Þriðjudagur 10.11.2015 - 20:43 - Rita ummæli

Tjáningarfrelsið er heilagt

Tjáningafrelsið á sér langa sögu eða allt aftur til Grikkja 500-600 árum fyrir Kristburð, en Rómverjar voru einnig á síðustu dögum veldis síns uppteknir við að reyna að tryggja borgurum sínum rit- og málfrelsi, að því marki sem slíkt var hægt á þeim tíma. Í Bresku réttarskránni frá árinu 1689 var málfrelsi á Breska þinginu tryggt, sem var síðan tryggt enn betur í sessi með réttarbótum í kjölfar frönsku byltingarinnar árið 1793. Í Íslensku stjórnarskránni eru einnig ákvæði um mál- og ritfrelsi, sem litu sitt endanlega dagsljós árið 1995, en þar er tiltekið að allir íbúar Íslands séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.

Í Stjórnarskránni er sérstaklega tiltekið að ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi megi aldrei í lög leiða og að tjáningarfrelsi megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Auðvitað eru tjáningarfrelsinu síðan skorður settar í Stjórnarskránni þegar kemur að landráði, brotum gegn stjórnskipun ríkisins, æðstu stjórnvöldum, valdstjórninni eða brotum á almannafriði og allsherjarreglu.

Þá eru nokkur ákvæði í hegningarlögum nr. 19/1940 er snúa að háði, rógi, smánun, ógnun eða ef einhver á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar. Guðlast var bannað á Íslandi með lögum en þau lög voru afnumin árið 2015. Þá má ekki vega að æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum eða hafa í frammi ærumeiðandi aðdróttanir. Að auki eru ákvæði í starfsmannalögum nr.70/1996, sem banna opinberum starfsmönnum að framkoma þeirra eða athafnir í starfi eða utan þess séu ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar embætti þeirra.

Á liðnum árum hefur tjáningarmáti fólks breyst í kjölfar byltingar í formi nýrra samfélagsmiðla og veraldarvefsins. Flestar þessar breytingar hafa verið jákvæðar, þótt einnig megi finna neikvæða fylgifiska á borð við einelti og meiðandi ummæli eða hreinan rógburð. Á þessum nýju miðlum kveður við annan og óformlegri tón en á gömlu ljósvakamiðlunum eða á prenti, sem voru mjög formfastir miðlar og stífir. Allt okkar regluverk dregur dám af þessari gömlu tíð og löngu er tímabært að endurskoða ýmis ákvæði Stjórnarskrárinnar og hegningarlaga m.t.t. til breytts tíðaranda. Varla er einu sinni til gamaldags dómari eða saksóknari, sem myndu taka þessi úreltu ákvæði bókstaflega, því þá væri hægt að ákæra fólk fyrir bráðfyndna ljóskubrandara, Hafnarfjarðabrandara eða spaug um miðaldra og feita karla eins og sjálfan mig.

Við megum vera himinlifandi yfir nýju fjölmiðlunum og þá ekki einungis vegna skemmtanagildis þeirra, heldur vegna nytsemi þeirra á mörgum sviðum. Þannig er aðhald borgaranna gagnvart stjórnvöldum meira en það nokkru sinni var, sem hlýtur að vera jákvætt í lýðræðislegum skilningi. Valdníðsla og kúgun fyrirtækja eða ríkisvaldsins í krafti þess að almenningur hafi ekki aðgang að fjölmiðlum vegna skorts á fjármagni eða samböndum er í dag óhugsandi. Sömuleiðis er óttastjórnun og takmarkalausu einelti forstöðumanna eða yfirmanna í garð millistjórnenda og undirmanna takmörk sett bæði hjá fyrirtækjum og hinu opinbera. Gegnsæi hefur öðlast nýja og aukna merkingu.

Auðvitað er þetta óþægilegt fyrir þá sem einokuðu valdið í skjóli fjármagns, valda og klíkustjórnmála fyrir aðeins 10 árum síðan, en þetta fólk verður að sætta sig við breytingarnar, því þær eru komnar til að vera. Með facebook, Twitter og bloggmiðlum fékk lýðræðið nefnilega alla rétta í lottóinu. Við sem höldum á pennunum eða hömrum á lyklaborðið verðum hins vegar einnig að vita að ábyrgð okkar er mikil, þótt einn og einn ljóskubrandari, tenórabrandari eða fitubollubrandari verði að mega fjúka. Það allra mikilvægasta er að verja mál- og ritfrelsið og berjast gegn ritskoðun af öllu tagi, því ef sú barátta tapast er ekki langt í að við glötum einnig lýðræðinu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur