Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra sátu fyrir svörum í Kastljósi 23. maí.
„Á að afnema verðtrygginguna?‟ spurði Helgi Seljan.
„Það er rætt um það í stjórnarsáttmálanum að horfa sérstaklega á neytendalánin,‟ svaraði Bjarni, „og það er sérstakt markmið beggja flokka og það var stefnumál hjá okkur að draga mjög úr notkun hennar almennt í neytendalánum og sérstaklega í húsnæðislánum. Þetta þarf að eiga sér einhvern aðdraganda, þó ekki væri nema vegna þess að Íbúðalánasjóður er með allar sínar skuldbindingar í verðtryggðum lánum og það er ekki hægt að setja hann í þá stöðu, bara eins og hendi sé veifað, að vera með allar skuldbindingarnar þannig en breyta öllum eignunum í óverðtryggðar.‟
„Hins vegar hefur alltaf legið ljóst fyrir,‟ bætti Sigmundur Davíð við, „að verðtryggingu þyrfti að afnema fram í tímann vegna þess að lög gilda fram í tímann. Það er ástæðan fyrir því að menn eru, á sama tíma og þeir tala um afnám verðtryggingar, að tala um leiðréttingu – annars vegar ertu með fortíðina og hins vegar framtíðina.‟
Hjá Íbúðalánasjóði (ÍLS) renna fortíðar- og framtíðarvandi saman í eitt. Við síðustu áramót námu útlán ÍLS um 770 milljörðum og tap árið 2012 var um 8 milljarðar. Það virðist því blasa við að (i) ríkissjóður verði að leggja ÍLS til tugi milljarða og/eða (ii) ÍLS verði settur í slitameðferð.
Í fyrri umsögnum um málið hef ég lagt áherzlu á að engin tæknileg vandamál standa í vegi fyrir tafarlausri leiðréttingu húsnæðislána með fjármögnun úr Seðlabanka eftir þeirri leið sem Hægri Grænir lögðu til fyrir kosningar.
En ef sú leið yrði farin myndu árlegar vaxtatekjur af útlánum ÍLS minnka um 30-35 milljarða, og er þá miðað við 4.5% ársvexti á verðtryggð lán sjóðsins.
Skuldaleiðrétting á sumarþingi?
Nei!