Sunnudagur 25.02.2018 - 16:44 - FB ummæli ()

Í stuttu máli sagt

Trúmálaumræðan er fjölskrúðugur skógur og áhugaverður. Hér eru dæmi um staðhæfingar sem ekki er óalgengt að heyra – og örstuttar athugasemdir við þær!

Þú trúir ekki á Þór, Seif og alla hina guðina. Ég geng bara einu skrefi lengra en þú og hafna hinum kristna Guði!

Svokallaðir guðir á borð við Þór og Seif eru á engan hátt sambærilegir við Guð kristinnar trúar, eins hann kemur fram í Biblíunni. Þessir „guðir“ eru afleiðingar einhvers annars efnislegs veruleika. Guð Biblíunnar orsakaði allan hinn efnislega og náttúrulega veruleika, þ.e. alheiminn.

Vísindi hafa útskýrt allt (eða munu útskýra allt) og þau gera ekki ráð fyrir Guði!

Vísindi eru bundin af hinum efnislega og náttúrulega veruleika og geta eðli málsins samkvæmt ekki gert ráð fyrir Guði (það þýðir þó ekki að niðurstöður/vitnisburður vísinda gefi ekki góðar ástæður til að ætla  Guð sé til). En vísindi geta ekki heldur útskýrt allt, eða svarað öllum spurningum, t.d. spurningum um uppruna og siðferði svo dæmi sé tekið. Ennfremur eru til fleiri tegundir af útskýringum en hin vísindalega, eins og persónuleg útskýring. Guð keppir ekki við vísindi sem útskýring á uppruna alheimsins frekar en Henry Ford keppir við lögmál vélfræðinnar og eðlisfræðinnar sem útskýring á uppruna Ford T bílsins.

Vísindi og Guð eru andstæður!

Til eru dæmi um „guðsskilning“ sem er andvísindalegur, en það á ekki við hinn kristna skilning á Guði. Sumir „guðir“ hafa verið fundnir upp til að útskýra það sem við skiljum ekki, en þeir eiga ekkert skylt við kristna trú. Ef valið stendur á milli vísinda og „guðs“ þá er það ekki hinn kristni Guð sem um er að ræða. Guð kristinnar trúar er ekki að finna í þekkingarholum. Hann er á bak við allt, bæði það sem við vitum (m.a. í krafti vísinda) og það sem við vitum ekki. En ef við skilgreinum Guð fyrirfram sem þekkingarfræðilega uppfyllingu þá segir sig sjálft að valið stendur á milli Guðs og vísinda. Kristin trú hafnar slíkum skilningi og hefur alltaf gert það.

Þú getur ekki sannað tilvist Guðs!

Til eru ólíkar gerðir af „sönnunum“. Í ströngum vísindalegum eða stærfræðilegum skilningi er ekki hægt sanna tilvist Guðs. En enginn hugsandi kristinn einstaklingur heldur öðru fram. Fæst af því sem við vitum verður sannað í þeim skilningi. En „sönnun“ getur einnig verið fólgin í því að sýna fram á eitthvað umfram „skynsamlegan vafa“. Þá er um að ræða rök sem byggja á sennilegum forsendum (sem sóttar eru í þekkingu okkar, upplifun og reynslu) sem leiða röklega til niðurstöðu sem er líklegri en andstæða hennar. Rök fyrir tilvist Guðs eru af þeim toga.

Trú er að gangast við einhverju án nokkurra sannanna!

Kristin trú hefur alltaf snúist um sannanir, þ.e.a.s. vitnisburð og rök. Guðspjöllin voru skrifuð sem vitnisburður, eins og fram kemur í upphafi Lúkasarguðspjalls. Í lok Jóhannesarguðspjalls segir: En þetta er ritað til þess að þið trúið að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þið í trúnni eigið líf í hans nafni. (Jóh 20:31) Það er vinsælt hjá guðleysingjum að tala um trú sem viðhorf sem ekki byggist á sönnunum. Hið rétta er að trú er fólgin í trausti til þess sem við höfum góða ástæðu til að ætla að sé satt. Og það á við um kristna trú. Raunar trúa allir í þeim skilningi, óháð því hverju trúin beinist að, hvort sem það er tilvist Guðs eða hversdagslegir hlutir.

Trú er ranghugmynd. Ég mundi ekki trúa á Guð frekar en tannálfinn, jólasveininn eða hið fljúgandi spagettískrímsli!

Ég þekki fólk sem á fullorðinsaldri gekkst við tilvist Guðs. Ég hef aldrei hitt neinn sem á fullorðinsárum sannfærðist um tilvist tannálfsins. Upphrópanir á borð við þessa (sem Richard Dawkins og fleiri eru afar hrifnir af) eru ekki nothæfar til annars en að hæðast að trúuðu fólki. Stephen Hawking sagði eitt sinn: Trúarbrögð eru ævintýri fyrir fólk sem er hrætt við myrkrið. Einhver svaraði: Guðleysi er ævintýri fyrir fólk sem er hrætt við ljósið. Önnur eins ummæli minna á að staðhæfingar vísindamanna og vísindalegar staðhæfingar fara ekki alltaf saman. Og hvorugar þessara staðhæfinga sanna eitt né neitt. Á bak við þær er hin freudíska hugmynd um óskhyggju, þ.e. að við trúum bara því sem við viljum að sé satt. Og það má segja um guðstrú að því gefnu að Guð sé ekki til. En hið sama má segja um guðleysi að því gefnu að Guð sé til. En hvort Guð er til eða ekki er allt önnur spurning sem hefur ekkert með óskhyggju að gera til eða frá.

Siðferðilega er Biblían rit af verstu sort!

Margir guðleysingjar telja Biblíuna siðferðilega gjaldþrota. En burtséð frá því sem segja má um einstaka frásagnir Biblíunnar á hvaða grundvelli fella þeir slíka dóma? Sú niðurstaða sem Richard Dawkins dregur af guðleysi er flestum kunn: „Í alheimi blindra efnislegra lögmála náttúrunnar og erfðafræðilegrar fjölföldunar verða sumir hart leiknir en aðrir hafa heppnina með sér og þú finnur hvorki ástæðu á bak við það né réttlæti. Alheimurinn, eins og hann blasir við, er einmitt eins og við má búast, ef það er þegar öllu er á botninn hvolft engin hönnun, enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint miskunnarlaust tómlæti. DNA veit ekkert og lætur sig ekkert varða. DNA einfaldlega er og við dönsum í takt við það.“ Ef það er satt hvernig getur Dawkins þá fellt siðferðilega dóma um nokkurn skapaðan hlut? Hann segir að trú sé rót alls ills! En á sama tíma þurrkar hann með öllu út muninn á réttu og röngu, og raunar hina siðferðilegu vídd lífsins yfirleitt. Það er ekkert vit í því.

Ef allt á sér orsök þá hlýtur Guð að eiga sér orsök!

Ýmsir byggja guðleysi sitt á því að ef Guð er til þá hljóti hann að eiga sér orsök. En um leið og maður spyr „Hver skapaði Guð“ gerir maður ráð fyrir því að Guð sé þessháttar veruleiki sem á sér orsök. „Guðir“ sem eiga sér orsök, þ.e.a.s. eru búnir til, kallast venjulega skurðgoð og þeim eru undantekningalaust hafnað í Biblíunni og af kristinni trú. Eingöngu það sem verður til, þ.e. á sér upphaf, á sér orsök. Guð varð hins vegar aldrei til. Hann er hin eilífa og nauðsynlega orsök alls annars en sjálfs sín. Spurningin um orsök á bara við um það sem á sér upphaf og er því orsakanlegt. Í ljósi þess að alheimurinn er ekki eilífur er fyllilega eðlilegt og viðeigandi að spyrja hver orsakaði eða skapaði alheiminn. En sú spurning á ekki við þegar Guð er annars vegar.

Flokkar: Efi · Guð · Guðleysi · Guðstrú · Trúmál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur