Miðvikudagur 22.11.2017 - 10:22 - FB ummæli ()

Sartre, Leibniz og tilvist Guðs

Ef við leggjum tilvist Guðs og líf eftir dauðann til hliðar vegna efasemda eða vantrúar þá verður við að gera upp við okkur hvert gildi lífsins er.

Ef dauðinn felur í sér endalokin, ef við eigum ekkert annað í vændum, þá hljótum við líka að spyrja okkur um eðli tilvistarinnar.

Hvers vegna erum við hér?

Hvernig eigum við að bera okkur að undir slíkum kringumstæðum?

Svar guðleysisins virðist mér vera jafn augljóst og það er nöturlegt:

Það er alls engin merking eða tilgangur á bak við lífið. Lífið hefur ekkert gildi þegar allt kemur til alls.

Tilvistarheimspekingurinn Jean Paul Sartre lýsti guðlausum veruleika undanbragðalaust í riti sinni Nausea:

Það var satt.

Ég hafði alltaf vitað það!

– Ég átti alls engan rétt á því að vera til.

Ég birtist fyrir tilviljun. Ég var til eins og steinn, eða planta, eða örvera.

Gagnvart sjálfum mér fann ég ekki fyrir neinu öðru en þýðingarlausu suði.

Ég hugsaði með mér … hér erum við, borðandi og drekkandi til þess að viðhalda okkar dýrmætu tilvist, og það er ekkert, ekkert, alls engin ástæða fyrir tilvistinni.

Að mati Sartre var grundvallarspurning heimspekinnar hvers vegna við ættum yfirleitt að hafa fyrir því að vera til. Hvers vegna ættum við að teygja þessa tilgangslausu tilvist á langinn?

Sú mynd af tilverunni sem guðstrú felur í sér er allt önnur.

Lífið er ekki tilviljunarkennd og tilgangslaus vegleysa.

Þvert á móti.

Þar sem Guð er til, Guð sem skapaði alheiminn og allt sem lifir, gjörvallan veruleikann utan sjálfs sín, er ástæða og tilgangur á bak við lífið, merking og gildi, sem á sér uppsprettu í vilja þess sem skapaði það.

Munurinn gæti ekki verið skarpari.

Það er því ekki að ósekju að spurningin um tilvist Guðs hefur verið kölluð þýðingarmesta og mikilvægasta spurningin sem nokkur getur spurt sig að og leitað svara við.

Öll önnur svör og viðhorf byggja með einum eða öðrum hætti á því hvernig við svörum þeirri einu spurningu.

Skilningur okkar á lífinu og upplifun okkar af því mótast fyrst og fremst af afstöðu okkar til Guðs, eða því sem við teljum vera hinsta eðli tilverunnar.

Er Guð til?

Eða hefur Sartre rétt fyrir sér?

Enginn fer í gegnum lífið án þess að spyrja sig að því.

Enginn kemst hjá því að svara þeirri spurningu, hvort sem það er gert á hugsandi og meðvitaðan hátt eða ekki.

Í dag gera margir kröfu um skothelda sönnun fyrir tilvist Guðs. Sönnun sem sýni í eitt skipti fyrir öll og með óyggjandi hætti að Guð sé til.

Að öðrum kosti geta þeir ekki eða vilja ekki trúa.

Það á ekki síst við um þá guðleysingja sem hæst láta.

En slík sönnun er vitaskuld ekki í boði.

Hún hefur aldrei verið í boði.

Við gerum heldur ekki jafn óraunhæfa kröfu, eða setjum okkur jafn fráleitan mælikvarða, þegar kemur að flestöllu sem við trúum og teljum okkur vita.

Ef svo væri hefði guðleysinginn vitaskuld enga ástæðu til að vera guðleysingi.

Það er jú ekki til nein óyggjandi sönnun fyrir guðleysi.

Þegar öllu er á botnin hvolft er guleysi trúarlegt viðhorf og sannfæring.

Burtséð frá því höfum við enga góða ástæðu til að trúa því að við ættum ekki að trúa öðru en því sem er unnt að sanna með óyggjandi hætti.

Það verður jú ekki sannað með óyggjandi hætti og fellur því um sig sjálft.

En þótt sönnum í jafn ströngum skilningi er ekki í boði þá eru vissulega til rök fyrir tilvist Guðs.

Þau eru af margvíslegum toga.

Rök fyrir tilvist Guðs eru í eðli sínu vísbendingar, misjafnlega sterkar, sem læða að okkur þeim grun að ekki er allt sem sýnist, að tilveran, veruleikinn, sé ekki allur þar sem hann er séður, heldur sé eitthvað annað og meira á bak við það sem við skynjum og upplifum.

Slíkar vísbendingar er víða að finna.

Sú augljósasta er tilvistin sjálf.

Staðreyndin að eitthvað er til.

Rétt eins og málverkið bendir til listamannsins bendir tilvistin sem slík til einhverrar orsakar, einhvers veruleika, handan sjálfrar tilvistarinnar.

Vegna þess að ekkert getur orsakað sig sjálft!

Allt sem til er hlýtur að koma frá einhverju öðru sem er til og býr þegar yfir verund.

Af engu kemur nefnilega ekkert.

Það bendir til þess að til sé einstök vera sem sker sig frá öllu öðru sem er til að því leyti að hún á sér ekki sjálf orsök en er orsök og uppspretta alls annars sem til er.

Í ljósi þess að öll náttúruleg fyrirbæri eiga sér orsök hlýtur að vera til yfirnáttúrulegt fyrirbæri sem ekki er orsakað af neinu öðru en er orsök alls annars.

Röksemdarfærsla af þessum toga er til í margvíslegum útgáfum sem kallast einu nafni heimsfræðileg (kosmólógísk) rök fyrir tilvist Guðs.

Ein af þekktari röksemdarfærslum af þeim toga er að finna í svari fjölfræðingsins, heimspekingsins og stærfræðingsins G. W. Leibniz (1646-1716) við hinni aldagömlu og áleitnu spurningu Hvers vegna er eitthvað til fremur en ekkert.

Hvaðan kemur tilvistin?

Spurningarnar verða vart stærri eða dýpri en svo.

Hvers vegna hefur alheimurinn fyrir því að vera til? eins og einn heimspekingurinn orðaði það.

Þetta er sú spurning sem við ættum að spyrja fyrst af öllu, sagði Leibniz.

Að mati Leibniz er svarið þó ekki að finna á sviði hins efnislega, heldur í Guði.

Er eitthvað vit í því?

Hvort okkur finnst það fer sjálfsagt eftir þeim sjónarhóli sem horfum á lífið og tilveruna út frá.

Röksemdarfærslan á bak við svar Leibniz er eftirfarandi:

1. Sérhvað það sem til er á sér útskýringu.

2. Ef tilvist alheimsins á sér útskýringu þá er sú útskýring Guð.

3. Alheimurinn er til.

Af þessum forsendum leiðir óhjákvæmilega og röklega að

4. Tilvist alheimsins á sér útskýringu (sbr. 1 og 3)

og þar af leiðandi að

5. Útskýringin fyrir tilvist alheimsins er Guð (sbr. 4 og 2).

Ef við höfum góðar og gildar ástæður til að gangast við forsendunum þá hljótum við einnig að gangast við niðurstöðunni sem röklega og óhjákvæmilega leiðir af þeim.

Nú er óvíst að vinur minn guðleysinginn láti segja sér það og hafni einni eða fleiri af forsendum röksemdarfærslunnar.

Ég geng samt út frá því að flestir leyfi þriðju forsendunni að standa óáreitt.

En hvað með fyrstu forsenduna?

Þarf allt að eiga sér orsök?

Getum við ekki sagt eins og hinn þekkti heimspekingur og guðleysingi Bertrand Russel að alheimurinn bara er?

Að hann einfaldlega sé til án nokkurrrar útskýringar eða orsakar.

Við nánari tilhugsun held að flestum renni í grun, eða fái það á tilfinninguna, að málið sé ekki svo klippt og skorið.

Ef ég dytti nú um bolta á morgungöngunni minni gæti ég velt vöngum yfir því af hverju boltinn var einmitt þarna og hvaðan hann kom.

Ef göngufélagi minn segði mér að það væri alls enga útskýringu að finna á tilvist boltans mundi ég sennilega brosa út í annað af vantrú.

Og það gildir einu hvort þessi bolti væri á stærð við epli, plánetu, eða gjörvallan alheiminn. Stærð boltans mundi ekki breyta því að tilvist hans kallar á útskýringu.

Hið sama á við ef ég skyndilega yrði var við háværan hvell í fjarska.

Ef göngufélagi minn reyndi að telja mér trú um að það væri alls engin útskýring eða orsök á bak við hvellinn myndi ég ekki trúa því.

Það er einmitt þessi eðlislæga forvitni mannsins um útskýringar og orsakir og samhengið á milli þeirra sem gerði hann að vísindamanni.

Fyrsta forsendan virðist því einkar sennileg. Að minnsta kosti sennilegri en andstæða hennar.

Og að því gefnu ættum við að gangast við henni.

Vinur minn guðleysinginn gæti vitaskuld velt vöngum yfir því hvers vegna Guð kalli ekki á útskyringu líkt og alheimurinn.

Ef allt þarfnast útskýringar þá hljótum við að fella Guð undir sama hatt og allt annað, ekki satt?

Jú, mikil ósköp.

Og ef Guð á sér orsök getur hann varla talist ýkja merkilegur Guð.

Já, það er vit í því.

En Leibniz gerði grundvallandi greinarmun á því sem til.

Samkvæmt Leibniz á það sem er til sér aðra af tveimur útskýringum.

Það er ýmist til af hreinni nauðsyn, og verður þar af leiðandi ekki útskýrt, eða það er orðið til vegna ytri orsakar.

Hið fyrrnefnda er einfaldlega þess eðlis að það getur ekki ekki verið til. Það er engin orsök á bak við tilvist þess. Tilvist þess er nauðsynleg.

Slíkt kann að hljóma undarlega, en í sögu heimspekinnar hefur ekki verið skortur á tilgátum um slík fyrirbæri.

Stærðfræðingar hafa t.d. margir hverjir litið á tölur og önnur stærðfræðileg fyrirbæri í slíku ljósi.

Hið síðarnefnda eru hversdagsleg fyrirbæri á borð við hús, stóla, fjöll, fólk, stjörnur o.s.frv.

Þar er um að ræða hluti sem ekki eru nauðsynlega heldur eiga sér ytri útskýringar og orsakir og gætu allt eins ekki hafa orðið til til.

Eina ástæðan fyrir tilvist þeirra er tilvist einhvers annars sem orsakaði þá.

Þegar Lebniz segir að sérhvað það sem til er á sér útskýringu á hann við að þá útskýringu sé annað hvort að finna í nauðsyn þess sjálfs eða í einhverri ytri orsök.

Hvað tilvist sína varðar eru hlutir eða fyrirbæri því ýmist nauðsynlegir eða ónauðsynlegir.

Hvað Guð snertir er eðli hans slíkt að hann er til af hreinni nauðsyn.

Hann á sér ekki orsök.

Hins vegar er ástæða til að ætla að eðli hins efnislega veruleika sem við erum hluti af sé ekki þess eðlis.

Raunar bendir allt til hins gagnstæða.

Og ef vísindin benda til einhvers þá benda þau til þess að eitt sinn var alheimurinn alls ekki til.

Og því spyrjum við með réttu hvers vegna er hann til yfirhöfuð?

Hvað orsakaði hann?

Skynsamlegasta svarið við því hvers vegna ónauðsynlegur alheimur er til er að tilvist hans grundvallast á tilvist einhverrar nauðsynlegrar veru.

Einhvers sem eðli síns vegna getur ekki ekki verið til.

Vera kann að guðleysinginn fallist á þessa forsendu og játi því að allt sem til er eigi sér útskýringu eða se til af einhverri ástæðu.

En hvað með aðra forsenduna?

Er hún sanngjörn og skynsamleg?

Vera kann að guðleysingjanum sýnist svo ekki vera og hafni henni.

Ef tilvist alheimsins á sér útskýringu, hvers vegna í ósköpunum ættum við að ganga út frá því að sú útskýring sé Guð?

Já, á yfirborðinu hljómar það nokkuð handahófskennt og dutlungafullt.

Svo er þó ekki.

Ein algengasta mótbára guðleysingjans við röksemdarfærslu Leibniz er jafnan sú að ef guðleysi er rétt (þ.e. ef Guð er ekki til) þá sé engin útskýring á bak við tilvist alheiminn.

Alheimurinn bara er.

Hvað felur sú mótbára í sér?

Jú, röklega séð jafngildir hun því að segja að ef tilvist alheimsins eigi sér útskýringu þá sé guðleysi ekki rétt.

Sem er jú að efninu til önnur forsenda röksemdafærslunnar.

Með því að halda hinu fyrrnefnda fram gengst maður (í röklegum skilningi að minnsta kosti) við hinu síðarnefnda – hvort sem það er ætlunin eða ekki.

Burtséð frá þessu virðist önnur forsendan, eins og hin fyrsta, býsna sennileg í eigin valdi.

Alheimurinn er jú gjörvallur veruleiki tíma og rúms ásamt öllu sem hann inniheldur, þar á meðal öllu efni og allri orku.

Ef sá veruleiki á sér orsök þá getur sú orsök ekki verið hluti af alheiminum sjálfum.

Nei, hún hlýtur í einum eða öðrum skilingi að vera óefnisleg og handan tíma og rúms, og nógu máttug til að skapa allan alheiminn.

Það er ekki ýkja margt sem gæti fallið undir þá lýsingu.

Raunar bara tvennt!

Annars vegar óhlutstæð fyrirbæri á borð við tölur, eiginleika o.s.frv.

Hins vegar hugur eða hugsun sem ekki er háð eða bundin af efni.

Í ljósi þess að óhlutstæð fyrirbæri skapa ekkert og koma engu til leiðar þá stendur sú niðurstaða eftir að orsök alheimsins er óefnislegur hugur.

Sem er hinn hefðbundni skilningur á því hvað Guð er.

Að forsendunum gefnum er niðurstaða röksemdarfærslunnar augljós og óhjákvæmileg:

Guð er útskýring þess að alheimurinn er til!

Nú kann einhverjum að þykja að Guð sé ekki hjálplegt orð eða hugtak í þessu samhengi, jafnvel óþarft.

En það gildir einu hvað orsök alheimsins er kölluð, svo framarlega sem því er til haga haldið að um er að ræða ótrúlega máttugan, óskapaðan, óefnislegan og eilífan skapara alls alheimsins, sem er nauðsynlegur og eðli sínu samkvæmt getur ekki ekki verið til.

Hér erum við komin ansi langt frá guðleysinu og náttúruhyggjunni.

Er hér um að ræða skothelda sönnun fyrir tilvist Guðs sem allir ættu að beygja sig fyrir?

Nei, vitaskuld ekki.

Er hér um að ræða rökrétta niðurstöðu á grundvelli skynsamlegra og sennilegra forsenda.

Að mínu mati, já.

Og sú niðurstaða bendir eindregið til þess að alheimurinn er sannarlega ekki allur þar sem hann er séður.

Og þegar þessi röksemdafærsla er lögð saman við aðrar röksemdafærslur fyrir tilvist Guðs, aðrar úgáfur af heimsfræðrökunum, siðferðisrökin, hugrænu rökin, hönnunarrökin og verufræðökin, þá verður sameiginlegur þungi þeirra sannarlega mikill og áhrifaríkur.

En vissulega lætur enginn sannfærast gegn vilja sínum.

Hvorki guðstrúarmaðurinn né guðleysinginn.

Og þótt hér sé ekki um sönnun í ströngum skilningi að ræða sýnir þessi röksemdarfærsla, ásamt öðrum röksemdarfærslum fyrir tilvist Guðs, að það er fyllilega skynsamlegt að trúa á tilvist Guðs.

Það eru engin svik við skynsamlega og rökræna hugsun eða á skjön við það sem við vitum og upplifum.

Þvert á móti.

Og ýmsir myndu segja að guðstrú krefjist í raun minni „trúar“ en guðleysið sjálft.

Flokkar: Guð · Guðleysi · Guðstrú · Heimsfræðirök · Leibniz · Rök fyrir tilvist Guðs

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur