Fimmtudagur 12.11.2015 - 08:52 - 1 ummæli

Hræðsluþjóðfélagið: Ritskoðun, sjálfsritskoðun, Þöggun og skoðanakúgun

Þótt ofangreind hugtök séu í sjálfu sér ólík, þýða þau öll í raun það sama eða að sá sem beitir þessum aðferðum er að þagga niður í einhverjum, það er verið að vega að tjáningarfrelsi fólks eða koma í veg fyrir að sannleikurinn komi fram í dagsljósið. Eftir hrun vaknaði íslensk þjóð af vondum draumi. Í ljós kom að valdamiklir aðilar höfðu í raun beitt öllum þessum aðferðum – og fleiri – til að halda hér völdum. Þótt minnst hafi sennilega farið fyrir beinni ritskoðun yfirvalda, þá voru nokkur dæmi um að einkafyrirtæki á fjölmiðlamarkaði beittu slíkum aðferðum. Þá hafa nokkrir fjölmiðlamenn stigið fram á liðnum árum og sagst hafa orðið fórnarlömb sjálfritskoðunar í kjölfar kúgunar yfirmanna á vinnustað til hlýðni – auðvitað meðvitað og ómeðvitað – og af ótta um atvinnuöryggi sitt. Minna var um að opinberir starfsmenn hafi verið beittir beinni ritskoðun eða þvingaðir til sjálfritskoðunar, eða að tilraunir til skoðanakúgunar hafi átt sér stað, þótt slík dæmi þekkist vafalaust og þá ekki síst á sínum tíma vegna umdeildra virkjunarframkvæmda rétt fyrir Hrunið mikla. Líklegt er að forstjórar og forstöðumenn beiti þessum þvingunum í meira mæli en okkur til grunar til að knýja fram sjálfsritskoðun hjá starfsmönnum og vinni þannig beint og óbeint að þöggun mála innan sinna fyrirtækja og stofnana.

Allar tilraunir til að hafa bein eða óbein áhrif á tjáningarfrelsi fólks ber að taka grafalvarlega. Ekki aðeins er um óttastjórnun að ræða í slíkum tilvikum, heldur er með þessu verið að reyna að hafa áhrif á hina lýðræðislegu umræðu í þjóðfélaginu og brjóta einhver helgustu mannréttindi okkar Vesturlandabúa, sem við börðumst fyrir með blóði okkar og fólk í öðrum heimsálfum berst fyrir enn þann dag í dag. Styðja þarf fjárhagslega við bakið á þeim sem standa í slíkri baráttu við ofurefli valds og peninga. Hvað baráttuna gegn hræðslu- og ógnarþjóðfélaginu varðar, þarf að tæma alla kærumöguleika og ef það bregst verður að draga málin fyrir dómstóla. Engu má til spara við að verja grundvallarmannrétti hins frjálsa og lýðræðislega vestræna heims, því ekki viljum við lifa í samfélagi hræðsu og ótta. Í löndum þar sem lýðræðið hefur farið halloka, hafa stjórnvöld einmitt unnið skipulega að því koma á ritskoðun, sjálfsritskoðun, þöggun og skoðanakúgun. Það sem einkennir slíka þróun er að oft á tíðum er hún hægfara og lúmsk. Til að „ná tökum“ á þjóðfélaginu byrja viðskiptalífið, stjórnmála- og embættismenn smátt, en enda með stórum og afdrifaríkum aðgerðum. Vopn almennings í dag eru fleiri og áhrifaríkari en áður, því samfélagsmiðlar og internetið gera mönnum kleyft að verja sig fram í rauðan dauðann. Auk þess sem fjölmiðlar og almenningur almennt er meira vakandi fyrir slíkum tilraunum er gerðist fyrir hrun. Við erum ekki lengur hrædd við þá sem vilja beita okkur andlegu ofbeldi, heldur sláum til baka.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Aðalmundur

    Við þekkjum vel ritskoðun, þöggun og skoðanakúgun vinstri ríkistjórnarinnar 2009 til 2013, blessuð sé minning hennar, þar sem hjúpa átti eitt mesta hagsmunamál Íslands frá landnámi leyndarhjúp og þöggun með leyniherbergjum og leynimöppum í Alþingishúsi Íslendinga. Þessi þöggun var studd dyggilega af ríkisapparati sem vinstri menn hafa tekið ófrjálsri hendi og ausið var út lygum og þvælu til að rugla umræðuna og frjáls skoðanaskipti um Icesave.

    Vinstrimenn á Íslandi hafa haldið úti linnulausum áróðri og skoðanakúgun með lygum og þvælu um ESB, markmið þess og aðferðir með dyggum stuðningi útvarpi vinstrimanna, RÚV, jafnvel þótt sjálft ESB hafi sé ítrekað séð ástæðu til að reyna að leiðrétta þvæluna.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og einum? Svar:

Höfundur