Miðvikudagur 25.08.2010 - 12:25 - Lokað fyrir ummæli

Ábyrgð á risi lands

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra bætti í morgun grein í ritröð sína um ástand þjóðarskútunnar og stefnu hennar í heimsins ólgusjó, undir fyrirsögninni „Landið tekur að rísa!“ (Fréttablaðið 25. ágúst 2010)

Það er ekki laust við að forystufólk Bandalags háskólamanna (BHM) taki til sín skilaboðin, sem birt eru í úrklippu á forsíðu blaðsins, þar sem fjallað er um mögulegt áframhald einhvers konar stöðugleikasáttmála: …“Ábyrgð þeirra sem skærust úr leik við núverandi aðstæður yrði mikil“.

Nú er BHM engan veginn svo sjálfhverft að halda að þessum orðum sé ekki beint til fleiri aðila og stærri, enda hefur bandalagið ekki sagt sig frá núverandi „sátt“, nokkuð sem bæði Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið hafa gert.

Hins vegar hefur BHM ítrekað ályktað og lýst því yfir að það geti ekki orðið aðili að framhaldi á stöðugleikasáttmála undir þeim kjaramálatengdu formerkjum sem þar gilda nú.

Besta vísbending um framtíðina er fortíðin 

Núverandi stöðugleikasáttmáli var markvisst og vísvitandi brotinn af hálfu ríkisstjórnarinnar sem stóð að gerð hans og undirritun.  Nú skal ég ekki tjá mig um skötusel eða aðrar sjávarskepnur fagrar eða ljótar, en hitt er alveg klárt, að ákvæði sáttmálans um réttindi launafólks til starfsendurhæfingar hafa verið þverbrotin.  Það brot hefur verið opinberlega viðurkennt og rökstutt af hálfu ráðherra ríkisstjórnarinnar, meðal annars á fundi sem Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra átti með fulltrúum aðildarfélaga BHM.

Ýmis önnur fyrirheit sáttmálans, svo sem að forðast eftir mætti gjaldskrárhækkanir hjá hinu opinbera, viðhalda atvinnustigi og annað minna áþreifanlegt hefur valdið vonbrigðum meðal þeirra hagsmunasamtaka sem undirrituðu hann.

Um hvað var þá sátt og hver  var stöðugleikinn?  Hvernig má treysta því að undirrituð sátt verði ekki rofin á ný?  Spyr sú sem ekki veit.

Ábyrgð gagnvart þjóðfélaginu

BHM hefur ítrekað lýst áhyggjum sínum af kjörum háskólamenntaðra á vinnumarkaði, sinnuleysi um þeirra málefni og jöfnu og þéttu verðfalli menntunar þegar laun eru annars vegar.  BHM veit sem er að íslenskur vinnumarkaður þarf á háskólamenntuðu fólki að halda. 

Ungt vel menntað fólk er hreyfanlegt vinnuafl og kemur oft út á vinnumarkað skuldsett eftir námsárin og getur því ekki unað hvaða kjörum sem er.  Íslenskir háskólamenn eiga margir kost á störfum erlendis, sem veitir meðal annars tækifæri til tekjuöflunar í sterkari mynt en krónunni, nokkuð sem getur t.d. flýtt fyrir endurgreiðslu íslenskra námslána. 

Nýútskrifað háskólamenntað fólk í dag horfist sumt í augu við lægri laun eftir nám en fyrir og sú trú að menntun auki atvinnuöryggi á jafnframt undir högg að sækja.

Bandalagi háskólamanna ber að standa vörð um kjör félagsmanna sinna.  Í því felst meðal annars sú skylda að stuðla að því að menntun sé einhvers metin í atvinnulífinu og að það valdi ekki óbætanlegum búsifjum að afla sér þekkingar og færni.

Rétt er að taka fram BHM er ekki fulltrúi þess meinta vandræðafólks með háskólamenntun sem enn á rétt á hærri launum en Jóhanna Sigurðardóttir, svona til að fyrirbyggja þann misskilning að hér sé rætt um að viðhalda „ofurlaunum“. 

Launastefna stöðugleikasáttmála er með þeim hætti að BHM getur ekki staðið að framlengingu hennar.  Þess sjást nefnilega engin merki að betri tíð með blóm í haga taki við að loknum launaskerðingatíma stöðugleikasáttmálans.

Engin áætlun um endurheimt verðfellingar á menntun fæst rædd við viðsemjendur og því er ekki hægt að búast við að hlutur háskólamenntaðra launamanna verði réttur með virkum hætti fyrr þá helst ef skipt verður um gjaldmiðil.

Hvað fær landið til að rísa?

BHM metur það svo að betra sé að berjast fyrir hlut háskólamenntunar, sem nú um stundir er afar rýr, en að halda áfram með virkum hætti á braut þeirra skerðinga sem stöðugleikasáttmálinn hefur réttlætt.

Frekari aðild að stöðugleika sem keyptur er með auknum álögum á millitekjuhópa, launaskerðingum sama fólks og verðfellingu menntunar teljum við til lengri tíma íþyngja landinu frekar en hitt.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , ,

«
»

Ummæli (1)

  • Á meðan ekki er verið að vinna fyrir þjóðina þá er ekki hægt að ætlast til að þjóðin standi með einhverjum stöðugleikasáttmála. Það verður að taka verðtrygginguna í gegn, losa okkur við hana, afturvirkt til áramóta 2007-2008, eða færa lánin að upphaflegri greiðsluáætlun, reikna vextina upp á nýtt en fella niður aukninguna á höfuðstólnum. Verðtrygging er ekkert nema vaxta-vextir, sem er bannað að innheimta. Skítalykt er skítalykt þó að þú reynir að halda því fram að hún sé ilmvatn!

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur