Miðvikudagur 07.02.2018 - 01:04 - FB ummæli ()

Topp fimm ástæður fyrir því að trúa á tilvist Guðs! Svar til Snæbjörns Ragnarssonar og annarra guðleysingja

Í nýlegri og áhugaverðri grein sem birtist hjá Stundinni þann 24. janúar sl. tíundaði Snæbjörn Ragnarsson hverjar eru að hans mati Topp 5 ástæður fyrir því að við verðum að kljúfa Þjóðkirkjuna frá ríkinu. Grein Snæbjörns er til marks um þá gagnrýni og oft á tíðum andúð sem þjóðkirkjan og kristin trú almennt mætir í samfélagsumræðunni í dag. Ekki er þó ætlunin að kryfja þá umræðu til mergjar hér. En samtalið er mikilvægt og getur með góðum vilja verið gagnlegt og lærdómsríkt. Og margt af því sem Snæbjörn snertir á í sinni stuttu grein er þess virði að hugleiða.

Á meðal ástæðanna sem Snæbjörn nefnir eru (1) hræsni kirkjunnar sjálfrar, (2) óþarfa peningasóun og (3) fáránlegur klæðaburður kirkjufólks.

Um þetta má sjálfsagt margt segja.

Ef hræsni merkir misræmi á milli orða, sannfæringar og trúar annars vegar og framgöngu og gjörða hins vegar þá ætti ekki að koma neinum á óvart að hana er að finna innan kirkjunnar, þó vitaskuld í mismiklum mæli. Svo hefur alltaf verið og mun því miður alltaf vera að einhverju leyti. Sjálfur er ég á engan hátt undanskilin í þeim efnum. Það er af því að fólk er fólk, og kirkjan er ekki annað en hópur af fólki með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir. Þetta hefur verið ljóst frá upphafi. Það þarf ekki annað en að fletta í Nýja testamentinu til að sjá það, t.d. í lærisveinum Jesú, eða á meðal kristins fólks í Korintu, svo dæmi sé tekið, þar sem hver höndin var uppi á móti annarri. Vitaskuld eykur það ekki hróður kristins fólks þegar það verður uppvíst af hræsni. Og það eykur sannarlega ekki tiltrú fólks á boðskap kristinnar trúar. En hræsni sem slík einskorðast að sjálfsögðu ekki við kirkjuna, og er kirkjan almennt eða trúað fólk ekki í sérflokki þegar hún er annars vegar. Hræsni er sammannlegt fyrirbæri og í þeim efnum verður hver að líta sér næst, hvort sem maður er trúaður eða ekki. Kristið fólk er, og hefur alltaf verið, og mun alltaf verða, ófullkomið fólk á svo margvíslegan hátt – eins og allt fólk er. Raunar gengur kristin trú út frá því að svo sé. Og þó það megi vissulega gagnrýna kristið fólk og kirkju fyrir ýmislegt þá er það heldur óraunhæft að ætla að hún sé eitthvað annað og meira en mannleg í þessum efnum. En burtséð frá því er hræsni kristins fólks, eða mannlegir brestir þess og gallar almennt, enginn dómur yfir boðskap Jesú frá Nasaret. Kristið fólk, sem er af misjöfnu tagi, er eitt. Boðskapur Jesú er annað. Og enginn hefur tekið jafn skýrt og sterkt til orða gegn hræsni og hverskyns tvöfeldni og Jesús sjálfur gerði. Af því geta allir lært, óháð trú.

Það er heldur ekki gott þegar peningum er illa varið. Undir það má sannarlega taka. En vissulega eru ólíkar skoðanir um það hvað rétt er að verja peningum í og í hverju raunveruleg og varanleg verðmæti liggja. Þjónusta og starf kirkjunnar, þó það fari öllu jafna ekki hátt, er víðfeðmt, fjölbreytt og öllum opið. Það yrði allt of langt mál að gera grein fyrir öllu því blómlega starfi og þeirri mikilvægu þjónustu sem fram fer innan kirkjunnar árið um kring víðsvegar um landið. Vissulega sjá ekki allir gildi þess og ekki taka allir þátt í því. En það er engin ný frétt og ekki ætlunin að rökræða það sérstaklega hér. Ekki ætla ég heldur að fjölyrða um stöðu eða rekstur þjóðkirkjunnar almennt, eða þann grundvöll sem hann hvílir á. Margt skynsamlegt hefur verið ritað um samning ríkis og kirkju, svo dæmi sé tekið, sem ekki er þörf á að endurtaka hér. Þeir sem áhuga hafa á þeirri umræðu þurfa ekki að leita langt í þeim efnum.

Hvað varðar klæðaburð kirkjunnar fólks, djákna, presta og biskupa, verður hver og einn að hafa sínar skoðanir. Amma mín kenndi mér snemma að dæma engan af útlitinu, eða leggja mat á fólk út frá því hvernig það er til fara. „Hrósa engum manni fyrir hans fríðleika og fyrirlít engan sakir hans útlits“, sagði hún og vitnaði í Síraksbók (Viðeyjarbiblía var Biblían hennar!). Það er góð regla að lifa eftir.

Nú veit ég ekki hvort Snæbjörn raðar ástæðum sínum eftir þýðingu og mikilvægi, en án þess að gera lítið úr öðru verð ég að viðurkenna að mér þykja tvær síðastnefndu ástæðurnar mun áhugaverðari en hinar fyrrnefndu: (4) Aukin þekking, annars vegar, einkum vísindaleg þekking, sem leyst hafi trúarbrögð af hólmi, og hins vegar að (5) Guð er ekki til, sem að mati Snæbjörns er „kjarni málsins“.

Nú vil ég ekki gera Snæbirni upp skoðanir af neinu tagi. En víst er að enginn skortur er á fólki sem telur að vísindin eigi (eða muni eiga) svar við öllum þeim spurningum sem hægt er eða vert er að spyrja. Þar skín í þá vísindahyggju sem alltof margir hafa gleypt við í dag, og það oftar en ekki án umhugsunar, þar sem þekking er einskorðuð við vísindalega þekkingu og sannleikurinn um lífið og tilveruna er lagður að jöfnu við eðlisfræðilegar formúlur. Vísindahyggja af slíkum toga er þó lítið annað en eftirstöðvar pósitívismans gamla, innistæðulausri heimspekistefnu frá fyrri hluta 20. aldar, þar sem gengið var út frá því að allt sem ekki var unnt að sannreyna í krafti vísinda væri með öllu merkingarlaust þvaður. En að því kom að einhver spurði hvort staðhæfingin „Þú skalt ekki trúa neinu öðru en því sem unnt er sanna í krafti vísinda“ væri staðhæfing sem unnt væri að sanna með vísindalegum hætti. Svarið var að sjálfsögðu nei.

Eins og eðlisfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Peter Medewar sagði er engin betri eða fljótlegri leið til að koma óorði á vísindi en að segja að þau eigi svar við öllum spurningum, og að þær spurningar sem þau svari ekki séu merkingarlausar. Augnabliks hugsun sýnir líka að vísindi eru takmörkuð, enda geta þau ekki svarað grundvallarspurningum er lúta að uppruna og merkingu tilverunnar, tilgangi lífsins og örlögum, eða hvað er gott og illt og rétt og rangt. Það minnir okkur á að vísindi spyrja takmarkaðra spurninga og geta ekki náð utan um eða útskýrt allt sem leitar á huga og hjarta mannsins eða er fólgið í reynslu hans og upplifun af lífinu.

Og á meðal þess, sem liggur handan þess er vísindin ná til, er vitaskuld spurningin um Guð.

„En Guð er ekki til“, staðhæfir Snæbjörn. Hann gerir þó enga tilraun til að færa rök fyrir staðhæfingu sinni (sem vitaskuld er ekki vísindaleg í eðli sínu heldur frumspekileg) heldur segist einfaldlega „aldrei [hafa] séð neitt sem bendir til þess að umræddur guð sé til“. Það hefur maður heyrt margoft áður. Nú veit ég ekki hvað teldist að mati Snæbjörns vera gild eða trúverðug ábending eða vísbending um tilvist Guðs. En hitt er rétt að hafa í huga að meint vöntun á slíkum vísbendingum er síður en svo vísbending um vöntun (þ.e.a.s. að Guð sé ekki til).

En bendir eitthvað til þess að Guð sé til? Er eitthvað að finna sem bendir til þess að ekki sé allt sem sýnist? Já, sannarlega. Og raunar fleira en eitt.

Hér eru fimm góðar ástæður fyrir því að við getum trúað á tilvist Guðs:

Tilvistin sjálf!

Burtséð frá öllu öðru er það staðreynd að eitthvað er til. Ég er til. Þú ert til. Umhverfið í kringum okkur er til. Alheimurinn er til. En hvers vegna er eitthvað til fremur en ekkert? Spurningarnar verða vart stærri eða dýpri. Hvaðan kemur tilvistin? Hún virðist á engan hátt sjálfsagður hlutur.

Ef ég dytti nú um bolta á morgungöngunni minni gæti ég velt vöngum yfir því af hverju boltinn var þarna og hvaðan hann kom. Ef göngufélagi minn segði mér að það væri alls enga útskýringu að finna á tilvist boltans mundi ég sennilega brosa út í annað af vantrú. Af engu kemur jú ekkert. Og það gildir einu hvort boltinn væri á stærð við epli, plánetu, stjörnuþoku, eða gjörvallan alheiminn. Stærð boltans mundi ekki breyta því að tilvist hans kallar á útskýringu.

Hið sama gildir um alheiminn, þ.e. gjörvallt tímarúmið og innihald þess. Eins og Platón minnti á fyrir löngu síðan hljótum að spyrja sömu spurningar um það og um allt annað. Hver orsök þess? Orsök alheimsins hlýtur að vera eitthvað sem er handan alheimsins sjálfs, handan tíma, rúms og efnis. Rétt eins og tilvist málverksins bendir til listamannsins bendir tilvistin sem slík til einhverrar orsakar, einhvers veruleika, handan hennar sjálfrar. Það bendir til þess að til sé einstök vera sem sker sig frá öllu öðru sem er til að því leyti að hún á sér ekki sjálf orsök en er orsök og uppspretta alls annars sem til er. Í ljósi þess að öll náttúruleg fyrirbæri eiga sér orsök hlýtur að vera til yfirnáttúrulegur veruleiki sem ekki er orsakaður af neinu öðru heldur er til af hreinni nauðsyn (annars kallaði hann á útskýringu) og er orsök alls annars.

En hvernig getur orsök sem er til af hreinni nauðsyn orsakað tilfallandi (þ.e. ónauðsynlegan) veruleika á borð við alheiminn. Eina svarið sem ég kem auga á er að álykta sem svo að orsakavaldurinn búi yfir vilja og geti í krafti hans ákveðið að skapa tilfallandi veruleika á borð við alheiminn. Með öðrum orðum að um sé að ræða persónulega og yfirnáttúrulega veru.

Upphaf alheimsins

En hvað með alheiminn? Hefur hann alltaf verið til, eða er hann eilífur? Hver hefur ekki horft upp fyrir sig og brotið heilann um það? Heimspekingurinn Bertrand Russel mælti á sínum tíma fyrir munn margra guðleysingja er hann sagði – það var raunar í frægri kappræðu um tilvist Guðs – að alheimurinn bara „væri“ og hefði sem slíkur alltaf verið til.

En hvernig má það vera? Ef þú biðir í óendanlega langri röð (þ.e. án upphafs og endis) þá kæmi eðli málsins samkvæmt aldrei röðin að þér. Í sama skilningi hefði dagurinn í dag (þ.e. núverandi augnablik) aldrei runnið upp ef óendanlega margir dagar (eða augnablik) þurftu að líða á undan honum – eins og raunin væri í eilífum alheimi. Með öðrum orðum hlýtur alheimurinn að eiga sér upphaf.

Sú ályktun nýtur nú ríkulegrar vísindalegrar staðfestingar í kenningunni um Miklahvell. Samkvæmt henni er alheimurinn alls ekki eilífur heldur varð hann til úr bókstaflega engu fyrir u.þ.b. 14 milljörðum ára. Með öðrum orðum á ekki bara allt efni og orka sér upphaf í Miklahvelli heldur beinlínis tíminn og rúmið sjálft. Fyrir Miklahvell var alheimurinn alls ekki til. Árið 2003 tókst þremur eðlisfræðingum beinlínis að sanna að sérhver alheimur sem hefur verið að þenjast út geti ekki verið eilífur heldur hafi hann orðið til og eigi sér því óumdeilanlegt upphaf.

Anthony Kenny orðaði vel vandann sem blasir við guðleysingjanum: „Fylgjandi kenningarinnar um Miklahvell, að minnsta kosti ef hann er guðleysingi, verður að trúa því að alheimurinn hafi orðið til af engu og vegna einskis.“

En hvaða vit er í því? Af engu kemur jú ekkert, eins og áður segir. Allt sem verður til á sér orsök. Líka alheimurinn! Og eðli málsins samkvæmt getur sú orsök ekki verið hluti af alheiminum sjálfum og hlýtur því að vera utan og ofan við tíma, rúm og efni. Hún getur ekki heldur átt sér orsök og hlýtur að vera eilíf, rýmislaus, óefnisleg, óbreytanleg og svo ótrú­lega máttug að hún gat skapað alheim­inn úr bókstaflega engu. Óháð því hvað við köllum slíka orsök þá erum hér við komin býsna langt frá guðleysinu.

Lífið sjálft

Lífið sjálft er annað sem bendir til þess að ekki sé allt sem sýnist. Ólíkt því sem áður var talið er nú vitað að tilkoma og þróun lífs í alheiminum er langt frá því að vera sjálfsagður hlutur. Raunar virðist það svo að hinar ótrúlega ströngu forsendur fyrir tilkomu lífs hafi með haganlegum og ótrúlega nákvæmum hætti verið komið fyrir strax í Miklahvelli. Það hefur verið nefnt „fínstilling“ alheimsins. Hún er fólgin í því að gildi hinna margvíslegu fasta náttúrunnar (t.d. heimsfastans, sterka og veika kjarnakraftsins, rafsegulkraftsins o.s.frv.), sem og upphafsástand alheimsins í Miklahvelli (t.d. upphaflegt óreiðumagn og útþennsluhraði alheimsins), fellur í hið ótrúlega smáa og þrönga bil sem gerir lífi kleift að koma fram og dafna. Með öðrum orðum mundi örminnsta breyting á þessum gildum gera tilkomu lífs óhugsandi.

Það virðist því sem alheimurinn hafi frá upphafi verið stilltur með nákvæmum hætti með það að marki að greiða fyrir tilkomu lífs.

Sem dæmi um þessa „fínstillingu“ má nefna að eðlisfræðingurinn P. C. Davies hefur reiknað út að breyting á styrk þyngdarkraftsins eða veika kjarnakraftsins um einn hluta af 10 í hundraðasta veldi hefði komið í veg fyrir lífvænlegan alheim. Heimsfastinn (sem er á bak við útþennslu alheimsins) er einnig óskiljanlega „fínstilltur“ upp að einum hluta af 10 í hundraðogtuttugasta veldi. Þá hefur eðlisfræðingurinn Roger Penrose reiknað út að líkurnar á því að hið lága óreiðumagn Miklahvells sé hrein tilviljun séu einn á móti 10 í tíunda veldi í hundraðtuttugastaogþriðja veldi (sem fyrir allt venjulegt fólk er óskiljanlega stór tala).

Francis Collins, sem leiddi kortlagninguna á genamengi mannsins, orðaði þetta vel:

„Þegar þú horfir á alheiminn út frá sjónarhóli vísindamannsins virðist sem alheimurinn vissi að við vorum væntanleg … Ef einhver einn af þessum föstum skeikaði um einn milljónasta hluta, eða jafnvel milljón milljónasta í sumum tilfellum, þá gæti alheimurinn ekki hafa tekið á sig þá mynd sem hann hefur gert. Efni hefði ekki getað bundist hvert öðru, stjörnuþokur hefðu ekki orðið til, ekki stjörnur, eða plánetur eða fólk.“

Við getum séð fyrir okkar fjöldann af skífum sem allar þurfa að vera stilltar af óskiljanlegri nákvæmni, hver og ein. Ef einni skífu skeikaði örlítið væri líf óhugsandi. En allar eru nákvæmlega rétt stilltar. Og líkurnar á því að svo sé eru svo óskiljanlega litlar að það verður ekki skrifað á einskæra tilviljun eða heppni. Í því samhengi biður heimspekingurinn John Leslie okkur að ímynda okkur mann sem dæmdur hefur verið til dauða fyrir glæp. Maðurinn er leiddur fram fyrir aftökusveit sem skipuð er 100 þaulæfðum og reyndum skyttum. Þær miða rifflunum beint í hjartastað á hinum dæmda manni og þegar skipunin er gefin hleypa þær af, allar sem ein. En þegar byssudrunurnar líða hjá gerir hinn dauðadæmdi maður sér grein fyrir því, sér til mikillar undrunar, að hann er enn á lífi. Enginn hafði hitt hann. Öll skotin geiguðu. Hvaða ályktun drögum við af því? Í ljósi þess hversu ótrúlega litlar líkur eru á því að allar skytturnar missi marks mundi okkur strax gruna að brögð væru í tafli og að skytturnar hafi skotið framhjá af ásetningi. Það væri fullkomlega óskynsamlegt að ætla annað. Og í ljósi þess hversu ótrúlega ólíkleg „fínstilling“ alheimsins er þá er það í sama skilningi fyllilega skynsamlegt að álykta að hún sé engin tilviljun heldur beri vitni um vilja og ásetning hönnuðar eða skapara.

Niðurstaða Arno Penzias, nóbelsverðlaunahafa í eðlisfræði, er eftirtektaverð í þessu samhengi. Að hans mati „leið[a vísindi] okkur fyrir sjónir einstakan atburð: Alheim sem skapaður var úr engu og er nákvæmlega stilltur á þau skilyrði sem nauðsynleg eru fyrir tilkomu lífs. Þegar litið er framhjá frámuna ólíklegri tilviljun má segja að athuganir nútímavísinda hreinlega beri vitni um guðlega fyrirætlun.“

Siðferðileg reynsla okkar og upplifun

Ef Guð er ekki til, og náttúruhyggjan gefur okkur rétta lýsingu á eðli veruleikans, í hvaða skilningi getum við þá talað um gott og illt, og rétt og rangt? Eru siðferðisgildi á borð við réttlæti, umburðarlyndi o.s.frv. hlutlæg og þar með hafin yfir persónulegar skoðanir og félagslegar venjur? Eða eru þau ekkert annað en tilviljanakenndur afrakstur þróunar og samfélagslegra skilyrðinga, og þar af leiðandi afstæð og háð persónulegum skoðunum og smekk hvers og eins?

Margir guðleysingjar benda réttilega á að ef Guð er ekki til þá höfum við engan grundvöll til að segja að eitthvað sé beinlínis rétt eða rangt, gott eða illt, í hlutlægum skilningi. Að mati Richard Dawkins er „Alheimurinn, eins og hann blasir við, … einmitt eins og við má búast, ef það er, þegar öllu er á botninn hvolft, engin hönnun [þ.e. Guð], enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint miskunnarlaust tómlæti. DNA veit ekkert og lætur sig ekkert varða. DNA einfaldlega er og við dönsum í takt við það.“ Guðleysinginn og heimspekingurinn Alex Rosenberg er sammála. Í bók sinni The Atheist Guide to Reality spyr hann hver sé munurinn á réttu og röngu, góðu og illu, og svarar því blátt áfram að „það er enginn siðferðilegur munur þar á milli“. Samkvæmt því er enginn siðferðilegur munur á því að elska barn eða beita það ofbeldi. Að mati Rosenberg er „líf hvers og eins … merkingarlaust … og án siðferðilegs vægis þegar allt kemur til alls“. Hvatning hann er sú að við sættum okkur við það og „horf[umst] í augu við að siðferðileg tómhyggja er sönn“.

Að mínu viti er afar erfitt að komast undan þeirri niðurstöðu ef guðleysi er grunnforsendan, þ.e. ef Guð er ekki til, og alheimurinn er tæmandi lýsing á tilvistinni, og lífið og við sjálf erum í grunninn ekkert annað en tilviljunarkennt efni sem er skilyrt af blindum lögmálum náttúrunnar. Samkvæmt náttúruhyggjunni erum við jú ekkert annað en tiltölulega þróuð dýrategund í alheimi án merkingar og tilgangs, tilviljunarkennd aukaafurð tíma og efnis og að öllu leyti skilyrt af taugaboðunum í heilanum í okkur.

En hinu verður ekki neitað að að lífið hefur óneitanlega siðferðilega vídd sem ekki er hægt að smætta burt úr upplifun okkar og reynslu af lífinu. Á sama hátt og við sjáum og finnum fyrir veruleikanum í kringum okkur finnum við og sjáum að sumt í lífinu er raunverulega rétt eða rangt, í hlutlægum og algildum skilningi. Að misnota aðra manneskju er ekki siðferðilega hlutlaus verknaður. Hryðjuverkamaðurinn sem myrðir saklausar manneskjur, eða foreldrið sem misnotar barnið sitt, eða einræðisherrann sem skeytir engu um líf annarra, dansar ekki bara viljalaus í takt við erfðaefnið sitt. Nei, sumt er siðferðilega rétt eða rangt, gott eða illt, í algildri og hlutlægri merkingu. Og ef algilt siðferði getur ekki verið til ef Guð er ekki til þá blasir niðurstaðan við.

Skynsemi okkar og hugsun

Hefur þú spurt þig hversu áreiðanleg hugsun þín er? Er hún traustsins verð? Hvað með skynsemina? Er hún jafn skynsamleg og af er látið?

Samkvæmt náttúruhyggjunni á allt sér náttúrulegar og efnislegar orsakir. Veruleikinn er sem lokaðir kassi, og ekkert annað en efni sem lýtur blindum lögmálum náttúrunnar. Og þar erum við og hugsanir okkar ekki undanskildar. Hugsun okkar er ekki fólgin í öðru en taugaboðum í heilanum okkar, í rafboðum sem skjótast frá einum stað til annars. Í raun er það svo að enginn munur er á huga okkar eða hugsun og heila. Um er að ræða eitt og það sama. Og samkvæmt náttúruhyggjunni er heilinn jú ekkert annað en tilviljunarkennd afurð blinds og hugsunarlauss náttúlegs ferlis án nokkurs tilgangs og merkingar.

Í því ljósi hljótum við að spyrja hvaða ástæðu við höfum til að treysta hugsun okkar og skynsemi. Mundi einhver nota eða treysta á tölvu sem væri ekkert annað en tilviljunarkennd afurð blinds og hugsunarlauss náttúlegs ferlis án nokkurs tilgangs og merkingar? Nei. Rétt eins og efnafræðingurinn J. Haldane minnti á fyrir all löngu síðan, ef hugsun mín er ekki fólgin í öðru en atómum á hreyfingu í heilanum á mér – kerfi sem er afleiðing blinds náttúrulegs ferlis – af hverju ætti ég að trúa eða treysta nokkru sem hún segir mér, þar á meðal því að heilinn í mér samanstandi af atómum?

Ef það er rétt, eins og Richard Dawkins og allir hinir náttúruhyggjusinnarnir halda fram, að við erum ekkert annað en afleiðing blinds og hugsunarlauss náttúrlegs ferlis, þá hafa þeir gefið okkur góða ástæðu til að efast um áreiðanleika vitsmuna okkar og hugsunar. Og þá höfum við góða ástæðu til að efast um allt sem hugsun okkar og vit vilja telja okkur trú um – og þar á meðal guðleysið sjálft, trúarjátning náttúruhyggjunnar! Hvaða ástæðu hef ég þá til að trúa því og treysta að náttúruhyggja sé sönn og að guðleysi gefi mér rétta mynd af eðli lífsins og tilverunnar?

Þegar kemur að því að útskýra hvers vegna alheimurinn er skiljanlegur og hvers vegna við höfum aðgengi að honum á áreiðanlegan hátt í gegnum hugsun okkar og vit (að minnsta kosti að hluta til), þá á guðstrú mun skynsamlegra svar en guðleysið. Ástæðan er að hvort tveggja, alheimurinn og hugsun okkar, er af sömu rót runnið. Hvort tveggja er afleiðing hugsunar og vits, skapandi orðs Guðs.

Hin tilvistarlega þýðing

Er hér um að ræða skotheldar sannanir fyrir tilvist Guðs sem allir ættu að beygja sig fyrir? Nei, vitaskuld ekki. Ef sönnun er lögð til jafns við fullvissu þá eru slíkar sannanir ekki í boði og hafa aldrei verið. En það á ekki frekar við spurninguna um Guð en flestallt annað. Fæst af því sem við teljum okkur vita verður sannað í þeim skilningi. Og þar er guðleysi að sjálfsögðu ekki undanskilið.

En er hér um að ræða áleitin rök á grundvelli skynsamlegra og sennilegra forsenda sem benda til þess að Guð er til? Að mínu mati, já. Og þau sýna að trúin á tilvist Guðs er langt í frá svik við skynsamlega og rökræna hugsun, eða á skjön við það sem við vitum og upplifum. Þvert á móti er lífið og tilveran með þeim hætti sem búast má við ef Guð er til, þvert á það sem guðleysingjar á borð við Richard Dawkins halda fram. Því í samanburði við guðleysi felur tilvist Guðs í sér betri útskýringu á tilvistinni, upphafi alheimsins, tilkomu lífsins, siðferðilegri reynslu okkar og upplifun af lífinu, og þeirri staðreynd að við getur treyst hugsun okkar og skynsemi. Með öðrum orðum fellur eðli lífsins og upplifun okkar af því betur að þeim veruleika þar sem Guð er til heldur en að guðlausum veruleika.

Eins og C.S. Lewis benti á getum við trúað á tilvist Guðs eins og við trúum á sólarupprásina. Ekki bara af því að við sjáum sólina heldur vegna þess að sólin sýnir okkur allt annað.

Þessi rök og vangaveltur verða þeim mun áleitnari í ljósi þeirrar myndar sem guðleysi dregur upp af eðli lífsins og tilverunnar. Eins og Richard Dawkins bendir á er hinn guðlausi veruleiki þegar allt kemur til alls ekki fólginn í öðru en blindu og miskunnarlausu tómlæti án nokkurs tilgangs. Þar er einfaldlega um rökræna niðurstöðu að ræða út frá forsendum guðleysisins og náttúruhyggjunnar. Lífið er ekkert annað en tilviljunarkennd aukaafurð blindrar þróunar. Það er engin sérstök ástæða fyrir lífinu, engin eiginleg ástæða fyrir tilvist okkar, eða tilvistinni yfirhöfuð. Það er engin hugsun á bak við lífið, ekkert vit, ekkert mark sem stefnt er að. Það er enginn tilgangur eða merking á bak við lífið þegar allt kemur til alls. Lífið og tilveran hefur ekkert gildi í sjálfu sér þegar allt kemur til alls. Við lifum, efnislega skilyrt og viljalaus, til þess eins að deyja í alheimi sem á endanum kemur sjálfur til með að breytast í lífvana myrkur og kulda án enda.

Guðstrú – ekki síst kristin guðstrú – dregur upp allt aðra mynd. Lífið er ekki óútskýranleg tilviljun án merkingar, gildis og tilgangs. Lífið, þar á meðal þú og ég, hugsanir okkar og orð, tilfinningar og gjörðir, eru ekki afleiðingar af hugsunarlausu efni og blindum lögmálum náttúrunnar. Nei! Þvert á móti bendir alheimurinn á, og endurspeglar, þá hugsun, það hugvit og þann vilja, sem teygir sig út fyrir það sem er tímanlegt, efnislegt og náttúrulegt, og allt á rót sína að rekja til. Og jafnvel þótt rökin með og gegn tilvist Guðs væru hnífjöfn – sem þau eru ekki, að mínu mati – hvers vegna ættum við að velja guðleysi fram yfir guðstrú? Hvers vegna ættum við að umgangast lífið á forsendum guðleysis?

Eins og Pascal benti á fyrir löngu síðan, sá sem veðjar á Guð hefur engu að tapa en allt að vinna.

Flokkar: Guð · Guðleysi · Guðstrú · Náttúruhyggja · Rök fyrir tilvist Guðs

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur