Þriðjudagur 25.03.2014 - 22:56 - FB ummæli ()

Áætlun um afnám gjaldeyrishafta í uppnámi?

I. „Ég hef sérstakar áhyggjur af því hversu meðvitað virðist sneitt hjá því að gefa Alþingi upplýsingar um stöðu málsins, og framhjá því að hafa samráð við stjórnarandstöðuna. Afnám gjaldeyrishafta er eitt erfiðasta og brýnasta en um leið mikilvægasta úrlausnarefnið sem blasir við okkur Íslendingum,” sagði Össur Skarphéðinsson á Alþingi í dag.

Össur sagði forsætisráðherra hafði sagt „árla á þessu kjörtímabili” að afnámsáætlun yrði kynnt fyrir lok september. „September er löngu kominn og farinn en það bólar ekkert á áætluninni,” bætti hann við

II. Fjármálaráðherra segir „að áætlun um afnám gjaldeyrishafta hafi verið virkjuð í haust,” og „að jákvæð teikn [séu] á lofti hvað varðar mögulegt afnám gjaldeyrishafta og áætlun þess efnis sem ‘sem virkjuð var í haust’ [sé] í fullum gangi”. (eyjan.pressan.is, 25. febrúar sl.)

III. Slík áætlun er því aðeins raunhæf að Seðlabanki Íslands hafi yfir að ráða e.t.v. 1000 milljörðum í gjaldeyri til viðbótar skuldsettum gjaldeyrisforða SÍ.

IV. Lánsfjármögnun aukins gjaldeyrisforða á erlendum fjármagnsmörkuðum er ekki valkostur í ljósi skuldastöðu þjóðarbúsins, og í kjölfar atburða á Krímskaga gildir það sama um fjármögnun hans á pólitískum forsendum hvort sem væri af hálfu Rússlands eða Kína.

V. Gjaldeyrishöftin voru vörn gegn umframkaupmætti krónueigna og tekna miðað við gjaldeyrisforða og nettó innstreymi gjaldeyris að óbreyttu gengi íslenzku krónunnar.

VI. Stjórnvöldum er þetta vitaskuld ljóst, sbr. hugmyndir þeirra um 75% afslátt af krónueignum kröfuhafa þrotabúa föllnu bankanna við yfirfærslu þeirra í gjaldeyri.

VII. Hins vegar hafa stjórnvöld ekki ljáð máls á hliðstæðum aðgerðum gagnvart krónueignum innlendra aðila (skiptagengisleið að hætti V.-Þjóðverja eftir síðari heimsstyrjöld).

VIII. Að óbreyttu virðast stjórnvöld telja sig eiga tveggja kosta völ:

  1. Að láta gjaldeyrishöftin haldast (nánast) óbreytt um fyrirsjáanlega framtíð.
  2. Að knýja þrotabúin í gjaldþrot og flytja gjaldeyriseignir þeirra í seðlabankann.

IX.  Stjórnvöld hafa krafist þess að slitastjórnir Glitnis og Kaupþings leggi fram drög að nauðasamningum um uppgjör þrotabúanna sem gerði stjórnvöldum kleift að afnema höftin.

X. Krafan er eindregin:„Þetta er ekki samningsatriði heldur skilyrði sem þarf að fullnægja.”

XI. Gjaldeyriseignir þrotabúanna jafngilda um 2.400 milljörðum króna. Ef um 1.000 milljarða af gjaldeyri þarf til að afnema gjaldeyrishöftin án gengishruns og óðaverðbólgu, þá verður þessu skilyrði ekki fullnægt nema kröfuhafar afsali sér um 40% af gjaldeyriseignum þrotabúanna.

XII. Það er því falskur tónn í orðum stjórnvalda í þá veru að það sé alfarið á ábyrgð slitastjórna Glitnis og Kaupþings að uppgjör þrotabúanna hefur dregist úr hömlu – og slitastjórnirnar gætu sjálfum sér um kennt ef stjórnvöld brysti þolinmæðin og þrotabúin yrðu knúin í gjaldþrot.

XIII. Aðferðafræði ríkisstjórnarinnar – beiting úrslitakosta með gjaldþrotaskipti að markmiði – er fullkomlega óraunhæf því hún býður heim málaferlum erlendis þar sem stærsti hluti gjaldeyriseigna þrotabúanna er vistaður. Hver sem útkoman kynni að verða, þá myndi væntanlega lokast fyrir nauðsynlega endurfjármögnun erlendra skulda þjóðarbúsins.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Tómasson
Ég er fæddur (1940) og uppalinn á Melunum í Reykjavík. Stúdent úr Verzlunarskóla Íslands 1960 og með hagfræðigráður frá Manchester University (1963) og Harvard University (1965). Starfaði sem hagfræðingur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá 1966 til 1989. Var m.a. aðstoðar-landstjóri AGS í Indónesíu 1968-1969, og landstjóri í Kambódíu (1971-1972) og Suður Víet-Nam (1973-1975). Hef starfað sjálfstætt að rannsóknarverkefnum á ýmsum sviðum frá 1989, þ.m.t. peningahagfræði. Var einn af þremur stofnendum hagfræðingahóps (Gang8) 1989. Frá upphafi var markmið okkar að hafa hugsað málin í gegn þegar - ekki ef - allt færi á annan endann í alþjóðapeningakerfinu. Í október 2008 kom sú staða upp í íslenzka peninga- og fjármálakerfinu. Alla tíð síðan hef ég látið peninga- og efnahagsmál á Íslandi meira til mín taka en áður. Ég ákvað að gerast bloggari á pressan.is til að geta komið skoðunum mínum í þeim efnum á framfæri.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar