Þriðjudagur 24.08.2010 - 11:39 - Lokað fyrir ummæli

Hinn árlegi haustpirringur skólaforeldris…

Á hverju hausti síðustu 6 ár þarf ég að anda djúpt og telja upp að tíu yfir hinu merkilega fyrirbæri sem eru innkaupalistar grunnskólabarna.  Þetta virðist einhvern veginn ekki venjast vel, heldur bara valda síauknum pirringi…

Hvers vegna í ósköpunum þarf hver einasta fjölskylda (lesist(oftast): mamma) að fara í leiðangur eftir plastvösum sem opnast að ofan, reikningsbókum með viðeigandi stórum rúðum, stílabókum í réttum litum og mismörgum þríhyrndum blýjöntum?

Svo ekki sé nú talað um lokuðu yddarana með tvenns konar gati?

Eða tímaritamöppu úr tré?

Ég hóf skólagöngu mína í Svíþjóð, þar sem öll börn fengu sínar skólanauðsynjar í skólanum, gerðu „lexíur“ í skólanum og geymdu síðan bækurnar og ritföngin í borðinu sínu.

Þegar ég kom heim í átta ára bekk og hóf að bera bækur, blýjanta og sísmitandi yddarana milli húsa, var tvísetningunni í skólanum kennt um, því ekki gátu jú tvö ólík börn geymt dótið sitt í einu og sama borðinu eða hvað?

Nú eru skólarnir einsettir, en áfram er strokleðra-, trélita- og skærasöfnun partur af haustverkunum, svona eins og hver önnur berjatínsla.

Mætti ekki bara hafa dall af blýjöntum í skólastofunni sem allir skila í eftir notkun?  Og yddara á kennaraborðinu?  Og væri ekki rakið að ljúka bara við „heimaskriftina“ í heilsdagsskólanum?

Og til hvers er verið að innleiða skólaföt til að fyrirbyggja samanburð á högum nemenda þegar þau spranga síðan um með Leiftur McQueen og Little Pet Shop á bakinu?

 Anda inn… Anda út…

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Sigurbjörg

    Þetta fyrirkomulag er í notkun í nokkrum skólum t.d. í Vesturbæjarskóla í Reykjavík þar sem skólinn kaupir öll ritföng og bækur og foreldar greiða fasta upphæð að hausti. Þetta er afar þægilegt og örugglega ódýrara fyrir alla.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur