Mánudagur 16.11.2015 - 03:56 - 6 ummæli

Brennuvargarnir – Biedermann und die Brandstifter

Um miðja nótt vaknaði ég við að mig var að dreyma Brennuvargana eftir Svisslendinginn Max Frisch. Ég varð fyrir miklum áhrifum þegar ég sá verkið í fyrsta skipti í Vestur-Þýskalandi, þar sem nasisminn hafði náð undirtökunum og lagt heila heimsálfu í rúst og stuttu eftir að ég kom frá Austur-Þýskalandi kommúnismans. Löngu síðar, þegar ég las leikritið í BA námi mínu í þýsku, analyseraði verkið með gáfuðu fólki, varð mér kannski fyrst ljóst hversu mikill snillingur Max Frisch var. Hér er um að ræða eitt af frægustu leikritum 20. aldarinnar, sem er í senn bráðfyndið, en um leið óvægin og snörp þjóðfélagsádeila.

Sagan er í stuttu máli sú að broddborgarinn Biedermann skýtur í góðmennsku sinni skjólshúsi yfir tvo menn, Schmitz og Eisenring, þrátt fyrir að félagarnir viðurkenni fúslega að þeir hafi ítrekað  verið ranglega sakaðir um að vera stórhættulegir brennuvargar. Þeir kumpánar höfða til betri manns Biedermanns og kristilegrar innrætingar. Í stað þess að stöðva brennuvargana er Biedermann aðallega upptekinn við að telja sér trú um að allt sé í lagi, ekkert sé í raun að óttast. Brennuvargarnir byrja hins vegar í mestu makinum að hlaða upp olíutunnum og sprengibúnaði á háaloftinu í húsi Biedermann hjónanna.

Biedermann býður nú gestum sínum til veislu, veitir vel og allir skemmta sér, þótt Biedermann sé í raun mjög vel ljóst að brennuvargar sitji við borð hans. Það heyrist í sírenum og Biedermann bregður, en um leið og hann heyrir að slökkviliðsbíllinn fer annað, er hann afskaplega kátur að það brenni þó ekki hjá honum sjálfum. Biedermann er örvæntingarfullur, en heldur áfram að telja sér trú um að brennuvargarnir tveir séu vinir hans. Að lokum afhendir hann mönnunum eldspýtur til að innsigla vináttu þeirra og mikið traust hans á þeim. Gestirnir hverfa af senunni að svo stöddu, enda hafa þeir annað í huga en að skemmta sér.

Um nóttina springur húsið í loft upp, miklar gassprengingar verða í húsinu og Biedermann og kona hans deyja. Biedermann hjónin telja sig vera í himnaríki, enda hafi þau ætíð verið guðrækin og farið eftir boðorðunum 10. Stuttu síðar átta þau sig á að þau eru í helvíti, enda höfðu þau í raun með einfeldni sinni lagt alla borgina í rúst. Schmitz og Eisenring koma fram á sviðið og í ljós kemur að þar er Satan sjálfur og hans hægri hönd. Max Frisch tekst með þessu verki að sýna fram á hugleysi mannsins og tilhneigingu okkar til að trúa alltaf fyrst og fremst því sem hentar okkur en afneita því sem kemur okkur illa.

Öfgarnar leynast til hægri, vinstri og í öfgastefnum – hvaða nafni sem þau nú annars nefnast – og ég tel satt best að segja að þetta væri gott verk til að fjalla um í næstu Kilju Egils Helgasonar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Baldur Ás

    Við lásum þetta verk af bók í menntaskóla fyrir 40 árum. Nú þarf að setja það upp í leikhúsum um alla álfuna. Nú er nauðsyn.

  • Var reyndar síðast flutt í Þjóðleikhúsinu fyrir 6 árum
    http://tru.is/pistlar/2009/10/otti-og-eldur/

  • Einar Einars

    Ágæti Guðbjörn, þetta er mjög fín grein hjá þér sem lýsir samtimanum vel, sérstaklega í ljósi hinna skelfilegu atburða í París sl. föstudag.

    Því miður eru Biedermannarnir mjög margir hér á landi.
    Samnefnari fyrir þá er „góða“ fólkið, þetta sama fólk og óttast meinta hlýnun Jarðar af manna völdum meira heldur en það að vera plaffað niður af öfgasinnuðum íslamistum á einhverju kaffihúsinu í einni af stórborgum Evrópu eða sprengt í loft upp í flugi á leið sinni út í hinn stóra heim af sömu öfgamönnum.

    Biddermannarnir hér á landi gera lítið úr voðaverkunum í Frakklandi og telja að við hér á Vesturlöndum eigum þau bara skilið, af því að við hæfum verið svo vond við fólk í Mið-Austurlöndum.

  • Baldur Ás

    Þegar leikritið var fært upp í Þjóðleikhúsinu árið 2009 töluðu gagnrýnendur um nazismann, kommúnismann, kjarnorkusprengjuna og kærleiksboðskap Jesú Krists. Biedermann hefði ekki orðað það betur sjálfur.

    Ég geri mér vonir um að þeim væri sagt að halda kjafti núna.

  • Haukur Kristinsson

    Það er vegna flóttamanna sem menn sýna núna þessu verki Max Frisch áhuga og túlka það. Varasamt mjög. „Die Botschaft“ frá Frisch, ef einhver, hafði ekkert með blásnauða flóttamenn að gera.

  • Baldur Ás

    Nei Haukur, það er ekki vegna blásnauðra flóttamanna að menn sýna verkinu áhuga núna og túlka það. Heldur vegna hryðjuverkamanna. Eðlilegt mjög.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Höfundur