Nýlega var viðtal við Vigdísi Hauksdóttur í DV um tillögur Framsóknarflokksins í skuldamálum heimilanna. Í samantekt DV á viðtalinu segir m.a.:
„Aðspurð segir hún að sérstakt efnahagsteymi innan Framsóknarflokksins hafi farið yfir og mótað þær tillögur sem flokkurinn leggi nú fram í efnahagsmálum. Það sé því fjarstæða að tillögur flokksins séu óraunhæfar og settar fram án þess að hafa verið vel ígrundaðar, líkt og sumir hafa haldið fram að undanförnu. Að mati Vigdísar eru þetta því mjög vel útpældar og vel skoðaðar hugmyndir sem flokkurinn leggur nú fram.“
Annað má þó ráða af umsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Framsóknarflokksins um tillögurnar í viðtali í Morgunblaðinu í gær, 13. apríl, 2013, en þar segir m.a.:
„Með setningu neyðarlaganna tókst að verja eignir, en í fjármálakerfinu eru eignir aðeins önnur hliðin á peningnum og skuldir eru hin hliðin. Fjármagn verður til með útlánum. Okkur þykir því eðlilegt að klára dæmið frá setningu neyðarlaganna og koma til móts við þá sem eru skuldsettir og töpuðu fjármagni með þeim hætti.“
Hér hefur eitthvað misfarist, annað hvort í ígrundun efnahagsteymisins, túlkun Sigmundar Davíðs á kjarna málsins eða framsetningu blaðamanns Mbl.
Hið rétta er að umræddar „eignir“ voru innstæður í fjármálakerfinu sem teljast til skulda kerfisins en ekki eigna.
Húsnæðisskuldir heimilanna eru hins vegar hluti af eignum fjármálakerfisins, en slíkar eignir eru m.a. fjármagnaðar af ínnstæðum og öðrum skuldum kerfisins.
Augljóslega krefst niðurfærsla á eignum kerfisins – húsnæðisskuldum – samsvarandi niðurfærslu á skuldum þesss, þ.m.t. innstæðum sem tryggðar voru af neyðarlögunum.
Með tillögum sínum vill efnahagsteymi Framsóknarflokksins hengja bakara fyrir smið – erlenda kröfuhafa í stað innlendra innstæðueigenda (háttvirtra kjósenda).