Sunnudagur 14.07.2013 - 18:05 - FB ummæli ()

IV. Setti seðlabankinn Ísland á hausinn?

I. Dirk Bezemer, hollenskur hagfræðiprófessor og Gang8 kollegi minn skrifaði grein í Financial Times 7. september 2009, „Hvers vegna sumir hagfræðingar gátu séð kreppuna fyrir”. Þar segir í upphafi (lausleg þýðing):

„Allt frá upphafi lánsfjárkreppunnar hefur það verið viðtekin speki að „enginn sá þetta fyrir”. Blaðamaður Times skrifaði um „þá sem brugðust og gerðu sér ekki grein fyrir alvarleika kreppunnar“ – þar á meðal „nær allir leiðandi hagfræðingar og fjármálaspekingar heims”. Seðlabankastjóri Ástralíu sagði: „Ég veit ekki um neinn sem spáði þessari framvindu mála. En hún er staðreynd og það dregur dilk á eftir sér, og þess vegna verðum við að hugleiða málið.” Það eru orð að sönnu.

Því staðreyndin er sú að margir sáu kreppuna fyrir. Þeir voru virtir að vettugi af ráðandi öflum sem, eins og seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Alan Greenspan, viðurkenndi í vitnisburði fyrir þingnefnd í október 2008, fylgdust með „í losti og utangátta” þegar „gjörvöll hugmyndafræðileg heimsmynd þeirra hrundi sumarið [2007]”. Opinber haglíkön voru blind á kreppuna en ekki vegna óvenjulegra aðstæðna eins og okkur er oft sagt. Þau voru hönnuð blind. Í heimi þar sem skuldir eru ekki til geta skuldir ekki orsakað kreppu (e. debt deflation recession). Stjórnvöld hafa gert þennan þykjustuheim að sínum. Þau þurfa að breyta um íverustað hið bráðasta.”

 

II. Dirk hafði m.a. eftirfarandi umsögn mína frá 1999 til Gang8 kollega til hliðsjónar (lausleg þýðing):

„Sjálfur hef ég verið sannfærður frá miðjum áttunda áratug:

(a) að núverandi fyrirkomulag alþjóðapeningakerfisins er dauðadæmt;

(b) að ríkjandi peningahagfræðingar hafa ekki grænan grun hvers vegna;

(c) að hugmyndir þeirra um „kerfisbætur” eru því einskis virði;

(d) að peningahagfræði verður að endurbyggjast frá grunni;

(e) að slík endurbygging er forsenda endurbóta á alþjóðapeningakerfinu;

(f) að ráðandi öfl virða slíka röksemdafærslu að vettugi;

(g) að, ef ekki kemur til blóðug bylting, þá verða atvik að steypa þeim af stóli;

(h) að slík atvik verða að gerast á heimaslóðum ráðandi afla;

(i) að meðfylgjandi ringulreið muni ryðja nýjum hugmyndum braut.”

 

III. Lord Adair Turner, fv. forstjóri brezka fjármálaeftirlitsins, sat nýlega fyrir svörum í Oxford Union um aðdraganda kreppunnar. Orð hans staðfestu umsögn okkar Dirks hér að ofan.

Í upphafi lýsti Lord Adair fræðilegum bakgrunni málsins og lagði áherzlu á nær öll lykilatriðin sem ég tiltók í Silfri Egils 9. febrúar 2009:

(a) Fyrir 30-40 árum fóru menn að hugsa um fjármagnsmarkaðinn sem hvern annan markað;

(b) Í kjölfarið létu menn sig engu varða tilhneigingu markaðsafla sem að lokum keyrðu allt um koll;

(c) Fjármálamarkaðurinn stækkaði sífellt miðað við stærð hagkerfa einstakra þjóða og heimsins alls;

(d) Þetta sést bezt á sívaxandi hlutfalli skuldsetningar miðað við framleiðslu raunverðmæta.

Síðustu fjögur árin, bætti Lord Adair við, þá hefur hann smám saman verið að vakna til meðvitundar um hversu djúpstæð aðsteðjandi kreppa er.

 

IV. Efnislega séð á kreppan rætur að rekja til þáttar (d) hér að ofan.

Í fyrirlestri sem ég hélt haustið 1982 í boði Verzlunarráðs Íslands útskýrði ég þetta atriði með samlíkingu við yfirbyggingu (pappírsverðmæti) skips (í raunhagkerfinu).  Sífelld hlutfallsleg stækkun yfirbyggingar skips ógnar stöðugleika þess og, á tímapunkti og við aðstæður sem ekki verða tilteknar fyrirfram, þá mun skipinu hvolfa.

Eins og ég benti á í Silfri Egils 9. febrúar 2009, þá stríðir samlíkingin gegn grundvallarforsendu ríkjandi hagfræði sem Alan Greenspan gerði að umtalsefni í október 2008:

Að markaðshagkerfi heims séu „kerfi í ‘stöðugu‘ jafnvægi” í gegnum aldur og ævi.

Í bréfaskiptum við Paul A. Samuelson, höfund forsendunnar og þekktasta hagfræðings á síðari helmingi síðustu aldar, benti ég á að samkvæmt skilgreiningu hans hafi Titanic verið í „dýnamísku jafnvægi” á jómfrúarsiglingunni yfir Atlantshaf allt þar til skipið endaði í kyrrstöðu á hafsbotni.

 

V. Í Reykjavíkurbréfi Mbl. dags. 14 júlí 2013 lýsir Davíð Oddsson sýn sinni á þessa atvikarás í stuttu máli sem hér segir:

„Eftir „hrun“ hér á landi hafa menn bugtað sig sérstaklega fyrir hagfræðingum. Svo ágætir sem þeir eru margir, kom ekki nokkur stétt nær því að skapa skilyrði í aðdraganda þess sem varð um víða veröld, en sú stétt. Heimurinn hefur gengið í gegnum marga fjármálakreppuna. En fullyrða má að sú síðasta var undirbúin af fjölmennari hópi hámenntamanna í efnahags og fjármálafræðum en heimurinn hefur nokkru sinni séð glitta í. Þúsundir hagfræðinga og annarra „fagmanna“ í Seðlabanka Bandaríkjanna, Seðlabanka evrunnar og hinum risavöxnu bankastofnunum heimsins höfðu fram á síðustu stundu ekki grænan grun um hvað væri að skella á þeim. Og ekki voru íslensku snillingarnir síður galvaskir hér. Óþarfi væri að gera veður úr því, ef ekki væri fyrir þá sem dregið hafa upp myndir af sjálfum sér í kjölfarið, sem eiga enga samsvörun í raunveruleikanum og má finna slæm dæmi þess í fyrstu rannsóknarskýrslunni.”

 

VI. Roger Boyes, blaðamaður hjá The Times (diplomatic editor), fór í saumana á aðdraganda umrædds „hruns” hér á landi í bók, Meltdown Iceland, sem kom út árið 2009. Boyes var gestur Egils Helgasonar í Silfri Egils 6. desember 2009. Hér er hluti af viðtalinu (textun RÚV):

Egill: „Þú fjallar einnig um það sem þú nefnir: fullkomna vanrækslu hinnar pólitísku stéttar á hlutverki sínu.”

Boyes: „Já, af því sannleikurinn er sá að Íslendingar eru merkileg þjóð en afar veikburða ríki, þ.e.a.s. að ríkið sjálft er máttlítið. Og ég tel að á margvíslegan hátt hafi það verið svikið af Sjálfstæðisflokknum. Ef litið er til baka og skoðað hvernig fólkið í kringum Davíð komst til valda, stuðningshópur Milton Friedmans, þessi hugmyndafræðilega sýn sem hópurinn hafði á heiminum, þá getur maður séð … Þeir dáðu Margréti Thatcher og vildu stefna í átt til nútímans eins og Thatcher í Bretlandi, en ein helsta lexía Thatcherisma var að valdið verður … miðstýrt og öflugt ríkisvald kemst á. Þetta er eitt af því sem Thatcherisminn er gagnrýndur fyrir en þetta voru einar grunnforsendurnar fyrir markaðsbyltingu. Áður en farið er að einkavæða, áður en farið er að gefa eftir völdin, breyta yfir í einkarekstur, verður að tryggja að ríkisvaldið sé öflugt. Og ég tel að Íslandi hafi verið einstaklega illa stjórnað af fólki eins og Davíð.”

Egill: “Við sjáum klíkurnar ryðjast fram á tímum einkavæðingarinnar, en samtímis stóðu þeir sem áttu að sjá um eftirlitið sig afar slælega.”

Boyes: „Já, það er bara fylgifiskur alls.. Ég segi ekki fyrirlitningu á ríkinu því við erum að tala um þjóðhollt fólk. Ég hef aldrei efast um að menn eins og Davíð og Geir Haarde væru annað en þjóðhollir Íslendingar og voru sannfærðir um að þeir ynnu landi og þjóð gagn. En sannleikurinn er sá að á einhverri stundu blindaði hugmyndafræðin þá og þeir sættust á forgang kaupsýslustéttarinnar. Á þeirri stundu hafa þeir ákveðið að Ísland þarfnaðist þesskonar hreyfiafls, þarfnaðist þess að stækka markaði sína, þarfnaðist þess að … þyrfti að ganga inn í heim nútímans. Svo á vissan hátt sögðu þeir sig frá ábyrgð á stjórn ríkisins. Á þeirri stundu varð ljóst að eftirlitsaðilar hefðu engu hlutverki að gegna í þróun íslensks samfélags. Ég veit ekki hvaða flugu þeir fengu í höfuðið.”

Meira síðar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Tómasson
Ég er fæddur (1940) og uppalinn á Melunum í Reykjavík. Stúdent úr Verzlunarskóla Íslands 1960 og með hagfræðigráður frá Manchester University (1963) og Harvard University (1965). Starfaði sem hagfræðingur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá 1966 til 1989. Var m.a. aðstoðar-landstjóri AGS í Indónesíu 1968-1969, og landstjóri í Kambódíu (1971-1972) og Suður Víet-Nam (1973-1975). Hef starfað sjálfstætt að rannsóknarverkefnum á ýmsum sviðum frá 1989, þ.m.t. peningahagfræði. Var einn af þremur stofnendum hagfræðingahóps (Gang8) 1989. Frá upphafi var markmið okkar að hafa hugsað málin í gegn þegar - ekki ef - allt færi á annan endann í alþjóðapeningakerfinu. Í október 2008 kom sú staða upp í íslenzka peninga- og fjármálakerfinu. Alla tíð síðan hef ég látið peninga- og efnahagsmál á Íslandi meira til mín taka en áður. Ég ákvað að gerast bloggari á pressan.is til að geta komið skoðunum mínum í þeim efnum á framfæri.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar