Jóhannes Björn birti eftirfarandi pistil á www.vald.org 27. október 2010:
Eitt lykilatriði sem Gunnar Tómasson hefur bent á í sambandi við hrunið hefur ekki fengið nægjanlega umfjöllun: Seðlabankinn braut sennilega lög þegar hann frestaði gjaldþroti bankanna um a.m.k. tvö ár.
Gömlu bankarnir tóku gríðarlega há erlend lán árið 2003 sem voru til fimm ára. Strax 2005 eða í ársbyrjun 2006 var ljóst að bankarnir yrðu ekki í aðstöðu til þess að endurgreiða þessi lán haustið 2008. Rannsóknarskýrslan segir að bankarnir hafi verið komnir í veruleg vandræði 2006.
—
Sbr. umsögn í fyrra bloggi um Ábyrgð Seðlabanka Íslands á ólöglegri lánastarfsemi:
VI. Af ört hækkandi hlutfalli gengistryggðra og verðtryggðra skuldabréfa eftir 2005 má ráða (i) að stjórnendum innlánastofnana var ljóst að gengishrun yrði ekki umflúið, (ii) að þeir kappkostuðu að yfirfæra fyrirsjáanlegt gengistap á lántakendur, og (iii) að glórulaus stöðutaka lífeyrissjóðanna með krónunni hafi verið meðvitaður „fórnarkostnaður” í örvæntingafullri tilraun stjórnenda lífeyrissjóðanna að lágmarka fyrirsjáanlegt tap þeirra ef allt færi á versta veg – eins og varð í október 2008:
2005: 1.00
2006: 1.38
2007: 1.80
2008: 2.41
—
Jóhannes Björn hélt áfram:
Næst gerast tveir hlutir sem rannsaka verður niður í kjölinn.
Stjórnendur Seðlabankans vissu vel að gjaldeyristryggð lán voru ólögleg, enda var Eiríkur Guðnason í nefnd sem samdi frumvarp að lögum nr. 38/2001, en samt voru þau leyfð.
Næst kom (að virðist) hroðalegasta bókhaldsvindl Íslandssögunnar. Seðlabankinn skilgreindi gjaldeyristryggð lán—lán veitt í íslenskum krónum sem voru endurgreidd í íslenskum krónum—sem gjaldeyriseign í bókhaldi bankanna!
Hvers vegna var þetta gert? Jú, samkvæmt 13 gr. Seðlabankalaga frá 2001 máttu gjaldeyrisskuldir bankanna ekki fara yfir 10% eigna þeirra í erlendri mynt. Sá sem átti eignir upp á milljón dollara mátti ekki skulda meira en 1,1 milljón dollara. Með því að reikna lán í íslenskum krónum sem voru endurgreidd í íslenskum krónum sem GJALDEYRI var bönkunum haldið á floti.
—
Af VI. lið hér að ofan má ráða (a) að bankarnir notuðu gálgafrestinn eftir 2005 til að grafa heimilum og fyrirtækjum landsins enn dýpri gröf í mynd gengisbundinna krónulána, og (b) að lífeyrissjóðirnir tóku upp öfugsnúna áhættustýringu við fjárfestingar til að styðja sökkvandi bankakerfi á kostnað umbjóðenda sinna.
—
Og enn hélt Jóhannes Björn áfram:
Þegar bankarnir rúlluðu í septemberlok 2008 mátti neikvæð gjaldeyriseign þeirra vera, lögum samkvæmt, um 100 milljarðar. Staðan var hins vegar neikvæð um 2800 milljarða! Þróun sem gat átt sér stað eingöngu vegna þess að íslenskar krónur voru bókfærðar sem gjaldeyrir.
Bankarnir voru gjaldþrota 2006 og bókhaldið hefði sýnt þá staðreynd ef Seðlabankinn hefði ekki leyft þeim að spila með bókhaldið. Tíminn hafði feikilega mikið að segja. Það hefur verið reiknað út að ef bankarnir hefðu farið á hausinn í ágúst 2007 þá hefði þjóðin sparað sér 2250 milljarða.
—
Í september 2009 voru lokaorð mín í erindi til Alþingismanna um tengd málefni:
„Þetta er verra en glapræði – þetta er atlaga að almannahag.”
Um það verður vart deilt.
—
Lokaorð Jóhannesar Björns voru eftirfarandi:
Við skiljum aldrei almennilega IceSave-delluna, ástarbréf bankanna og annað nema við fáum skýr svör við nokkrum spurningum:
Hvaða aðilar innan Seðlabankans tóku ákvörðun um að leyfa bönkunum að stunda ólöglega lánastarfsemi í formi gjaldeyristryggðra lána?
Hvaða aðilar tóku þá ótrúlegu ákvörðun að breyta íslenskum krónum í gjaldeyri í bókhaldi bankanna og hvers vegna?
Þetta eru lykilspurningar og við skiljum aldrei hrunið fullkomlega nema við fáum greinagóð svör við þeim.
—
Af líkum má ráða að innlánasöfnun bankanna með hávaxtareikningum í Englandi og Hollandi (með stuðningi íslenzkra ráðamanna), svokölluð ástarbréf Seðlabanka Íslands o.fl. voru neyðarúrræði til (a) að mæta útstreymi fjármagns sem áður hafði farið huldu höfði við peningaþvætti í íslenzkum bönkum, og (b) fjármagnsflótta íslenzkra innherja og tengdra aðila.
Sbr. meint verg vaxtagjöld þjóðarbúsins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu:
2004 = -35.478 3.8%
2005 = -61.407 6.0%
2006 = -166.673 14.3%
2007 = -292.772 22.9%
2008 = -485.864* 34.1%
*Hagtölur SÍ sýna -335.864 fyrir jan-sept. – spá mín fyrir okt-des.
Niðurstaða.
1. Hér að ofan er væntanlega byggt á upplýsingum frá fjármálakerfinu.
2. Þessar hagtölur eru augljóslega falsaðar.
3. Ábyrgum aðilum í Seðlabanka Íslands hlaut að vera það ljóst.
4. Ábyrgum aðilum í Fjármálaeftirlitinu hlaut að vera það ljóst.
5. Trúnaðarmönnum Alþingis í bankaráði SÍ hlaut að vera það ljóst.
6. Í kjölfar hrunsins hafa allir þessir aðilar verið þögulir sem gröfin.
7. Í réttarríki hljóta viðkomandi að verða dregnir til ábyrgðar.