Mánudagur 20.1.2014 - 23:26 - FB ummæli ()

Er ríkisstjórn XB og XD lýðræðisleg?

Er það lýðræði að vinna kosningar með endemis bulli um 300 milljarða niðurfellingu skulda án þess að ríkissjóður taki á sig neinar byrðar – og bjóða síðan upp á 20 milljarða á næsta fjárlagaári samtímis því sem halli á ríkissjóði er talinn verða umtalsvert hærri?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.1.2014 - 17:45 - FB ummæli ()

Meint peningaþvætti íslenzkra banka fyrir hrun

Tölvupóstur dags. 15. janúar 2014.

Ágætu alþingismenn.

I. Dr. Gary K. Busch er bandarískur prófessor sem hefur rannsakað fjárstreymi frá Rússlandi til annarra landa. Í þessu sambandi heimsótti Dr. Busch Ísland stuttu eftir bankahrunið í október 2008. Í grein dags. 17. febrúar 2009 vék Dr. Busch að niðurstöðum rannsókna sinna á Íslandi.

Upphaf og niðurlag greinarinnar var eftirfarandi (í lauslegri þýðingu):

„Föstudaginn 13 febrúar lét rússneski milljarðamæringurinn Boris Berezovsky að því liggja á Sky News að Vladimir Putin og einkavinir hans hefðu notað “skítuga peninga” til að ná yfirtökum á brezkum fyrirtækjum í gegnum fjárfestingar á Íslandi. Þegar þessar ásakanir voru settar fram var ég staddur á Íslandi og hitti ýmsa Íslendinga að máli.

Íslendingarnir sögðu að þeir væru að koma frá Alþingi þar sem nokkrir Rússar hafi verið að ræða nákvæmlega þetta mál við íslenzku ríkisstjórnina (e. Icelandic Government). Rússarnir sögðu að þeir hefðu rannsakað ásakanir Berezovsky og staðfest að þær væru í aðalatriðum sannar.

[…]

Í einkaviðræðum segja íslenzk stjórnvöld að ástæða þess að þeim bauðst 5.4 milljarða evrulán frá Rússum var hættan á því að allur þessi peningaþvottur yrði gerður opinber. Þetta er sorgarsaga og Íslendingarnir eru uggandi af því  hvernig henni muni ljúka. […].”

II. Birgitta Jónsdóttir beindi eftirfarandi fyrirspurn um málið til forsætisráðherra 20. des. sl.:

Telur ráðherra ástæðu til að rannsakað verði hvort orðrómur um tengsl rússneskra aðila við íslensku bankana fyrir hrun eigi við rök að styðjast, t.d. á þann hátt að Alþingi skipaði rannsóknarnefnd samkvæmt lögum nr. 68/2011?

III. Svar forsætisráðherra í gær, 14. janúar, var eftirfarandi:

„Í fyrirspurninni kemur ekki fram hvert sé nákvæmlega efni þess orðróms sem óskað er eftir að ráðherra taki afstöðu til hvort rannsaka skuli. Sé um að ræða rannsókn á orðrómi um meint óeðlileg tengsl við íslenska banka í aðdraganda hruns fjármálakerfisins hér á landi er bent á að rannsókn slíkra mála eða ákvörðun um slíka rannsókn er ekki á málefnasviði forsætisráðherra eða forsætisráðuneytisins heldur samkvæmt lögum á hendi eftirlitsaðila á sviði fjármálastarfsemi og eftir atvikum lögreglu og ákæruvalds.”

IV. Birgitta Jónsdóttir beindi einnig svohljóðandi fyrirspurn um málið til utanríkisráðherra:

„Er íslenskum stjórnvöldum kunnugt um rannsókn bresku leyniþjónustunnar á meintu peningaþvætti í íslensku bönkunum árið 2005, sem fjallað er um í bókinni Meltdown Iceland eftir Roger Boyes og, ef svo er, hverjar niðurstöðurnar eru?“

V. Um mitt ár 2013 fjallaði ég ítarlega um málið í bloggfærslum á eyjan.is. Fréttamaður RÚV hafðí því samband og leitaði eftir umsögn minni um fyrirspurnir Birgittu. Viðtal okkar var fellt inn í hádegisfréttir RÚV þann 21. desember og endursagt að hluta á vefsíðu RÚV sama dag. Þar segir m.a.:

„Þetta er semsé frá Boyes og hann er trúverðugur sem diplomatic editor of London Times myndi ég ætla,“segir Gunnar. […]

„Hér eru margar vísbendingar um að það séu mál sem ekki hafa komið upp á yfirborðið um fjármögnun íslensku bankanna í aðdraganda hrunsins.“

Gunnar veltir fyrir sér hvort að þetta skýri að íslensk stjórnvöld hafi alls staðar komið að lokuðum dyrum hjá seðlabönkum í Bandaríkjunum og Norðurlöndunum. Þá sé það ótrúlegt að breska leyniþjónustan hafi ekki vitað af þessu, ef rétt sé. Það kunni að skýra harkaleg viðbrögð breskra stjórnvalda í tengslum við Icesave.

„Hér eru svo stórar spurningar að það er nauðsynlegt, finnst mér, fyrir okkur sem þjóð að vita nákvæmlega er þetta eitthvað sem verið er að þagga niður í stjórnkerfinu á Íslandi af pólitískum ástæðum. Fyrir það myndi ég segja að það er full ástæða til að taka þetta til rannsóknar á formlegan hátt.“

VI. Ég tel mig hafa ástæðu til að ætla að Seðlabanki Íslands hafi kynnt sér málið á sínum tíma.

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson, hagfræðingur.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.1.2014 - 14:42 - FB ummæli ()

Lífeyrissjóðakerfið eykur skuldsetningu heimila

Ríkisstjórn XB og XD er umhugað um að létta skuldabyrði heimilanna.
En fer í geitarhús að leita ullar – í séreignasparnað heimilanna og fugla í skógi en ekki löngu tímabæra breytingu á öfugsnúnu lífeyrissjóðakerfi.
Greiðsla iðgjalda laumþega og atvinnurekenda til lífeyrissjóðanna lamar eftirspurn eftir vörum og þjónustu sem launþegar geta staðið undir með atvinnutekjum sínum.
Að sama skapi lamar iðgjaldagreiðslan þann drifkraft hagvaxtar og atvinnusköpunar sem felst í kaupmætti almennings af atvinnutekjum.
Opinber skattlagning og iðgjaldagreiðslur af atvinnutekjum eru af þeirri stærðargráðu að SKULDSETNING er eini valkostur sem tugþúsundir heimila landsins hafa til að fjármagna nauðsynlegan framfærslukostnað.
Á hverju ári hefur slík skuldsetning farið yfir þolmörk heimilanna – og að meðaltali eru þrjár fjölskyldur sagðar hafa misst húsnæði sitt á hverjum degi frá 2008 vegna skatta, lífeyrissjóðsgreiðslna, óviðunandi hagvaxtar og atvinnutækifæra annarra en láglaunastarfa.
Það er löngu tímabært að stjórnvöld taki á vandanum, eða víki ella.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.1.2014 - 22:34 - FB ummæli ()

Vaxtagreiðslur eða fjármagnsflótti?

1. Í færslu 17. febrúar 2009 (http://vald.org/greinar/090217/) vísaði Jóhannes Björn til innleggs míns á bloggi Egils Helgasonar þar sem vikið var að (meintri) þróun vergra vaxtagreiðslna þjóðarbúsins frá 2004 til 2008 skv. hagtölum Seðlabanka Íslands. Þar segir m.a.:

„Aukning vaxtaútgjalda þjóðarbúsins úr 1/25 hluta vergrar landsframleiðslu 2004 í 1/3 hluta árið 2008 jafngildir blóðmjólkun samfélagsins.

Enn er óvíst hvað þar bjó að baki – en ekki er hægt að útiloka að íslenzk fjármálafyrirtæki og svartir erlendir peningar komi þar við sögu.”

2. Seðlabanki Íslands hefur ekki tjáð sig opinberlega um málið.

3. En hér var eitthvað óvenjulegt – og e.t.v. gruggugt – á ferð.

4. Í pistli í dag, 2. janúar 2014 (http://www.jonas.is/atta-manada-ransferd/) vekur Jónas Kristjánsson máls á hugsanlegri útskýringu: fjármagnsflótta.

„Ráðamenn okkar vissu í febrúar 2008 að hrunið var að koma. Viðvaranir fóru að berast frá sérfræðingum. Þá hófust tölvusamskipti ráðherra og fyrirmæli til ráðuneytisstjóra um að leyna ástandinu fyrir almenningi. Lykilmenn í þessu ferli voru Geir H. Haarde og Davíð Oddsson. Á sama tíma hófu innvígðir að undirbúa einkafjármálin. Bankarnir fóru að lána eignalausum fyrirtækjum eigenda sinna og gæludýranna. Ráðuneytisstjóri lenti síðar á Kvíabryggju út af innherjasvindli. Hundruðum milljarða af gervifé var skipt í gjaldeyri og komið undan til Tortola. Hrunið kom í október, eftir átta mánaða ránsferð.”

5. Ég tilkynnti Rannsóknarnefnd Alþingis um málið, en skýrsla hennar var þögul um það.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 23.12.2013 - 23:49 - FB ummæli ()

Arðrán í gervi kjarasamninga.

Íslenzka hagkerfið er fullt af krónufroðu sem stendur í vegi fyrir afnámi gjaldeyrishafta sem stjórnvöld og SAASÍ (lífeyrissjóðirnir) stefna að við fyrsta tækifæri.

Krónufroða er samheiti eftirlegukinda peningabólunnar sem sprakk haustið 2008, í mynd krónueigna þrotabúa gömlu bankanna og lífeyrissjóðakerfisins ásamt snjóhengjunni svokölluðu.

Hugtakið nær líka til krónueigna sem urðu til við lántökur eignarhaldsfélaga sem síðan hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta og reynst vera eignalaus, þótt aðilar tengdir þeim kunni að vera vellauðugir.

Engin verðmætasköpun býr að baki krónufroðu og jafngildir hún því innstæðulausum ávísunum.

Að því marki sem krónufroða endurspeglast í eftirspurn eftir framleiðslu og/eða innflutningi í samkeppni við kaupmátt atvinnutekna ársins 2014 þá skapar hún umframeftirspurn, verðbólgu og/eða gengislækkun.

Þetta var bakgrunnur þeirra viðræðna sem lauk með samkomulagi ríkisstjórnar, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands við vetrarsólstöður þann 21. desember sl.

Kaupmáttur atvinnutekna er gefin stærð á hverjum tíma.

Við samningsborðið voru hagsmunir vinnandi stétta þrenns konar:

  1. Að verðbólga á árinu 2014 væri sem minnst.
  2. Að gengi krónunnar héldist stöðugt.
  3. Að kaupmáttur atvinnutekna yrði ekki skertur í þágu kaupmáttar krónufroðu.

Það er á valdi ríkisstjórnarinnar en ekki SA og ASÍ að tryggja að stjórn peningamála sé með þeim hætti að þjóðhagslega mikilvæg verðbólgu- og gengismarkmið nái fram að ganga án þess að réttmætir hagsmunir vinnandi stétta séu fyrir borð bornir.

Við lægsta sólargang 21. desember sl. varð raunin önnur.

EF ríkisstjórnin veigrar sér við að takast á við þau öfl sem eiga hagsmuna að gæta varðandi krónufroðu, ÞÁ kann samkomulag aðila um kaup og kjör að reynast vera aðeins fyrsta skrefið í áframhaldandi tilraun til að DRAGA ÚR KAUPMÆTTI vinnandi stétta til að skapa SVIGRÚM fyrir afnám gjaldeyrishafta og útstreymi froðueigna innlendra og erlendra aðila.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.12.2013 - 20:00 - FB ummæli ()

Skuldaleiðrétting eða lengri hengingaról heimila?

Greiningaraðilar telja líklegt að skuldaleiðréttingaáform ríkisstjórnarinnnar leiði til hærri verðbólgu.

Ársverðbólga mælist núna 4.2%.

Við 5% ársverðbólgu hækkar höfuðstóll 20 milljóna verðtryggðs láns um eina milljón á ári.

Hámark skuldaniðurfellingar einstakra heimila er 4 milljónir á fjórum árum.

Við 5% ársverðbólgu myndi 20 milljóna lán 2014 standa í sömu upphæð við árslok 2017.

Skuldsett heimili hefðu þá kastað séreignasparnaði sínum á glæ.

En XB hefði tekist að lengja í hengingaról skuldsettra heimila.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 5.12.2013 - 22:21 - FB ummæli ()

Endemis rugl og ruslflokkur

Skuldaleiðrétting er gott mál eða slæmt eftir atvikum.

Atvik málsins sem vikið er að í lið I. og II. bjóða hættunni heim:

Að endemis rugl XB keyri lánshæfi Íslands i ruslflokk.

***

I. http://www.forsaetisraduneyti.is/media/frettir2/kynning-leidrettingin.pdf

LEIÐRÉTTINGiN FJÁRMÖGNUN AÐGERÐANNA – Mynd 55.

Fullfjármagnaðar aðgerðir sem byggja á því að þeir aðilar sem kyntu undir ósjálbærri útlánastarfsemi komi að því að bæta forsendubrestinn.

Skuldaskil fallinna fjármálafyrirtækja skapa svigrúm. – Mynd 56.

Svigrúm vegna gömlu bankanna >>>>Ríkissjóður >>>>Skuldsett heimili.

II. Skuldaskil vs. seðlaprentun

Full fjármögnun aðgerðanna með svigrúmskrónum tryggir bókhaldslegt jafnvægi ríkissjóðs.

En hefur sömu efnahagsleg áhrif og fjármögnun aðgerðanna í gegnum Seðlabanka Íslands.

Sbr. eftirfarandi:

III. http://blog.pressan.is/gunnart/2013/10/21/endemis-rugl-i-ondvegi-stodugleika-ognad/

[…]

Og þá er komið að kjarna farsællar stjórnsýslu:

Að gera rétt og þola ekki órétt .

Í því felst m.a. að hengja ekki bakara fyrir smið.

Kröfuhafa þrotabúanna fyrir kröfuhafa Íbúðalánasjóðs.

Og grafa óafvitandi undan fjármálalegum stöðugleika.

Og hvernig mætti það vera?

Hér er einfalt dæmi:

1. Kröfuhafar kaupa gjaldeyri af Seðlabanka fyrir 400 milljarða á tvöföldu skráðu gengi.

2. Stjórnvöld nota 200 milljarða hagnað til að fjármagna skuldaleiðréttingu.

3. Slík fjármögnun er í ENGU frábrugðin seðlaprentun til að leiðrétta skuldir heimilanna.

Ástæðan ætti að vera sérfræðingum forsætisráðherra ljós:

Í báðum tilfellum eykst kaupmáttur ÁN aukningar á verðmætasköpun í hagkerfinu.

Og þar með er fjármálalegum stöðugleika ógnað.

IV. Hér er enn einfaldara dæmi:

A.

Ungur hagfræðingur spurði mig um peningahlið skuldaaðgerðanna.

Svar mitt var eftirfarandi.

B.

Hér er stutt útgáfa af minni túlkun á hlutunum.

Aðgerðirnar auka kaupmátt heimilanna – að öðru óbreyttu verður aukning á heildarkaupmætti sem þessu nemur.

Tengsl þessa við efnahagsreikninga fjármálastofnana eru snúin.

Hins vegar liggur niðurstaðan ljós fyrir ef maður byggir á TEKJUSTREYMI sem skapast af landsframleiðslu líðandi stundar.

Aukning á kaupmætti án breytinga á landsframleiðslu/tekjustreymi veldur þenslu í mynd hækkandi verðlags og/eða versnandi viðskiptajöfnuðar.

Krónueignir þrotabúanna eru EKKI hluti af tekjustreymi líðandi stundar.

Notkun slíkra krónueigna til að auka kaupmátt er jafngildi þess að kaupmáttur sé aukinn með seðlaprentun.

C.

Fjármálaráðherra segir krónueignir kröfuhafa munu dekka útgjöld ríkissjóðs vegna skuldamála.

Tæknilega séð jafngildir það því að dekka útgjöldin með SEÐLAPRENTUN.

Matsfyrirtækin munu átta sig á þessu.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.11.2013 - 19:54 - FB ummæli ()

Valkostir við skuldaleiðréttingu

Valkostirnir eru einungis tveir:

1. Eigandi skuldar, A, færir niður höfuðstól hennar um X.

Hrein eignastaða A skerðist um X.

2. Eigandi skuldar, A, fær X greiddar af henni af þriðja aðila.

Hrein eignastaða A er óskert.

***

Ríkisstjórnin hallast að valkosti 2.

A verður því að fá X greiddar af þriðja aðila.

***

Þar hafa þrír aðilar verið í umræðunni:

i. Ríkissjóður – XB og XD útiloka þann valkost.

ii. Kröfuhafar þrotabúa föllnu bankanna – sá valkostur kemur ekki til greina strax.

iii. Seðlabanki Íslands – forsætisráðherra og seðlabankastjóri greinir á um þann valkost.

***

Forsætisráðherra virðist telja að SÍ geti greitt, segjum, 200 milljarða til Íbúðalánasjóðs án þess að fjárhagslegu jafnvægi sé ógnað.

Seðlabankastjóri virðist telja að slíkt sé ómögulegt.

Það væri ákjósanlegt að sú hlið málsins væri rædd á faglegum nótum

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.11.2013 - 19:15 - FB ummæli ()

Forsætisráðherra vs. Seðlabankastjóri

Viðbrögð forsætisráðherra við umsögn seðlabankastjóra um skuldaleiðréttingarmál á nefndarfundi á Alþingi í gær hafa vakið athygli og umtal.

Umsögn mín um bloggfærslu Egils Helgasonar fyrr í dag varðar kjarna málsins:

Fyrir kosningar boðaði XB afskrift skulda með utanaðkomandi fjármagni þannig að eignahlið efnahagsreiknings lánastofnana skerðist EKKI um krónu.

Með þessu er EIGNAFROÐU skipt út fyrir ALVÖRU KRÓNUR.

Útfærsla á skuldaleiðréttingunni á þessum nótum er óhjákvæmilega þensluvaldandi.

***

Málið myndi horfa öðru vísi við ef t.d. Íbúðalánasjóður myndi afskrifa húsnæðisskuldir um eitt eða tvö hundruð milljarða þannig að afskriftirnar kæmu að fullu til frádráttar á eignahlið efnahagsreiknings ÍLS.

Hér væri staðið að verki með sama hætti og viðskiptabankarnir hafa gert við afskriftir á lánasöfnum sínum, en í reynd er ÍLS ekki í stakk búinn til að afskrifa hluta af eignasafni sínu með þessum hætti.

En hér kemur pólitík inn í myndina.

EIGNAFROÐAN í efnahagsreikningi ÍLS er jafnframt EIGNAFROÐA í efnahagsreikningum lífeyrissjóða sem hafa fjármagnað útlán ÍLS með ríkisábyrgð.

Það eru því tvær hliðar á margumræddum forsendubresti:

1. Önnur hliðin er sem myllusteinn um háls skuldsettra heimila.

2. Hin hliðin er sem FROÐUKENNT flotholt fyrir lífeyrissjóðina.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 17.11.2013 - 23:41 - FB ummæli ()

Forsæti á fölskum forsendum?

Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, ráðherra og seðlabankastjóri m.m. birti í dag bloggfærslu á pressan.is – Skuldalækkunin á næstunni – þar sem hann setur fram mælistikur sem menn geta nýtt sér til að átta sig á boðuðum tillögum ríkisstjórnarinnar um skuldalækkun.

Bloggfærsla Jóns byggir augljóslega á víðtækri þekkingu höfundar á viðfangsefninu.

Í aðdraganda alþingiskosninganna 27. apríl sl. setti ég fram óvægna gagnrýni á stefnu XB í skuldamálum heimilanna, sbr. eftirfarandi umfjöllun í bloggfærslu minni – Endemis rugl í öndvegi – stöðugleika ógnað – dags. 21. október sl.:

I.

Sérfræðingahópur ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingar lýkur senn störfum.

II.

Af umsögn forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, í útvarpsviðtali í dag má ráða að þar verði ekki hvikað frá þeirri stefnu í málinu sem Framsóknarflokkurinn boðaði fyrir alþingiskosningarnar 27. apríl sl.

III.

Umsögn mín um þá stefnu kom til umræðu þegar leiðtogar stjórnmálaflokka sátu fyrir svörum í beinni útsendingu á Stöð 2 við lok kosningabaráttunnar. (http://www.youtube.com/watch?v=azs3YJ_vxkE)

Lóa Pind:

Gunnar Tómasson, hagfræðingur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til langs tíma, kemur fram núna í vikunni og hann segir að fyrirheit ykkar um skuldalækkanir öllum að kostnaðarlausu nema kröfuhöfum þrotabúanna sé slíkt endemis rugl að hann geti ekki þagað. Hann segir að þessar krónueignir sem þið viljið fá í afslátt frá kröfuhöfum séu einkum ríkisskuldabréf og reiðufé og það eigi bara að fara sjálfkrafa í að lækka skuldir ríkissjóðs. Hvað segirðu um þetta?

Sigmundur Davíð:

Þetta er nú reyndar ekki rétt, mjög fátt í þessu er a.m.k. rétt og snúið út úr öðru. En Gunnar Tómasson hins vegar var á einhverjum punkti genginn til liðs við Dögun, svo man ég ekki hvar hann endaði í framboði – snérist algjörlega gegn Framsóknarflokknum. Hafði fram að því verið töluvert náinn okkur í málflutningi. Hann á auðvitað rétt á því að beita sér í sinni pólitík, en hins vegar hafa margir aðrir talað um þessar tillögur okkar á mjög uppbyggilegan hátt og útskýrt að þær gangi upp. Þær eru í rauninni mjög einfaldar.

Og nokkru síðar:

Lóa Pind:

Þannig að þú tekur ekki undir þessi orð.

Sigmundur Davíð:

Nei, nei, nei, auðvitað ekki.

***

Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, lauk bloggfærslu sinni með umsögn sem endurspeglar forsendur óvæginnar gagnrýni minnar á stefnu XB í skuldamálum heimilanna:

„Önnur hlið þessa máls er hugmyndir um greiðslur frá erlendum kröfuhöfum til að mæta þessum kostnaði. Afsláttur af kröfum erlendra kröfuhafa eða sérstök gengisfelling í greiðslum til þeirra losar ekki fjármagn til ráðstöfunar. Ekki er því að sjá að neitt fé komi úr þessari átt.‟

Við faglegan stuðning Jóns Sigurðssonar við umsögn mína um „endemis rugl‟ vaknar viðkvæm spurning:

Skipar formaður Framsóknarflokksins forsæti núverandi ríkisstjórnar á fölskum forsendum?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Gunnar Tómasson
Ég er fæddur (1940) og uppalinn á Melunum í Reykjavík. Stúdent úr Verzlunarskóla Íslands 1960 og með hagfræðigráður frá Manchester University (1963) og Harvard University (1965). Starfaði sem hagfræðingur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá 1966 til 1989. Var m.a. aðstoðar-landstjóri AGS í Indónesíu 1968-1969, og landstjóri í Kambódíu (1971-1972) og Suður Víet-Nam (1973-1975). Hef starfað sjálfstætt að rannsóknarverkefnum á ýmsum sviðum frá 1989, þ.m.t. peningahagfræði. Var einn af þremur stofnendum hagfræðingahóps (Gang8) 1989. Frá upphafi var markmið okkar að hafa hugsað málin í gegn þegar - ekki ef - allt færi á annan endann í alþjóðapeningakerfinu. Í október 2008 kom sú staða upp í íslenzka peninga- og fjármálakerfinu. Alla tíð síðan hef ég látið peninga- og efnahagsmál á Íslandi meira til mín taka en áður. Ég ákvað að gerast bloggari á pressan.is til að geta komið skoðunum mínum í þeim efnum á framfæri.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar