Þriðjudagur 27.02.2018 - 17:37 - FB ummæli ()

Heimur án trúarbragða?!

Í athugasemd við grein sem ég skrifaði nýlega og fjallaði einkum um tilvist Guðs var mér bent á eina góða ástæðu fyrir því hvers vegna heiminum væri betur borgið án trúarbragða: Mannkynssagan! – sem sýnir að ekkert hefur stuðlað að meiri ófriði, drápum og hverskyns hörmungum en einmitt trúarbrögð.

Já, saga trúarbragða, þar á meðal kristinnar trúar, er sannarlega ekki að öllu leyti glæsileg. Það viðurkenni ég og skammast mín fyrir sem kristinn maður. Þrátt fyrir allt hið góða sem gert hefur verið og komið til leiðar í nafni kristinnar trúar er augljóst að í skjóli hennar hefur þrifist illska sem valdið hefur margvíslegri þjáningu. Ekki þarf annað en að hugsa til trúarofsókna, t.d. krossferða miðalda, og annars ofbeldis og óhæfuverka sem framin hafa verið í nafni kirkjunnar og kristinnar trúar. Og sem kristnum manni hryllir mér við því og tek undir með hverjum þeim sem fordæmir það.

Nú vil ég ekki tala máli annarrar trúar en minnar eigin. En enginn vafi leikur á því að þeir sem beita ofbeldi, ofríki eða stunda ofsóknir í nafni kristinnar trúar ganga þvert gegn orðum og boðskap Jesú sjálfs. Ofbeldi í nafni kristinnar trúar getur aldrei verið kristið. Það er því mikilvægt að gera greinarmun á kristindómi eða kristnu fólki annars vegar og boðskap Jesú og kristinni trú hins vegar. Það fer því miður ekki alltaf saman.

Að vera kristinn felur í sér að fylgja boðskap Jesú í orði og verki. Og Jesús talaði mjög skýrt gegn hverskyns ofbeldi og ofríki í sínu nafni. Þegar lærisveinninn Pétur greip til sverðsins til þess að vernda Jesú í Getsemanegarðinum sagði Jesús honum að leggja það frá sér með þeim orðum að sérhver sá sem sverði brygði mundi falla fyrir því. Jesús sagði líka fylgjendum sínum að leggja af hatur og óvild en elska óvini sína og biðja fyrir þeim. Og við Pílatus sagði hann að ríki sitt væri ekki af þessum heimi, ella hefðu fylgjendur hans barist. Með öðrum orðum lagði Jesús blátt bann við beitingu ofbeldis og ofríkis í sínu nafni.

Framganga kristins fólks, eins dapurleg og sorgleg og hún getur verið, er því enginn dómur yfir boðskap Jesú eða kristinni trú sem slíkri, heldur til vitnis um það sem getur búið í hjarta og huga mannsins. Og ef sagan (og kristin trú) segir okkur eitthvað er það að maðurinn er ófullkominn. En ef allir vöknuðu á morgun staðráðnir í því að fara eftir orðum Jesú um náungakærleika og laga líf sitt að þeim þá mundi margt breytast í heiminum. Og þegar hugsað er til alls þess fólks sem raunverulega og í einlægni hefur í gegnum aldirnar fylgt orðum Jesú og hrint þeim í framkvæmd, þá er raunin sú að framlag þess til mannúðar og menningar, lærdóms og lista í heiminum er ómetanlegt og verður ekki mælt – enda þótt guðleysingjar á borð við Richard Dawkins telja sig geta strokað út þeirra hlut í sögunni með nokkrum setningum í bók.

En í þessu samhengi hafa guðleysingjar líka tilhneigingu til að líta framhjá sögulegum þætti sinnar eigin lífsskoðunar. Það hefur vissulega verið gerð tilraun til þess að útrýma trúarbrögðum og koma á fót samfélagi sem byggir á guðlausri hugmyndafræði. Nægir þar að hugsa til Stalíns í Sovétríkjunum, Maós í Kína og Pol Pots í Kambódíu. En leiddi sú tilraun til hins fullkomna, upplýsta og framfarasinnaða samfélags þar sem umburðarlyndi og náungakærleikur var allt í öllu og illska, hörmungar og þjáningar heyrðu sögunni til? Nei, þvert á móti. Tugir og aftur tugir milljóna manna týndu lífinu í gúlaginu, í menningarbyltingunni og á vígvöllum rauðu khmeranna, og þegar yfir lauk reyndist 20. öldin, sem átti að marka endalok trúarbragða, vera blóðugasta öld mannkynssögunnar.

Aleksander Solzhenitsyn, sem komst lífs af úr gúlaginu, tók til orða með afdráttarlausum og ögrandi hætti:

„Ef ég væri í dag beðin um að koma eins skýrum orðum og mögulegt er að ástæðunni á bak við hina hörmulegu uppreisn sem gleypt hefur um 60 milljónir af fólkinu okkar, þá gæti ég ekki gert betur en að segja: Menn hafa gleymt Guði! Það er ástæðan fyrir öllu því sem hefur gerst. Og væri ég beðin um að greina megineinkenni gjörvallrar 20. aldarinnar gæti ég ekki sagt neitt sem væri réttara eða afdráttarlausara en það: Menn hafa gleymt Guði! Andspænis hinum vanhugsuðu væntingum síðastliðinna tveggja alda, sem hafa máð út mikilvægi okkar, og komið okkur hársbreidd frá kjarnorkudauða og annars konar dauða, getum við ekki lagt neitt til annað en einbeitna leit að hlýrri hönd Guðs, sem við höfum svo fljótfærnislega og af svo miklum sjálfbirgingshætti slegið á móti. Aðeins þannig getum við opnað augu okkar fyrir mistökum þessarar óheilla aldar með það að marki að leiðrétta þau. Það er ekkert annað að finna sem nokkuð hald er í: Sýn allra hugsuða Upplýsingarinnar til saman er einskis nýt þegar allt kemur til alls.“

Margir guðleysingjar gera sitt besta til að sýna fram á að ofbeldi, grimmd, stríð og þjáning sé kjarni kristinnar trúar og það eina sem beri henni vitni í sögunni. Á sama tíma loka þeir augunum fyrir sögu guðleysisins. Slíkt viðhorf er hins vegar eins sögulega rangt og það er fráleitt.

Kjarni kristinnar trúar er Jesús Kristur, sem kallaði hina hógværu, miskunnsömu, hjartahreinu og friðflytjandi sæla; sem hvatti sérhvern til að vera skjótan til sátta við andstæðing sinn og ekki rísa gegn þeim sem gerir sér mein, heldur elska óvin sinn eins og sjálfan sig og biðja fyrir ofsækjendum sínum.

Þótt trú eða vantrú hafa ekkert að gera með getu okkar til að lifa siðferðilega góðu lífi er vert að spyrja sig hvort sé líklegra til þess að efla manninn í viðleitni sinni til að skapa frið og samlyndi í heiminum, boðskapur á borð við þann sem Jesús flytur, eða boðskapur guðleysingja á borð við Richard Dawkins, sem leggur áherslu á að lífið og tilveran sé „einmitt eins og við má búast, ef það er, þegar öllu er á botninn hvolft, engin hönnun [þ.e. Guð], enginn tilgangur, ekkert illt og ekkert gott, aðeins blint miskunnarlaust tómlæti.“

En hvert sem svar okkar er þá ber okkur að berjast gegn blindri hugmyndafræði sem tekur ofbeldi og ofríki í þjónustu sína, hvort heldur sú hugmyndafræði byggist á trú eða vantrú.

Flokkar: 20. öldin · Guðleysi · Guðstrú · Heimsskoðun · Kommúnismi · Kristin trú · Richard Dawkins · Trúarbrögð

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Jóhannesson
er guðfræðingur, prestur og áhugamaður um málefnalega og skynsamlega umræðu um trú í nútímasamfélagi.

Hér getur þú fylgst með mér á facebook
RSS straumur: RSS straumur