Laugardagur 16.02.2013 - 11:44 - Lokað fyrir ummæli

Henni verður strítt…

… sagði einusinni maður þegar verið var að ræða mögulega ættleiðingu stúlku frá Kína inn í fjölskyldu sem samanstóð af tveimur karlmönnum.

Nei, mér líst ekki á þetta, henni verður bara strítt.

Það getur verið óþægilegt að brjóta norm, brydda upp á nýnæmi, ögra okkur með tilefnum til hugmyndafræðilegrar naflaskoðunar.

Svipað viðhorf birtist oft í umræðu um hvort skima eigi fóstur með tilliti til fötlunar. Þetta verður ekkert líf, hvernig á þessi einstaklingur að ná því að lifa hamingjusamlega? Nei, mér líst ekki á þetta. Forðumst fjölbreytileikann.

Hvers konar viðhorf er það að taka því sem gefnum hlut að barni sem á óhefðbundna foreldra og/eða hefur frábrugðið litarhaft verði strítt? Er ekki verkefnið frekar að efla þroska samfélagsins, auka víðsýnina og fagna fjölbreytileikanum? Hætta að stríða? Barn er bara barn, fjölskylda er bara fjölskylda, það þarf þorp til að ala upp barn, hvort sem það er svona eða hinsegin og hvort sem foreldrarnir eru svona eða hinsegin. Samfélag sem stríðir öðruvísi fólki þarf að taka sig á, ekki halda hinu frábrugðna fjarri.

Og hvert er verkefnið ef fatlað fólk á ekki kost á hamingju (eða ef við höldum að það sé þannig)? Er það ekki að auka möguleikana til að svo megi verða, búa í haginn þannig að allir fái pláss? Auðvitað er það verkefnið, ekki að hindra tilvist þeirra sem falla utan norms, sem má til dæmis gera með því að breyta norminu þannig að fleiri passi í það.

Miðaldra körlum verður ekki strítt – eða þeir munu ekki taka það nærri sér…

Þessa dagana er mikið bent á það að konur virðast hafa horfið af hinu pólitíska sviði, eða að minnsta kosti úr sviðsljósinu. Birtar eru myndir af körlum í pallborði, spurt hvar eru konurnar? Réttilega hefur fólk áhyggjur af því hvers vegna þetta hefur allt í einu gerst – við sem erum svo módern og best í heimi í jafnrétti. Hvað klikkaði?

Mín tilgáta er sú að það sem klikkaði hafi meðal annars verið okkar samfélagslega vissa um að konum sem láta á sér bera verður strítt.

Þær verða gagnrýndar fyrir klæðaburð sinn, til dæmis fyrir að klæðast lopapeysu í þingsal.

Þær verða miskunnarlaust hæddar fyrir skort á mælsku eða klaufalega málnotkun.

Svo eitthvað sé nefnt.

Sjálf hef ég til dæmis fengið að heyra það þegar ég var að velta fyrir mér framboði til Alþingis, að ég ætti alls ekki að gera það, vegna þess að ég muni lenda illilega milli tannanna á fólki.

Ég býð mig nú samt fram, vonandi verður mér ekki strítt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur