Hér er svar mitt við fyrri spurningu Jóhannesar Björns (sjá bloggfærslu mína 6. júlí 2013, Setti Seðlabankinn Ísland á hausinn?):
Hvaða aðilar innan Seðlabankans tóku ákvörðun um að leyfa bönkunum að stunda ólöglega lánastarfsemi í formi gjaldeyristryggðra lána?
[…]
Þetta er lykilspurning og við skiljum aldrei hrunið fullkomlega nema við fáum greinagóð svör við [henni].
***
I. Í athugasemdum við frumvarp sem Alþingi samþykkti 26. maí 2001 sem lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu segir m.a.:
„Þær breytingar sem lagðar eru til að gerðar verði á verðtryggingarkafla vaxtalaga eru eftirfarandi:
* Heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla eru felldar niður.
[…]
Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.”
II. Eiríkur Guðnason, seðlabankastjóri, var í nefnd sem samdi frumvarpið. Bankastjórn Seðlabanka Íslands var því ljóst frá upphafi hvernig túlka bæri bann laga nr. 38/2001 við gengistryggingu krónulána.
III. Í umsögn Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja og Samtaka íslenskra sparisjóða um frumvarpið dags. 24. apríl 2001 segir m.a.:
„…eins og lögin eru í dag (og verða að óbreyttu frumvarpi) er óheimilt að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt, t.d. danskar krónur. […] Tenging við vísitölur eða sérstakar viðmiðanir er eðlilegur hluti af áhættustýringu á fjármálamarkaði í dag. Óeðlilegt er að opinber fyrirmæli hindri þann þátt starfseminnar. Brýnna er að opinbert eftirlit vinni í samvinnu við markaðsfyrirtækin að því að tryggja að skilmálar í slíkum samningum séu skýrir og valdi engum vafa um túlkun síðar.”
IV. Ljóst er af ofangreindu (i) að bannið gegn gengistryggingu hefur þótt vera óskýrt, (ii) að lánastofnanir höfðu hagnýtt sér það, og (iii) að eindreginn vilji löggjafans var að koma í veg fyrir slík undanbrögð af hálfu lánastofnana.
V. Breytingar á hlutfalli gengistryggðra og verðtryggðra skuldabréfa innlánastofnana á tímabilinu 1998-2008 sýna (i) að lánastofnanir létu sig engu varða bókstaf og anda laga nr. 38/2001 og (ii) að frá og með árinu 2006 varð stökkbreyting í mikilvægi gengistryggingar í „áhættustýringu á [íslenzkum] fjármálamarkaði“.
Í Mbl. grein í maílok 2006 (Hvar liggur ábyrgðin?) tók ég undir aðvörunarorð AGS vegna „hrikalegrar“ útlánaþenslu.
VI. Af ört hækkandi hlutfalli gengistryggðra og verðtryggðra skuldabréfa eftir 2005 má ráða (i) að stjórnendum innlánastofnana var ljóst að gengishrun yrði ekki umflúið, (ii) að þeir kappkostuðu að yfirfæra fyrirsjáanlegt gengistap á lántakendur, og (iii) að glórulaus stöðutaka lífeyrissjóðanna með krónunni hafi verið meðvitaður „fórnarkostnaður“ í örvæntingafullri tilraun stjórnenda lífeyrissjóðanna að lágmarka fyrirsjáanlegt tap þeirra ef allt færi á versta veg – eins og varð í október 2008:
1998: 0.73
1999: 0.79
2000: 1.36
2001: 1.51
2002: 1.37
2003: 1.99
2004: 1:89*
2004: 1.44*
2005: 1.00
2006: 1.38
2007: 1.80
2008: 2.41
* Byggt á Ársskýrslum SÍ fyrir 2004 og 2010; skýrslunum ber ekki saman um hlutfallið 2004.
VII. Lög nr. 38/2001 endurspegluðu vilja löggjafans að lánastofnanir skyldu fara að lögum og virða bann við gengistryggingu krónulána.
Í þessu sambandi var ábyrgð bankastjórnar og bankaráðs Seðlabanka Íslands samkvæmt seðlabankalögum nr. 36/2001 eftirfarandi:
(i) Seðlabankinn skal stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. (3. gr.)
(ii) Bankaráð hefur eftirlit með því að Seðlabanki Íslands starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda. (28. gr.)
***
Spurt er:
Hvaða aðilar innan Seðlabankans tóku ákvörðun um að leyfa bönkunum að stunda ólöglega lánastarfsemi í formi gjaldeyristryggðra lána?
Svar mitt er:
Bankastjórn og bankaráð Seðlabanka Íslands vanræktu skyldu sína að „stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum” að því er varðar bann við gengisbindingu krónulána.
Það er því alfarið á ábyrgð bankastjórnar og bankaráðs Seðlabanka Íslands að „bönkunum [var leyft] að stunda ólöglega lánastarfsemi í formi gjaldeyristryggðra lána”.
Meira síðar.