1. Erlend greiðslubyrði Íslands eftir hrun svipar til greiðslubyrði Þýzkaland eftir fyrri heimsstyrjöld að því leyti að fyrirsjáanlegar hreinar gjaldeyristekjur standa ekki undir henni. Greiðslubyrði Þýzkalands var í mynd gífurlegra stríðsskaðabóta sem landinu var gert að greiða með svokölluðum Versalasamningum.
2. Hagfræðingurinn John Maynard Keynes sótti Versalafundinn á vegum brezka fjármálaráðuneytisins en sagði af sér til að mótmæla ofurkostunum sem sigurvegararnir settu Þjóðverjum. Síðan skrifaði Keynes metsölubók, The economic consequences of the peace, og taldi Versalasamninginn hafa lagt grundvöll að nýrri styrjöld í Evrópu.
3. Ofurkostirnir hleyptu af stað óðaverðbólgu sem leiddi til valdatöku Hitlers og síðari heimsstyrjaldar.
4. Leiðtogar bandamanna létu varnaðarorð Keynes sem vind um eyru þjóta. Íslenzkir ráðamenn skelltu líka skollaeyrum við varnaðarorðum utangarðsmanna fyrir hrun og halda sig við sama heygarðshornið varðandi lausn þess sjálfskaparvítis sem ráðsmennska þeirra hefur skapað þjóðinni.
5. Greiðslubyrði Íslands er slík að lausn vandans krefst samstilltra aðgerða jafnt inn á við sem út á við.
6. Rót vandans felst í eftirlegukindum óreiðuáranna fyrir hrun í mynd froðukrónueigna – króna sem eru nær einskis virði utan hafta – innlendra og erlendra aðila.
7. Skiptigengisleiðin – innköllun krónueigna í skiptum fyrir nýkrónur – er aðgerð sem tekur á rót vandans. Laun og almennt sparifé myndu ekki skerðast – 1 nýkróna kæmi í stað 1 gamallar krónu – en krónueignir umfram ákveðið lágmark myndu sæta afföllum í hlutfalli við upphæð þeirra. Eigendur stærri krónueigna – og stjórnvöld – telja afnám gjaldeyrishafta án almennra aðgerða gegn rót vandans vera farsælli leið.
8. Fyrir alþingiskosningarnar í apríl 2013 setti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fram þá (hagfræðilega séð) fáránlegu hugmynd að unnt væri að sækja fleiri hundruð milljarða króna til slitabúa föllnu bankanna til að fjármagna skuldalækkun heimila og önnur þjóðþrifaverk án þess að óðaverðbólgu væri hleypt af stað.
9. Í sjónvarpsþætti fyrir kosningar var SDG spurður hvort hann væri sammála mati mínu að hugmyndin væri “endemis rugl”. Hann kvað við “nei, nei, nei, nei” og sagði ýmsa marktæka sérfræðinga hafa kynnt sér hugmyndina og teldu hana vera hið bezta mál. Áður hafði Vigdís Hauksdóttir fullyrt að hugmyndin hefði fengið rækilega umfjöllun af hálfu sérfræðinga Framsóknarflokksins.
10. Umræddir sérfræðingar voru ekki nafngreindir, og enginn slíkur hefur tjáð sig opinberlega um málið.
11. Í þessu sambandi má geta þess að Steingrímur J. Sigfússon setti nýlega fram tillögu um kaup ríkisins og lífeyrissjóða á slitabúum bankanna. Kaupendurnir myndu því næst selja kröfuhöfum gjaldeyriseignir slitabúanna á yfirverði og deila hagnaðinum. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna var sögð hafa rætt hugmyndina á sínum tíma.
12. SJS útskýrði ekki aðferðafræðina að baki tillögunni og meintum “hagnaði”. SDG gerði slíkt hið sama varðandi aðferðafræði XB í sömu málum fyrir síðustu alþingiskosningar.
13. Það er ákveðinn ómöguleiki í því að tveir hópar “sérfræðinga” hefðu komið upp með sama “endemis ruglið” eftir íhugun málsins. Það mætti því ætla að XB hafi gengið í smiðju fyrri ríkisstjórnar og tekið þar traustataki hugmyndir “sérfræðinga” SDG og VH (sjá lið 9. að ofan) sem fleyttu XB og XD í Stjórnarráðið.
14. Augljóst er að þeir tveir leiðtogar – SJS og SDG – sem mest hafa fjallað um málið og/eða ráðgjafar þeirra eru ekki í stakk búnir til að stýra stefnumótun og meðferð málsins fyrir Íslands hönd.
15. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur því valið þann kost að fá erlenda ráðgjafa til aðstoðar við afnám gjaldeyrishaftanna og uppgjör slitabúa gömlu bankanna. Í því sambandi hefur Bjarni m.a. rætt við bandaríska Fjárfestingabankann JP Morgan og Anne Krueger, fv. aðstoðarframkvæmdastjóra AGS.
16. Af því má ráða tvennt um þankagang Bjarna á þessu stigi málsins:
(a) Hann telur að gjaldeyrishöftin verði ekki afnumin án umtalsverðrar utanaðkomandi fjármögnunar.
(b) Hann stefnir að lausn þar sem JP Morgan og Anne Krueger/AGS gætu aðstoðað við fjármögnunina.
17. Þar með væri “endemis rugl” Framsóknar varðandi uppgjör slitabúa gömlu bankanna tekið af dagskrá og komist hjá langvarandi og dýrum málaferlum innanlands og utan.
18. Erlend fjármögnun afnáms gjaldeyrishaftanna myndi hins vegar jafngilda skuldsetningu hins opinbera – og íslenzkra skattborgara – og gera eigendum hundruða milljarða froðukróna kleift að umbreyta þeim í alvörupeninga/gjaldeyri á kostnað íslenzkra stjórnvalda/skattborgara.
19. Af líkum má ráða að kröfuhafar gömlu bankanna muni afskrifa flestar/allar krónueignir slitabúanna gegn útborgun á öllum gjaldeyriseignum þeirra.
20. Af hálfu stjórnvalda myndi boð um slíkt jafngilda margfalt harkalegri aðgerð en skiptigengisleiðin þar sem innlendum eigendum froðukróna væri gert að skipta þeim út fyrir nýkrónur með afföllum.
21. Hér skal fullyrt að erlendir sérfræðingar sem stjórnvöld ráða sér til aðstoðar við afnám hafta myndu hvorki vilja né geta réttlætt slíka mismunun á grundvelli ríkisfangs eigenda froðukróna.