Ólafur Arnarson skrifar (Tímarím, 10. maí):
TARP leið [Hægri Grænna] hefur þá kosti að hún kostar skattgreiðendur ekki krónu og þar sem lánin eru keypt út úr bankakerfinu á fullu verði er ekki gengið á eignarrétt nokkurs manns. Hvort tveggja ætti að hugnast sjálfstæðismönnum. Að auki er hægt að hrinda henni í framkvæmd hratt og þannig standa við þetta stóra kosningaloforð Framsóknarflokksins strax í upphafi kjörtímabilsins. Þessu til viðbótar hreinsar TARP leiðin verðtrygginguna út úr íslensku lánaumhverfi í einu vetfangi og leggur þannig góðan grunn að afnámi verðtryggingar á lán til neytenda.
Úr Stefnuskrá Hægri Grænna:
Hægri grænir, flokkur fólksins hefur skoðað hugmyndir um nýtt peningamarkaðskerfi [þ.e. svonefnt heildarforðakerfi] og flokkurinn telur það nauðsynlegt að taka það upp við innleiðingu Kynslóðasáttarinnar sem er leiðrétting á verðtryggðum skuldum heimilanna frá 1. nóvember 2007.
Umsögn:
1. Leið XG að markmiði XB byggir á yfirtöku seðlabankans á 1.200 milljörðum af verðtryggðum húsnæðislánum.
2. Ný deild Seðlabanka Íslands myndi greiða lánveitendum höfuðstól þeirra með láni frá seðlabankanum.
3. Lánið væri fjármagnað með seðlaprentun og myndi bera 0,01% ársvexti.
4. Höfuðstóll alllra lána væri síðan lækkaður um 45% og umbreytt í óverðtryggð lán á 7,65% ársvöxtum.
5. Jákvæður vaxtamunur sjóðs seðlabankans væri því 7,64%.
6. Eftir 9 ár myndi vaxtamunurinn jafngilda höfuðstólslækkun lánanna.
7. Ef ekki kæmi annað til, myndi peningamagn í umferð aukast um 1.200 milljarða.
8. Og leiða til óðaverðbólgu.
9. Því taldi XG nauðsynlegt að 1.200 milljarða eign lánveitenda væri fryst í Seðlabanka Íslands.
10. Slík sértæk peningaaðgerð krefst hins vegar ekki upptöku nýs peningamarkaðskerfis.
***
Efnahagslegt og stjórnmálalegt sjálfstæði Íslands er að renna þjóðinni úr greipum.
Og íslenzk stjórnmálastétt veit ekki sitt rjúkandi ráð.
Örlagaríkir tímar fara í hönd.