Mánudagur 01.04.2013 - 18:47 - FB ummæli ()

Hugmyndir um nýtt peningakerfi

Happalaus peningastjórn er landlæg á landi voru. Haustið 1989 kom ég til Íslands í boði Steingríms Hermannssonar, forsætisráðherra, til viðræðna um efnahagsmál.  Á fundi með ráðherrum nefndi ég m.a. að útlán bankanna hefðu hækkað 35-falt síðasta áratuginn og að svo hefði líka verið áratuginn á undan. Afnám hafta á fjármagnsflutningum til og frá Íslandi var í umræðunni á þessum tíma og taldi ég afnám vera glapræði á meðan útlánaþenslu bankanna væri ekki stjórnað. Ráðherra bankamála maldaði í móinn og sagði tímabært að Ísland tæki upp nútímalegt fyrirkomulag slíkra mála. Innan tíðar gekk það eftir.

Áratug síðar var tekið annað afdrifaríkt skref í nútímaátt með einkavæðingu Búnaðarbankans og Landsbankans. Það með var tendraður kveikjuþráður þeirrar sprengingar sem rústaði hagkerfið í október 2008. Í dag er því haldið fram af talsmönnum nýs peningakerfis á Íslandi, svokallaðs heildarforðakerfis, að hrunið hafi orðið vegna galla í bankakerfinu en ekki vegna ákvarðana stjórnvalda um afnám hafta á fjármagnsflutningum og eftirlitslausrar útlánaþenslu bankakerfisins undir stjórn vanhæfra eigenda.

Hugmyndin um heildarforðakerfi varð til í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar í Bandaríkjunum. Kreppan olli vantrú á ríkjandi efnahagskerfi en  efldi trú á áætlunarbúskap að hætti Sovétríkjanna sem stjórntæki til að útiloka efnahagssveiflur og atvinnuleysi. Þekktasti hagfræðingur tuttugustu aldar, Paul A. Samuelson, lofaði ágæti sovétkerfisins um árabil eftir síðari heimsstyrjöld. Heildarforðakerfið byggir á miðstýringu peningamála sem verður ekki umflúin í áætlunarbúskap að sovézkum hætti.

Stofnandi brezku samtakanna Positive Money, sem boða ágæti heildarforðakerfisins á þeim forsendum sem gert var í kreppunni miklu, flutti nýlega fyrirlestur í Háskóla Íslands. Þar nefndi hann álit lávarðar nokkurs sem telur kreppuna sem skall á 2007 stafa af því að nýsköpun peninga við útlánaþenslu einkabankakerfisins hefði ekki verið „takmörkuð‟ (e. constrained). Fyrirlesarinn taldi álitið styðja boðskap Positive Money, og fullyrti að nú væri það ríkjandi (e. mainstream) skoðun að kreppan væri sprottin af því að „bönkum hefði verið leyft að búa til peninga” (e. allowing banks to create money).

Þetta er ekki rétt.

Í flestum hagkerfum heims er það hlutverk seðlabanka og fjármálaeftirlits að setja nýsköpun peninga af hálfu banka (útlánaþenslu) tilhlýðileg takmörk. Í starfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um langt árabil tók ég þátt í ákvörðun slíkra takmarka, en þau eru einatt lykilatriði í efnahagsáætlunum AGS og aðildarríkja sem glíma við óstöðugleika á fjármálamarkaði og halla á greiðslujöfnuði.

Ef það væri ríkjandi skoðun að ástæða slíkra erfiðleika væri að „bönkum hefði verið leyft að búa til peninga”, þá myndi þess gæta í ráðleggingum AGS til viðkomandi aðildarríkja, en þess sjást engin merki.  En hagræðing staðreynda er í sjálfu sér ekki áfellisdómur yfir boðskap Positive Money sem hlýtur að standa eða falla með kostum eða göllum þeirrar peningahagfræði sem hann byggir á.

Frosti Sigurjónsson, sem þekkir meintar forsendur heildarforðakerfisins, sagði fyrir nokkru að nýir peningar væru í eðli sínu skattur.  Mikilsmetnir hagfræðingar frá James Mill um 1800 til Milton Friedmans á okkar tíð hafa byggt peningahagfræði sína á þessari túlkun.

Hún er rugl.

Nýir peningar í mynd útlána til frumkvöðla og atvinnufyrirtækja fjármagna aðföng – tæki, hráefni og vinnuafl – til nýrrar verðmætasköpunar. Þeir gera sprotafyrirtækjum kleift að umbreytast úr hugmynd í öflugan veruleika, efla atvinnutækifæri, og auka landsframleiðslu og ráðstöfunartekjur heimilanna.

Í markaðshagkerfum verða nýir peningar til við útlán bankakerfisins til lántakenda innan ramma laga og reglna. Það er því á ábyrgð löggjafarvaldsins og eftirlitsaðila ef stjórnendum lánastofnana er leyft að stunda útlánastarfsemi sem þjónar ekki verðmætasköpun í hagkerfinu samhliða fjármálalegu jafnvægi innanlands og viðunandi greiðslu- og skuldastöðu gagnvart útlöndum. Á Íslandi er hins vegar litið á óstöðugleika, verðbólgu og greiðsluhalla við útlönd sem nokkurs konar náttúrulögmál.

Í kosningunum 27. apríl fá Íslendingar tækifæri til að verða sinnar eigin gæfu smiðir. Viðfangsefni næsta kjörtímabils í peningamálum eru risavaxin og flókin, en ef vel tekst til má koma þeim í betra horf.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Tómasson
Ég er fæddur (1940) og uppalinn á Melunum í Reykjavík. Stúdent úr Verzlunarskóla Íslands 1960 og með hagfræðigráður frá Manchester University (1963) og Harvard University (1965). Starfaði sem hagfræðingur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá 1966 til 1989. Var m.a. aðstoðar-landstjóri AGS í Indónesíu 1968-1969, og landstjóri í Kambódíu (1971-1972) og Suður Víet-Nam (1973-1975). Hef starfað sjálfstætt að rannsóknarverkefnum á ýmsum sviðum frá 1989, þ.m.t. peningahagfræði. Var einn af þremur stofnendum hagfræðingahóps (Gang8) 1989. Frá upphafi var markmið okkar að hafa hugsað málin í gegn þegar - ekki ef - allt færi á annan endann í alþjóðapeningakerfinu. Í október 2008 kom sú staða upp í íslenzka peninga- og fjármálakerfinu. Alla tíð síðan hef ég látið peninga- og efnahagsmál á Íslandi meira til mín taka en áður. Ég ákvað að gerast bloggari á pressan.is til að geta komið skoðunum mínum í þeim efnum á framfæri.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar