Þriðjudagur 12.07.2011 - 02:03 - 14 ummæli

MS: verndum einokun og fákeppni og útrýmum samkeppni

Ég skil Einar Sigurðsson, forstjóra MS, þegar hann útskýrir af hverju hann horfir bara á sína eigin persónulegu hagsmuni, hagsmuni fyrirtækisins og starfsmanna þess. Og auðvitað er yfirstjórn fyrirtækis, þar sem eflaust situr einungis fólk með feiknagott kaup og prýðileg önnur kjör, sammála um að verja sitt – nema hvað! Auðvitað væri afleitt að verða þvinguð til að gefa upp þá „samkeppnisstöðu“ sína, að verða tilneydd að keppa við einhver útlend fyrirtæki á mjólkurvörumarkaði, þar sem ríkt hefur hálfgerð einokun – í besta falli fákeppni – frá því að elstu menn muna! Ég viðurkenni sem sé að það eru svo sannarlega mannleg viðbrögð að verja sína einokunastöðu og stunda grímulausa sérhagsmunagæslu. Hér á landi er mikið um einokun, fákeppni og sérhagsmuni og því er andstaða þess fólks, sem situr við kjötkatlana, gegn ESB-aðild fullkomlega skiljanlegt og eðlilegt fyrirbæri.

Ég myndi líka vilja reka fyrirtæki í matvælavinnslu, þar sem ég ákveð söluverðið á vörunni og síðan sjá stéttarfélagið í Bændahöllinni og embættismenn um að koma skilaboðum til landbúnaðarráðherra um hversu háir verndartollarnir þurfi að vera – m.t.t. gengisskráningar og verðs á erlendum mörkuðum – þar til enginn getur keppt við mann í verði og öll samkeppni hefur verið kæfð í fæðingu! Já, maður getur ekki verið annað en sammála Einari, að hér er um algjöra draumastöðu fyrir viðkomandi fyrirtæki að ræða, en hins vegar um martöð að ræða fyrir íslenska neytendur og þá sem standa í viðskipum með matvöru! Maður þarf aldrei að hafa áhyggjur af rekstrinum þegar maður er í þessum bransa, því verðið er alltaf látið dekka kostnað og skila „eðlilegum“ hagnaði! Og framleiðendur hráefnis eru líka vel settir, því mjólkurlítrinn er alltaf miðaður við það að búskussinn með lægstu framlegð hafi það af!

Og þarna erum við komin að kjarna málsins, sem ég bara hreinlega ekki skil. Ég skil ekki að íslenskir neytendur leyfi slíka „markaðsmisnotkun“ á sér – svo jaðrar við „markaðsnauðgun“. Íslenskir neytendur leyfa þarna sérhagsmunaseggjunum að komast upp með okrið og spillinguna og bæta síðan gráu ofan á svart með því að verja landbúnaðarsukkið með kjafti og klóm án þess að vita beint af því eða fá nokkuð fyrir sinn snúð nema að láta svína á sér! Sérhagsmunaöflin nýta sér meira að segja þá „þjóðernisöfgatilfinningu“, sem blossaði upp í kjölfar hrunsins og Icesave, til að innsigla sinn sigur! Auðvitað hlær þetta sama fólk síðan að íslenskum einfeldingum í laumi og heldur uppteknum hætti! Almenningur er svo laminn og barinn af kúgurum sínum, að einna helst er hægt að líkja því við heimilisofbeldi. Þannig ver fólkið í landinu og réttlætir markaðsmisnotkunina með því að segja: „Já, en þetta eru nú bestu ostar í heimi og hvað með matvælaöryggið? Jú, mér finnst bara allt í lagi að borga tvöfalt verð fyrir íslenska vöru! Landið má ekki leggjast í eyði!“ – svo eitthvað af þessum frösum sem maður heyrir á hverjum degi séu týndir til.

Mjólkurbændur eru ekki fjölmennasta stétt landsins og sama má segja um þá sem vinna í mjólkurbúum. En auðvitað eru hagsmunir örfárra teknir fram yfir hagsmuni fjöldans, því þannig hefur það alltaf verið í þessu guðsvolaða landi. Man þjóðin eftir harmkvæðum sælgætisframleiðenda þegar EES samningurinn var samþykktur? Eru Nói & Síríus, Ópal, Góa og önnur fyrirtæki farin á hausinn? Ó nei, þau stóðu af sér samkeppnina frá Evrópu með glæsibrag og eru ef eitthvað öflugri, enda um frábæra vöru á ágætis verði að ræða! Við eigum að hætta þessu væli og minnimáttarkennd og hjálpa þá frekar íslenskum mjólkur- og ostaiðnaði að takast á við erlenda samkeppni, því ég vil íslenskum landbúnaði og matvælaiðnaði vel! Við munum án efa flytja út gæðavöru á háu verði, t.d. skyr, verðlaunaosta og blessað fjallalambið. Kannski hættum við að reyna það sem við ekki getum, þ.e.a.s. að framleiða „ódýran“ skólaost, og flytjum inn fjöldaframleiddan, ódýran ost til daglegs brúks en gæðum okkur síðan á íslenskum og erlendum ostum með rauðvínsglasi á laugardagskvöldum. Þá getum við með stolti fullyrt að íslensku gæðaostarnir gefi þeim erlendu svo sannarlega ekki eftir, hvorki í verði eða gæðum!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • feiknagott

    ern EKKI

    feiknaRgott!

    Það eru ÞAU,

    feiknin.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Það er bara einfaldlega mannskemmandi að búa í þessu klíkuþjóðfélagi. Hvet alla sem geta til að flýja land.

  • Kristján

    Icelanders are nothing but peasants. Hafa alltaf verið og munu alltaf vera.

  • Hverju orði sannara.

  • Dr. Livingstone

    Amen Guðbjörn.

    Sorglegt þykir mér að horfa á fréttaskot, kvöld eftir kvöld þar sem vitleysan úr einokunarstéttunum er lapin upp gagnrýnislaust.

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Rudolph:

    Það er „en“ en ekki „ern“ 🙂

    Ég var að þessu í nótt upp úr 01:00 og því aðeins orðinn syfjaður!

  • Einar þessi hefði betur haldið sig á Mogganum.

    En hann gat það víst ekki þar sem hann lagði blaðið í rúst.

    Svona er samkeppnisrekstur.

  • Þórdís Anna

    Frábær grein og sönn.
    En það verður að segjast eins og er að íslenskur almenningur er almennt illa gefinn og lætur bara bjóða sér þetta – nennir ekki og vill ekki mótmæla neinu – það er nefnilega hallærislegt á Íslandi að mótmæla. Þetta vita allir sem vilja og þess vegna er vaðið ofan í okkur á skítugum skónum af öllum sem geta.
    Að tala um fæðuöryggi er bókstaflega hlægilegt. ALLT þarf að flytja inn til framleiðslunnar og ef hingað stöðvaðist innflutningur í meir en mánuð væri íslenskri fæðu varla til að dreifa – nema í grunnfæðu – kindakjötinu og fisk.
    Hinsvegar yrði það fé að ganga úti því ekki væri hægt að slá ef allur innflutningur stöðvaðist td.

  • Jakob Bjarnar Grétarsson

    Nákvæmlega! Ég var einmitt að hugsa á þessum nótum þegar ég sá þessa frétt í gær.

  • Stefán M Halldórsson

    Það er skelfilegt að heyra þennan boðskap frá fyrrum útvarpsstjóra fyrstu frjálsu útvarpsstöðvarinnar. En þægindastuðullinn er fljótur að breytast.

  • Runólfur G

    Hvað kemur þetta ESB við – er ekki hægt að gefa þetta frjálst án þess að vera að taka inn á sig fallandi heimsveldi eins og ESB. Það er bara engin tenging þarna á milli nema fyrir þá sem eru að reyna að þröngva ESB vitleysunni inn á þjóðina. Ef ESB þjóðir vilja flytja hingað inn þá bara tökum við burt þessa verndartolla og that is it – búið mál. Þarf ekkert að ganga United States of Europe til þess. Ég get ekki séð með neinu skynsemismóti að ísl bændur séu að fara að stórgræða á því að flytja vöru sína til ESB – til þess er transportation cost allof hátt. Þetta er útrædd mál nema fyrir þá sem vilja ESB nauðgun.

  • Þór Eysteinsson

    Efast um að Einar þessi eða aðrir framleiðendur hér geti framleitt jafn góða osta og þá bestu á meginlandi Evrópu, en þeir mega reyna. En hvers vegna eigum við íslenskir neytendur að þurfa að fara á mis við það besta? Meðan við erum utan ESB verður alltaf freisting fyrir íslenska stjórnmálamenn að setja nýja tolla eða hringla með tollskránna í þágu sérhagsmuna, eða fyrir einstaka menn eins og Einar, á kostnað okkar neytenda. Þetta ofbeldis-vald yrði tekið af þeim við inngöngu. Ég minni á að fyrrum ráðuneytisstjóri landbúnaðarráðuneytis er nýbúinn að sýna fram á að íslenskir bændur munu blómstra sem aldrei fyrr innan ESB.

  • Gísli Ingvarsson

    Það er einkennilegt hvað íslendingar eru hollir kúgurum sínum. Þegar sagan er hlutlaust lesin en ekki með augum þess sem vill bara sjá hverning vondir útlendingar hafa hagað sér þá eru það innlendir höfðingjar sem hér hafa sett undirsátum sínum afarkostina. Þegar einokunarverslunin komst á var hún eðlilega óhagkvæm en það voru ekki innlendir höfðingjar sem börðust gegn henni. Þeir fengu nefnilega sitt þrátt fyrir allt. Afnám einokunarverslunar hefur síðan orðið í áföngum en einungis á forsendum þess að afhenda innlendum höfðingjum einokunaraðstoðu. Frelsi í viðskiptum er þó víðast á komið nema innan landbúnaðargeirans. Það er síðasta vígið sem barist verður um. ESB aðild eða ekki. Þetta vígi verður að falla.

  • Sæll Guðbjörn,

    Rakst á þessa grein þína í minni leit af sannleikanum bakvið stórveldið MS og fleiri fyrirtækja sem eru að mínu mati vernduð gegn samkeppnislögum. Þó svo að ég hafi ekki frætt mig fullkomlega um innviði þessara fyrirtækja þá veit ég að á okkur er brotið. Við Íslendingar erum því miður með Stokkhólmssyndrom á mjög háu stigi og sýnir það sig á margan hátt. Í leit minni hefur mér verið ómögulegt að finna eignarhald á ýmsum fyritækjum sem tengjast t.d. MS. Langar mér því að biðja þig um að hafa samband við mig, sérstaklega til að afla mér upplýsinga og já, kannski veita þér smá upplýsingar af minni rannsókn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur