Í tólf ár (1986-1998) átti ég frábær viðskipti við þrjár ofangreindar matvöruverslanir – Aldi, Lidl og Penny Markt – og jafnvel má fullyrða að á fyrstu árum mínum í Þýskalandi hafi þær nær haldið í mér lífinu sökum lágs vöruverðs og að mörgu leyti hárra gæða á vöru sinni. Aldi er með 9.062 matvöruverslanir í heiminum, Lidl með um 7.200 verslanir og Penny Markt „aðeins“ með um 2.400 verslanir í Evrópu, en til samanburðar má benda á að viðskiptaveldið Hagar er með 25 Bónus verslanir og 10 verslanir Hagkaupa. Keppinautur Haga, Kaupás, er með 12 verslanir Krónunnar auk 5 verslana Nóatúns. Aldi er t.a.m. með 244 verslanir í Danmörku og blómsta viðskiptin þar sem aldrei fyrr.
Í langan tíma hefur mig langað til að skrifa Aldi Nord bænabréf um að koma til Íslands með verslunarkeðju sína. Ég taldi þó litla von á því að þeir myndu hlaupa til vegna einokunaraðstöðu Bónus á markaðnum. Nú eru hins vegar tækifæri fyrir einhverja af þessum keðjum að slá til, því eflaust er hægt að kaupa upp öll hlutabréf í Högum, ef verðið er rétt, og það tekur ekki nema kvöldstund að setja upp ný skilti á 25 verslunum! Hugsanlega munu keðjurnar þó setja fyrir sig að við erum ekki innan ESB og tollafgreiðsla því flóknari en gengur og gerist innan sambandsins. Einnig ætti óstöðugleiki íslensku krónunnar að vefjast fyrir þeim, þar sem þeir þekkja ekki til að matarverð geti hækkað um 30% á milli ára líkt og jólasteikin okkar hefur gert. Þó mætti benda Aldi á að Bauhaus ætlar ekki að setja fjarlægðina og krónuna fyrir sig og sömu sögu má segja um Bygma, sem nýverið keypti Húsasmiðjuna. Vonandi verður reynsla þessara verslunarkeðja á þá lund að landsmönnum og eigendurnir hafi hag af. Að auki má benda á að Íslendingar séu vanir að okra á sér og því væri hægt að hafa álagninguna lægri en hjá íslenskum samkeppnisaðilum, en hærri en á meginlandinu.
Margir kunna að segja að ég sé bjartsýnismaður, en á móti bendi ég á ævintýralegan hagnað af matvöruverslun á Íslandi undanfarna áratugi, þótt hagnaðurinn hafi oft verið vel falinn með alls kyns bókhaldsbrellum. Það er satt best að segja ótrúlegt að verslunin Fjarðarkaup í Hafnarfirði, sem hvað stærð varðar þætti varla meira en sæmileg hverfisverslun í Hamborg eða Berlín, skuli hafa hagnast um 285 milljónir á árinu 2011 eða um milljón á dag! Hér er um fyrirtæki að ræða, þar sem fjölskyldan öll sinnir rekstrinum og ef maður þekkir Íslendinga rétt þiggja fjölskyldumeðlimirnir heldur ekki laun í verri kantinum, þannig að raunverulegur hagnaður af versluninni er mun meiri. Fjarðarkaup eru reyndar skuldlaus – ólíkt öðrum íslenskum fyrirtækjum – og þannig laust við íslenska okurvexti. Hvað sem öðru hlýtur slíkur methagnaður að vera spennandi fyrir einhverja matvörukeðjuna á meginlandinu ef henni væri bent á það!
Lidl hefur rekið verslanir um árabil í Króatíu sem vitanlega er ekki ennþá komið í ESB. Ættir að klára bréfið.
Lidl hóf verðstríð við Aldi fyrir nokkrum árum. Það endaði með því að allir töpuðu helling nema viðskiptavinirnir.
Eigendur Aldi, þ.e. Nord og Sued, eru meðal ríkustu manna í Þýskalandi.
Minnir svolítið á Bónusveldið.
Þjóðverjar eru samt ekki mikið að tala um fákeppni og þess háttar. Við kaupum bara þar sem við viljum versla því nóg er af verslunum.
Það er eins á Íslandi. Það þarf enginn að versla í Bónus.
Það þarf enginn að versla við Bónus en þeir eru bara ódýrastir.
Ég sakna mjög alvöru umræðu um þetta. Af hverju er ekki hægt að bregðast við þessari fákeppni? Hvað er vandamálið? Hvernig er hægt að auðvelda nýliðun í greininni?
Kannski er það sem vegur þyngst, að Bónus og Hagkaup kaupa mest af innlendum framleiðendum, og geta þannig pressað verðin niður. Ef Bónus/Hagkaup meta það sem svo að verð á ákveðni vöru sé of hátt, þá getur engin neytt þá til að kaupa vöruna. Innlendur framleiðandi má auðvitað ekki við því að missa viðskipti við Bónus. Þannig tel ég að Bónus hafi betur gegn innlendum framleiðendum. Frá neytenda sjónarmiði er ýmislegt gott við þetta. T.d. er kók, sprite ofl. mjög ódýrt í Bónus, miklu ódýrara en Kók hér í Danmörku.
En þessi sterka staða Bónus/Hagkaup gerir það að verkum að mjög erfitt er að keppa við þá.
Það er undarlegt að hugsa til þess að samkeppnisyfirvöld hafa ekki brugðist við þessu. T.d. þegar 10/11 rann inn í Bónusveldið. Geta þeir ekkert gert? Eru lögin ekki merkilegri en þetta?
Annað sem má bæta við, er að það er hægt að hjálpa litlum verslunum með að banna þeim verslunum sem eru yfir ákveðna veltu, að hafa opið t.d. um sunnudaga. Þetta er auðvitað ekki merkileg aðferð, en eitthvað er þetta þó engu að síður.
Ef krónan og tollafgreiðsla þvælist fyrir mönnum sem stunda stórviðskipti þá er nú ekki mikið í þá spunnið. Ætli það sé ekki frekar ótrúverðug stjórnsýsla til 100 ára sem sé líklegri skýring á fjærveru þeirra fá Íslenska markaðinum og einnig furðulegt viðskiptaumhverfi svona almennt séð.