mikið og hægt er, styðja við bakið á ferðamannaiðnaði og sprotastarfsemi. Hitt sem við þurfum að passa okkur á er að leyfa ríkinu ekki að þenjast út – líkt og gerðist í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar – heldur að lækka skatta og auka þannig enn kraftinn í efnahagslífinu.

    Þegar sá kraftur hefur verið leystur úr læðingi má kannski fara að hugsa um að setja meiri peninga í samneyslu.

    Við aðild að ESB kemur til Íslands samkeppni á matvörumarkaði, byggingavörumarkaði, bankaþjónustu, tryggingastarfsemi o.s.frv. Þá geta gömlu klíkurnar ekki snúið lengur upp á hendina á okkur, heldur höfum við kost á að leita til evrópskra fyrirtækja til að kaupa vöru og þjónustu og með evruna að vopni er allur samanburður mjög auðveldur.

  • Frikki Gunn.

    Guðbjörn, þú segir;

    „Við aðild að ESB kemur til Íslands samkeppni á matvörumarkaði, byggingavörumarkaði, bankaþjónustu, tryggingastarfsemi o.s.frv. Þá geta gömlu klíkurnar ekki snúið lengur upp á hendina á okkur, heldur höfum við kost á að leita til evrópskra fyrirtækja til að kaupa vöru og þjónustu og með evruna að vopni er allur samanburður mjög auðveldur.“

    Þess bera að geta að þetta er allt mögulegt nú þegar.

    Með aðild að EES samningum var Evrópskum söluaðilum (verslanakeðjum, bönkum, flugfélögum, tryggingarfélögum) leyfilegt að vera með starfsemi hér á landi.

    En hvers vegna gera þau það ekki???

    Svar; Markaðsaðstæður.

    Markaðurin hér á landi er einfaldlega ekki nógu stór fyrir þessa aðila svo það borgi sig fyrir þá að setja upp starfsemi hér á landi.

    Á 300 þús. manna markaði er erfitt fyrir alla aðila að ná „break-even“ púnkti og þetta breytist ekki þó svo að við göngum í ESB, – (nema ESB ætli að styrkja og niðurgreiða kostnað fyrir nýja aðila á markaði hér á landi, en slíkt er reyndar brot á samkeppnisreglum ESB).

    Bara svo að þú vitir þetta, Guðbjörn minn.

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Frikki Gunn:

    Vandamálið er ekki 300.000 manna markaður, þar sem 250.000 manns búa í 100 km. radíus á suðvesturhorni landsins, heldur blessuð krónan okkar og sú óvissa sem tengist henni og óðaverðbólgunni í kringum hana.

    Bauhaus ætlaði að opna verslun hér á landi en hætti við vegna efnahagsástandsins, en efnahagsástandið má rekja til efnahagshrunsins sem varð m.a. vegna þess að verið var að leika sér með krónuna.

    Bara svo þú vitir þetta, Friðrik minn og þetta kemur því „break even“ punkti lítið við!

    Allar stærstu keðjurnar eru starfandi í Luxemborg sem er með 500.000 íbúa!

  • Frikki Gunn.

    Já, Guðbjörn minn, vandamálið ER 300.000 þús. manna markaður ca. 1.300-1.500 mílur frá meginlandi Evrópu.

    Hvort myndir þú sem forstjóri Bauhaus, sitjandi á skrifstofu þinni í Þýsklandi, líta á sem vænlegri markað, Slóvakíu (ca. 7 mio. manna markaður við bæjardyr Þýskalands), eða Ísland (ca. 300 þús. manna markað ca. 1.500 mílur frá Þýsklandi lengst norður í Ballarhafi), ef þú ættir að velja á milli þess að opna nýtt útibú?

    Lúxemborg er ekki eyja norður í Ballarhafi ca. 1.300 – 1.500 mílur frá meginlandi Evrópu, heldur land á hjarta Evrópu umkringt markaði þar sem búa 100 mio. manna í ca. 100 km. radíus í löndum eins og S/V-hluta Þýsklands, N/A-hluta Frakklands, eða þá Hollandi og Belgíu.

    Þess vegna geta öll þessi stóru, fínu og flottu stórverslanir þrifast í Lúxemborg.

    Auk þess er Lúxemborg fjármálamiðstöð Evrópu, þar sem starfa sá hluti Evrópubúa sem eru einna hæst launaðasta fólkið innan ESB => mög fýsilegur markaður fyrir allar stóru verslanakeðjurnar.

    Til að auka enn á fýsileika Lúxemborgar sem markaðs, þá er mjög auðvelt með alla aðdrætti þangað frá nálægum löndum þaðan sem vörurnar koma og eru upprunar vegna landtengingar Lúxemborgar með nálæg vöruframleiðslulönd í Evrópu.
    Einnig eru einar stærstu hafnir í heiminum að finna í nálægum löndum við Lúxemborg, – (Rotterdam í Hollandi, og Hamborg í Þýskalandi), – en þangað koma með skipum um 70% af þeim vörum sem koma til Evrópu frá framleiðslulöndum í A-Asíu eins og Japan, S-Kóreu, Kína, Indlandi og Taiwan.

    Þetta þýðir á máli hagfræðinnar að Lúxemborg nýtur kosta stórrekstrar (economics of scale) og samlegðaráhrifa (economics of scope) í öllum aðdrættum á vörum og þjónustu => jafnari aðdrættir = stöðugt vöruflæði (logistics) => lægra verð til neytenda.

    Þetta er því ítvíræðir kostir sem Lúxemborg hefur fram yfir 300 þús. manna eyju lengst norður í Ballarhafi sem gera það að verkum að allar stóru verslanakeðjurnar sjá sér fært að veru með starfsemi í Lúxemborg.

    ESB aðild Ísland mun ekki breyta þessu okkur í hag, svo við verðum jafn fýsileg og Lúxemborg sem markaðssvæði.

    Þess vegna hafa stóru keðjurnar ekki séð sér fært að koma hingað til Íslands, þrátt fyrir að þeim sé það fullkomnlega leyfilegt skv. EES-samningnum.

    Bauhaus hætti ekki við að koma hingað vegna krónunnar, heldur vegna þess að forsendur fyrir starfsemi Bauhaus brustu hautið 2008 vegna þess að fyrirsjáanlegt var að ekkert yrði bygg hér á landi í fyrirsjáanlegri framtíð.
    Markaðurinn fyrir nýtt húsnæði var einfaldlega orðinn mettaður.

    Kína er ekki með Evru, en samt vilja Evrósk og annarra landa fyrirtæki fjárfesta þar.

  • Yuanið er talsvert stabílli gjaldmiðill en íslenska krónan.

  • Frikki Gunn.

    Já, Bjarki, enda öfugt við Kínverja erum við með stjórnvöld hér á landi sem hafa engan áhuga á að fá hingað erlenda fjárfesta, né stuðla hér að uppbyggingu að blómlegu og framsæknu atvinnulífi.

  • Frikki Gunn.

    Og ekki gleyma því, Guðbjörn, að nú þegar starfa hér alþjólegar þjónustu og verslanakeðjur eins og;
    Zara,
    Debenhams,
    TopShop,
    IKEA,
    Benetton,
    Selected,
    UPS,
    DHL,
    Hugo Boss
    SAS,
    Subway,
    Serrano,
    Aalborg Portland,
    Pizza Hut,
    Dominos,
    Kentucky Fried Chicken, o.m.fl.

    og ganga vel þrátt fyrir að Ísland sé ekki í ESB.

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Sæll

    Einhvertíma heyrt talað um „franchising“, ef ekki skaltu þér hvað í því felst. Þar er ekki um eiginlegan rekstur erlendra keðju, heldur taka einstaklingar að sér rekstur og er seldur ákveðinn pakki á okurverði. Þeir þræla síðan þar á lágmarkslaunum en eigandi merkisins hirðir gróðann. Besta dæmi um slíkt er Subway!

    Ég er að tala um keðjur en ekki franchising. Ég er að tala um að búðir á borð við Bauhaus opni, nú eða H & M o.s.frv. Var það ekki H & M sem treysti sér ekki til að opna vegna þess að tollafgreiðslan o.s.frv. var of kostnaðarsöm – mig minnir það nú svona!

    Búðirnar sem þú talar um eru reknar hér af því að þær voru í höndum íslenkra útrásarvíkinga.

    Hraðsendingarfyrirtækin eru meira að segja með útibú á Túvúlu og í Tsjad og þau eru rekin með stórtapi líkt og íslenska útibúið. Hjá þeim fyrirtækjum snýst þetta um að geta boðið upp á net sem „koverar“ allan heiminn.

    Kynna sér hlutina en ekki bara blaðra út í loftið!

  • Frikki Gunn.

    Ég veit allt um franchising (viðskiptasérsleyfi). Margir ESB-sinnar telja að forsendan fyrir viðskiptasérleyfum séu ESB aðild, sem er algjör vitleysa.

    Ef tollafgreiðsla er svo fyrirferðarmikil og kostnaðarsöm, þá er ekkert annað en að nútímavæða hana. Varla þurfum við að ganga í ESB til þess.

    Ef þú ert að tala um matvörukeðjur, þá er vandamálið ekki það að Ísland er ekki í ESB heldur eru þessar keðjur oftar en ekki að selja ferskvöru, t.d. kjöt og mjólkurvörur.
    Það er ekki auðvelt að senda ferskvörur hingað til lands alla leiðina frá Evrópu, því það þarf annað hvort að senda þær með skipum, (tekur 5-6 daga) eða þá með flugi, (kostar óhemjumikið sem færi þá út í verðlagið hér).

    Þessar keðjur hafa því séð sér þann kost vænstan að halda sig við heimamarkaði og markaði í nálægum lönd, því þangað er auðvelt að flytja vörur vegna styttri vegalengda og landtengingar inn meginlands Evrópu.

    Og ég get ekki séð að allar þessar „flottu“ Evrópsku keðjur séu mikið að koma sér fyrir í t.d. Danmörku eða Svíþjóð þrátt fyrir að þessi lönd séu í ESB-paradísinni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur