Tölvupóstur dags. 15. janúar 2014.
Ágætu alþingismenn.
I. Dr. Gary K. Busch er bandarískur prófessor sem hefur rannsakað fjárstreymi frá Rússlandi til annarra landa. Í þessu sambandi heimsótti Dr. Busch Ísland stuttu eftir bankahrunið í október 2008. Í grein dags. 17. febrúar 2009 vék Dr. Busch að niðurstöðum rannsókna sinna á Íslandi.
Upphaf og niðurlag greinarinnar var eftirfarandi (í lauslegri þýðingu):
„Föstudaginn 13 febrúar lét rússneski milljarðamæringurinn Boris Berezovsky að því liggja á Sky News að Vladimir Putin og einkavinir hans hefðu notað “skítuga peninga” til að ná yfirtökum á brezkum fyrirtækjum í gegnum fjárfestingar á Íslandi. Þegar þessar ásakanir voru settar fram var ég staddur á Íslandi og hitti ýmsa Íslendinga að máli.
Íslendingarnir sögðu að þeir væru að koma frá Alþingi þar sem nokkrir Rússar hafi verið að ræða nákvæmlega þetta mál við íslenzku ríkisstjórnina (e. Icelandic Government). Rússarnir sögðu að þeir hefðu rannsakað ásakanir Berezovsky og staðfest að þær væru í aðalatriðum sannar.
[…]
Í einkaviðræðum segja íslenzk stjórnvöld að ástæða þess að þeim bauðst 5.4 milljarða evrulán frá Rússum var hættan á því að allur þessi peningaþvottur yrði gerður opinber. Þetta er sorgarsaga og Íslendingarnir eru uggandi af því hvernig henni muni ljúka. […].”
II. Birgitta Jónsdóttir beindi eftirfarandi fyrirspurn um málið til forsætisráðherra 20. des. sl.:
Telur ráðherra ástæðu til að rannsakað verði hvort orðrómur um tengsl rússneskra aðila við íslensku bankana fyrir hrun eigi við rök að styðjast, t.d. á þann hátt að Alþingi skipaði rannsóknarnefnd samkvæmt lögum nr. 68/2011?
III. Svar forsætisráðherra í gær, 14. janúar, var eftirfarandi:
„Í fyrirspurninni kemur ekki fram hvert sé nákvæmlega efni þess orðróms sem óskað er eftir að ráðherra taki afstöðu til hvort rannsaka skuli. Sé um að ræða rannsókn á orðrómi um meint óeðlileg tengsl við íslenska banka í aðdraganda hruns fjármálakerfisins hér á landi er bent á að rannsókn slíkra mála eða ákvörðun um slíka rannsókn er ekki á málefnasviði forsætisráðherra eða forsætisráðuneytisins heldur samkvæmt lögum á hendi eftirlitsaðila á sviði fjármálastarfsemi og eftir atvikum lögreglu og ákæruvalds.”
IV. Birgitta Jónsdóttir beindi einnig svohljóðandi fyrirspurn um málið til utanríkisráðherra:
„Er íslenskum stjórnvöldum kunnugt um rannsókn bresku leyniþjónustunnar á meintu peningaþvætti í íslensku bönkunum árið 2005, sem fjallað er um í bókinni Meltdown Iceland eftir Roger Boyes og, ef svo er, hverjar niðurstöðurnar eru?“
V. Um mitt ár 2013 fjallaði ég ítarlega um málið í bloggfærslum á eyjan.is. Fréttamaður RÚV hafðí því samband og leitaði eftir umsögn minni um fyrirspurnir Birgittu. Viðtal okkar var fellt inn í hádegisfréttir RÚV þann 21. desember og endursagt að hluta á vefsíðu RÚV sama dag. Þar segir m.a.:
„Þetta er semsé frá Boyes og hann er trúverðugur sem diplomatic editor of London Times myndi ég ætla,“segir Gunnar. […]
„Hér eru margar vísbendingar um að það séu mál sem ekki hafa komið upp á yfirborðið um fjármögnun íslensku bankanna í aðdraganda hrunsins.“
Gunnar veltir fyrir sér hvort að þetta skýri að íslensk stjórnvöld hafi alls staðar komið að lokuðum dyrum hjá seðlabönkum í Bandaríkjunum og Norðurlöndunum. Þá sé það ótrúlegt að breska leyniþjónustan hafi ekki vitað af þessu, ef rétt sé. Það kunni að skýra harkaleg viðbrögð breskra stjórnvalda í tengslum við Icesave.
„Hér eru svo stórar spurningar að það er nauðsynlegt, finnst mér, fyrir okkur sem þjóð að vita nákvæmlega er þetta eitthvað sem verið er að þagga niður í stjórnkerfinu á Íslandi af pólitískum ástæðum. Fyrir það myndi ég segja að það er full ástæða til að taka þetta til rannsóknar á formlegan hátt.“
VI. Ég tel mig hafa ástæðu til að ætla að Seðlabanki Íslands hafi kynnt sér málið á sínum tíma.
Virðingarfyllst,
Gunnar Tómasson, hagfræðingur.