Stefnuskrá XB segir Framsóknarflokkinn vera „frjálslyndan, umbótasinnaðan rökhyggjuflokk.”
Í upphafi lýsingar á stefnu XB segir síðan:
Við viljum …
… að svigrúm sem skapast við uppgjör þrotabúa bankanna verði nýtt til að leiðrétta stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán. Ekkert réttlætir að lánþegar sitji einir uppi með afleiðingar stökkbreytingar lána af völdum efnahagshrunsins.
I.
Í viðtali á Bylgjunni/Í Bítið 12. apríl sl. sýndi rökhyggja Boga Ágústssonar, fréttamanns hjá RÚV, sig m.a. í umsögn hans um þetta helzta kosningaloforð XB:
„Ég skil ekki hvernig að mörg hundruð milljarða skuldir geta orðið að ávinningi. Ég bara skil þetta ekki. Ég næ þessu ekki.
[…]
Þetta eru skuldir – ef ég skulda 400 milljónir, og síðan kemur einhver og segir, nei, þú skuldar ekki 400 þú skuldar 100, á ég þá skyndilega 300 milljónir?
Nei. Ég skulda aðeins minna … get ég þá farið út og eytt þessum pening?”
II.
Daginn eftir var Frosti Sigurjónsson í viðtali á Bylgjunni/Í Bítið og var spurður um viðbrögð sín við umsögn Boga.
„Þetta er algengur misskilningur hjá Boga,“ útskýrði Frosti, „hann fer að horfa á kröfurnar í búin en ekki eignir búanna. En eins og þið vitið þá eru það eignir búanna sem þetta snýst um og þær eru taldar vera 2500 milljarðar en kröfurnar eru miklu hærri. Og það er verið að tala um í þessari leið, þessar eignir eru innan gjaldeyrishafta og vogunarsjóðirnir þurfa að gera sér grein fyrir því að þeir þurfa að semja við íslenzk stjórnvöld til þess að komast út með eignirnar. Kröfuhafarnir eiga kröfur í þessar eignir [og þótt þeir þurfi að] semja um eftirgjöf eða tilslökun til ríkisins þá myndu þeir græða mjög vel. Þetta snýst um að þeir skilji eftir hérna einhvern skatt eða hluta af þessum ávinningi – samt ekki skattur heldur meira svona leiðrétting.“
III.
Í hverju felst þá „algengur misskilningur” Boga?
Myndi „svigrúm skapast við uppgjör þrotabúa bankanna [sem hægt væri að] nýta til að leiðrétta stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán“ ef kröfuhafar gæfu eftir t.d. 300 milljarða af 400 milljarða krónukröfum sínum?
Frosti lætur að því liggja að svarið sé JÁ – og að rökhyggju Boga sé ábótavant.
IV.
Krónueignir þrotabúa bankanna eru einkum skuldabréf ríkisins og reiðufé og 300 milljarða eftirgjöf kröfuhafa myndi því lækka skuldastöðu ríkissjóðs um 300 milljarða.
Hrein skuldastaða ríkissjóðs er geigvænleg og slík lækkun væri fagnaðarefni.
En hún skapar EKKI „svigrúm til að leiðrétta stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán“.
Skuldaleiðrétting úr ríkissjóði myndi því krefjast enn frekari skuldsetningar ríkissjóðs.
Afkomendur hrunkynslóðarinnar myndu síðan borga brúsann..
V.
Með öðrum orðum:
Frosta brást bogalistin en rökhyggja – almenn skynsemi – brást ekki Boga.
VI.
Lýðræðisvaktin telur mjög brýnt að leiðrétta stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán.
Ekki með barbabrellum og yfirboðum heldur með almenna skynsemi að leiðarljósi.
VII.
Sbr. umsögn Þorvaldar Gylfasonar á Facebook í gær:
„Lýðræðisvaktin stendur með lögum og rétti. Reynist framkvæmd verðtryggingar ekki standast lög, þurfa lánastofnanir að bæta lántakendum skaðann. Hvað ætli önnur framboð segi um þetta?”
VIII.
Sbr. niðurlagsorð bloggfærslu minnar, Illt er að vera þjófsnautur – Af lögum og ólögum:
Íslands góða nafn, sem var, verður ekki endurheimt með ólögum.
Enda undanskilur sjötta boðorðið ekki löglegan þjófnað.
En hvernig má þá létta óbærilegar húsnæðisskuldir þúsunda heimila?
Einfaldast – og réttlátast – er að hagnýta þau ákvæði ESB/EES réttar sem banna verðtryggingu neytendalána og voru fest í íslenzkan rétt árið 2007:
Lánastofnanir, sem veittu verðtryggð húsnæðislán eftir innleiðingu ákvæða ESB/EES, standa í skuld við lántakendur vegna innheimtu ólöglegra afborgana og verðbóta.
Setning neyðarlaga á grundvelli fullveldisréttar ríkisins um leiðréttingu slíkrar innheimtu af hálfu lánastofnana myndu vissulega skapa erfiðleika fyrir lögbrjótana.
En kynslóðin, sem keyrði Ísland í þrot, myndi færa óbornum kynslóðum dýrmætan arf:
Íslands góða nafn.