Rússneski auðjöfurinn Boris Berezovsky, sem dó skyndilega í London sl. marz – sjá The Economist, http://www.economist.com/blogs/easternapproaches/2013/03/oligarchs-sudden-death – vék að meintu hlutverki Íslands í peningaböðun fyrir rússnesku mafíuna í sjónvarpsviðtali snemma árs 2009. Hluti af viðtalinu er á slóðinni http://www.youtube.com/watch?v=JI3NqnjzUFw
Berezovsky víkur að Íslandi þegar 2 mín. 50 sek. eru búnar af viðtalinu, og segir Ísland vera gott dæmi um verklag rússneskra auðjöfra að taka bankalán og borga þau ekki til baka. Síðan segir hann orðrétt:
„And you remember three months ago, Russian government decreed that they would help Iceland. And Russia is so strong that they are able to help even a member of NATO. And the trick is very simple because Russian top-level bureaucrats like Putin, like others – and the oligarchs together they create a system how to operate in the West, how to use this fantastic money to buy assets and so on. And they find a very clever solution. They took a country and bought the country which is a member of NATO and not a member of EU, because regulations are different. They put a lot of money, dirty money into it…”
Lausleg þýðing:
„Og þú manst að fyrir þremur mánuðum ákváðu rússnesk stjórnvöld að hjálpa Íslandi. Rússland væri svo öflugt að það gæti jafnvel hjálpað aðildarríki NATO. Og brellan er mjög einföld. Kerfiskallar í fremstu röð eins og Putin og aðrir – sameiginlega sköpuðu menn í stjórnklíkunni kerfi sem gerði þeim kleift að nota þennan ævintýralega auð til að kaupa eignir í vestrinu. Það var djöfuls snilldarlausn: þeir fundu land og keyptu landið sem er aðildarríki NATO en ekki aðildarríki ESB, þar sem reglugerðir eru öðru vísi. Þeir settu fullt af peningum, svörtum peningum í það….”
Jóhannes Björn nefndi viðtalið á vefsíðu sinni 17. febrúar 2009 (http://vald.org/greinar/090217/) og vísar síðan í innlegg mitt á bloggi Egils Helgsonar um þróun vergra vaxtagreiðslna þjóðarbúsins frá 2004 til 2008 skv. hagtölum Seðlabanka Íslands.
Sú þróun er augljóslega ótrúverðug – en engin skýring hefur fengist:
Nýlega komu fram ásakanir í breska sjónvarpinu þess eðlis að íslensku bankarnir hafi stundað peningaböðun fyrir rússnesku mafíuna. Ef þetta er rétt þá útskýrir það margt í þessu ferli sem oft hefur verið harla undarlegt. Gunnar Tómasson skrifaði nýlega á blogg Egils:
„Aukning vaxtaútgjalda þjóðarbúsins úr 1/25 hluta vergrar landsframleiðslu 2004 í 1/3 hluta árið 2008 jafngildir blóðmjólkun samfélagsins.
Enn er óvíst hvað þar bjó að baki – en ekki er hægt að útiloka að íslenzk fjármálafyrirtæki og svartir erlendir peningar komi þar við sögu.
Eins er margt furðulegt í atvikarás síðasta árs innanlands og utan sem vekur spurningar:
Af hverju vildi U.S. Federal Reserve Board ekki hjálpa Seðlabanka Íslands?
Af hverju hikuðu íslenzk stjórnvöld við að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins?
Af hverju beittu Bretar hryðjuverkalögum á Landsbanka Íslands?
Af hverju hefur Geir Haarde ekki rætt við Gordon Brown síðan?
Af hverju vill Davíð Oddsson ekki tjá sig um málið?
Af hverju hika íslenzk stjórnvöld við að leggja deiluna við Breta fyrir dómstóla?
Af hverju reifaði rússneski sendiherrann $4 milljarða lán til Íslands?
Af hverju tóku íslenzk stjórnvöld það tal alvarlega?
O.s.frv.
Ég veit ekki – en óttast sum – svörin við þessum spurningum.”
***
Ég benti formanni Rannsóknarnefndar Alþingis, Páli Hreinssyni, á þessa dularfullu meintu aukningu á vaxtaútgjöldum þjóðarbúsins frá 2004 til 2008.
Páll þakkaði upplýsingarnar, en engin svör var að finna í Skýrslu Rannsóknarnefndarinnar.