Ríkisstjórn XB og XD ætlar að lækka verðtryggðar húsnæðisskuldir heimilanna um X milljarða ÁN þess að fjárhagslegum stöðugleika sé ógnað.
Sérfræðinganefnd um skuldaleiðréttingu á að segja til um valkosti við framvæmd þessara áforma en ekki hvort þau séu framkvæmanleg.
Í bloggfærslu 21. október (Endemis rugl í öndvegi – stöðugleika ógnað) hafði ég eftirfarandi formála að umsögn minni um viðfangsefnið:
I.
Sérfræðingahópur ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingar lýkur senn störfum.
II.
Af umsögn forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, í útvarpsviðtali í dag má ráða að þar verði ekki hvikað frá þeirri stefnu í málinu sem Framsóknarflokkurinn boðaði fyrir alþingiskosningarnar 27. apríl sl.
III.
Umsögn mín um þá stefnu kom til umræðu þegar leiðtogar stjórnmálaflokka sátu fyrir svörum í beinni útsendingu á Stöð 2 við lok kosningabaráttunnar. (http://www.youtube.com/watch?v=azs3YJ_vxkE)
Lóa Pind:
Gunnar Tómasson, hagfræðingur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til langs tíma, kemur fram núna í vikunni og hann segir að fyrirheit ykkar um skuldalækkanir öllum að kostnaðarlausu nema kröfuhöfum þrotabúanna sé slíkt endemis rugl að hann geti ekki þagað. Hann segir að þessar krónueignir sem þið viljið fá í afslátt frá kröfuhöfum séu einkum ríkisskuldabréf og reiðufé og það eigi bara að fara sjálfkrafa í að lækka skuldir ríkissjóðs. Hvað segirðu um þetta?
Sigmundur Davíð:
Þetta er nú reyndar ekki rétt, mjög fátt í þessu er a.m.k. rétt og snúið út úr öðru. En Gunnar Tómasson hins vegar var á einhverjum punkti genginn til liðs við Dögun, svo man ég ekki hvar hann endaði í framboði – snérist algjörlega gegn Framsóknarflokknum. Hafði fram að því verið töluvert náinn okkur í málflutningi. Hann á auðvitað rétt á því að beita sér í sinni pólitík, en hins vegar hafa margir aðrir talað um þessar tillögur okkar á mjög uppbyggilegan hátt og útskýrt að þær gangi upp. Þær eru í rauninni mjög einfaldar.
Og nokkru síðar:
Lóa Pind:
Þannig að þú tekur ekki undir þessi orð.
Sigmundur Davíð:
Nei, nei, nei, auðvitað ekki.
IV.
Forsætisráðherra hafði lög að mæla – málið er einfalt:
***
Þar sem forsætisráðherra lætur ekki deigan síga, þá vil ég einfalda fyrri framsetningu mína enn frekar:
1. Skuldaniðurfærsla sem felst í afskrift lána á eignahlið efnahagsreiknings lánastofnana og lækkun eigin fjár á skuldahlið ógnar ekki fjárhagslegum stöðugleika.
2. Skuldaniðurfærsla ÁN lækkunar eigin fjár lánastofnana ógnar fjárhagslegum stöðugleika þar sem hún krefst eiginfjáraukningar í gegnum ríkisvaldið.
3. Uppruni slíkrar eiginfjáraukningar – krónueignir þrotabúa gömlu bankanna eða Seðlabanki Íslands* – skiptir engu um áhrif hennar á fjárhagslegan stöðugleika.
4. Áform XB um lækkun húsnæðisskulda heimilanna ÁN þess að fjárhagslegum stöðugleika sé ógnað eru því óframkvæmanleg.
***
Viðbót 3. nóv. 2013.
*
Seðlabanki Íslands gæti fjármagnað 200 milljarða niðurfærslu á húsnæðislánum með 200 milljarða seðlaprentun.
Fjármálalegum stöðugleika væri ógnað vegna 200 milljarða aukningar lausafjár í eignasafni lánastofnana sem fælist í slíkri fjármögnun.
Millifærsla á 200 milljörðum frá þrotabúum gömlu bankanna myndi hafa sömu áhrif á eignasafn starfandi lánastofnana.