Sunnudagur 24.10.2010 - 22:04 - Lokað fyrir ummæli

Besta jafnrétti í heimi (miðað við höfðatölu)

Nokkur eru þau lífsins gæði sem okkur Íslendingum hættir til að taka um of sem gefnum hlut.  

Þegar sagt er:  „Hér er hreint vatn og hreint loft“ sakna ég þess iðulega að heyra í beinu framhaldi: „og það er á okkar ábyrgð að gæta þess vel svo það fari ekki forgörðum“. 

Undanfarið hefur mér virst við líta sömu augum á jafnrétti – „hér er jafnrétti“ – og meira að segja mjög mikið af því samkvæmt mælingum OECD.

Um leið og við fögnum góðum árangri þurfum við að huga að því hvernig við komumst þangað sem við erum í dag, hvort jafnrétti á Íslandi er ógnað (til dæmis nú í kjölfar efnahagshrunsins) og hvað þarf til að viðhalda þessum góða, mælanlega árangri. 

Finnst okkur nóg að gert í þeim málum?

Jafnrétti á vinnumarkaði – jafnrétti til launa

Íslenskur vinnumarkaður er kynskiptur mjög og innan hans eru missýnilegir og misáþreifanlegir skilveggir.  Ég hef um allnokkra hríð lagt mig fram um að kynnast þeim innviðum og verð að segja eftir þá vegferð að hér mætti margt betur fara.

Þegar rætt er um kynbundinn launamun, hvort hann er til staðar og hvort hann sé réttlætanlegur, þarf að greina á milli tvenns konar breytileika; annars vegar útskýranlegs launamunar og hins vegar óútskýrðs.

Sá fyrrnefndi er sá sem við skiljum flest best – þ.e. að ef t.d. konur kjósa sér frekar hlutastörf og forðast stjórnendastöður ætti ekki að koma á óvart að laun þeirra væru yfirleitt lægri en karla sem vinna oftar fulla vinnu og eru oftar yfirmenn.  Þarna er semsagt um praktísk mál að ræða sem leysa má (ef vill) með praktískum hætti.   

Síðarnefndi launamunurinn – sá óútskýrði, er þess eðlis að hann verður ekki „útskýrður burt“ með öðrum rökum en að kyn starfsmanns hafi haft áhrif á launamyndun.

Það getur hins vegar verið tiltölulega óútskýranlegt hvers vegna annað kynið er oftar með „útskýranlega“ lægri laun en hitt.  Hvers vegna kýs annað kynið t.d. oftar hlutastörf og sækir síður í stjórnunarstöður?  Hvað liggur þar að baki?

Je ne sais quoi

Því meira sem launamunur er greindur og því meira sem er „útskýrt burt“ – þeim mun loðnari vill sú mynd verða sem eftir stendur.  Rætt er um ólíkt starfsval sem orsök og jafnvel menningartengdar ástæður.  Á endanum getur skýringin verið „af því bara“. 

Ýmsum gæti þótt í fínu lagi að sumir fái síðri laun en aðrir „af því bara“ og það sé tímasóun að reyna að jafna slíkt.    Þegar kjör „sumra“ og „annarra“  leggjast hins vegar eftir eins ómálefnalegum línum og því hvort þeir séu karlkyns eða kvenkyns, finnst mér full ástæða til að staldra við.

Gildismat

Hluti skilveggjanna á íslenskum vinnumarkaði liggur eftir eðli starfa – eða öllu heldur „málaflokkum“ eins og það er oft kallað.  Það virðist til dæmis vera meira virði að passa peninga en að passa fólk, dýrmætara að byggja sjúkrahús en að starfa í þeim, verðmætara að bora eftir heitu vatni en að baða aðra upp úr því.

Kvenlægir (mjúkir) málaflokkar – og að því er virðist minna virði – eru þannig til dæmis mennta- og menningarmál, uppeldi og umönnun og heilbrigðis- og félagsvísindi.   

Karllægir (harðir) málaflokkar – sem frekar eru metnir til fjár – snúa gjarnan að margs konar verklegum framkvæmdum og umsýslu með fjármuni.

Athyglisvert er að sjá hvernig kynin raða sér í nefndir, jafnt í landstjórn sem sveitastjórnum gagnvart þessum málaflokkum.  Konur virðast ekki geta staðist mjúku málefnin, á meðan karlarnir sinna þeim hörðu.

Kjarasamningar hins vinnandi manns

Gildismat starfa og vinnuframlags er að mínu mati karllægt og litað af umhverfi verkafólks (sérstaklega hvað hið opinbera varðar).  Launakerfin byggja gjarnan á því hversu marga tíma fólk er reiðubúið að vinna, hvort um er að ræða mannaforráð og hvort viðkomandi hefur umsjón með verðmætum.  Frekar en að meta til verðleika menntun og reynslu er traustið lagt á stimpilklukkuna.  (Sjá fyrri vangaveltur um þetta hér).

Að hluta til getur þannig ástæðna fyrir launamun kynjanna verið að leita í þeim kerfum sem notuð eru við að ákvarða laun.  Eru starfskraftar dagsins í dag enn að hrærast í umgjörð og umhverfi gærdagsins?

Kynjastundaskráin

Ég velti oft fyrir mér ekki bara hvar, heldur líka hvenær mál eru rædd og ákvarðanir teknar.  Ég held nefnilega að væri það vilji karla að halda konum utan umræðu eða þátttöku á þjóðfélagsmótandi vettvangi, væri stundaskráin sterkt tæki.

Það er til dæmis alveg glimrandi að boða fundi milli kl. 15 og 17 ef menn vilja ræða málin í næði, já eða milli kl. 07 og 08.

 Tangó er tveggja manna dans

Síst vil ég gefa þeim viðbröðgum við þessum hugleiðingum mínum byr undir vængi að erindið sé að skamma karla fyrir að vera vondir við konur.  Málið er alls ekki svo einfalt – enda þótt umræðunni hætti óneitanlega til að villast ofan í þær skurðgrafir að annað kynið sé gerandi og hitt þolandi.

Menningarlegt gildismat á sér rætur í samfélaginu öllu – bæði kynin eiga þar hlut að máli.   Í áranna rás hafa menn og konur á Íslandi komið sér saman um að samfélagið starfi með ákveðnum hætti, í samræmi við tiltekin gildi.

Á sama hátt er það okkar sameiginlega verkefni, karla og kvenna, að varða veginn til framtíðar.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur