Árni Páll Árnason og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson deildu um svarið á Alþingi í vikunni.
Já, sagði Árni Páll.
Nei, sagði Sigmundur Davíð.
Sbr. frétt á mbl.is þann 27 marz:
I. Árni Páll sagði að frumvörp ríkisstjórnarinnar um skuldaniðurfellingar, sem kynnt voru í gær, hefðu staðfest það sem stjórnarandstaðan hefði lengið haldið fram.
„Þar fékkst staðfest sem við höfðum fengið að sjá fyrr í vetur, að í stað þess að kosningaloforð um 300 milljarða frá hrægömmum væri efnt, þá er okkur boðið upp á 70 milljarða leiðréttingaraðgerð fjármagnaða af almennu skattfé.
Það er þá orðið endanlega ljóst,“ sagði Árni Páll.
II. Sigmundur sagðist vera undrandi á því að Árni Páll kæmi enn einu sinni upp í pontu og héldi því fram að ríkisstjórnin hefði lofað því að það ætti að kosta ríkið 300 milljarða að leiðrétta lánin.
„Þegar við við erum búin að vera að reyna að útskýra það árum saman fyrir háttvirtum þingmanni og félögum hans að það væri ekki jafndýrt og háttvirtur þingmaður hélt að leiðrétta lánin og koma til móts við fólk,“ sagði Sigmundur.
Nú væri hins vegar búið að snúa dæminu við. „Vegna þess að við höfðum rétt fyrir okkur með það, að þetta kostaði ekki eins mikið og síðasta ríkisstjórn hélt, þá værum við ekki að uppfylla kosningaloforð,“ sagði forsætisráðherra.
„Svo segir háttvirtur þingmaður að þetta sé fjármagnað af skattfé.
Jú, það er hér ákveðinn millileikur þangað til það myndast það svigrúm sem ég held að háttvirtur þingmaður sé meira að segja farinn að viðurkenna að verði til.
En hvernig er bilið brúað? Er það ekki meðal annars með skattlagningu sem háttvirtur þingmaður og sú ríkisstjórn sem hann átti aðild að lét algjörlega hjá líða að ráðast í?“
III. Umræddur „millileikur” felst í fjármögnun leiðréttingarinnar af almennu skattfé þar til svonefndur bankaskattur á þrotabú föllnu bankanna innheimtist í ríkissjóð.
IV. Fjárlög ársins 2014 sýna hallalausan rekstur ríkissjóðs m.a. vegna þess að þau eru byggð á rekstrargrunni þar sem tekjur eru færðar í bókhald þegar þeirra er aflað án tillits til þess hvenær þær innheimtast. Ef bankaskatturinn innheimtist ekki innan ársins þá verður samsvarandi halli á rekstri ríkissjóða að öðru óbreyttu.
V. Slitastjórnir Glitnis og Kaupþings telja bankaskattinn brjóta gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um jafnræði og eignarrétt m.m. Ef greiðsla hans tefst þar til Hæstiréttur Íslands hefur fjallað um málið, þá verður skuldaleiðrétting ársins fjármögnuð af almennu skattfé að öðru óbreyttu.