Afskriftir á skuldum eru hlutlausar gagnvart fjárhagslegu jafnvægi ef hrein eignastaða lántakanda batnar og hrein eignastaða lánveitanda rýrnar um sömu upphæð.
Þetta er grundvallarforsenda slíks hlutleysis skuldaleiðréttinga stjórnvalda á komandi tíð.
Þannig myndi 200 milljarða afskrift á húsnæðisskuldum heimila við Íbúðalánasjóð ekki hafa bein áhrif á fjárhagslegt jafnvægi ef eignastaða Íbúðalánasjóðs og/eða lífeyrissjóðanna sem fjármagna hann rýrnaði um 200 milljarða.
Íbúðalánasjóður er ekki aflögufær og lífeyrissjóðirnir eru ekki til viðtals um aðkomu að lausn vandans.
Stjórnvöld leita því annarra leiða.
Ríkissjóður er ekki aflögufær og 200 milljarða viðbótar skattheimta til að fjármagna niðurfærslu skulda er ekki pólitískur valkostur í stöðunni.
Eins væri fjárhagslegu jafnvægi ógnað ef Seðlabanki Íslands bætti Íbúðalánasjóði/lífeyrissjóðunum þá rýrnun eigna sem myndi leiða af niðurfærslu húsnæðislána heimilanna um 200 milljarða.
Kjarni málsins er þessi:
Fjárhagslegt jafnvægi við niðurfærslu húsnæðisskulda ræðst alfarið af því að kaupmáttur aukist ekki að óbreyttri landsframleiðslu, eða að samsvarandi aukning verði á innflutningsgetu hagkerfisins.
Svigrúmið, sem stjórnvöld telja að skapist við uppgjör þrotabúa gömlu bankanna, er því ekki valkostur frá þessu sjónarhorni séð nema að það sé hluti af gjaldeyriseignum þrotabúanna en ekki krónueignum.