Í Morgunblaðinu í dag, 24. janúar 2014. birti Víglundur Þorsteinsson (BM Vallá) opið bréf til forseta Alþingis um atriði í sambandi við leynilega samninga íslenzkra stjórnvalda við erlenda kröfuhafa bankanna árið 2009.
Þann 13. desember sl. úrskurðaði Úrskurðarnefnd um upplýsingamál að afhenda bæri Víglundi ákveðin skjöl sem málið varða, og byggir Víglundur grein sína á þeim gögnum.
Opið bréf Víglundar varðar málefni sem ég hef tjáð mig um opinberlega a.m.k. í tvígang og virðist renna stoðum undir grunsemdir sem ég vakti fyrst máls á í September 2009.
Ef rétt reynist, þá er hér um grafalvarlegt mál að ræða.
Bréf Víglundar er eftirfarandi:
Opið bréf til forseta Alþingis.
Með úrskurði Úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-510/2013 voru mér afhentar fundargerðir stýrinefndar stjórnvalda um samninga við erlendu kröfuhafa bankanna árið 2009. Eftir lestur þeirra fundargerða ákvað ég að rita þér þetta bréf.
Efni fundargerðanna á erindi við Alþingi. Þær staðfesta að vorið og sumarið 2009 vann framkvæmdavaldið hörðum höndum að því að fara framhjá reglum neyðarlaga nr. 125/2008 um endurreisn íslensku bankanna og meðferð skulda heimila og fyrirtækja. Þess vegna ákvað ég að rita þér og senda afrit allra fundargerðanna sem mér hafa verið afhentar. Fundargerðirnar eru ritaðar á ensku og þarf að þýða í heild og birta ásamt greinargerðum og vinnuskjölum. Það var einmitt niðurstaða Úrskurðarnefndarinnar að þær ættu erindi við almenning.
Aðförin að neyðarlögunum
Um mánaðamótin febrúar/mars 2009 ákvað ríkisstjórnin að hefja samningaviðræður við erlenda kröfuhafa bankanna um það hvernig þeir gætu fengið meira í sinn hlut úr nýju bönkunum sem stofnaðir höfðu verið með setningu neyðarlaganna nr. 125/2008, en neyðarlögin sögðu til um.
Ríkisstjórnin réð erlenda lögfræðifyrirtækið Hawkpoint til að gæta hagsmuna kröfuhafanna og virðist hafa gert svo vel að auki að greiða kostnaðinn við störf þess fyrirtækis. Það var látið líta svo út að þeir væru að gæta hagsmuna ríkisins. Fundargerðirnar sýna að fyrirtækið þjónaði erlendu kröfuhöfunum.
Fyrsti fundur sérstakrar stýrinefndar þriggja ráðuneyta sem skipuð var til verksins var haldinn 10.3. 2009. Virðist engin fundargerð hafi verið rituð af þeim fundi. Það eina sem getur að lesa um hann er að finna í fundargerð 2. fundar sem haldinn var hinn 17.3. 2009. Þar er skráð að Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri hafi gefið skýrslu um 1. fund.
Friðþægingin
Þar gefur einnig að lesa eftirfarandi:
„The state wants to appease the creditors to the extent possible. The negotiations are however bilateral between the state and the financial advisors of the old banks“.
Þegar fundargerðirnar eru lesnar í samfellu verður ekki annað ráðið en að frá upphafi hafi ríkisstjórnin haft í huga að afhenda erlendu kröfuhöfunum alla þrjá nýju bankana til að friðþægja þá. Þær ráðagerðir mættu hinsvegar andstöðu kröfuhafanna sem ekki voru ginnkeyptir fyrir hugmyndinni.
Í því sambandi voru kannaðir ýmsir kostir til að „gera bankana girnilegri“ svo sem að Seðlabankinn myndi leysa úr gjaldeyrisójöfnuði þeirra eða að ríkissjóður gengi í ábyrgð vegna þessa. Er svo að sjá að AGS hafi komið í veg fyrir allar slíkar ráðgerðir og „bjargað okkur Íslendingum“ frá því að ríkisstjórnin stefndi í háska með því.
Kröfuhafarnir vildu ekki bankana
Kröfuhafarnir voru aldrei að sækjast eftir því að eignast bankana. Það eina sem þeir sóttust eftir var að festa forsendur um uppgjör á milli nýju og gömlu bankanna þannig að slíkt uppgjör yrði þeim hagstæðara en reglur neyðarlaga og úrskurðir FME. Það var skirt markmið kröfuhafanna að þessar viðræður myndu færa þeim meira en neyðarlögin höfðu ákvarðað. Til þess hafði þrýstingur staðið frá Brussel. Þetta var nefndinni ljóst. Í einni fundargerðinni má lesa að einn fundarmanna lýsir áhyggjum yfir því að nefndin kunni að vera að brjóta Stjórnarskrá Íslands.
Farið framhjá neyðarlögunum
Það er ljóst að allt starf nefndarinnar snérist um að fara framhjá neyðarlögunum með öllum tiltækum ráðum án þess að snúa á ný til Alþingis um breytingar á þeim. Nefndin vann með opnum augum gegn lögmætisreglunni um þrískiptingu ríkisvalds og embættismörk stjórnvalda.
Í þeim efnum var ekki aðeins stýrinefndin að vinna gegn neyðarlögunum heldur voru önnur stjórnvöld sjálfstæð að lögum svo sem FME, Seðlabankinn og Ríkisendurskoðun virkjuð í þessum sama tilgangi. Hér er vert að athuga reglur 116 gr. almennra hegningalaga sem leggur refsingu við því að opinberir starfsmenn taki sér vald sem þeir ekki hafa að lögum.
Hlutur FME alvarlegur
Ekki verður betur séð en að hlutur FME í þessum efnum sé undarlegur þar sem FME virðist hafa tekið fullan þátt í því að brjóta lög nr. 87/1998 um eigin starfsemi og lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og jafnframt brotið gegn eigin úrskurðum sem kveðnir voru upp á grundvelli neyðarlaganna í október 2008. Þessi þáttur FME er alvarlegur. Verður að fara fram opinber rannsókn á því háttalagi. Seðlabankinn og Ríkisendurskoðun sem og Bankasýsla ríkisins sýnast hafa þjónað nefndinni í meðvirkni þrátt fyrir tilganginn að fara í kringum neyðarlögin.
Landsbankinn sleppur
Þrátt fyrir að kröfuhafarnir hefðu ekki mikinn hug á að eignast bankana hélt nefndin sig engu að síður við leistinn og ýtti áfram sínum hugmyndum. Þegar komið var fram á sumar gafst hún upp á því að láta erlenda kröfuhafa, þ.e. Breta og Hollendinga, eignast Landsbankann vegna þeirra áhugaleysis (Icesave). Var þá farin sú leið að festa forsendur á milli nýja bankans og þess gamla að gefa út skuldabréfin margræddu, það skilyrta með hlutabréfabónusnum og hið óskilyrta. Á meðan verið var að „endurvinna lán til hækkunar“ umfram neyðarlögin fékk gamli bankinn 19% hlut í nýja bankanum án allra lagaheimilda, því íslenska ríkið fjármagnaði hlutafjárframlagið. Hlut sinn afhenti gamli bankinn ríkissjóði þegar hann fékk skilyrta skuldabréfið afhent til eignar.
Haldið áfram með hina
Það var hinsvegar haldið áfram að troða Nýja Kaupþingi og Íslandsbanka upp á kröfuhafana gegn ákvæðum neyðarlaganna og voru til þess farnar mismunandi leiðir vegna ólíkra aðstæðna sem lesa má betur um í skýrslu fjármálaráðherra til Alþingis í mars 2011 um endurreisn viðskiptabankanna.
Læt ég aðferðina um Íslandsbanka liggja á milli hluta að þessu sinni en fjalla um Nýja Kaupþing og aðferðafræðina sem beitt var um hann. Í öllum bönkunum var grundvallaraðferðin þó hin sama. Að hækka virði lánasafnanna í þágu kröfuhafa.
Med úrskurði Úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-436/2012 fékk ég staðfest að mitt fyrirtæki var á sérstökum lista hjá Kaupþingi. Lista sem ég hef kallað dauðalistann um hóp fyrirtækja sem tekin voru til sérstakrar endurúrvinnslu í þágu kröfuhafa.
Sjá nánar skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna frá mars 2011, bls. 53, kafla 3.2.2.
Dauðalistinn til nefndarinnar
Og viti menn! Í fundargerð stýrinefndar ríkisstjórnarinnar frá 14. fundi, 24.6. 2009 gefur að lesa eftirfarandi:
3. Kaupthing
„The Kaupthing Financial Advisors are further ahead in the due diligence than the others and have attempted harder to make their own valuations. They have also been thinking the most creatively, especially on the instrument and have proposed an asset protection assurance as in the US and UK. This would however not be in line with the IMF views. A draft letter has been sent to ÞÞ on the negative instrument where the FME states that the imbalance should be corrected. Does not specify how this should be done.“
Hér er komin staðfesting á því að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var þátttakandi í því að koma á dauðalistanum í Kaupþingi og að FME tók fullan þátt í því eins og síðar var staðfest af þeim með því að kvitta upp á þessa aðferð sem hluta af eiginfjármyndun Nýja Kaupþings 11.1. 2010.
Enn vantar mig fundargerð 13. fundar sem sögð er glötuð hjá stjórnarráðinu. Í ljósi efnis 12. Fundargerðarinnar og þess sem gefur að lesa í 14. og 15. fundargerðunum um þessa aðferðafræði við Kaupþing og dauðalistann sækja að mér þær hugsanir hvort að í 13. Fundargerðinni gefi ef til vill að lesa hinn margnefnda dauðalista? Sá fundur virðist hafa verið haldinn í júní 2009 en 12. fundur var 2.6. og 14. fundur 16.6.
Ef sú fundargerð finnst ekki verður það væntanlega aðeins upplýst í opinberri rannsókn eða við yfirheyrslur fyrir dómstólunum. Reyndar hef ég eftir úrskurðinn um að mér skyldu afhentar fundargerðirnar upplifað ýmislegt um varðveislu þessara fundargerða hjá fjármálaráðuneytinu sem vekur hjá mér spurningar. Þurfti ég að leita til forsætisráðuneytisins til þess að fá rétt skil.
Lög brotin í bak og fyrir
Þær fundargerðir stýrinefndarinnar sem ég fékk afhentar eftir úrskurð Úrskurðarnefndarinnar staðfesta með ótvíræðum hætti að meginhluta ársins 2009 var ríkisstjórnin á fullri ferð við að friðþægja erlendu kröfuhafana með því að opna fyrir leiðir til að fara framhjá neyðarlögunum og úrskurðum FME.
Brotið var gegn lögmætisreglunni um þrískiptingu ríkisvalds og embættismörk stjórnvalda og naut til þess aðstoðar íslenskra stofnana svo sem FME, Seðlabanka og fleiri og innlendra og erlendra sérfræðinga. Í þessum tilgangi var m.a. bankaleyndin rofin með því að opna kröfuhöfum aðgang.
Í þágu vogunarsjóðanna
Á sama tíma og verið var að afgreiða á Alþingi lög um endurreisn fjárhags heimila og fyrirtækja voru embættismenn stjórnarráðsins, starfsmenn Bankasýslu ríkisins, FME, Seðlabankans og Ríkisendurskoðunar að fínstilla aðferðirnar til að hafa það allt að engu með því að sniðganga neyðarlögin í þágu erlendu vogunarsjóðanna. Á sama tíma var íslenskur almenningur blekktur með margítrekuðum yfirlýsingum um „skjaldborg heimilanna“. Jafnframt var Alþingi haft að leiksoppi, þegar það var að vinna og samþykkja lagafrumvarp sem síðan varð lög 107/2009 um endurreisn fjárhags heimila og fyrirtækja sem voru höfð að engu í framhaldinu.
Rannsókn nauðsynleg
Þetta þarfnast rannsóknar. Þessar ákvarðanir hafa í raun valdið miklu af því stórfellda tjóni sem varð hér á landi eftir hrun. Hefði neyðarlögunum verið framfylgt eftir efni þeirra og úrskurðum FME haustið 2008 væri okkar þjóðfélag löngu risið úr öskustónni.
Til viðbótar búum við nú við það að þessi verk hafa hækkað stífluþröskuld gjaldeyrishaftanna um a.m.k. 300 milljarða vegna hækkunar lána heimila og fyrirtækja umfram ákvörðun neyðarlaga.
Við verk sitt naut nefndin lögfræðilegra ráða innlendra og erlendra lögmannsstofa. Sýnist sem það hafi verið eitt af meginverkum þeirrar innlendu, Landslaga ehf., að leggja á ráðin með greinargerðum fyrir nefndina og FME hvernig bera skyldi sig að við það að fara í kringum neyðarlögin.
Það er nauðsynlegt að svipta hulunni af þessum skollaleik að Alþingi kalli eftir og opinberi þær greinargerðir. Í framhaldinu þarf síðan að tæma allar gagnaskúffur þessa máls og opinbera minnisblöð, greinargerðir og skýrslur sem unnar voru fyrir nefndina og samstarfsaðila hennar.
Í ljósi alvöru máls fer ég þess á leit við þig, herra þingforseti, að Alþingi taki málið til meðferðar.
Þá kemur í ljós hvort tilefni verður til að kveðja landsdóm saman að nýju.
Garðabæ, 23.1. 2014.
Víglundur Þorsteinsson