Alþingismenn sverja eið að stjórnarskrá Íslands – án undantekninga og undanbragða.
Á vefsíðu Mannréttindaskrifstofu Íslands segir svo um hornstein réttarríkis:
„Í 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar er eignarétturinn lýstur friðhelgur. Ákvæðið segir að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Er það þó gert að skilyrði að lagaheimild sé fyrir hendi og að fullt verð komi fyrir. Ákvæði 72. gr. tryggir eiganda fullar bætur við eignarnám og þær skerðingar sem að jafnaði verður til eignarnáms.“
Stjórnarskráin heimilar ekki mismunun eftir þjóðerni eða hentugleika stjórnvalda.
Annað mætti þó lesa úr svörum leiðtoga tveggja stærstu stjórnmálaflokkanna á eyjan.is þann 18. apríl við lykilspurningu kosningabaráttunnar:
Mun þinn flokkur leitast við að semja við erlenda kröfuhafa [um] leiðir til bestu niðurstöðu fyrir íslenskt samfélag?
Bjarni Benediktsson:
„Stutta svarið er já. Lengra svarið er að það er ljóst að það þarf verulegar afskriftir af þessum kröfum og ýtrustu hagsmuna íslensku þjóðarinnar verður gætt við lausn málsins. Í sjálfu sér eru kröfuhafarnir ekki í neinni stöðu til að semja við Íslendinga, nær væri að segja að þeir þyrftu að fella sig við skilyrði sem þeim verða sett.“
Í Icesave deilunni var afstaða brezkra og hollenskra stjórnvalda sú að Íslendinga þyrftu að fella sig við þau skilyrði sem þeim væru sett – og byggðu á lögleysu frá fyrstu tíð.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson:
„Að sjálfsögðu. Framsókn stóð allan tímann fast á hagsmunum Íslands í Icesave deilunni og í samningum við erlenda kröfuhafa er á sama hátt nauðsynlegt að ganga fram af fullri hörku til að verja hagsmuni þjóðarinnar. Erlendu kröfuhöfunum var ljóst frá upphafi að þeir voru að kaupa sig inn í stöðu sem þeir þyrftu að semja sig út úr. Í slíkum viðræðum er það grundvallarhlutverk íslenskra stjórnvalda að taka fast á kröfuhöfunum og setja hagsmuni íslands, heimila og atvinnulífs framar öllu öðru. Sérstaklega er vert að muna að fullveldisréttur ríkisins gerir samningsstöðu Íslands gríðarsterka og þann styrk mun Framsókn nota til fulls ef á þarf að halda. Eina ásættanlega niðurstaðan úr samningum við erlenda kröfuhafa er sú sem leiðir til bestu niðurstöðu fyrir íslenskt samfélag.“
Íslendingar þurftu að semja sig út úr ógöngum í Icesave deilunni þar sem Bretar og Hollendingar gengu fram af fullri hörku og settu meinta hagsmuni sinna þjóða framar öllu öðru.
Framsókn stóð þá jafn fast á hagsmunum þjóðar sinnar og hún stendur núna á því að eignarréttur erlendra kröfuhafa í þrotabú fallinna banka sé að engu hafandi – þar sem annað hentar betur.
Sigmundur Davíð útskýrði nánar hvert gagn mætti hafa af fullveldisrétti ríkisins:
„Íslenska ríkið hefur lagasetningarvaldið og skattlagningarvaldið til að leiða til lykta samninga við erlenda kröfuhafa og taka á snjóhengjunni og stjórnvöldum ber að nýta það vald til fulls svo að besta hugsanlega niðurstaða fáist fyrir Ísland.“
***
Íslands góða nafn, sem var, verður ekki endurheimt með ólögum.
Enda undanskilur sjötta boðorðið ekki löglegan þjófnað.
En hvernig má þá létta óbærilegar húsnæðisskuldir þúsunda heimila?
Einfaldast – og réttlátast – er að hagnýta þau ákvæði ESB/EES réttar sem banna verðtryggingu neytendalána og voru fest í íslenzkan rétt árið 2007:
Lánastofnanir, sem veittu verðtryggð húsnæðislán eftir innleiðingu ákvæða ESB/EES, standa í skuld við lántakendur vegna innheimtu ólöglegra afborgana og verðbóta.
Setning neyðarlaga á grundvelli fullveldisréttar ríkisins um leiðréttingu slíkrar innheimtu af hálfu lánastofnana myndu vissulega skapa erfiðleika fyrir lögbrjótana.
En kynslóðin, sem keyrði Ísland í þrot, myndi færa óbornum kynslóðum dýrmætan arf:
Íslands góða nafn.