Þriðjudagur 19.07.2011 - 11:32 - 9 ummæli

Markaðsvæðing landbúnaðar

Fullyrðing bænda um að margir kostnaðarliðir við rekstur þeirra hafi hækkað gífurlega á árunum eftir hrun er vafalaust sönn og rétt. Hrun íslensku krónunnar – sem þeir annars elska svo mikið – á þar mikla sök, en einnig hækkanir á áburði og olíu, sem ekki má rekja til gengisbreytinga. Margir bændur eru að auki mjög skuldsettir eftir fjárfestingar á liðnum árum, sem að hluta til má rekja til stækkunar rekstrareininga. Mjólkurkvótinn er eins og við vitum ekki ókeypis heldur á okurverði – einn af göllum kvótakerfis – og síðan þarf að byggja yfir skepnurnar og fjárfesta í dýrum búnaði og tækjum. Raunsæismenn eins og ég, sem eru meðvitaðir um þjóðfélagslegt mikilvægi landbúnaðar og vilja áframhaldandi búskap í landinu, vita að þetta er þróun sem er bæði nauðsynleg og góð, því bráðnauðsynlegt er að auka framleiðni bænda svo um munar. Það sem bændur virðast hins vegar ekki átta sig á, er að þeir eru ekki einir um það vandamál að kaupmáttur þeirra hafi lækkað eða að vera svo skuldugir að þeir eiga varla fyrir afborgunum. Kaupmáttur sama almennings og á að borga 25% hækkun á lamba- og nautakjöti hefur á nokkrum árum orðið fyrir yfir 20% skerðingu og 30% hækkun lána sinna og afborgana. Það var ekki rétt eða skynsamlegt af Gylfa Arnbjörnssyni að beina fólki frá blessuðu lambakjötinu, en það hefði verið lélegur forystumaður verkalýðsins, sem ekki benti á að 25% hækkun er algjörlega út úr kortinu á tímum sem þessum.

Á þessu ári eyðum við að því mig minnir um 13,5 milljörðum af skattfé landsmanna til landbúnaðar, en til viðbótar kemur síðan óbeinn stuðningur í formi tollverndar, sem eflaust hleypur á nokkrum milljörðum króna. Við erum í efstu sætum hvað stuðning til landbúnaðar varðar í heiminum. Fyrir aðeins rúmum tveimur áratugum var stórum upphæðum einnig eytt til styrktar útgerðarmönnum og bæjarútgerðir voru reknar hjá stærstu sveitarfélögunum auk þess sem flókið sjóðakerfi viðgekkst ekki ólíkt því sem enn fyrirfinnst í landbúnaði. Pólitísk ákvörðun var tekin um að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu með þau markmið að leiðarljósi að takmarka sóknina til verndunar á fiskistofnum, sem voru í útrýmingarhættu. Við þetta voru ekki allir sáttir og margir „fiskkommissarar“ misstu vinnuna hjá sjóðakerfinu. Innleitt var kvótakerfi og útgerðarmenn gátu framselt kvóta, en við þessar breytingar varð óneitanlega mikil hagræðing. Kvótakerfi var einnig tekið upp í mjólkuriðnaði og hefur það einnig leitt til framleiðniaukningar og hagræðingar. Kvótakerfi eru því ekki að öllu leyti slæm, þótt persónulega sé ég hrifnari af annarri skipulagningu fiskveiði- og landbúnaðarmála.

Öllu jafnan aðhyllist ég lausnir markaðshagkerfis – þar sem það á við – og því er ég í grunninn ekki andsnúinn því að verslað sé með aflaheimildir eða mjólkurkvóta – sé á annað borð notast við kvótakerfi. Ég er hins vegar á því að betra væri að markaðurinn „reguleraði“ þetta alfarið líkt og með aðra framleiðslu. Ef við hins vegar búum við kvótakerfi, þá væru kvótar til til lengri og skemmri tíma (1-15 ár) og færi verðið eftir aðstæðum á markaði og lengd leigutímabils. Þannig væri nýliðun tryggð, rekstargrundvöllur yrði stabíll og að auki yrðu menn aðeins tímabundnir kvótagreifar í landbúnaði og sjávarútvegi. Þessu til viðbótar þyrftum við þá að búa við markaðshagkerfi alla leið í landbúnaði líkt og við að mestu leyti gerum í sjávarútvegi. Þótt ekki fari nema hluti að fiski á markað eru markaðir þó til og þeir gefa einhverja mynd af verði fisksins hér á landi og í útlöndum. Nú þegar útflutningur á landbúnaðarvöru er orðinn að veruleika þyrftu í raun smám saman að verða til svipaðir markaðir með landbúnaðarvörur. Þegar til lengri tíma er litið ætti allur fiskur og landbúnðarvörur að vera á markaði. Einnig þyrftum við að einhverju leyti að afnema tollvernd, því hún er yfirleitt alltaf af hinu slæma. Hróplegt óréttlæti og fullkomið ósamræmi felst í því að bændur flytjir sínar afurðir út, en að á sama tíma sé bullandi tollvernd og tæknilega hindranir í gangi varðandi innflutning landbúnaðarafurða.

Við verðum að hafa þor og kjark til að breyta stöðnuðu landbúnaðarkerfi okkar líkt og við höfðum hugrekki til að breyta fiskveiðikerfinu fyrir áratugum síðan. Landbúnaðarkerfið er í raun síðasta vígi þeirra ráðstafana (tollvernd, niðurgreiðslur og sjóðakerfi) sem gerðar voru í kjölfar kreppunnar miklu og gamla Viðreisnarstjórnin byrjaði að losa um en lauk því miður ekki við, þótt stór skref hafi verið stigin til afnáms þessa efnahagsmeins með inngöngunni í EFTA og EES. Það er löngu kominn tími til að leggja þennan óskapnað – landbúnaðarkerfið – til sinnar hinstu hvílu. Íslenskir neytendur myndu sætta sig við 25% hækkun á landbúnaðarafurður – líkt og þeir hafa sætt sig við enn meiri hækkun á fiskverði – ef að við myndum alla jafna búa við markaðsverð á landbúnaðarafurðum. Það sem fer í taugarnar á almenningi er tvískinnungshátturinn, þ.e.a.s. að landbúnaðurinn þiggur 13,5 milljarða í styrki frá skattborgurum en flytur síðan út 40% af vörunni – niðurgreidda af almenningi – en beita síðan á sama tíma einokunartilburðum með því að takmarka framboð á heimamarkaði. Það er því ekki hægt að bera saman íslenska bændur og útgerðarmenn hvað þetta varðar, því útgerðarmenn segja hreint út að við Íslendingar verðum að sjálfsögðu að borga það sama og útlendingar fyrir fiskinn, því þeir séu ekki í neinni góðgerðarstarfsemi. Til að bæta hag sinn og hag þjóðarinnar verða bændur að hverfa frá ölmusu og aumingjavernd til sjálfstæðis og markaðsfrelsis.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

 • Ég held Guðbjörn að það sé þýðingarlaust að tína til rök og staðreyndir í þessum málum. Almenningur vill ekki breyta þessu.
  Þú nefnir að það sem fari :
  „í taugarnar á almenningi er tvískinnungshátturinn, þ.e.a.s. að landbúnaðurinn þiggur 13,5 milljarða í styrki frá skattborgurum en flytur síðan út 40% af vörunni – niðurgreidda af almenningi – en beita síðan á sama tíma einokunartilburðum með því að takmarka framboð á heimamarkaði. “
  Þetta fer nefnilega alls ekki í taugarnar á almenningi, væri svo þá myndi almenningur breyta þessu með sínum atkvæðum. Tvískinnungshátturinn er nefnilega hjá almenningi sjálfum. Almenningur vill betri lífskjör en vill samt engu breyta.

 • Guðbjörn hættu að tala um styrki þú veist vel að þetta er niðurgreiðsla á verði til neytenda. Þetta er kerfið sem notast er við í hinum vestræna heimi, þar er engin þjóð undantekning. Markaðsvæðing hefur aldrei gengið í matvælaframleiðslu það hefur bara leitt til aukinnar fátæktar og stéttaskiptingar og styrjalda. Að gera ekki neitt varðandi markaðslögmálin leiddi okkur inn í hrun, mundu.

 • Guðbjörn Guðbjörnsson

  En það er kvóti á mjólkurframleiðslu og hvort um niðurgreiðslur, beingreiðslur, tollkvóta eða annað er að ræða skiptir mig í raun litlu.

  Ég veit vel að landbúnaðarvörur eru niðurgreiddar innan ESB og það hefur verið mikið gagnrýnt og því kerfið hefur verið breytt í átt við það sem gerist hér, þ.e.a.s. beingreiðslur til bænda og það sama á við um sjávarútveg.

 • Leggja á niður landbúnað á Íslandi.

 • Ég skil sannast sagna ekki af hverju þú leggur þetta mál þannig upp að þessi 25% hækkun á verði til bænda verði sjálfkrafa að 25% hækkun útúr búð.

  400 verður að 500 á fyrsta stigi viðskiptanna og ætli meðal kg. verð sé ekki rúmlega 2.000 útúr búð í dag.

  Maður sér í hendi sér að það eru fleiri kostnaðarliðir sem bætast við á leið kjötsins frá bónda til eldavélar og þeir eru sannarlega ekki allir beintengdir við verð til bænda.

  Það er t.d. launakostnaður í vinnslunni þar sem félagsmenn ASÍ eru nýbúnir að „frekjast“ til að ná til sín 3% launahækkun. Ætli maður þurfi ekki að sniðganga þá úti á götu ef einhver krati óskar eftir því.

 • Hættur að versla lambakjöt. Jón og rollu bændur búnir að tryggja það.
  Núna bíður maður og sér til hvað kúabændur gera.
  Fiskurinn kemur manni langt og ekkert mál að veiða hann við strendur landsins á stöng.

 • Guðbjörn Guðbjörnsson

  Þessi pistill minn á ekki að skiljast sem svo að ég sé andsnúinn landbúnaði, heldur er ég andsnúinn núverandi landbúnaðarkerfi.

  Það þarfnast endurskoðunar, því landbúnaður er atvinnugrein sem þarf að taka alvarlega og þá ekki síst á tímum, þar sem fyrirsjáanlegt er að skortur verður á matvælum á næstu áratugum.

  Við þurfum því að styrkja innviði landbúnaðar og það verður ekki gert á grundvelli núverandi kerfis.

 • Frikki Gunn.

  Ég er sammála Guðbirni að breyta þurfi landbúnaðarkerfinu í átt að meiri sjálfbærni hvað varðar tekjur.

  Reyndar er þessi þróun hafin, hún hófst fyrir um 20 árum síðan.

  Býlum hefur verið fækka og þau hafa orðið stærri.

  Mikil hagkvæmni hefur átt sér stað undanfarin ár, og fleiri og fleiri býli eru farin að nálgast það sem kallast stærðarhagkvæmni.

 • Olíuverð á heimsmarkaðsverði hefur hækkað úr 60-70 dollurum í 120 dollara á tunnuna undanfarin 3-4 árin. það er ca. hækkun upp á 100%. Hvernig í ósköpunum getur Guðbjörn fengið það út að gengisbreyting íslensku krónunnar hafi breytt heimsmarkaðsverði á olíu? Þó máttur krónunnar sé enn nokkur, þá myndi enginn halda því fram að krónan hefði einhver áhrif á heimsmarkaðsverð á olíu.

  Launahækkanir ASÍ fara beint út í verðlagið, eru þegar farnar að gera það, slíkt bitnar auðvitað á þessari fámennu stétt manna og kvenna á Íslandi sem er í sjálfstæðum atvinnurekstri. Það er miður að ekki skuli vera til málsvarar inni á þingi eða annars staðar til að tala máli þessa fólks sem er að framleiða vörur og þjónustu sem er svo seld fyrir erlendan gjaldeyri, eða fólk og fyrirtæki sem eru að selja vörur og þjónustu á heimamarkaði. SA eru auðvitað lélegustu samtök sem til eru, ef kannski ASÍ eru undanskilin. Sambandið á milli þeirra er þó augljóst í gegnum Lífeyrissjóðina.

  Markaðshagkerfi snýst ekki um að allir megi gera það sem þeim sýnist eins og Guðbjörn virðist stundum halda fram. Þar sem markaðshagkerfið virkar best s.s. í USA eru t.d. mjög ströng lög um innflutning á vöru og þjónustu, miklar niðurgreiðslur á mikilvægum atvinnugreinum s.s. flugvélahönnun og smíði ásamt fleiri mikilvægum greinum. Markaðshagkerfið snýst um réttlát lög og réttlátar reglur. Það myndi engum heilvita manni detta í hug að leggja niður landbúnað í eigin landi , hvort sem það væri í Rússlandi eða USA. Þess vegna er þessi andstaða ESB sinna með ÖLLU óskiljanleg.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur