Sunnudagur 27.12.2015 - 14:23 - 6 ummæli

Af þjóðernissinnum og heilögum stríðsmönnum

Ekki er ég hætishót hrifinn af hægri sinnuðum þjóðernissinnum á borð við flokk Le Pen, Pegida, Gullinni dögun, Sönnum Finnum, Svíþjóðardemókrötum – eða hvað þeir nú allir heita þessir nýfasistaflokkar. Reyndar eru þessi öfgaöfl sem betur fer langt frá því að ná völdum á Vesturlöndum.

En að halda því fram þessir þjóðernissinnuðu vitleysingar séu hættulegri venjulegu fólki en múslimskir öfgasinnar og hryðjuverkamenn, sem drepið hafa hundruð íbúa Evrópu og milljónir í hinum múslimska heimi, er auðvitað eitthvað sem er móðgun við minningu allra þessara fórnarlamba.

Það er vissulega mikil hætta af hægri öfgaflokkum í heiminum í dag, hvort sem það er í BNA, Rússlandi eða ESB. En að vanmeta af þeirri ástæðu einni saman hættuna af öfgasinnuðum múslimum er barnsleg einfeldni og stórhættuleg afstaða og skiptir í raun litlu hvort klerkar eða stjórnmálamenn vaða þar í villu.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 20.12.2015 - 10:37 - 3 ummæli

Látið veiku börnin koma til Íslands…

Björn Bjarnason hefur lög að mæla í þessu Albanamáli. Satt best að segja er synd að ekki virðist lengur vera einn einasti þingmaður í Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokki, sem þorir að standa í lappirnar í erfiðum málum. Nei, landinu er stjórnað af móðursjúku og vinstri sinnuðu fjölmiðlafólki og fylgismönnum þeirra. Það er ekki gott að hafa fólk við stjórn landsins sem lætur fámennan hóp freks fólks stjórna, heldur þarf til slíkra hluta staðfestu og kjark. Nágrannalöndin öll með tölu ráða ekki neitt við neitt í flóttamannamálum og á sama tíma viljum við galopna landamærin, meira að segja fyrir fólki sem ekki á rétt á hæli í nokkru einasta landi. Í raun hafa Svíþjóð og Danmörk þegar lýst því yfir að þeir geti ekki tekið við fleiri flóttamönnum.

Auðvitað er ákvörðun Alþingis fordæmisgefandi, því ákvörðun Alþingis að veita Fischer og stráknum Jóel ríkissborgararétt voru nokkurs konar fordæmi fyrir þessari ákvörðun um fjölskyldur Albananna, sem nú virðist reyndar vera orðin að einhverskonar stjórnsýslureglu, sem tekur við ef að réttbær ríkisstofnun úrskurðar á skjön við vilja vinstri-elítunnar. Þetta mál er allt saman orðið fullkominn skrípaleikur. Auðvitað spyrst það út í Albanínu og víðar að á norðurhjara veraldar sé til land, sem skaffi öllum 1. flokks heilbrigðisþjónustu og standi fyrir fjársöfnunum fyrir alla flóttamenn hvaðanæva úr heiminum. Auðvitað spyrst það einnig út um alla heimsbyggðina að hér á norðurhjara veraldar sé til land, þar sem þjóðþingið útdeilir vegabréfum fyrir jólin eins og jólasveinarnir gefa börnunum gotterí.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.12.2015 - 05:16 - Rita ummæli

Sameiningar ríkisstofnana – góðar eða slæmar?

Sameiningar ríkisstofnana geta svo sannarlega verið réttlætanlegar, ef rétt er farið að hlutunum og ef slík sameining styrkir stofnanir en veikir þær ekki. Viðskiptaráð og sumir þingmenn tala um að Ísland sé lítið land og því nauðsynlegt að spara eins og hægt er, t.d. með því að spara í yfirstjórn embætta og þá sérstaklega þeirra sem eru mjög smáar. Vissulega er þetta að sumu leyti rétt ályktun og ákveðin samrunaáhrif geta leynst þarna, t.d. hvað varðar æðstu yfirstjórn, mannauðssviðin, sem sjá t.a.m. um launaútreikninga og starfsmannamál, endurmenntun o.fl. og jafnvel hvað tæknimálin varðar. Dæmi sem tekið hefur verið og er mér nærtækt, er að hagkvæmt og árangursríkt sé að sameina Ríkisskattstjóra og Tollstjóra, sem við fyrstu skoðun gæti virst fyrsta flokks hugmynd og er það kannski bara. Í rökstuðningi fyrir slíkri sameiningu er því haldið fram að reynslan af þessu frá Danmörku sé frábær. Sannleikurinn er hins vegar að sameining tolls og skatts í Danmörku mistókst að mati flestra fagmanna hrapalega og varð til þess að hætt var við sameiningar á hinum Norðurlöndunum, þar sem til stóð einmitt til að gera slíkt hið sama. Sameining tolls og skatts tókst hins vegar mjög vel í Hollandi og sæmilega í Bretlandi, en sparnaðurinn varð hins vegar lítill, því í raun starfa embættin næstum sjálfstætt, en allra æðsta yfirstjórn er hins vegar sú sama. Þegar nánar var skoðað reyndust málaflokkarnir ekki jafn skyldir og stjórnmálamennirnir héldu.

Við sameiningar á stofnunum hérlendis sem erlendis hefur hins vegar oft tekist mjög vel til, þegar undirbúningur til sameininga hefur verið nægur og tíminn nýttur til skynsamlegrar uppbyggilegrar í samvinnu við starfsmenn. Annarsstaðar hefur verið kastað til þessa höndunum og niðurstaðan þá jafnan sú að starfsmenn flosnuðu upp, hættu og dýrmæt kunnátta tapaðist með þeim afleiðingum að stofnanir voru nánast óstarfhæfar til lengri tíma. Hér á Íslandi eru stofnanir oft smáar, einmitt af því að við erum örríki, en ekki af því að málaflokkarnir séu í sjálfu sér „litlir“. Stjórnendur eru oft virtir og virkir á sínu fagsviði og vinna í raun jafn mikið eða meira sem slíkir en sem stjórnendur. Það hefur hins vegar þann kost að þeir hafa mjög góða innsýn í málaflokka stofnunarinnar, en stundum þann galla – líkt og bent hefur verið á – að misjafnlega tekst of til varðandi starfstmannastjórnunn. Smæð stofnana og stjórnsýslunnar hefur kosti, þótt lítið hafi farið fyrir þeirri umræðu hér á landi, t.d. að starfsmenn eru fjölhæfari og sveigjanlegri fyrir vikið, stofnanabragurinn minni auk þess sem starfsmenn finna yfirleitt til mikillar ábyrgðar í störfum sínum og eru hollir sínum embættum og þeim flóknu fagstörfum sem þeir vinna. Litlir og sérhæfðir málaflokkar, eða jafnvel stórir og þungir málaflokkar, hvíla á nokkrum starfsmönnum í minnstu stofnunum og nokkrum tugum starfsmanna í þeim stærri. Öll röskun á starfsmannahaldi (þekkingu) getur því reynst dýrkeypt þegar upp er staðið og sparnaðurinn breyst í gífurlegt tap og orðið til tímabundins glundroða, sem leiðir til lélegri stjórnsýslu samfélagsins, jafnvel um árabil, þar til öll sárin eru gróin og nýir starfsmenn hafa tekið nýjum hlutverkum.

Við Íslendingar erum yfirleitt hálfgerðir göslarar í öllu sem við framkvæmum, elskum að „drífa“ í hlutunum á mettíma án þess að fara í djúpa greiningavinnu eða undirbúning. Þetta sýndi sig mjög vel í aðdraganda hrunsins og var eitt af þeim atriðum sem Rannsóknarskýrsla Alþingis benti okkur á. Árangurinn af slælegri vinnu er alltaf sá sami; allir tapa á endanum. Risastórar stofnanir, þar sem búið er að hrúga mjög mörgum flóknum málaflokkum undir æðstu stjórnendur geta orðið stjórnsýslunni ekki aðeins fjötur um fót heldur samfélaginu öllu dýrkeyptar. Í risavöxnum stofnunum – á íslenskan mælikvarða – er æðstu stjórnendum ómögulegt að hafa nægilega yfirsýn, því fjöldi flókinna málaflokka verður gríðarlegur. Gott dæmi um þetta er t.a.m. Samgöngustofa. Af þessu leiðir að fókusinn getur orðið mjög óskýr, áherslunar jafnvel tilviljanakenndar. Samhæfing getur orðið betri en það þarf þó alls ekki að vera tilfellið. Óöryggi og kunnáttuleysi æðstu stjórnenda verður síðan til þess þeir flýja í að einbeita sér aðeins að stærstu og einföldustu málaflokkunum eða einblína jafnvel bara á einn málaflokk. Stofnanirnar sjálfar staðna og verða að stærstu gerð risaeðla, sem hreyfast hægt og oft aðeins í þær áttir sem æðsta yfirstjórn „hefur vit á“ eða treystir sér til að taka ákvarðanir um. Almenningur og fyrirtæki eru fórnarlömbin, því það er einmitt verið að þjóna þessum báðum aðilum. Eitt það dýrmætasta, sem við Vesturlönd eigum – og aðrar heimsálfur oft á tíðum ekki – er vönduð og fagleg stjórnsýsla og lagaumgjörð, sem byggir á aldagamalli reynslu og hefð. Það tekur engan tíma að byggja verksmiðju, en að byggja upp öfluga og góða stjórnsýslu, til að þjóna atvinnulífinu og almenningi, tekur a.m.k. 100 ár. Virkt lýðræði, vönduð stjórnsýsla og réttlátt dómskerfi eru undirstaða friðar, velmegunar og siðmenningar. Flóttamennirnir sem þyrpast til Vesturlanda eru einmitt í leit að þessu. Förum því varlega í þessu máli en djarflega, því oft á tíðum er betur heima setið en af stað farið þegar breytingar eru gerð, sérstaklega ef hlutirnir eru ekki gerðir rétt frá upphafi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 13.12.2015 - 23:49 - 4 ummæli

Popúlismi er til bæði til hægri og vinstri

Það er til góða fólks vinstri popúlismi og svo er til vonda fólks hægri popúlismi.

Að bjóða hingað til lands öllum foreldrum í heiminum með langveik börn er góða fólks vinstri popúlismi, sem hlýtur að leiða til katastrófu fyrir alla.

Að synja stríðshrjáðum flóttamönnum frá Sýrlandi – hvort sem þeir eru múslimar eða kristnir – er síðan vonda fólks hægri popúlismi sem er ómannúðlegur og grimmur.

Að hleypa hingað til lands fólki frá útlöndum, þar sem ríkir stríð, harðstjórn eða þar sem fólk býr við pólitískar ofsóknir, er síðan eitthvað sem að mínu mati táknar mannúð og almenna skynsemi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.12.2015 - 08:08 - 6 ummæli

Innflytjendalandið Ísland

Við erum innflytjendaland, hvort sem við sættum okkur við það eður ei. Við þurfum hreinlega á fólki að halda og nú þegar er aftur farið að koma mikið af vinnuafli til landsins frá öðrum löndum EES (ESB), þar sem er atvinnuleysi. Þetta er ágætis blóðblöndun og auðgar menningu okkar. Þessi þróun er bara rétt á byrjunarstigi og mikilvægt að innflytjendamál séu tekin föstum tökum frá upphafi og eins fá mistök gerð og mögulegt er.

Við þurfum hins vegar að breyta útlendingalöggjöfinni okkar í innflytjendalöggjöf, því ef ESB innflutningur á fólki dugar ekki þarf að vera gagnsætt og réttlátt ferli um hvernig er sótt um landvistar- og atvinnuleyfi í landinu. Við getum ekki látið tilviljun eina ráða því hver fær leyfi til að setjast hér að, því misjafn sauður leynist í mörgu fé, auk þess sem þetta er okkar land og við eigum að hafa eitthvað um það að segja hverjir koma hingað. Það erum jú við sem berum ábyrgð á því að fólkið fái vinnu og plummi sig almennt vel.

Að auki eigum við að taka við fólki sem líklegra er til í að aðlagast okkar menningu og sem þörf er fyrir m.t.t. menntunarstigs, aldurssamsetningar og heilsufars. Með þessu móti getur orðið góð sátt um innflytjendastefnuna, en án sáttar er fjandinn laus í þessum efnum, líkt og sagan hefur kennt okkur. Aðalatriðið er að Íslendingar fullorðnist aðeins í umræðunni um innflytjendamál og að hún færist upp á vitrænara plan en hún hefur verið.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.12.2015 - 04:18 - 2 ummæli

Er nóg komið af álverum?

Það er ljóst að þessi hegðun Rio Tinto Alcan – sem flestir óttuðust reyndar þegar þetta fyrirtæki keypti ÍSAL – til þess að sniðganga íslenska kjarasamninga og traðka þannig á réttindum íslenskra launamanna gerir þennan atvinnuveg minna og minna aðlaðandi í augum venjulegra Íslendinga.

Þá virðast þessi sömu fyrirtæki nýta sér hverja glufu í skattalögunum – sem þarf reynda að stoppa í líkt og ESB hefur þegar gert – til að komast hjá greiðslu lögboðinna skatta hér á landi með því að millifæra hagnað sinni í formi vexta til móðurfélaga sinna erlendis enn minnka aðdráttaraflið.

Þriðja staðreyndin er síðan sú að þessi sömu fyrirtæki eru ekki að greiða það verð fyrir orkuna sem eðlilegt er og hugsanlega væri hægt að fá fyrir hana erlendis, þótt ekki sé kannski hægt að segja að um niðurgreitt verð sé að ræða, því Landsvirkjun er jú smám saman að greiða niður skuldir sínar.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 29.11.2015 - 22:13 - 8 ummæli

Aldursrasismi og femínismi

Ekki kaus ég Ólaf Ragnar Grímsson í síðustu kosningum, heldur Þóru Arnórsdóttur og stend enn við það að um rétta ákvörðun hjá mér hafi verið að ræða. Ekki er ég heldur að hvetja Ólaf Ragnar Grímsson til að bjóða sig fram aftur, en því verður hins vegar ekki neitað, að Ólafur hefur staðið sig með stakri prýði undanfarin 15 ár, þótt hann hafi misstigið sig illilega í umgangi við útrásarliðið. Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum, því mörg okkar – þar á meðal ég sjálfur – heilluðust af útrásar bandítunum. Flest okkar vorum bullandi meðvirk og sýktumst illa af útrásarvírusnum á árunum 2000-2008.

Það er sorglegt þegar femínistar beita fyrir sig aldursrasisma á þann hátt sem Þóra Tómasdóttir gerði við forseta landsins, þegar hún sagði að við þyrftum ekki á karli á áttræðisaldri til að leiða okkur. Gott er að hafa í huga að Konrad Adenauer tók við völdum 1949 og var þá 73 ára og lét af völdum 14 árum síðar 87 ára, eftir að hafa byggt Þýskaland upp frá grunni, þegar landið var lagt í rúst í Heimsstyrjöldinni síðari. Það er býsna algengt hjá ungum konum að tala gamla karlmenn niður og slíkt er nákvæmlega jafn ógeðfellt og þegar gamlir karlfauskar tala niður til ungra og snjallra kvenna.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.11.2015 - 07:48 - 6 ummæli

RÚV var fremur ósmekklegt

Í Frakklandi hafa þeir látnu varla verið jarðaðir og enn liggja hundruð manna og kvenna á sjúkrahúsum alvarlega slösuð. Á sama tíma þótti RÚV smekklegt að sýna í Kastljósi í gær, hvernig Vesturlandabúar hafa sýnt íbúa Miðausturlanda í bíómyndum og framhaldsmyndaflokkum í sjónvarpi sem villimenn og hryðjuverkamenn. Auðvitað gera sér allir Vesturlandabúar grein fyrir því nær allir múslima sem á meðal okkar búa eru bara venjulegt og heiðarlegt fólk, sem sinnir ekki aðeins vinnu sinni að stakri prýði, heldur eiga sína góðu fjölskyldu og borga sína skatta og skyldur líkt og aðrir landsmenn. Engu að síður fór þessi umfjöllun RÚV fyrir brjóstið á mér svona rétt eftir hryðjuverkin og virkaði ónærgætnisleg, hjákátleg og „óprofessional“, þegar stærsta ógnin við okkar heimshluta byggist einmitt á því stríði, sem við eigum við hryðjuverkamenn sem byggja á öfgafullri múslimatrú.

Aldrei hef ég fyrr séð RÚV eða aðra fjölmiðla hafa áhyggjur af staðalímyndum annarra þjóða. Þannig eru Þjóðverjar og Japanir yfirleitt enn kynntir sem blóðþyrstir Nasistar og þjóðernissinnar vegna síðari heimsstyrjaldarinnar. Rússar eru flestir grimmir kommúnistar og fjöldamorðingjar vegna Kalda stríðsins og í seinni tíð ókúltiveraðir og morðóðir ólígargar. Bandaríkjamenn eru kynntir í fjölmiðlum sem blanda af Bush yngri og Donald Trump og þar með hálfgerðir vanvitar er vita ekki aura sinna tal, en eru í eðli sínu illgjarnir og byssuóðir og standa í stríðum um allan heim. Í Kóreu-stríðinu voru gerðar stríðsmyndir þar sem þeir voru kynntir sem kommúnískir ofstækismenn og morðóðir hundar og þá meðferð fær Norður-Kórea réttilega enn þann dag í dag. Sama máli gegndi síðan um Víetnama og síðar um Norður-Írland og Baader-Meinhóf samtökin, Svarta sjakalann o.s.frv. Þjóðirnar á Balkanskaga voru einnig heilmikið á hvíta tjaldinu á meðan á stríðinu þar stóð.

En hvaða tilgangi þessi gagnrýni þjónar nokkrum dögum eftir eitt hræðilegasta hryðjuverk þessa áratuga er mér hulin ráðgáta að skýra, sérstaklega af því að þeir sem stóðu fyrir þessum verkum og hafa gert tilraun til tuga slíka hryðjuverka eru einmitt múslimir (eða segjast vera það). Það er því barnalegt að segja að þetta stríð tengist ekki trúarbrögðum, því þarna er um öfgatrúarmenn, hvort sem hegðun þeirra stangast að einhverju leyti við strangar reglur þeirra trúarbragða eður ei. Eins voru það Kaþólikkar sem börðust í Írlandi, Búddistar, Kofúsíustar eða Taoistar í Kóreu og Víetnam – þótt trúarbrögðin hafi þarna skipt litlu sem engu máli. Múslimir, Kaþólikkar og Rétttrúnaðarkirkjufólk bjuggu á Balkan-skaganum og stríðið þar snérist að miklu leyti um samneyti þessara þriggja trúarbragða og menningar sem af þeim stafar. Þetta er hinn bitri sannleiki. Eitt sinni kom ein dætra minna, sem er hálf-þýsk, heim úr skólanum og spurði mig hvort Nasistar og Þjóðverjar hefðu virkilega verið svona miklir villimenn. Hvað getur maður sagt annað en sannleikann, þegar slíkar spurningar koma frá börnunum. Þá þýðir lítið að fara í einhvern feluleik með staðreyndir málsins, hvort sem það varðar grimmdarverk Nasista eða hroðalega illvirki Íslendinga sjálfra á víkingatímanum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.11.2015 - 08:33 - 14 ummæli

Íslenskir naívistar stjórna umræðunni

Er forsætisráðherra Frakklands að fara með fleipur, þegar hann segir að hryðjuverkamenn leynist meðal flóttamannanna, að ytri landamæri Schengen séu hriplek og að Evrópa verði að bregðast við ógninni?

Er forsætisráðherra Svíþjóðar að ljúga þegar hann heldur því fram að Svíar hafi verið barnalegir einfeldingar, hvað framkomu þeirra gagnvart íslömskum hryðjuverkamönnum varðar?

Má ræða þessi mál af hreinskilni og yfirvegun án þess að verða stimplaður rasisti, vitleysingur eða kjáni eða verða fyrir árásum svipuðum þeim sem formaður Landssambands lögreglumanna þurfti að þola?

Eru til stjórnmálamenn – aðrir en forsetinn – sem þora að tala á svipuðum nótum og forsætisráðherrar ríkjanna í kringum okkur gera, eða eigum við að eftirláta öfgaflokkum sviðið, þannig að þeim vaxi ásmegin?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.11.2015 - 08:51 - 8 ummæli

Helmut Schmidt og Baader-Meinhof hryðjuverkasamtökin

Er ekki deginum ljósara að skoða þarf óskir fagmanna í löggæslu varðandi endurnýjun vopna og annars búnaðar og í raun stóreinkennilegt að þetta mál hafi ekki fyrir löngu verið tekið upp á Alþingi. Hefur enginn alþingismaður lengur dug í sér til að standa í lappirnar og ræða öryggis- og varnarmál sinna eigin borgara? Hvað er orðið af gamla Alþýðuflokknum, Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, sem eitt sinn var öllum umhugað bæði um innra og ytra öryggi landsins? Auðvitað þurfum við að sýna stillingu og ekki gera neitt vanhugsað, en að sitja og bíða aðgerðalaus eftir að katastrófan skelli á okkur gjörsamlega varnarlaus er að mínu mati ekki í boði.

Þegar óöryggi einkennir okkar heimshluta og varnarliðið er farið hljótum við Íslendingar að gera kröfu um a.m.k. lögreglan sé búin þeim vopnum að hún geti a.m.k. barist við nokkra hryðjuverkamenn. Rétt er að minna Árna Pál Árnason formann Samfylkingarinnar og aðra krata á að alvöru þýskur jafnaðarmaður, hinn nýlátni Helmut Schmidt, tók Baader-Meinhof samtökin engum vettlingatökum frá 1974-82 og einnig mega Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hugsa til hægri mannsins Helmut Kohl, sem kláraði málið með stæl og gekk af Baader Meinhof hryðjuverkasamtökunum dauðum af miskunnalausri hörku.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur