Föstudagur 13.11.2015 - 19:12 - 2 ummæli

Umhverfismál – tímar sáttar og samlyndis

Ég verð satt best að segja, að vinnubrögð á Alþingi varðandi ný umhverfislög leggjast vel í mig. Ég held að þetta sé í fyrsta sinn frá því því að góð sátt náðist um neyðarlögin í hruninu, að ég er virkilega stoltur af íslensku þingræði. Þjóðin er bara búin að fá nóg af ósætti, rifrildi og þessu endalausa karpi um keisarans skegg. Krakkar, reynið endilega að vinna meira á þessum nótum í framtíðinni!

Sérstakar þakkir eiga skilið Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfisnefndar, og Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra. Höskuldur og Sigrún sýna ekki aðeins af sér diplómatíska hæfileika, heldur sýna og sanna að innan Framsóknarflokksins eru enn til öfl, sem einkennast af sáttfýsi, umburðarlyndi, samvinnuhugsjóninni, praktíkalisma og síðast en ekki síst skilningi á pólitískum raunveruleika samtímans.

Virðingin fyrir Alþingi myndi aukast ef svipuð „samræðustjórnmál“ væru iðkuð meira en gert hefur verið undanfarin 25 ár. Meistari slíkra stjórnmála var einmitt Steingrímur Hermannsson og þá ímynd hafa flestir, sem komnir eru yfir miðjan aldur, af Framsóknarflokknum, þótt ég persónulega sé meira hægri sinnaður og aðhyllist ekki slíka „meðalmennsku“.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Sátt og samlyndi á Alþingi er draumsýn þó vel hafi tekist til með nýju umhverfislögin. Pólitíski refurinn Össur Skarphéðinsson fór mikinn í fjölmiðlum í dag og sýnt að þar er enginn friðarhöfðingi á ferð þótt mildast hafi með árunum að eigin sögn. Meðan hans líkar sitja á þingi verður varla friðvænlegt. Tæp tvö ár eru í alþingiskosningar. Flokkurinn hans mælist í 8 prósentum um þessar mundir og hann þykist áhyggjulaus en er þegar byrjaður að leggja drög að refskákinni. Af fyrstu leikjunum að dæma er gambítur í uppsiglingu; mönnum í hans eigin flokki verður fórnað til þess að ná sóknarstöðu og síðan verður fylgið reytt af Pírötum. Fagurgalinn er vopnið á þeirri leið. Birgitta er þingskáldið og sjálfur er Össur heiðurspírati og gælurnar verða stöðugt ísmeygilegri er fram líður og sakleysingjarnir í Pírataflokknum, uppnumdir af hólinu munu gleyma stund og stað og líða áfram í draumkenndu algleymisástandi þar til náðarhöggið kemur hastarlega og óvænt, skák og mát.Minnir á söguna um refinn og sætabrauðsdrenginn. Færðu þig aðeins framar svo þú blotnir ekki, sagði refurinn og í sakleysi sínu og fullur trúnaðartrausts fikraði sætabrauðsdrengurinn sig fram á höfuð refsins sem hnykkti til höfðinu, opnaði ginið og gleypti sætabrauðsdrenginn.

  • Orri Ólafur Magnússon

    „Friede, Freude, Eierkuchen“ í stað „ósættis, rifrildis og þessa endalausa karps um keisarans skegg“ á alþingi Íslendinga. Já, mikið væri það gaman, ef allur þingheimur væri alltaf sammála um allt og enginn ágreiningur um neitt – svona einsog í Sovét ( eða Austur-blokkinni eða 3. Reich ) forðum …

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur