Þriðjudagur 02.07.2013 - 19:20 - FB ummæli ()

Leiðréttingarleið XB ógnar stöðugleika

„Það er furðulegt hversu víða birtist þrá um að Framsóknarmenn hverfi frá einbeittum vilja til að koma til móts við íslensk heimili. Þeim sem vilja koma því til leiðar mun ekki verða að ósk sinni.” (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Afnám og leiðrétting. Þetta er einfalt, 15. marz 2013.)

Í þingsályktunartillögu Alþingis um málið er fjallað um einn valkost í þessu sambandi:

„Gerð verði úttekt á kostum og göllum þess að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð vegna húsnæðislána. Ef bið verður á því að samningar náist við kröfuhafa væri mögulegt að setja á fót leiðréttingarsjóð vegna húsnæðislána til að aðgerðir í þágu lántaka komist fyrr til framkvæmda og til að tryggja gagnsæi og eftirlit með leiðréttingunum. Ekki er gert ráð fyrir að peningamagn í umferð aukist með tilkomu slíks sjóðs.”

Hér verða leidd rök að því að leiðréttingarsjóðsleiðin myndi ógna fjárhagslegum og efnahagslegum stöðugleika.

Sviðsmynd.

1. Gera skal 25% leiðréttingu á 1.200 ma. verðtryggðum húsnæðislánum í gegnum leiðréttingarsjóð (LS).

2. Íbúðalánasjóður (ÍLS) á 800 ma. af heildinni en aðrir aðilar 400 ma.

3. Seðlabanki Íslands (SÍ) veitir LS 1.200 ma. vaxtalaust stofnfjárlán með færslu á reikning LS við SÍ.

4. LS innleysir útistandandi lán með 1.200 ma. millifærslu á óverðtryggða bundna reikninga ÍLS og annarra aðila við SÍ.

5. Lánin eru leiðrétt í 900 ma. óverðtryggð lán með 4% ársvöxtum og 45 ma. ársgreiðslum yfir 20 ár.

6. Á fyrsta ári innheimtir LS samtals 81 ma. af lánunum (45 ma. afborganir og 36 ma. vextir).

7. Á fyrsta ári eru neikvæð áhrif á sjóðstreymi ÍLS um 76 ma. miðað við (a) enga verðbólgu, (b) jafnar afborganir af 800 ma. höfuðstól og (c) 4% ársvexti (40 ma. afborganir og 36 ma. vextir).

8. Á fyrsta ári eru neikvæð áhrif á sjóðstreymi annarra aðila um 38 ma. (20 ma. afborganir af 400 ma. höfuðstól og 18 ma. vextir).

9. Á fyrsta ári eru því neikvæð áhrif á sjóðstreymi ÍLS og annarra aðila samtals 114 ma. (76 + 38 = 114 ma.)

10.  Þensluverkandi áhrif leiðréttingarinnar á peningamagn í umferð eru því 33 ma. (114 – 81 = 33 ma.).

11. „Ekki er gert ráð fyrir að peningamagn í umferð aukist með tilkomu slíks sjóðs”, segir í þingsályktun Alþingis um aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar.

12. Á ofangreindum forsendum stríðir leiðréttingarleiðin gegn þessu markmiði.

„Teymi fagaðila leggi fram tillögur um fjármögnun sjóðsins, sér í lagi aðkomu ríkissjóðs og aðkomu lánveitenda auk greiðsluflæðis”, segir einnig í þingsályktun Alþingis.

Sviðsmyndin er grunnmynd sem endurspeglar helztu breytistærðir sem teymið hefði úr að spila til að ná fram markmiði ríkisstjórnarinnar varðandi áhrif LS á peningamagn í umferð.

Sjálf grunnmyndin er óraunhæf þar sem verðbólga er ekki tekin með í reikninginn. Ef ársverðbólga væri t.d. 5% myndi raunvirði innstæðna ÍLS og annarra aðila hjá SÍ rýrna um samtals 60 ma. á fyrsta ári.

Án aðgerða á tekju- og/eða útgjaldahlið fjárlaga – skattahækkana eða niðurskurðar útgjalda – getur ríkissjóður ekki bætt ÍLS og öðrum aðilum þá rýrnun án innlendrar eða erlendrar skuldsetningar upp á 60 ma.

Leiðréttingarsjóðsleiðin ógnar því fjárhagslegum og efnahagslegum stöðugleika.

Ríkisstjórn XB og XD hefur því um tvennt að velja:

(a) Að koma ekki til móts við íslenzk heimili.

(b) Að koma til móts við íslenzk heimili eftir öðrum leiðum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Tómasson
Ég er fæddur (1940) og uppalinn á Melunum í Reykjavík. Stúdent úr Verzlunarskóla Íslands 1960 og með hagfræðigráður frá Manchester University (1963) og Harvard University (1965). Starfaði sem hagfræðingur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá 1966 til 1989. Var m.a. aðstoðar-landstjóri AGS í Indónesíu 1968-1969, og landstjóri í Kambódíu (1971-1972) og Suður Víet-Nam (1973-1975). Hef starfað sjálfstætt að rannsóknarverkefnum á ýmsum sviðum frá 1989, þ.m.t. peningahagfræði. Var einn af þremur stofnendum hagfræðingahóps (Gang8) 1989. Frá upphafi var markmið okkar að hafa hugsað málin í gegn þegar - ekki ef - allt færi á annan endann í alþjóðapeningakerfinu. Í október 2008 kom sú staða upp í íslenzka peninga- og fjármálakerfinu. Alla tíð síðan hef ég látið peninga- og efnahagsmál á Íslandi meira til mín taka en áður. Ég ákvað að gerast bloggari á pressan.is til að geta komið skoðunum mínum í þeim efnum á framfæri.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar