Fimmtudagur 27.10.2011 - 07:00 - 20 ummæli

Virkjanir, jeppar, flatskjáir og hrunið

Það er með ólíkindum hvað fólk kemst upp með að koma fram með órökstuddar fullyrðingar hér á landi. Ég minnist þess t.d. þegar Geir Hilmar Haarde hélt ræðu sína á 17. júní árið 2008 og kenndi landsmönnum öllum um ástand efnahagsmála af því menn hefðu farið fram úr sér við kaup á jeppabifreiðum og flatskjáum. Geir vildi sem sagt útskýra heildarskuldir landsins, sem samkvæmt honum sjálfum námu á þessum tíma um 12 faldri þjóðarframleiðslunni eða um 15.000 milljörðum, með óhóflegri neyslu Íslendinga á fyrrnefnum varningi. Án þess að vilja gera lítið úr gífurlegri og allt of mikilli neyslu Íslendinga á þessum árum, sem að stórum hluta var fjármögnuð með skuldum, er óhætt að fullyrða að hér var mjög frjálslega farið með staðreyndir. Óhætt að fullyrða að langstærstur hluti skulda þessara var tilkominn vegna brasks fjármálafyrirtækja og annarra fyrirtækja á hlutabréfamörkuðum og vegna heimskulegra fjárfestinga íslenskra fyrirtækja í útlöndum.

Önnur bábilja er að uppbygging Kárahnjúkavirkjunar hafi haft þau gífurlegu áhrif til þenslu, sem vinstri flokkarnir hafa nú haldið fram um árabil og þjóðin er því miður farin að trúa. Þriðja bábiljan er að hér fari bókstaflega allt á hvolf við að klára Helguvík og byrja að undirbúa framkvæmdir á Húsavík, þótt hér ríki 7% atvinnuleysi og þúsundir Íslendinga hafi yfirgefið landið. Það má þó vissulega til sanns vegar færa að tímasetning framkvæmda við Kárahnjúka var í hæsta máta óheppileg ofan á það gífurlega þensluástand, sem skapaðist á síðari hluta framkvæmdatímabilsins. Þetta var þó ekki fyrirsjáanlegt þegar framkvæmdir hófust árið 2002. Áætlaður kostnaður vegna Kárahnjúka hefur verið áætlaður um 133 milljarðar króna, sem að stórum hluta fór til kaupa á búnaði erlendis, en síðan fór einnig nokkur skerfur til þeirra erlendu verkamanna, sem byggðu virkjunina. Impregilo er síðan talið hafa skilið eftir um 8 milljarða hér á landi vegna framkvæmda við álverið á Reyðarfirði. Framkvæmdir byrjuðu árið 2002 og þeim lauk árið 2007 og dreifðust þessar fjárfestingar því á fimm ár og nema því 25 milljörðum að meðaltali eða rétt um 1,9% af þjóðarframleiðslu, sem var á árinu 2007 1.308 milljarðar króna. Talið er skynsamlegt í efnahagslegu tilliti að fjárfestingar á ársbasis séu um 20% af þjóðarframleiðslu og þá er auðvitað ekki verra ef þær séu skynsamlegar og leiða aukningu á framtíðartekjum og útflutningstekjum þjóðfélags líkt og Kárahnjúkar óneitanlega gera.

Flestar þjóðir heims horfa til Þýskalands sem fyrirmyndar í efnahagsmálum um þessar mundir. Af þeim 440 milljörðum sem lönd evrusvæðisins hafa þegar samþykkt að reiða fram ætla Þjóðverjar að lána 220 milljarða. Þetta sýnir styrk þessa hagkerfis. Þjóðverjar tóku vissulega þátt í fjármálavitleysunni sem í gangi var undanfarin ár, en ólíkt öðrum þjóðum treystu þeir þó að aðallega á sín framleiðslufyrirtæki – líkt og þeir hafa alltaf gert – og á gæði framleiðslunnar: „Made in Germany“. Þjóðverjar eru að sumu leyti gamaldags hvað þetta varðar og hafa með dugnaði, forsjá og öguðu skipulagi byggt upp gífurlega sterkan og vandaðan iðnað. Þótt Bretar, Bandaríkjamenn og ýmsir ESB andstæðingar hafi lýst Þýskalandi sem deyjandi iðnaðarveldi virðast þeir plumma sig einna best í dag og kannski ekki að undra þegar nánar er að gætt – sá hlær best sem síðast hlær!

Einhverra hluta vegna virðast sumir – t.d. Egill Helgason – ekki átta sig á því að álver eru hluti af þeirri framleiðslu sem alvöru iðnaðarþjóðir eru með. Ég veit ekki hvað fólk almennt heldur að sé gert í álverum annað en að framleiða iðnaðarvöru/útflutningsvöru. Vissulega væri betra að vinna meira úr álinu og auka þannig virðisauka. Þessi þróun er hafin með álþynnuverksmiðjunni og í Straumsvík og álfyrirtækin og fleiri eru með hugmyndir á teikniborðinu um frekari framleiðslu. Reynslan sýnir okkur að slík framleiðsla fer af stað í kjölfar álvera. Slík frekari vinnsla getur hins vegar aðeins farið fram ef við erum með hráefnið í landinu, orkuna til að drífa tækin og fólkið til að vinna auk þess sem ekki skaðar að vera með 500 milljóna manns opinn ESB markað ekki allt of langt í burtu.

Hvernig skynsamt fólk getur hent okkar gömlu „útrásarruglstarfsemi“ í sama pott og framleiðslu á rafmagni, áli eða öðrum varningi eða þjónustu er mér óskiljanlegt og klárlega um hugsunarvillu að ræða! Bankarnir, fjármálafyrirtækin og þau fyrirtæki, sem fóru og geyst í fjárfestingar – t.d. mörg útgerðarfyrirtæki – fóru á hausinn eða að lán þeirra voru afskrifuð. Landsvirkjun, orkufrekur iðnaður, Marel, Össur, CCP og ferðaiðnaðurinn standa keik og skila miklum hagnaði þrátt fyrir alheimskreppu og þar hafa engar skuldir verið afskrifaðar. Hvaða hugsunarvilla er þetta hjá annars skynsömu, vel gerðu og vel meinandi fólki?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (20)

  • Skemmdarverkin á húsnæðismarkaðnum 2003-2005 hafði meiri þenslu áhrif en Kárahnjúkar.Byggingarmeistaraar kvörtuðu ekki enda gott að geta selt íbúð helmingi dýrar 2005 en 2003.
    Nokkrir hundruð milljarðar soguðust úr landi þá.

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Höddi: Þakka þér fyrir að benda mér á þetta! Best að drífa sig í vinnuna!

  • Matthías

    Auðvitað er besta lausnin að reisa verksmiðjur til að vinna úr áli en ekki bara vera hráefnisframleiðendur, virðisaukinn liggur einna helst í fullvinnslu. Vandinn er bara sá að mikil fyrirstaða hefur verið gegn þessu. T.d. má nefna Alpan sem ætlaði að búa til eldhúsáhöld úr áli en varð að kaupa brotaál að utan svo reksturinn gengi upp. Nú er sú verksmiðja komin til Eystrasalts. Svo reynsla okkar sýnir einmitt ekki að þannig starfsemi fylgi í kjölfar álvera – hvað sem veldur.

  • Gunnar H. Sæbjörns.

    Frábær grein!

    Þetta er allt saman alveg hárrétt hjá þér, Guðbjörn.

    Hér þarf einfaldlega að skapa meira af haldbærum verðmætum. Ekki lofti eins og útrásarhyskið gerði eða froðu sem álitsgjafar er að búa til.

    Hér á landi er orkufrekur talaður niður af álitsgjöfum, mörgum ofurbloggurum, ríkisstjórninni og athyglissjúku fólki sem þykist vita allt.

    Meira að segja forstjóri Landsvirkjunar virðist vera smitaður af þessari vænisýki og virðist vera að missa kjarkinn þegar kemur að virkjanamálum.

    Þessu fagna náttúrlega álitsgjafarnir, vinstraliðið og froðusnakkararnir og kalla forstjóran ýmist hugrakkan, skynsaman, eða mikinn fagmann (sem hann vissulega er).

    Nei, ef við ætlum að lifa af í þessu landi og skapa hér velferð og velmegun til frambúðar, verðum við að framleiða handbær verðmæti til útflutnings.

  • Magnús Birgisson

    Góður pistill…

    Það mætti nefnilega halda m.v. umræðuna að það hafi naumlega tekist að stýra frá einhverri geigvænlegri virkjana-, áliðnaðaruppbyggingarbraut með lágmarks hagnaði af orkusölu með því einu að Hörður settist í stól forstjóra.

    Staðreyndin er að Landsvirkjun hefur ekki gert neinn nýjan orkusölusamning síðan 2003….Hörður hefur setið í stól forstjóra síðan 2009.

    Hörður hefur lækkað meðalorkuverð til erlendra orkukaupenda með því að breyta viðmiðun hjá Alcan úr álverði í verðbólgu í USA….en hækkað til innlendra kaupenda með því að segja upp samningum um kaup á rofnu rafmagni.

    Hörður hefur ekki gert einn einasta orkusölusamning síðan hann tók við starfinu þrátt fyrir sífellt tal um ofuráhugasama orkukaupendur sem bíða í röðum…t.d. á Bakka.

    Á sama tíma er jafnvel farið að tala um að Kárahnjúkavirkjun borgi sig upp á 20 árum ef jafn vel gengur í framtíðinni einsog síðustu 4 ár.

    Ég held að þeir Landsvirkjunarmenn þurfi að fara að átta sig á að það er ekki nóg að tala bara um það hversu margir flottir fiskar eru í sjónum…menn verða að líka að koma með’ann að landi.

  • Sævar Helgason

    það er þessi misskilningur með álið sem er villandi.

    Það eru hinir erlendu eigendur álveranna sem eiga álið og allan virðisauka sem þeir ná fram við framleiðsluna.
    Við eigum ekkert af því.
    Útflutningstekjur okkar af starfsemi álveranna er sala á raforku og vinnuafli við framleiðsluna-annað ekki.
    Að byggja eitt álver þýðir fyrir okkur stórfelldar erlendar lántökur vegna byggingu raforkuvera,
    Í 25- 35 ár fer arðurinn af þeim úr landi formi afborgana og vaxta.
    Vinnulaunin eru þá ein eftir.
    En auðvitað eignumst við að lokum þessar virkjanir og þá mala þær okkur gull-en biðtíminn er mjög langur.
    Fullvinnsla á áli hér innanlands og á okkar vegum er fjarlæg sýn.
    Álverin senda sína framleiðslu til virðisauka á hina stóru markaði erlendis-auðvitað-þau eru að hámarka sinn hagnað af fjárfestingunum….
    Okkar markaður innanlands er hverfandi..
    Við höfum reynt fyrir okkur í þeim efnum.
    Það er síðan hinn skammgóði vermir sem bygging þessa iðnaðar færir okkur -í 2-4 ár sem heillar marga. Uppsveifla í 3-5 ár fyrir erlent lánsfé….
    En takk fyrir annars ágæta grein Guðbjörn

  • Addi Fr. Haraldss

    Sammála Magnúsi Birgissyni.

    Mér finnst Hörður vera alltaf lítið sókndjarfur í forstjórastarfi LV og þar með alltof varfærinn.
    Kannski er honum vorkunn ef hann er í bandi stjórnvalda, kannski er hann ekki rétti maðurinn sem forstjóri LV.

    Að gera lítinn orkusölusamning framtíðinni við 1-2 kaupanda fyrir starfsemi á Bakka sem skapa kannski einungis 40-50 störf er illa farið með góða orku, jafnvel að verðið eigi að heita gott fyrir orkuna.

    I þessu samhengi er t.d. talað um að fyrirtæki Iceland Carbon Recycling vilji kaupa 50-60 MW fyrir starfsemi á Bakka, en að það skapi einungis 15-20 störfum, er verra en ekkert, miðað við það að ALCAO vildi 400 MW sem myndi skapa 500 störf.

  • Magnús Birgisson

    Þú verður að fyrirgefa Sævar en ég held að misskilningurinn sé þinn…

    Þú gleymir að „virðisaukinn“ við framleiðslu álsins kemur fram sem hagnaður fyrirtækisins hér á landi og sá hagnaður er skattlagður hér á landi skv. lögum og sérstökum samningi. Virðisaukinn er því skiptur á milli eigenda fyrirtækisins (illu útlendingana) og almennings á Íslandi hverra fulltrúar eru stjórnvöld.

    Það er nú einu sinni þannig að útlendingar eru einaldlega tregir til að lána til Íslands í nokkur verkefni önnur en virkjanir. Þetta er bara hinn nöturlegi sannleikur og hefur alltaf verið. Þetta er vegna þess að virkjun er veðhæf eign, með tekjur í erlendum gjaldeyri og auðvelt að reikna tekjuflæði og núvirða mv. forsendur erlendis. Þetta segir okkur líka soldið um íslensku krónuna en það er annað mál….

    Og því ætti ung þjóð sem þarf jafn mikið á aðstreymi erlends fjármagns að halda til uppbyggingar að fagna því að eiga kost á að byggja virkjun með lántöku og veðsetningu. Margar þjóðir væru til í að gefa hægri hendina á sér fyrir sama tækifæri…

    Þú ert síðan að rugla saman rekstrarárangri virkjunarinnar annarsvegar og afborganir af lánum til hennar hinsvegar. Það er hlutverk fjárstýringar LV að sjá til þess að afborganir af lánunum séu í takti við það sem hentar LV á hverjum tíma og að nægilegu fé frá rekstri sé haldið eftir til að t.d. endurfjárfesta í nýjum virkjunum osfrv. Þetta er gert með því að vera aktífur á fjármagnsmörkuðum og vera stöðugt að leita hagstæðra leiða til endurfjármögnunar og dreifingar á greiðslubirði. Enda sjáum við í hendi okkar…afhverju að greiða upp virkjun sem endist í 100 ár á 20 árum? Meikar ekki sens nema vextir séu óeðlilega háir.

    Útflutningsverðmæti Íslands felst í sölu álsins…ekki aðfangana sem eru notuð til framleiðslunnar. Mig minnir að u.þ.b. 40% aðfangana séu innlend en 60% erlend en ég gæti hafa snúið því við. Þetta er ekki verra en í mörgum öðrum geirum og mjög gott ef hugsað er útí það að það eru útlendingar sem fjármagna allt klabbið og taka áhættuna.

    Virkjunin malar því gull alveg frá fyrsta degi og út alla ævi sína….

    Sorrý hvað þetta er langt en þessi kennslustund í rekstrarhagsfræði og fjárstýringu er í mínu boði…vonandi kemst ég í gegnum kæfuvörnina..virðist flókið…hvað er 2+3 aftur?

  • Takk fyrir rekstrarhagfræðipistilinn Maggi!

    Ég vinn í álveri og er orðinn frekar leiður á þessu kjaftaæði um að „þetta skili nú ekki miklu“. Mitt álver kaupir vörur (þ.m.t. rafmagn) og þjónustu fyrir um 40 milljarða á ári. Þar starfa um 800 manns.

    Það er einnig leiðigjarnt að heyra fólk endalaust tala um þennan iðnað eins og þetta sé einhver skíteinföld hráefnaframleiðsla. Áliðnaður er nefnilega mikill þekkingariðnaður. Stærstu verkfræðistofur landins gera lítið annað en að þjónusta áliðnaðinn.

  • Frikki Gunn.

    Heyr, heyr, Magnús Birgisson.

    Góður kennslustund hjá þér fyrir fólk sem skilur ekki hugtakið rekstur og atvinnulíf.

    Svo er staðreyndin líka sú að Íslands „competivie edge“ er orka á hagstæðu verði vegna þess að Ísland býr yfir því sem heitir „national advantage“ hvað orkuvinnslu varðar.

    Þar að auki er lega landsins, afskekkt frá helstu mörkuðum, sem gerir hér að Ísland er einungis aðlaðandi fyrir stóra orkukaupendur, að það borgi sig að fjárfesta hér.

    Svo virðast sumir halda það að hægt sé að byggja hér upp atvinnulíf án þess að taka lán.
    Það er náttúrulega fásinna, því enginn á svo mikið haldbært fé inni á bankabók að hægt sé að snara hér út nukkrum tugum mia.kr. úr eigin vasa í fjárfestingar.

    Einnig verðum við að hafa það að í huga að það voru ekki vondir útlendingar eða fyrirtæki á þeirra eigu hér á landi sem settu okkur í hausinn, heldur Íslenskir „fjármálasnillingar“ og þeirra fyrirtæki.

    Ekki fóru ALCOA, ALCAN, Century aluminium eða Járnblendiverksmiðjan á hausinn hér í hruninu, en öll þessi fyrirtæki eru eigu útlendinga og starfa hér enn.
    Hvað þá önnur fyrirtæki í meirihluta eigu útlendinga eins og Actavis, Alfesca, Marel, Össur, DeCode, sem eru í fullu fjöri.

  • Sævar Helgason

    Takk fyri þetta Magnús B.
    Það var búið til mikið flækjuspaghetti af fólki úr bestu háskólum heimsins-fyrir hrun. Fjársýslan var yfirfull af fólki með doktorpróf í hagfæði,eðlisfræði,verkfræði og öllum þessum fræðum. Samt fórum við á hausinn og urðum að athlægi um allan hinn fjármálavædda vestræna heim- fyrir fávisku og trúgirni á eiginleika fjármagnsins. Álver og tengd stóriðja er ágæt með öðru . Þekki það vel eftir 40 ára viðveru í greininni. Einhæfni í orkusölu er okkur mjög varasöm. Við verðum að dreifa eggjunum á fleiri körfur. Og fara að læra að fá góða arðsemi af okkar auðlindum. Einn stór fjárfestir sagði nýlega í blaðagrein,Heiðar Már Guðjónsson,hagfr. að t.d Kárahnjúkaverefnið skilað okkur engum arði.

  • Magnús Birgisson

    Sæll Sævar í síðasta sinn 😉

    Ég get tekið undir allt þetta sem þú segir síðast nema ég myndi flokka HMG sem hluta af vandamálinu…ekki lausninni.

  • Frikki Gunn.

    Sammála Magnúsi Birgissyni, tel að HMG og hans líkar séu einmitt hluti af vandamálinu.
    HMG er fjárfestir sem vill græða peninga. Ég held að hann sé að öðru leyti enginn sérstakur rekstrarmaður.

  • Sigurður Sunnanvindur

    Eru menn í alvöru að bera saman nýbyggðar hráefnaverksmiður á Íslandi og þróaðan Þýskan iðnað á borð við MB?

    Það hefur ekki verið byggt álver í Þýskalandi síðan 1983!

    Það álver var síðan rifið því orkugeirinn í Þýskalandi er ekki mannaður undirmálsfólki sem selur mikið fyrir lítið.

    Þetta álver var síðan sett upp á Grundartanga þar sem orka fékkst á spottprís en Blönduvirkjun hafði þá snúist í tæpan áratug án þess að þörf væri fyrir orkuna.

    Álver eru einfaldlega ekki byggð lengur í þróuðum samfélögum.

  • S. Guðmunds

    Sigurður Sunnanvindur:

    Telur þá sem sagt að leggja eigi áliðnað niður?

    Og af hverju segir þú að áliðnaður sé ekki byggður í þróuðum löndum?

    Hvað með Bandaríkin, Kanada, Noreg, Ástralíu?

    Þessi „þróuðu“ ríki sem þú hefur í huga eru í V-Evrópu, en þar er orkuverð hátt vegna orkuskorts og vegna þess að raforku þar er framleidd með kolum og olíu.

  • Sigurður Sunnanvindur

    S Guðm,-
    Hvernig í ósköpunum lestu það út úr mínum skrifum að ég vilji „leggja áliðnaðinn niður“?

    Það er nær engin raforka framleidd með olíu í evrópu, kol, gas og kjarnorka eru aðal orkugjafarnir.

    Norðmenn og öll Evrópa eru hættir að byggja álver. Vet ekki með USA en Kanada og Ástralía geta sumstaðar boðið staðbundna raforku sem dýrt er að koma á vel borgandi markað.

    Íslensk raforkufyrirtæki væru á grænni grein ef þau gætu selt raforku á Evrópsku markaðsverði.

    Hef þú hugleitt hver staða Reykvíkinga væri ef þeir hefðu ekki lagt Sogsvirkjanir í stóriðjupúkkið og hefðu einungis virkjað á Nesjavöllum og lítillega á Hellisheiði til eigin þarfa? (og mannað stjórnir orkufyrirtækjanna með slembiúrtaki úr þjóðskrá í stað þeirra vesalinga sem ráðið hafa för)

    -Líklega ættu borgarbúar þessar virkjanir afskrifaðar að mestu og arðurinn færi í rekstur borgarinnar.

  • Einar Steingrímsson

    Ég hélt það hefði verið lengi ljóst að ekki er hægt að útvega nema lítinn hluta af því rafmagni sem álver í Helguvík þyrfti. Jafnvel þótt bjartsýnustu spár sjálfra orkufyrirtækjanna gengju eftir.

  • S. Guðmunds

    Sigurður Sunnanvindur;

    Fyrst áliðnaður má ekki vera á vesturlödnum, hvar á hann þá að vera?

    Er eitthvað betra að hann sé í 3ja heimsríkjum þar sem lögum um umhverfisvernd og aðbúnað verkafólks er eins og á 18. öld í Evrópu?

    Því má áliðnaður ekki vera hér og dafna og blómstra?

    Og svo brjálast menn ef það á að virkja til að nota til atvinnuuppbyggingar hér á landi, en svo er allt í lagi að byggja hér risavirkjanir hér á landi til að selja raforkuna til Evrópu.

    Að selja raforku til Evrópu um sæstreng skapar engin varanleg störf hér á landi.
    Þar að auki er þessi markaður mjög ótraustur og ekki víst að Evrópubúar vilji borga hátt heildsöluverð fyrir orku lengst norðan úr ballarhafi þegar hægt er að búa til þessu orku heima í héraði með kolum, gasi (frá Rússlandi) eða kjarnorku.
    Flutningskostnaður á raforku frá Íslandi er mjög hár sem gerir verðið á henni alls ekki samkeppnisfært.

    Þú segir;
    Hef þú hugleitt hver staða Reykvíkinga væri ef þeir hefðu ekki lagt Sogsvirkjanir í stóriðjupúkkið og hefðu einungis virkjað á Nesjavöllum og lítillega á Hellisheiði til eigin þarfa? (og mannað stjórnir orkufyrirtækjanna með slembiúrtaki úr þjóðskrá í stað þeirra vesalinga sem ráðið hafa för)

    Bendi þér á hérna ertu að bera saman epli og appelsínur í öllum skilningi.

    Sogsvirkjanir eru ca. 70 ára gamlar og löngu búnar að borga sig upp.

    Það tekur um 15-20 ár að borga Kárahnjúkavirkjun upp, eftir það á LV hana skuldlaust og allar tekjur af henni að frádregnum smá rekstrarkostnaður er hreinn gróði fyrir LV.

  • S. Guðmunds

    En fyrst að stóriðja er svona ógeðsleg og neikvæð fyrir þjóðarhag, eins og magir halda fram, þá finnst mér ekki nema sanngjarnt að Húsvíkingar (og reyndar fleiri landshlutar) eigi að fá sína Hörpu.

    Hægt væri að láta almenning borga þessu Húsvísku Hörpu líkt og nöfnu hennar í Reykjavík, svona 30-40 mia.kr. plús rekstrarkostnað.

    Þetta myndi auka ferðamannastrauminn til þessar staða úti á landi og skapa langþráðar tekjur, þannig að það er bara ekki Höfuðborgarsvæðið sem nýtur slíkra gæða.

    T.d. væri hægt að hafa hvalaskoðunarsafn í hinni Húsvísku Hörpu, tónlistarsali, skautahöll, vatnaland, flytja Reðursafnið þangað, eldfjalla og hversafna, koma fyrir hugmynd Ómars Ragnarssonar um safni “Myndun lands í eldsumbrotum“, fyrir náttúrlega spilavíti, veitingastaði, Norðurljósasafn, o.m.fl.

    Svo mætti byggja stóran alþjóðaflugvöll við Húsavík til að taka á móti öllum þeim fjölda erlendra ferðamann sem myndu sækja staðinn heim.

    Ps. Svo ætti að byggja svona Hörpur í hverjum landsfjórðungi.

  • Uni Gíslason

    Húsavíkurálverið er andvana fætt. Það er dautt. Hefur verið dautt alla tíð, en er það amk. núna.

    Þá er mjög mikilvægt að hætta að velta sér upp úr því, enn síður að hætta að þykjast eins og það geti orðið ennþá.

    Það er dautt.

    Muerte.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur