Sameiningar ríkisstofnana geta svo sannarlega verið réttlætanlegar, ef rétt er farið að hlutunum og ef slík sameining styrkir stofnanir en veikir þær ekki. Viðskiptaráð og sumir þingmenn tala um að Ísland sé lítið land og því nauðsynlegt að spara eins og hægt er, t.d. með því að spara í yfirstjórn embætta og þá sérstaklega þeirra sem eru mjög smáar. Vissulega er þetta að sumu leyti rétt ályktun og ákveðin samrunaáhrif geta leynst þarna, t.d. hvað varðar æðstu yfirstjórn, mannauðssviðin, sem sjá t.a.m. um launaútreikninga og starfsmannamál, endurmenntun o.fl. og jafnvel hvað tæknimálin varðar. Dæmi sem tekið hefur verið og er mér nærtækt, er að hagkvæmt og árangursríkt sé að sameina Ríkisskattstjóra og Tollstjóra, sem við fyrstu skoðun gæti virst fyrsta flokks hugmynd og er það kannski bara. Í rökstuðningi fyrir slíkri sameiningu er því haldið fram að reynslan af þessu frá Danmörku sé frábær. Sannleikurinn er hins vegar að sameining tolls og skatts í Danmörku mistókst að mati flestra fagmanna hrapalega og varð til þess að hætt var við sameiningar á hinum Norðurlöndunum, þar sem til stóð einmitt til að gera slíkt hið sama. Sameining tolls og skatts tókst hins vegar mjög vel í Hollandi og sæmilega í Bretlandi, en sparnaðurinn varð hins vegar lítill, því í raun starfa embættin næstum sjálfstætt, en allra æðsta yfirstjórn er hins vegar sú sama. Þegar nánar var skoðað reyndust málaflokkarnir ekki jafn skyldir og stjórnmálamennirnir héldu.
Við sameiningar á stofnunum hérlendis sem erlendis hefur hins vegar oft tekist mjög vel til, þegar undirbúningur til sameininga hefur verið nægur og tíminn nýttur til skynsamlegrar uppbyggilegrar í samvinnu við starfsmenn. Annarsstaðar hefur verið kastað til þessa höndunum og niðurstaðan þá jafnan sú að starfsmenn flosnuðu upp, hættu og dýrmæt kunnátta tapaðist með þeim afleiðingum að stofnanir voru nánast óstarfhæfar til lengri tíma. Hér á Íslandi eru stofnanir oft smáar, einmitt af því að við erum örríki, en ekki af því að málaflokkarnir séu í sjálfu sér „litlir“. Stjórnendur eru oft virtir og virkir á sínu fagsviði og vinna í raun jafn mikið eða meira sem slíkir en sem stjórnendur. Það hefur hins vegar þann kost að þeir hafa mjög góða innsýn í málaflokka stofnunarinnar, en stundum þann galla – líkt og bent hefur verið á – að misjafnlega tekst of til varðandi starfstmannastjórnunn. Smæð stofnana og stjórnsýslunnar hefur kosti, þótt lítið hafi farið fyrir þeirri umræðu hér á landi, t.d. að starfsmenn eru fjölhæfari og sveigjanlegri fyrir vikið, stofnanabragurinn minni auk þess sem starfsmenn finna yfirleitt til mikillar ábyrgðar í störfum sínum og eru hollir sínum embættum og þeim flóknu fagstörfum sem þeir vinna. Litlir og sérhæfðir málaflokkar, eða jafnvel stórir og þungir málaflokkar, hvíla á nokkrum starfsmönnum í minnstu stofnunum og nokkrum tugum starfsmanna í þeim stærri. Öll röskun á starfsmannahaldi (þekkingu) getur því reynst dýrkeypt þegar upp er staðið og sparnaðurinn breyst í gífurlegt tap og orðið til tímabundins glundroða, sem leiðir til lélegri stjórnsýslu samfélagsins, jafnvel um árabil, þar til öll sárin eru gróin og nýir starfsmenn hafa tekið nýjum hlutverkum.
Við Íslendingar erum yfirleitt hálfgerðir göslarar í öllu sem við framkvæmum, elskum að „drífa“ í hlutunum á mettíma án þess að fara í djúpa greiningavinnu eða undirbúning. Þetta sýndi sig mjög vel í aðdraganda hrunsins og var eitt af þeim atriðum sem Rannsóknarskýrsla Alþingis benti okkur á. Árangurinn af slælegri vinnu er alltaf sá sami; allir tapa á endanum. Risastórar stofnanir, þar sem búið er að hrúga mjög mörgum flóknum málaflokkum undir æðstu stjórnendur geta orðið stjórnsýslunni ekki aðeins fjötur um fót heldur samfélaginu öllu dýrkeyptar. Í risavöxnum stofnunum – á íslenskan mælikvarða – er æðstu stjórnendum ómögulegt að hafa nægilega yfirsýn, því fjöldi flókinna málaflokka verður gríðarlegur. Gott dæmi um þetta er t.a.m. Samgöngustofa. Af þessu leiðir að fókusinn getur orðið mjög óskýr, áherslunar jafnvel tilviljanakenndar. Samhæfing getur orðið betri en það þarf þó alls ekki að vera tilfellið. Óöryggi og kunnáttuleysi æðstu stjórnenda verður síðan til þess þeir flýja í að einbeita sér aðeins að stærstu og einföldustu málaflokkunum eða einblína jafnvel bara á einn málaflokk. Stofnanirnar sjálfar staðna og verða að stærstu gerð risaeðla, sem hreyfast hægt og oft aðeins í þær áttir sem æðsta yfirstjórn „hefur vit á“ eða treystir sér til að taka ákvarðanir um. Almenningur og fyrirtæki eru fórnarlömbin, því það er einmitt verið að þjóna þessum báðum aðilum. Eitt það dýrmætasta, sem við Vesturlönd eigum – og aðrar heimsálfur oft á tíðum ekki – er vönduð og fagleg stjórnsýsla og lagaumgjörð, sem byggir á aldagamalli reynslu og hefð. Það tekur engan tíma að byggja verksmiðju, en að byggja upp öfluga og góða stjórnsýslu, til að þjóna atvinnulífinu og almenningi, tekur a.m.k. 100 ár. Virkt lýðræði, vönduð stjórnsýsla og réttlátt dómskerfi eru undirstaða friðar, velmegunar og siðmenningar. Flóttamennirnir sem þyrpast til Vesturlanda eru einmitt í leit að þessu. Förum því varlega í þessu máli en djarflega, því oft á tíðum er betur heima setið en af stað farið þegar breytingar eru gerð, sérstaklega ef hlutirnir eru ekki gerðir rétt frá upphafi.