I. Í maí 2013 var haft eftir forsætisráðherra að „ríkisstjórnin ætlar að kynna nýja áætlun um afnám gjaldeyrishafta í haust [sem] mun m.a. byggja á hugmyndum Sigmundar Davíðs, en verður annars unnin í samráði við seðlabankann og ráðherranefnd…” (Bloomberg, 27. maí, 2013.
II. Í október 2013 var haft eftir fjármálaráðherra, „að jafnvel verði búið að afnema gjaldeyrishöftin í apríl [2014]”. (Bloomberg, 15. október 2013.)
III. Fjórum mánuðum síðar upplýsti forsætisráðherra Alþingi „að áætlun um afnám gjaldeyrishafta verði ekki birt opinberlega, enda þjóni það ekki hagsmunum Íslands [og ekki] verði greint frá því hvenær gjaldeyrishöftin verði afnumin.” (20. febrúar sl.)
IV. Fimm dögum síðar lét fjármálaráðherra hins vegar að því liggja „að áætlun um afnám gjaldeyrishafta hafi verið virkjuð í haust,” og „að jákvæð teikn [væru] á lofti hvað varðar mögulegt afnám gjaldeyrishafta og áætlun þess efnis ‘sem virkjuð var í haust’ [væri] í fullum gangi”. (eyjan.pressan.is, 25. feb. sl.)
V. Af ofangreindu má ráða:
1. Að umsagnir SDG og BB í I. og II. hafa byggt á óraunhæfum forsendum, og
2. Að raunhæf „áætlun um afnám gjaldeyrishafta” hefur aldrei verið til staðar.
VI. Í bloggi 25. marz sl. taldi ég stjórnvöld hafa tvo valkosti í stöðunni:
1. Að láta gjaldeyrishöftin haldast (nánast) óbreytt um fyrirsjáanlega framtíð.
2. Að knýja þrotabúin í gjaldþrot og flytja gjaldeyriseignir þeirra í seðlabankann.
VII. Síðari valkosturinn endurspeglar umsagnir hæstaréttarlögmannanna Reimars Péturssonar og Eiríks Svavarsson, sem eru meðal helztu ráðgjafa ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um málefni þrotabúa föllnu bankanna:
1. „Tilraunir til nauðasamnings eru […] markleysa. Réttast væri að hætta þeim strax. Þá hæfust gjaldþrotaskipti sem myndi væntanlega ljúka með því að hópurinn og aðrir kröfuhafar fengju laust fé, reyndar í krónum.”(RP, Tálsýn um nauðasamning, Mbl. 5. október 2013.)
2. „Það liggur fyrir að íslensk lög gera ráð fyrir því að kröfur í þrotabúin séu krónukröfur og á grundvelli þeirrar meginreglu og jafnræðis kröfuhafa þá væri eðlilegast að skiptastjóri greiddi út í íslenskum krónum – enda er það í samræmi við löggjöfina.”(ES, Spegillinn, RÚV, 20. maí 2014.)
VIII. Orðaval hæstaréttarlögmannanna – „væntanlega” og „eðlilegast” – gefur til kynna að ráðgjöf þeirra – að knýja þrotabúin í gjaldþrot og flytja gjaldeyriseignir þeirra í seðlabankann – standi ekki traustum fótum í íslenzkum lögum.
IX. Þetta atriði var borið undir Ásu Ólafsdóttur, lektor í lögfræði við Háskóla Íslands, í Speglinum 22. maí 2014, sbr. eftirfarandi samantekt fréttamanns RÚV í upphafi viðtals við Ásu:
„Það er á valdi slitastjórna bankanna sem og bústjóra hvaða þrotabús sem er að ákveða það, hvort kröfur í búin skuli greiddar í íslenskum krónum eða eftir atvikum í einhverri erlendri mynt. Slitastjórum og bústjórum ber fyrst og fremst lagaskylda til að gæta hagsmuna kröfuhafa og jafnræðis á milli þeirra. Þetta segir Ása Ólafsdóttir, lektor í lögfræði við Háskóla Íslands.
Eiríkur Svavarsson, hæstaréttarlögmaður, sagði í viðtali við Spegilinn í fyrrakvöld að túlka mætti lög og dómafordæmi sem svo, að eðlilegast væri að kröfur í bú íslenskra lögaðila væru greiddar í krónum:
Það liggur fyrir að íslensk lög gera ráð fyrir því að kröfur í þrotabúin séu krónukröfur og á grundvelli þeirrar meginreglu og jafnræðis kröfuhafa þá væri eðlilegast að skiptastjóri greiddi út í íslenskum krónum – enda er það í samræmi við löggjöfina.
En Ása Ólafsdóttir túlkar lögin sem svo, að það megi ætíð greiða út kröfur í íslenskum krónum en lögin segi ekki að það eigi að gera það.”
X. Í viðtalinu sjálfu var farið nánar út í lögfræðilegar hliðar málsins og dómafordæmi Hæstaréttar:
Ása:
Lögin segja að kröfum sem er lýst við gjaldþrotaskipti, að það eigi að snúa þeim yfir í íslenskar krónur, það er að segja miðað við gengi íslensku krónunnar þegar bú er tekið til gjaldþrotaskipta. Það er gert til þess að gæta jafnræðis í þessari sameiginlegu fullnustugerð. Lögin segja hins vegar lítið til um það hvernig eigi síðan að greiða út úr þessu við slíka fullnustugerð.
Fréttamaður:
Þannig að það er þá slitastjórnin sem ákveður það.
Ása:
Já, en hún hefur ekki alveg frjálsar hendur við það, því að hún verður að gæta jafnræðis kröfuhafa við útborgunina. Og það hefur reynt á þetta fyrir íslenskum dómstólum og í september í fyrra kom dómur í Hæstarétti sem fjallaði einmitt um þetta – hvaða gengi eða hvaða verðmiða á að setja á íslensku krónuna þegar hún er greidd út við úthlutun. Og niðurstaðan í Hæstarétti var sú, að kjósi slitastjórn eða skiptastjóri að greiða út í öðrum gjaldmiðli en íslenskri krónu, að þá á að miða við gengi krónunnar þegar hún er greidd út.
Þetta var ein niðurstaða Hæstaréttar en í sama máli reyndi líka á hvort að slitastjórn – í því tilviki var það slitastjórn en það getur allt eins átt við um skiptastjóra í þrotabúi hvort að honum væri skylt að greiða út í íslenskum krónum. En það sýnist mér ekki vera niðurstaða Hæstaréttar heldur að slitastjórn og skiptastjóri megi greiða út í íslenskum krónum.
XI. Með hliðsjón af ofangreindu er ljóst að stjórnvöld hafa tvo valkosti í stöðunni:
1. Að láta gjaldeyrishöftin haldast (nánast) óbreytt um fyrirsjáanlega framtíð.
2. Að knýja þrotabúin í gjaldþrot og flytja gjaldeyriseignir þeirra í seðlabankann.
2. Að herða upp hugann og fara skiptagengis-/nýkrónuleiðina til afnáms gjaldeyrishaftanna.