Í frétt á vísir.is undir fyrirsögninni „Þeir vissu betur,” segir Sigmundur Davíð „fráfarandi ríkisstjórn hafa beitt blekkingum þegar kom að fjárhagsstöðu ríkisins“.
Blaðamaður spyr: „Hvað ertu að tala um háar upphæðir?“
Sigmundur Davíð svarar: „Það fer eftir því að hvað maður tekur margt í reikninginn en þegar allt er talið þá nemur þetta tugum milljarða.“
Hvernig geta nokkrir tugir milljarða vafist fyrir ríkisstjórn undir forsæti XB?
Eða var meint hundruð milljarða „svigrúm“ úr ranni hrægammasjóða sem fleytti XB til sigurs e.t.v. blekking?
Bogi Ágústsson lét að því liggja í viðtali á Bylgjunni 12. apríl sl.:
„Ég skil ekki hvernig að mörg hundruð milljarða skuldir geta orðið að ávinningi. Ég bara skil þetta ekki. Ég næ þessu ekki.“
Næsta dag var umsögn Boga borin undir Frosta Sigurjónsson.
„Þetta er algengur misskilningur hjá Boga,” sagði Frosti, „hann fer að horfa á kröfurnar í búin en ekki eignir búanna.“
Algengur misskilningur?
Svo ýmsir aðrir en Bogi höfðu bent XB á hið augljósa:
„Þetta eru skuldir – ef ég skulda 400 milljónir, og síðan kemur einhver og segir, nei, þú skuldar ekki 400 þú skuldar 100, á ég þá skyndilega 300 milljónir?“ sagði Bogi.
„Nei,” svaraði hann og bætti við:
„Ég skulda aðeins minna [og] get ég þá farið út og eytt þessum pening?”
Vitaskuld ekki – og það er blekking að halda öðru fram við íslenzka kjósendur.