Mánudagur 19.03.2018 - 10:55 - 1 ummæli

Léleg framleiðni er stjórnendavandi

Sigurður Hannesson er afskaplega vel gefinn maður og vert að leggja við hlustir þegar hann segir eitthvað, jafnvel eftir að hann gerðist framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Upptalningin á staðreyndum hjá honum er vafalaust rétt, þótt hann hafi gleymt að segja frá þeirri staðreynd að til viðbótar við vaxtaokrið og skattpíninguna, þá er verð hér á mat og allri vöru og þjónustu hærra en gerist í nokkru landi, nema kannski í Sviss og Noregi, þar sem einnig eru greidd mjög há laun, þótt þar sé framleiðnin vissulega hærri.
Um áratuga skeið las maður í fjölmiðlum um áhyggjur íslenskra stjórnenda og fræðimanna af framleiðni hér á landi og var þá nær alltaf miðað við framleiðni hjá aðalatvinnuvegunum, útgerð og fiskvinnslu, og samanburðurinn voru Danmörk og Noregur. Það verður að viðurkennast að með kvótakerfinu snarbatnaði framleiðni fyrirtækja í sjávarútvegi og gróði þeirra hefur allt frá þeim verið ævintýralegur og í framhaldi af því keyptu stóru kvótagreifarnir upp allar litlu útgerðirnar. Þetta á að hafa skilað samfélagi öllu miklu ávinningi, sem ég efast svo sem ekkert um, nema að honum er oft misskipt milli landsvæða.
Í Mc Kinsey skýrslunni, sem mikið var vitnað til fyrir nokkrum árum, var mikið talað um lélega framleiðni. Þar var þó staðfest að framleiðni í sjávarútvegi væri góð. Framleiðni hjá hinu opinbera var aðeins lakari en í nágrannalöndunum, sem að sögn Mc Kinsey væri hægt að útskýra með fámenninu og mikilli stærð landsins. Framleiðni í ferðaþjónustu var ekki nógu góð á þessum tíma af því að ferðamenn komu aðallega á sumrin, en það hlýtur að hafa batnað mikið á síðustu árum. Framleiðni í verslun og þjónustu var skv. skýrslunni hræðileg og það sama mátti segja um bankastarfsemi.
Allir sem eitthvað hafa ferðast vita að fjöldi bensínstöðva hér á landi er ótrúlega mikill miðað við erlendis og sömu sögu má segja um matvöruverslanir. Varla er í nokkurri borg af þessari stærðargráðu hægt að finna tvær risastórar verslanamiðstöðvar auk fjöldanum öllum af smærri miðstöðvum. Einhvern tíma las ég að við værum 3svar sinnum fleiri lögfræðinga en í nágrannalöndunum. Þegar ég kom heim fyrir tuttugu árum frá námi og vinnu erlendis í 12 ár varð ég undrandi að sjá allan þennan fjölda hárskera fyrir karla og konur sem sitja og horfa á tóma stóla nær allan daginn.
Að mínu mati þyrfti að fá utanaðkomandi fyrirtæki á borð við Mc Kinsey til að endurtaka rannsókn sína núna, því að mörgu leyti eru aðstæður aðrar. Atvinnustigið er hátt og ef það þarf að hagfræða, t.d. með því að fækka í bönkum eða annars staðar, er þetta rétti tíminn. Það er hins vegar ekki launþegum einum að kenna – eiginlega bara alls ekki þeim að kenna – ef framleiðni er léleg heldur miklu frekar lélegri stjórnun forstjóra, sem við vitum þó að eru mjög vel launaðir. Kannski er hér aðallega um stjórnendavandamál í íslenskum fyrirtækjum og bönkum að ræða og afleiðingar eru okurvextir, okurverðlag og léleg framleiðni í fyrirtækjum. Þurfum við alfarið nýja stjórnendur?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Það hefur lengi verið lenska hér á landi að borga allnokkra tíma í óunna yfirvinnu. Grunnlaununum er haldið lágum og starfsmönnum bætt staðan með nokkrum tímum sem almennt þarf ekki að vinna.
    Niðurstaðan er því sú að 40 stunda vinnuvika verður t.d. 50 stundir og þá lítur það þannig út þegar vinnustundir eru taldar og vinnan metin, að viðkomandi þurfi 50 stundir til að skila 40 stunda vinnu og það er hundléleg frammistaða.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur