Undanfarin 47 ár …

Ég er fæddur í Reykjavík 1962 og hef verið búsettur í Kópavogi, Álftanesi, Reykjavík, Austur-Berlín, Vestur-Berlín, Zürich, Trier, Bayreuth, Kiel, Hamborg, Keflavík og nú síðast í Njarðvík. Fyrri hluti lífs míns var helgaður sönggyðjunni og söng ég um tólf ára skeið erlendis (1986-1998). Sá síðari er hins vegar helgaður innheimtu aðflutningsgjalda og tolleftirliti, þótt stöku sinnum sé rekin upp roka auk þess sem nokkrir söngnemendur njóta ríkulegrar reynslu minnar af söngsviðinu. Námsferillinn er einnig fjölbreyttur: grunnskólar í Kópavogi, Álftanesi og Garðabæ, en síðan lá leiðin í Verzlunarskóla Íslands. Þá tók við nám við Söngskólann, Nýja tónlistarskólann, söngnám í Austur-Berlín og síðast Óperustúdíó Óperunnar í Zürich. Við söngnámið var síðan bætt fjarnámi í ferðamálafræðum við Akademie für Fernstudium und Weiterbildung og Tollskóla ríkisins. Að því loknu var Háskóli Íslands og BA próf í þýsku á dagskrá. En þar við var ekki látið sitja, heldur meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu lokið, en lokaritgerðin bar titilinn „Áhrif inngöngu Íslands í Evrópusambandið á tollyfirvöld“.