Miðvikudagur 28.5.2014 - 15:23 - FB ummæli ()

Kostaðu hug þinn herða – ríkisstjórn og afnám gjaldeyrishafta.

I. Í maí 2013 var haft eftir forsætisráðherra að „ríkisstjórnin ætlar að kynna nýja áætlun um afnám gjaldeyrishafta í haust [sem] mun m.a. byggja á hugmyndum Sigmundar Davíðs, en verður annars unnin í samráði við seðlabankann og ráðherranefnd…” (Bloomberg, 27. maí, 2013.

II. Í október 2013 var haft eftir fjármálaráðherra, „að jafnvel verði búið að afnema gjaldeyrishöftin í apríl [2014]”. (Bloomberg, 15. október 2013.)

III. Fjórum mánuðum síðar upplýsti forsætisráðherra Alþingi „að áætlun um afnám gjaldeyrishafta verði ekki birt opinberlega, enda þjóni það ekki hagsmunum Íslands [og ekki] verði greint frá því hvenær gjaldeyrishöftin verði afnumin.” (20. febrúar sl.)

IV. Fimm dögum síðar lét fjármálaráðherra hins vegar að því liggja „að áætlun um afnám gjaldeyrishafta hafi verið virkjuð í haust,” og „að jákvæð teikn [væru] á lofti hvað varðar mögulegt afnám gjaldeyrishafta og áætlun þess efnis ‘sem virkjuð var í haust’ [væri] í fullum gangi”. (eyjan.pressan.is, 25. feb. sl.)

V. Af ofangreindu má ráða:

1. Að umsagnir SDG og BB í I. og II. hafa byggt á óraunhæfum forsendum, og

2. Að raunhæf „áætlun um afnám gjaldeyrishafta” hefur aldrei verið til staðar.

VI. Í bloggi 25. marz sl. taldi ég stjórnvöld hafa tvo valkosti í stöðunni:

1. Að láta gjaldeyrishöftin haldast (nánast) óbreytt um fyrirsjáanlega framtíð.

2. Að knýja þrotabúin í gjaldþrot og flytja gjaldeyriseignir þeirra í seðlabankann.

VII. Síðari valkosturinn endurspeglar umsagnir hæstaréttarlögmannanna Reimars Péturssonar og Eiríks Svavarsson, sem eru meðal helztu ráðgjafa ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um málefni þrotabúa föllnu bankanna:

1. „Tilraunir til nauðasamnings eru […] markleysa. Réttast væri að hætta þeim strax. Þá hæfust gjaldþrotaskipti sem myndi væntanlega ljúka með því að hópurinn og aðrir kröfuhafar fengju laust fé, reyndar í krónum.”(RP, Tálsýn um nauðasamning, Mbl. 5. október 2013.)

2. „Það liggur fyrir að íslensk lög gera ráð fyrir því að kröfur í þrotabúin séu krónukröfur og á grundvelli þeirrar meginreglu og jafnræðis kröfuhafa þá væri eðlilegast að skiptastjóri greiddi út í íslenskum krónum – enda er það í samræmi við löggjöfina.”(ES, Spegillinn, RÚV, 20. maí 2014.)

VIII. Orðaval hæstaréttarlögmannanna – „væntanlega” og „eðlilegast” – gefur til kynna að ráðgjöf þeirra – að knýja þrotabúin í gjaldþrot og flytja gjaldeyriseignir þeirra í seðlabankann – standi ekki traustum fótum í íslenzkum lögum.

IX. Þetta atriði var borið undir Ásu Ólafsdóttur, lektor í lögfræði við Háskóla Íslands, í Speglinum 22. maí 2014, sbr. eftirfarandi samantekt fréttamanns RÚV í upphafi viðtals við Ásu:

„Það er á valdi slitastjórna bankanna sem og bústjóra hvaða þrotabús sem er að ákveða það, hvort kröfur í búin skuli greiddar í íslenskum krónum eða eftir atvikum í einhverri erlendri mynt.   Slitastjórum og bústjórum ber fyrst og fremst lagaskylda til að gæta hagsmuna kröfuhafa og jafnræðis á milli þeirra. Þetta segir Ása Ólafsdóttir, lektor í lögfræði við Háskóla Íslands.

Eiríkur Svavarsson, hæstaréttarlögmaður, sagði í viðtali við Spegilinn í fyrrakvöld að túlka mætti lög og dómafordæmi sem svo, að eðlilegast væri að kröfur í bú íslenskra lögaðila væru greiddar í krónum:

 Það liggur fyrir að íslensk lög gera ráð fyrir því að kröfur í þrotabúin séu krónukröfur og á grundvelli þeirrar meginreglu og jafnræðis kröfuhafa þá væri eðlilegast að skiptastjóri greiddi út í íslenskum krónum – enda er það í samræmi við löggjöfina.

En Ása Ólafsdóttir túlkar lögin sem svo, að það megi ætíð greiða út kröfur í íslenskum krónum en lögin segi ekki að það eigi að gera það.”

X. Í viðtalinu sjálfu var farið nánar út í lögfræðilegar hliðar málsins og dómafordæmi Hæstaréttar:

Ása:

Lögin segja að kröfum sem er lýst við gjaldþrotaskipti, að það eigi að snúa þeim yfir í íslenskar krónur, það er að segja miðað við gengi íslensku krónunnar þegar bú er tekið til gjaldþrotaskipta. Það er gert til þess að gæta jafnræðis í þessari sameiginlegu fullnustugerð. Lögin segja hins vegar lítið til um það hvernig eigi síðan að greiða út úr þessu við slíka fullnustugerð.

Fréttamaður:

Þannig að það er þá slitastjórnin sem ákveður það.

Ása:

Já, en hún hefur ekki alveg frjálsar hendur við það, því að hún verður að gæta jafnræðis kröfuhafa við útborgunina. Og það hefur reynt á þetta fyrir íslenskum dómstólum og í september í fyrra kom dómur í Hæstarétti sem fjallaði einmitt um þetta – hvaða gengi eða hvaða verðmiða á að setja á íslensku krónuna þegar hún er greidd út við úthlutun. Og niðurstaðan í Hæstarétti var sú, að kjósi slitastjórn eða skiptastjóri að greiða út í öðrum gjaldmiðli en íslenskri krónu, að þá á að miða við gengi krónunnar þegar hún er greidd út.

Þetta var ein niðurstaða Hæstaréttar en í sama máli reyndi líka á hvort að slitastjórn – í því tilviki var það slitastjórn en það getur allt eins átt við um skiptastjóra í þrotabúi hvort að honum væri skylt að greiða út í íslenskum krónum. En það sýnist mér ekki vera niðurstaða Hæstaréttar heldur að slitastjórn og skiptastjóri megi greiða út í íslenskum krónum.

XI. Með hliðsjón af ofangreindu er ljóst að stjórnvöld hafa tvo valkosti í stöðunni:

1. Að láta gjaldeyrishöftin haldast (nánast) óbreytt um fyrirsjáanlega framtíð.

2. Að knýja þrotabúin í gjaldþrot og flytja gjaldeyriseignir þeirra í seðlabankann.

2. Að herða upp hugann og fara skiptagengis-/nýkrónuleiðina til afnáms gjaldeyrishaftanna.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.4.2014 - 14:09 - FB ummæli ()

Upplausn í peningamálum – Orsök og afleiðing

Hér er stiklað á stóru.

1. Verðmæti skapast við skipulagt samspil framleiðsluþátta – vinnuafls og náttúruauðlinda. Sbr. hugtakið auðlind – uppspretta auðs.

2. Hlutverk skipuleggjanda/atvinnurekanda er að virkja slíkar uppsprettur auðs í framleiðsluferli.

3. Atvinnurekandi aflar sér framleiðsluþátta með útgáfu skuldaviðurkenninga í einhverri mynd.

4. Við lok framleiðsluferlis innleysir atvinnurekandi skuldaviðurkenningu sína með andvirði verðmætis sem skapast í framleiðsluferlinu.

5. Við nútíma aðstæður gefur atvinnurekandi út skuldaviðurkenningu til banka gegn samsvarandi nýsköpun peninga í mynd innstæðu á viðskiptareikningi hans.

6. Nýsköpun peninga – lögeyris – með þessum hætti felur í sér mikla hagkvæmni fyrir allan atvinnurekstur.

7. Sala nýskapaðs verðmætis við lok framleiðsluferlis gerir atvinnurekandanum kleift að innleysa eigin skuldaviðurkenningu gagnvart bankanum.

8. Sífelld og vaxandi upplausn í peningakerfum heims á rætur að rekja til afnáms Bretton Woods alþjóðapeningakerfisins í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar.

9. Hömlur gegn óhóflegri nýsköpun peninga voru innbyggðar í Bretton Woods kerfið.

10. Afnám Bretton Woods kerfisins án samkomulags helztu efnahagsvelda innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um hvernig standa ætti að nýjum hömlum er bein orsök ríkjandi upplausnar í peningakerfum heims.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.4.2014 - 18:44 - FB ummæli ()

Þensluáhrif skuldaleiðréttingar

I. Fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, kynnti frumvarp ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingu á Alþingi í gær, 7. apríl.  Í kjölfarið skiptust alþingismennirnir Vilhjálmur Bjarnason og Frosti Sigurjónsson á skoðunum um hugsanleg þensluvaldandi áhrif leiðréttinganna.

II. Vilhjálmur taldi leiðréttinguna fela í sér „peningaprentun” sem næmi um 5% af landsframleiðslu og samsvaraði 20% aukningu peningamagns í hagkerfinu yfir fjögur ár.

III. Frosti var á öðru máli og taldi að ekki væri um „peningaprentun” að ræða nema að því marki sem heimili notuðu aukið veðrými sem skapast við leiðréttinguna til að taka ný lán.

IV. Hugtakið „peningaprentun” er teygjanlegt líkindamál. Vilhjálmur virðist hafa notað það sem grófan mælikvarða á beina aukningu kaupmáttar sem skapast við leiðréttinguna/ígildi „peningaprentunar”, en Frosti svaraði með tilvísun til óbeinnar aukningar kaupmáttar við „peningaprentun” vegna lántöku út á aukið veðrými.

V. Miðað við 5% aukningu kaupmáttar yfir fjögur ár að óbreyttu verðlagi er ársaukning kaupmáttar gróflega áætluð um 1,25%.

VI. Í umsögn Seðlabanka Íslands voru áhrif skuldaleiðréttingarinnar á einkaneyzlu talin vera liðlega 1,5% á ársgrundvelli en SÍ áætlar að verðbólguáhrif leiðréttingarinnar verði um 0,4%.

VII. Umsögn Seðlabanka Íslands samrýmist niðurstöðunni í lið V. hér að ofan.

VIII. Í umsögn Analytica voru áhrif leiðréttingarinnar á einkaneyzlu talin vera 0,4% og á verðbólgu 0,1%.

IX. Sú umsögn gæti staðist ef aðeins 1/3 hluta af kaupmáttaraukningunni yrði varið til einkaneyzlu.

X. Í athugasemdum með leiðréttingarfrumvarpinu segir m.a.: „Ljóst er að mikil óvissa er um heildaráhrif aðgerðanna og áhættuþættir eru fjölmargir.”

XI. Mat Seðlabanka Íslands á áhrifum aðgerðanna á aukningu einkaneyzlu – og þar með á eftirspurn eftir innflutningi og þrýsting á gengi krónunnar – verður vart dregið í efa á faglegum forsendum.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 5.4.2014 - 23:48 - FB ummæli ()

Draumsýn og veruleiki.

1. Bréf til alþingismanna dags. 24. febrúar sl.

„Á morgun, þriðjudaginn 25. febrúar, fer ég af landi brott með þungar áhyggjur af því sem
ég tel vera ásetning stjórnvalda að knýja fram lausn á grundvelli gjaldþrotalaga sem eru
gagnvart viðfangsefninu það sem tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar
var gagnvart hruni íslenzka bankakerfisins í október 2008.

Það er að segja, gjaldþrotalög sem voru sett með hliðsjón af gjaldþrotum einstakra
fyrirtækja verða ekki á trúverðugan hátt heimfærð á þrotabú með heildareignir sem eru
umfram eins árs þjóðarframleiðslu Íslands.

Ef íslenzk stjórnvöld halda öðru fram, þá er trúverðugleiki þess jafn fjarstæðukenndur
og röksemdafærsla Bretlands og Hollands í Icesave deilu þessara ríkja við Ísland.

Í Mbl. grein 5. október 2013 mælti ákveðinn ráðgjafi íslenzkra stjórnvalda eindregið með því
að ákvæðum gjaldþrotalaga yrði beitt til að umbreyta gjaldeyriseignum þrotabúa Glitnis og
Kaupþings í krónur með yfirtöku þeirra af hálfu Seðlabanka Íslands.

Umræddar gjaldeyriseignir eru jafnvirði um eða yfir 2.000 milljarða króna.

Yfirtaka þeirra á grundvelli gjaldþrotalaga myndi væntanlega bjóða heim langdregnum og
kostnaðarsömum málaferlum innanlands og utan.

Lánstraust íslenzka ríkisins, ríkisstofnana og innlendra fyrirtækja myndi væntanlega falla
niður í ruslflokk og leiða til afarkosta við endurfjármögnun erlendra lána.

Hvort sem er á erlendum fjármagnsmörkuðum eða af hálfu „nýrra vinaþjóða“.”

II. Bjarni Benediktsson á flokkráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag, 5. apríl.
„Við skulum ekki skilja við umræðu um efnahagsmál án þess að nefna fjármagnshöftin sem hvíla á íslensku efnahagslífi. Þessi höft hvíla á okkur öllum, einstaklingum sem fyrirtækjum.

Þau vinna gegn möguleikum á því að dreifa áhættu og meðan þau vara getum við ekki tekið þátt í alþjóðlegu viðskiptalífi á eðlilegum forsendum og missum því af ýmsum tækifærum til vaxtar.

Þess vegna er málið eitt helsta forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar.

Afnám fjármagnshaftanna er lykilatriði í því að treysta samkeppnishæfni og viðskiptafrelsi Íslands á ný. Verkefnið er að vinna að lausn þar sem við á sama tíma verjum verðstöðugleika og léttum þrýstingi af krónunni.

Ég ítreka þá skoðun mína að við getum innan skamms tekið fyrstu skrefin í afnámi haftanna. Skynsamlegt er að hefja afnám á ýmsar smærri millifærslur og viðskipti milli landa, sem hafa ekki teljandi áhrif á gjaldeyrisstöðu okkar, en munu liðka til verulega fyrir starfsemi fyrirtækja, sérstaklega þeirra smærri sem eru að bugast undir regluverkinu sem fylgir höftunum.

Væntingar kröfuhafa um sérkjör, sérmeðferð, einhvers konar forgang að gjaldeyri umfram aðra án tillits til áhrifa fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu eru, voru og verða alltaf draumsýn sem ekki verður að veruleika.

Í vikunni skilaði ráðgjafahópur ríkisstjórnarinnar um haftaafnám niðurstöðum sínum og það er mikilvægt fyrir þá vinnu sem fram undan er að fá þau gögn og tillögur sem hann skilaði af sér.”

III. Teningunum kastað
Af umsögn fjármálaráðherra er ljóst að ríkisstjórnin hefur ætíð stefnt að gjaldþrotaskiptum á þrotabúum gömlu bankanna til að deila gjaldeyriseignum þeirra með erlendum kröfuhöfum.

IV. Annar valkostur
Annar valkostur var svokölluð skiptigengisleið sem miðar að jafnvægi milli froðupeninga og tiltækra raunverðmæta og ryður braut umbótum í efnahagsmálum. Þýzka efnahagsundrið eftir síðari heimsstyrjöld er til vitnis um ágæti þeirrar leiðar.

V. Draumsýn og veruleiki
Ef svo fer sem horfir (I. að ofan) þá verður afnámi fjármagnshafta sjálfkrafa skotið á frest og bið verður á endurhæfingu samkeppnishæfni og viðskiptafrelsis Íslands Verðstöðugleiki og stöðugt gengi krónunnar verða einnig að bíða betri tíma.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 31.3.2014 - 02:16 - FB ummæli ()

Verður skuldaniðurfellingin fjármögnuð af skattfé?

Árni Páll Árnason og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson deildu um svarið  á Alþingi í vikunni.

Já, sagði Árni Páll.

Nei, sagði Sigmundur Davíð.

Sbr. frétt á mbl.is þann 27 marz:

I.  Árni Páll sagði að frumvörp ríkisstjórnarinnar um skuldaniðurfellingar, sem kynnt voru í gær, hefðu staðfest það sem stjórnarandstaðan hefði lengið haldið fram.

„Þar fékkst staðfest sem við höfðum fengið að sjá fyrr í vetur, að í stað þess að kosningaloforð um 300 milljarða frá hrægömmum væri efnt, þá er okkur boðið upp á 70 milljarða leiðréttingaraðgerð fjármagnaða af almennu skattfé.

Það er þá orðið endanlega ljóst,“ sagði Árni Páll.

II. Sigmundur sagðist vera undrandi á því að Árni Páll kæmi enn einu sinni upp í pontu og héldi því fram að ríkisstjórnin hefði lofað því að það ætti að kosta ríkið 300 milljarða að leiðrétta lánin.

„Þegar við við erum búin að vera að reyna að útskýra það árum saman fyrir háttvirtum þingmanni og félögum hans að það væri ekki jafndýrt og háttvirtur þingmaður hélt að leiðrétta lánin og koma til móts við fólk,“ sagði Sigmundur.

Nú væri hins vegar búið að snúa dæminu við. „Vegna þess að við höfðum rétt fyrir okkur með það, að þetta kostaði ekki eins mikið og síðasta ríkisstjórn hélt, þá værum við ekki að uppfylla kosningaloforð,“ sagði forsætisráðherra.

„Svo segir háttvirtur þingmaður að þetta sé fjármagnað af skattfé.

Jú, það er hér ákveðinn millileikur þangað til það myndast það svigrúm sem ég held að háttvirtur þingmaður sé meira að segja farinn að viðurkenna að verði til.

En hvernig er bilið brúað? Er það ekki meðal annars með skattlagningu sem háttvirtur þingmaður og sú ríkisstjórn sem hann átti aðild að lét algjörlega hjá líða að ráðast í?“

III. Umræddur „millileikur” felst í fjármögnun leiðréttingarinnar af almennu skattfé þar til svonefndur bankaskattur á þrotabú föllnu bankanna innheimtist í ríkissjóð.

IV. Fjárlög ársins 2014 sýna hallalausan rekstur ríkissjóðs m.a. vegna þess að þau eru byggð á rekstrargrunni þar sem tekjur eru færðar í bókhald þegar þeirra er aflað án tillits til þess hvenær þær innheimtast. Ef bankaskatturinn innheimtist ekki innan ársins þá verður  samsvarandi halli á rekstri ríkissjóða að öðru óbreyttu.

V. Slitastjórnir Glitnis og Kaupþings telja bankaskattinn brjóta gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um jafnræði og eignarrétt m.m.  Ef greiðsla hans tefst þar til Hæstiréttur Íslands hefur fjallað um málið, þá verður skuldaleiðrétting ársins fjármögnuð af almennu skattfé að öðru óbreyttu.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.3.2014 - 22:56 - FB ummæli ()

Áætlun um afnám gjaldeyrishafta í uppnámi?

I. „Ég hef sérstakar áhyggjur af því hversu meðvitað virðist sneitt hjá því að gefa Alþingi upplýsingar um stöðu málsins, og framhjá því að hafa samráð við stjórnarandstöðuna. Afnám gjaldeyrishafta er eitt erfiðasta og brýnasta en um leið mikilvægasta úrlausnarefnið sem blasir við okkur Íslendingum,” sagði Össur Skarphéðinsson á Alþingi í dag.

Össur sagði forsætisráðherra hafði sagt „árla á þessu kjörtímabili” að afnámsáætlun yrði kynnt fyrir lok september. „September er löngu kominn og farinn en það bólar ekkert á áætluninni,” bætti hann við

II. Fjármálaráðherra segir „að áætlun um afnám gjaldeyrishafta hafi verið virkjuð í haust,” og „að jákvæð teikn [séu] á lofti hvað varðar mögulegt afnám gjaldeyrishafta og áætlun þess efnis sem ‘sem virkjuð var í haust’ [sé] í fullum gangi”. (eyjan.pressan.is, 25. febrúar sl.)

III. Slík áætlun er því aðeins raunhæf að Seðlabanki Íslands hafi yfir að ráða e.t.v. 1000 milljörðum í gjaldeyri til viðbótar skuldsettum gjaldeyrisforða SÍ.

IV. Lánsfjármögnun aukins gjaldeyrisforða á erlendum fjármagnsmörkuðum er ekki valkostur í ljósi skuldastöðu þjóðarbúsins, og í kjölfar atburða á Krímskaga gildir það sama um fjármögnun hans á pólitískum forsendum hvort sem væri af hálfu Rússlands eða Kína.

V. Gjaldeyrishöftin voru vörn gegn umframkaupmætti krónueigna og tekna miðað við gjaldeyrisforða og nettó innstreymi gjaldeyris að óbreyttu gengi íslenzku krónunnar.

VI. Stjórnvöldum er þetta vitaskuld ljóst, sbr. hugmyndir þeirra um 75% afslátt af krónueignum kröfuhafa þrotabúa föllnu bankanna við yfirfærslu þeirra í gjaldeyri.

VII. Hins vegar hafa stjórnvöld ekki ljáð máls á hliðstæðum aðgerðum gagnvart krónueignum innlendra aðila (skiptagengisleið að hætti V.-Þjóðverja eftir síðari heimsstyrjöld).

VIII. Að óbreyttu virðast stjórnvöld telja sig eiga tveggja kosta völ:

  1. Að láta gjaldeyrishöftin haldast (nánast) óbreytt um fyrirsjáanlega framtíð.
  2. Að knýja þrotabúin í gjaldþrot og flytja gjaldeyriseignir þeirra í seðlabankann.

IX.  Stjórnvöld hafa krafist þess að slitastjórnir Glitnis og Kaupþings leggi fram drög að nauðasamningum um uppgjör þrotabúanna sem gerði stjórnvöldum kleift að afnema höftin.

X. Krafan er eindregin:„Þetta er ekki samningsatriði heldur skilyrði sem þarf að fullnægja.”

XI. Gjaldeyriseignir þrotabúanna jafngilda um 2.400 milljörðum króna. Ef um 1.000 milljarða af gjaldeyri þarf til að afnema gjaldeyrishöftin án gengishruns og óðaverðbólgu, þá verður þessu skilyrði ekki fullnægt nema kröfuhafar afsali sér um 40% af gjaldeyriseignum þrotabúanna.

XII. Það er því falskur tónn í orðum stjórnvalda í þá veru að það sé alfarið á ábyrgð slitastjórna Glitnis og Kaupþings að uppgjör þrotabúanna hefur dregist úr hömlu – og slitastjórnirnar gætu sjálfum sér um kennt ef stjórnvöld brysti þolinmæðin og þrotabúin yrðu knúin í gjaldþrot.

XIII. Aðferðafræði ríkisstjórnarinnar – beiting úrslitakosta með gjaldþrotaskipti að markmiði – er fullkomlega óraunhæf því hún býður heim málaferlum erlendis þar sem stærsti hluti gjaldeyriseigna þrotabúanna er vistaður. Hver sem útkoman kynni að verða, þá myndi væntanlega lokast fyrir nauðsynlega endurfjármögnun erlendra skulda þjóðarbúsins.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 23.3.2014 - 16:01 - FB ummæli ()

Var aðildarumsókn að ESB „ógild ákvörðun”?

I. Forsætisráðherra tjáði sig um stjórnskipunarleg álitamál varðandi aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu á Sprengisandi í dag:

1. Umsóknin byggði á „ógildri ákvörðun” fyrrverandi ríkisstjórnar „af því að þjóðin var ekki spurð”.

2. Samkvæmt Stjórnarskrá Íslands eru þjóðaratkvæðagreiðslur ráðgefandi en ekki bindandi.

3. Aðildarumsóknin var engu að síður lögð fram af fyrrverandi ríkisstjórn „í heimildarleysi”.

II. Á fundum með forystumönnum ESB sl. sumar hefur SDG útskýrt afstöðu sína til ESB á grundvelli eigin túlkunar á viðkomandi álitamálum, sbr. orð forseta framkvæmdastjórnar ESB við fundalok:

„We look forward to clarity on the validity of Iceland’s membership application after the parliamentary assessment on European Union accession, which will take place this autumn.”

[Við bíðum þess að gildi/lögmæti aðildarumsóknar Íslands skýrist eftir að Alþingi hefur lokið mati sínu á ESB-aðild í haust.]

Túlkun SDG á stjórnskipunarlegu gildi/lögmæti umsóknarinnar hefur ekki komið til meðferðar Alþingis þrátt fyrir fyrirheit SDG um að hún myndi „skýrast” við umfjöllun þingsins.

III. Það er rökfræðileg þversögn að segja umsókn vera „ógilda”/gerða „í heimildarleysi” af því að  hún byggir ekki á þjóðaratkvæðagreiðslu sem er ráðgefandi en ekki bindandi.

IV.  Að knýja á um útskýringu á túlkun á stjórnskipulegu álitamáli jafngildir ekki kröfu um svar af eða á varðandi sjálfa  aðildarumsókn Íslands að ESB.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.3.2014 - 02:03 - FB ummæli ()

Afturköllun aðildarumsóknar út í hött?

Ágætu alþingismenn.

Forsætisráðherra á ósvarað lykilspurningu forystumanna Evrópusambandsins frá 16. júlí sl.:

Barroso:

We look forward to clarity on the validity of Iceland’s membership application after the parliamentary assessment on European Union accession, which will take place this autumn.

Íslenzk þýðing:

Við bíðum þess að gildi/lögmæti aðildarumsóknar Íslands skýrist eftir að Alþingi hefur lokið mati sínu á ESB-aðild í haust.

Það væri út í hött fyrir Alþingi að afturkalla ógilda/ólögmæta aðildarumsókn Íslands.

Sjá nánar hér að neðan.

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson, hagfræðingur og löggiltur skjalaþýðandi

***

I. Forsætisráðherra, hitti Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, að máli 16. júlí 2013 en lét ósvarað lykilspurningu ESB um ákvörðun ríkisstjórnarinnar  að gera hlé á  viðræðum um aðildarumsókn Íslands.

II. Sbr. umsögn Barroso á fréttamannfundi að loknum fundi þeirra:

„Let me be clear: The Commission respects the decision of the government regarding the accession process. We look forward to clarity on the validity of Iceland’s membership application after the parliamentary assessment on European Union accession, which will take place this autumn.

It is in the interest of the European Union and Iceland that a decision is taken on the basis of proper reflection and in an objective, transparent, serene manner. But the clock is ticking, and it is also in the shared interest of us all that this decision is taken without further delay.”

III. Íslenzk þýðing mín á umsögn Barrosos:

„Afstaða okkar er skýr: Framkvæmdastjórnin virðir ákvörðun ríkisstjórnarinnnar varðandi aðildarferlið. Við bíðum þess að gildi/lögmæti* aðildarumsóknar Íslands skýrist eftir að Alþingi hefur lokið mati sínu á ESB-aðild í haust.

Það er sameiginlegt hagsmunamál ESB og Íslands að ákvörðun verði tekin á grundvelli tilhlýðilegrar íhugunar og á hlutlægan, gagnsæjan og yfirvegaðan hátt. En tíminn líður, og það eru líka sameiginlegir hagsmunir okkar að þessi ákvörðun verði tekin án frekari tafar.”

*Úr hugtakasafni þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins, validity:  gildi, lögmæti og réttmæti.

IV. Gildi/lögmæti umsóknarinnar er ekki ágreiningsmál á heimavelli stjórnvalda. Hins vegar segir forsætisráðherra beiðni ESB „að þessi ákvörðun [um gildi/lögmæti hennar] verði tekin án frekari tafar” sé ástæða flýtimeðferðar þingsályktunartillögunnar um slit viðræðna um aðildarumsókn Íslands.

V. Sbr. upphafsorð forsætisráðherra í Kastljósi 4. marz sl.:

„Það er mikilvægt að hafa í huga að það hafi verið beðið svara frá ríkisstjórninni. Svara, ekki hvað síst frá Evrópusambandinu sjálfu sem að strax í upphafi, þegar við tókum við, tilkynnti okkur að menn gætu ekki látið langan tíma líða áður en að svör kæmu frá  nýrri ríkisstjórn um hvað hún ætlaði í málinu, hvort hún segði af eða á. Ég fór og hitti forystumenn Evrópusambandsins, þá Barroso og van Rompuy.  Báðir lögðu mikla áherslu á þetta, sögðu við getum ekki beðið lengi eftir svari við þessari spurningu.”

VI. Sbr. einnig upphafsorð forsætisráðherra í kvöldfréttum RÚV mánudaginn10. marz:

„Aðalatriðið í þessu máli er það að það stóð upp á ríkisstjórnina að svara, ekki sízt Evrópusambandinu sem var mjög afdráttarlaust í kröfum sínum um svör, hvað við vildum næst með þessa umsókn, Ríkisstjórnin er búin að svara því fyrir sitt leyti.”

VII. Enn stendur upp á ríkisstjórn Íslands að svara Barroso og van Rompuy um gildi/lögmæti aðildarumsóknarinnar.

VIII. Augljóslega væri út í hött að afturkalla ógilda/ólögmæts aðildarumsókn þar sem hún hefði enga þjóðréttarlega stöðu.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 9.3.2014 - 14:34 - FB ummæli ()

Vaxtastefna Seðlabanka Íslands

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, ræddi um vaxtastefnu SÍ í viðtali við Sigurjón M. Egilsson á Sprengisandi fyrr í dag.
Vaxtastefnan er ekki flókin:
Stýrivextir, X, ráðast af mældri verðbólgu og/eða „verðbólguvæntingum“, Y, þannig að X – Y = ca. 2% „raunvextir“.
Peningahagfræði er aðeins flóknari og krefst skilnings á viðfangsefninu.
Sbr. umsögn brezka hagfræðingsins Joan Robinson (1903-1983):
„I can’t follow the mathematics, so I have to think.“ (Ég er ekki sleip í reikningi og verð því að hugsa.)
Gjaldeyrishöft síðustu fimm ára hafa komið í veg fyrir gengishrun vegna undirliggjandi ójafnvægis í peningamálum.
Vaxtastefna SÍ viðheldur ójafnvæginu í stað þess að minnka það með NEIKVÆÐUM raunvöxtum

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.3.2014 - 23:18 - FB ummæli ()

Afstaða ESB og getgátur stjórnvalda

I.  Afstaða ESB til aðildarumsóknar Íslands var útskýrð af Barosso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, á fréttamannafundi 16 júlí 2013 við lok heimsóknar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, til höfuðstöðva ESB.

II. Á fundinum vék Barosso að viðræðum þeirra og afstöðu framkvæmdastjórnar ESB (lausleg þýðing mín):

Í dag áttum við skoðanaskipti um fyrirætlanir nýju ríkisstjórnar Íslands varðandi tengsl ESB og Íslands. Skoðanaskiptin voru uppbyggileg og juku gagnkvæman skilning á sýn beggja aðila á tengsl okkar í framtíðinni.

Afstaða okkar er skýr: Framkvæmdastjórnin virðir ákvörðun ríkisstjórnarinnnar varðandi aðildarferlið. Við bíðum þess að staða Íslands í þessi sambandi skýrist eftir að Alþingi hefur lokið mati sínu á ESB-aðild í haust.

Það er sameiginlegt hagsmunamál ESB og Íslands að ákvörðun í málinu verði tekin á grundvelli tilhlýðilegrar íhugunar og á hlutlægan, gagnsæjan og yfirvegaðan hátt. En tíminn líður, og það eru líka sameiginlegir hagsmunir okkar að þessi ákvörðun verði tekin án frekari tafar.

Við vonum að þessi umræða á Íslandi gefi okkur skýra vísbendingu um leiðina áfram, og við eru reiðubúnir til frekari viðræðna við ríkisstjórnina um sameiginlega mótun þeirrar leiðar.

Ég vil líka árétta að einróma ákvörðun af hálfu aðildarríkja ESB um opnun aðildarsamningsferlisins er enn í fullu gildi.

Í stuttu máli, þá eru skilaboð mín í dag skýr: Að því gefnu að vilji Íslands standi til þess, þá erum við enn skuldbundnir að halda áfram aðildarsamningsferlinu sem ég tel fullvíst að gæti leitt til lausna á séríslenzkum málum.

Herra forsætisráðherra.

Ég þakka þér fyrir heimsókn þína til framkvæmdastjórnar ESB og vil endurtaka enn einu sinni hversu mjög ég virði land þitt. Við lítum á Ísland sem eina nánustu vinaþjóð okkar. Ég vil fullvissa þig og íslenzku þjóðina að við óskum þess að mynda nánari og jafnvel árangursríkari tengsl við land ykkar.

Ég þakka þér áheyrnina.

III. Allt er þetta kurteislega orðað, en ýmislegt má lesa milli lína í eftirfarandi málsgrein:

Það er sameiginlegt hagsmunamál ESB og Íslands að ákvörðun í málinu verði tekin á grundvelli tilhlýðilegrar íhugunar og á hlutlægan, gagnsæjan og yfirvegaðan hátt. En tíminn líður, og það eru líka sameiginlegir hagsmunir okkar að þessi ákvörðun verði tekin án frekari tafar.

IV. Innvígðir í stofnana-ensku gætu e.t.v. lesið hér milli lína eitthvað á þessa leið:

Við erum ekki andstæðingar í þessu máli. Ef íslenzk stjórnvöld róa sig og leggja ískalt mat á hlutina, þá blasa sameiginlegir hagsmunir okkar við. Vonandi verður það fyrr frekar en síðar að þið gerið upp hug ykkar.

V. Forsætisráðherra virðist lesa eftirfarandi skilaboð milli lína:

ESB bíður ekki til eilífðarnóns eftir að Ísland taki ákvörðun af eða á.

VI. Milli-lína lestur byggir á getgátum.

Það skiptir engu hvað fólk úti í bæ leyfir sér í þeim efnum.

En ábyrg ríkisstjórn byggir ekki framtíð þjóðar á getgátum.

VII. Væri ekki ráð að SDG hringdi í Barosso?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Gunnar Tómasson
Ég er fæddur (1940) og uppalinn á Melunum í Reykjavík. Stúdent úr Verzlunarskóla Íslands 1960 og með hagfræðigráður frá Manchester University (1963) og Harvard University (1965). Starfaði sem hagfræðingur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá 1966 til 1989. Var m.a. aðstoðar-landstjóri AGS í Indónesíu 1968-1969, og landstjóri í Kambódíu (1971-1972) og Suður Víet-Nam (1973-1975). Hef starfað sjálfstætt að rannsóknarverkefnum á ýmsum sviðum frá 1989, þ.m.t. peningahagfræði. Var einn af þremur stofnendum hagfræðingahóps (Gang8) 1989. Frá upphafi var markmið okkar að hafa hugsað málin í gegn þegar - ekki ef - allt færi á annan endann í alþjóðapeningakerfinu. Í október 2008 kom sú staða upp í íslenzka peninga- og fjármálakerfinu. Alla tíð síðan hef ég látið peninga- og efnahagsmál á Íslandi meira til mín taka en áður. Ég ákvað að gerast bloggari á pressan.is til að geta komið skoðunum mínum í þeim efnum á framfæri.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar