Fimmtudagur 20.7.2017 - 18:31 - FB ummæli ()

Þegar lög ganga gegn réttarvitund

Mér finnst fátt bera þess sterkari merki að reglur um uppreist æru séu barn síns tíma, en að tekið sé fram að sá sem óski hennar þurfi að leggja fram vottorð frá „tveimur valinkunnum einstaklingum“. Upp í hugann kemur mynd af tveimur miðaldra körlum í þrískiptum jakkafötum sem ábyrgjast félaga sinn „for he‘s a jolly good fellow“ og allt það.

Auðvitað er þetta ekki svona, en þetta er myndin sem ég fæ upp. Þið verðið að afsaka. Hún byggir líklega á áratugalöngu sambandi við vald hinna valinkunnu.

Það hafa orðið grundvallarbreytingar á viðhorfum til eðlis, alvarleika og afleiðinga kynferðislegs ofbeldis  á undanförnum árum og áratugum. Á sama tíma hefur framkvæmd varðandi uppreist æru verið hin sama. Það gengur ekki lengur. Það er ekki bara hlutverk ríkisins að gæta réttinda sakborninga eða dæmdra manna, brotaþolar eiga líka mikilvægan rétt. Það virðist stundum gleymast í umræðu fólks sem hefur áhuga (eðlilega) á að réttarríkið standi undir nafni.

Það er alls ekki þannig að ég vilji sjá breytingu á þeirri grundvallarnálgun að hér á landi séu afbrotamenn ekki eingöngu dæmdir til refsingar, heldur sé markmiðið betrun og endurhæfing til að takast á við lífið að nýju. Að fólk eigi afturkvæmt sem góðir og gegnir þjóðfélagsþegnar að afplánun lokinni. Það er mikilvægt að vernda réttindi sakborninga, en réttarríki sem stendur undir nafni verður að vernda réttindi brotaþola og hagsmuni almennings.

Ég tek fyllilega undir sjónarmið þeirra sem tóku afstöðu gegn því að Robert Downey fengi lögmannsréttindin aftur. Það gengur að mínu mati ekki upp að dæmdur kynferðisbrotamaður fái þann stimpil frá samfélaginu að hann sé hæfur til að gæta hagsmuna brotaþola í slíkum málum fyrir dómi. Ekki heldur að sá stimpill geti verið grundvallarmannréttindi viðkomandi – eða skipt sköpum í því að hann nái að fóta sig aftur í samfélagi siðaðra manna.

Núgildandi reglur um uppreist æru virðast hafa orðið til í öðrum veruleika en þeim sem við búum nú í. Veruleika þar sem kúgun og kynferðisofbeldi var ekki til, bara embætti og peningar. Lítið virðist hafa verið hugað að því að það þyrfti t.d. að vernda börn og aðra sem höllum fæti standa gegn slíkum ofbeldismönnum.

Ég fagna þeirri elju sem tilteknir lögfræðingar hafa sýnt í umræðunni við að skýra tilgang laganna og afleiðingar. Það eru nefnilega lögin um uppreist æru sem eiga að vera í sviðsljósinu í þessari umræðu, ekki einstakir brotamenn og afbrot þeirra, alveg sama hversu svívirðileg þau eru. Umræðan hefur að mínu mati leitt í ljóst að hér er við úrelt lög og stjórnsýsluframkvæmd að sakast. Ég er ein 63 þriggja kjörinna fulltrúa Alþingis þar sem lög eru sett. Þegar þing kemur saman í haust, verð ég í hópi þeirra þingmanna sem beita sér fyrir breytingum á þessum lögum. Fyrir þá sem brotið hefur verið á og fyrir íslenskt réttarríki.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 15.6.2017 - 10:25 - FB ummæli ()

Byssur og sjálfsmynd þjóðar

Sýnileiki vopnaðrar sérsveitar á fjöldasamkomum hér á landi varðar alla Íslendinga. Málið snýst vissulega um þá raunverulegu ógn sem stafar af hryðjuverkum, en ekki síður um sjálfsmynd friðsamrar smáþjóðar. Það er einfaldlega grundvallarbreyting á þeirri sjálfsmynd okkar að hér verði vopnaðir sérsveitarmenn sýnilegir á fjöldasamkomum í stað þess að vera með vopnin tiltæk í bílum sínum eins og verið hefur. Yfirmenn lögreglunnar hafa fært rök fyrir þeirri breytingu, það er þeirra hlutverk. Ég er hins vegar ekki sátt við að það sé þeirra að ákveða einhliða og án umræðu slíka byltingu á íslensku samfélagi.

Ég vil upplýsta umræðu um þessi mál. Slíkt hlýtur að vera mögulegt án þess að þjóðaröryggi sé ógnað. Hvernig er greiningarvinnunni háttað hér? Hvernig hefur vopnaburður lögreglu þróast í þeim löndum sem við berum okkur alla jafna saman við? Hver hafa áhrifin verið, lærdómurinn sem dreginn er af? Hvaða önnur úrræði koma til greina? Og síðast en ekki síst, hvaða áhrif hefur vopnaburður lögreglu á samfélög?

Þessa umræðu þarf að taka án þess að við föllum í þá gryfju að tala lögregluna okkar niður. Starf hennar er sannarlega ekki orðið auðveldara og hún á skilið að hafa nauðsynleg úrræði við hendina þegar hún er að gæta að hagsmunum okkar, heilsu og lífi. Þannig á lögreglan að hafa aðgang að vopnum í þeim tilfellum sem það skiptir máli. Almennur, sýnilegur aðgangur er hins vegar grundvallarbreytingin sem málið snýst um.

Þeir sem ekki skilja að þetta er risastórt mál fyrir þorra fólks, eru illa læsir á íslenskt samfélag. Þetta er einfaldlega ekki mál sem má keyra áfram á hnefanum. Íslenskt samfélag á önnur og betri vinnubrögð skilið.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.6.2017 - 15:35 - FB ummæli ()

Að þora, geta og vilja

„Segjum sem svo að ráðherra nýti sér ekki það svigrúm sem hún hefur í lögum til að hreyfa við tillögum hæfisnefndar, segjum sem svo að hæfisnefnd og ráðherra vinni saman að því að koma til okkar 15 nöfnum sem fari fjarri því að uppfylla kröfur jafnréttislaga, mun háttvirtur þingmaður slást í lið með mér og fleirum og vinna að því að laga það þannig að hér verði millidómsstig, sama hvað kann að klikka á leiðinni frá ráðuneytinu til okkar, sem uppfylli lágmarkskröfur jafnréttislaga, að þingið tryggi það og taki í handbremsuna ef þörf krefur?“

Framangreinda spurningu fékk ég frá Andrési Inga Jónssyni, þingmanni VG, í umræðum á Alþingi í febrúar síðastliðinn þegar verið var að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla (nefnd um hæfni dómaraefna, aðsetur Landsréttar).

Ég rifjaði þetta upp eftir fréttir RÚV í gærkvöldi af því að Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hefði gert dómsmálaráðherra það ljóst að upphaflegi listi matsnefndar með 15 dómaraefnum uppfyllti að mati þingflokks Viðreisnar ekki skilyrði um jafna kynjaskiptingu að teknu tilliti til hæfis umsækjenda.

„Ráðherra hefur heilmikið svigrúm“

Í þessari frétt vöktu ummæli Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG, undrun mína. En áður en ég kem að þeim, langar mig að setja hér fram fleiri áhugaverð ummæli úr ranni stjórnarandstöðunnar frá því að dómaramálin voru rædd á þingi í febrúar. Hér koma nokkur dæmi:

Andrés Ingi Jónsson, VG: „Undir lok ræðu minnar áðan þá sagðist ég vona að ráðherrann kæmi með lista 15 umsækjenda þar sem hlutfall kynjanna væri sem jafnast. Ráðherrann hefur svigrúm, samkvæmt því frumvarpi sem við erum hér að afgreiða, til að víkja frá röðun hæfnisnefndar að því gefnu að hann taki inn aðra umsækjendur sem uppfylla hæfnisskilyrði sem sama nefnd hefur farið yfir. Ráðherra hefur heilmikið svigrúm til að laga listann sem hann fær frá þessari stjórnsýslunefnd.“

Andrés Ingi Jónsson, VG: „Þess vegna þykir mér gott að heyra háttvirtan þingmann segja að henni þyki skýrt að jafnréttislög gildi þegar hæfnisröðun er lokið. En ég vil ganga lengra og bendi á að í frumvarpinu, sem hér liggur fyrir, er skýr heimild ráðherra til að bregða algjörlega frá hæfnisröðuninni og kalla til hæfa umsækjendur, svo lengi sem þeir hafi verið metnir hæfir samkvæmt 21. gr. Laganna.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Pírötum: „Mig langar að ítreka spurninguna … Ef svo fer að valnefndin og ráðherra bregðast í þessu samhengi, mun háttvirtur þingmaður standa með okkur hér í ræðustól og mótmæla fyrirkomulagi sem ekki virðir jafnt hlutfall karla og kvenna við skipun í þennan nýja dómstól?“

Andrés Ingi Jónsson, VG: „Það er hins vegar þannig að ráðherra fær í hendurnar hæfnismat á öllum umsækjendum frá hæfnisnefndinni og ráðherra hefur svigrúm til að bregðast við ef hallar á annað kynið í þeim lista sem er metinn hæfastur, af því að þessi hæfnisskilyrði eru ekki algild; þetta er engin stærðfræðileg nákvæmni.“

Vildu sértækar aðgerðir

Mér fannst Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, full hófsöm í fréttinni á RÚV þar sem hún sagði: „Við höfum auðvitað talað fyrir því að það yrði litið til jafnréttislaga, að það yrði litið til kynjasjónarmiða við þessa skipan.” Ég segi það bæði vegna þess sem er rakið hér að framan, en ekki síður vegna þess að í minnihlutaáliti allsherjar- og menntamálanefndar um fyrrnefnt frumvarp, sem undir skrifa fulltrúar VG og Pírata, er gengið mun lengra en jafnréttislög. Þar er brýning um sértækar aðgerðir eins og kynjakvóta til að fjölga konum hratt í dómskerfinu. Sérstaklega er tekið fram að skemmst sé að minnast að nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum hafi á síðasta ári beint þeim tilmælum til íslenskra stjórnvalda að mikilvægt væri að fjölga konum í lögreglu og í Hæstarétti til að uppfylla skuldbindingar Íslands samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW).

Þegar Jón Steindór Valdimarsson, félagi minn í Viðreisn, spurði þingmann VG, Rósu Björk Brynjólfsdóttur, hvort hennar flokkur hefði samþykkt lista dómnefndar þar sem gerð var tillaga um 10 karlmenn en 5 konur án athugasemda við kynjahlutföll, svaraði Rósa Björk „Ef sá listi nafna væri þá nægilega vel rökstuddur eins og fram kemur hjá dómnefndinni, þá efast ég ekki um að hann væri okkur meira þóknanlegur heldur en geðþótta ákvarðanir dómsmálaráðherra hafa borið vitni um.“

Frá árinu 1920 hafa 4 konur verið skipaðar dómarar við Hæstarétt Íslands. Við höfðum við stofnun Landsréttar tækifæri til að hafa þetta í lagi frá upphafi. Það skiptir þjóðfélagið okkar máli.

Það er ekkert launungamál að mér finnst dómnefndin hafa verið full karllæg í mati sínu á hæfni dómara. Það lýsti sér ekki síst í því hve lítið vægi dómarareynsla, og tengd verk, hlaut í heildarmatinu. Sú nálgun kom illa niður á kvenumsækjendum.

Það er löngu tímabært að við hættum að taka því sem sjálfgefnu að huglægt karllægt mat sé notað til að „rökstyðja“ konur frá valdastöðum.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.3.2017 - 17:49 - FB ummæli ()

Eldri borgarar geta líka verið hinsegin

Ég gerði málefni hinsegin eldri borgara að umtalsefni á Alþingi í dag, í sérstakri umræðu um umbætur í aðbúnaði og málefnum eldri borgara.

Fyrr á þessu ári stofnuðu Samtökin 78 sérstakan samstarfshóp um málefni eldri borgara. Kveikjan að stofnun hópsins var síaukinn þungi í umræðunni um að það vanti stórlega upp á fagþekkingu á málefnum hinsegin aldraðs fólks. Benda má á að í nýútgefinni starfsáætlun um málefni eldri borgara er ekki minnst orði á hinsegin fólk.

Sú kynslóð hinsegin fólks sem tók upphafsskrefin í harðri og oft erfiðri baráttu fyrir réttindum þess hóps hér á landi, kynslóð sem á ekki síst heiðurinn af því að Ísland hefur um skeið verið í fararbroddi þjóða þegar kemur að réttindum samkynhneigðra, er nú komin á efri ár. Þessi hópur hefur staðið í eldlínunni og man tímana tvenna. Það er sárara en tárum taki ef rétt er að innan hans séu einstaklingar sem eiga erfitt með að fóta sig þegar komið er á öldrunarheimili þar sem þar skortir fagþekkingu og almennan skilning á málefnum þeirra. Það er óásættanlegt að til séu dæmi um að eldri borgarar fari hreinlega aftur inn í skápinn, svo notað sé þekkt orðalag, þar sem þeir mæta ekki skilningi á nýju heimili.

Þrátt fyrir að vera baráttufólk í eðli sínu, eru hinsegin eldri borgarar ekki endilega allir í stakk búnir að fara á gamals aldri – enn og aftur – að vera með vesen, berjast fyrir réttindum sínum, sómasamlegum aðstæðum og því að almennt sé kynhneigð þeirra mætt með virðingu og skilningi.

Ég hvet alla þá sem koma að málefnum eldri borgara til að leggja eyrun við þegar starfshópurinn um málefni hinsegin eldri borgara fer af stað með fræðslu sína. Ég hvet reyndar alla til að hlusta – og læra.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.2.2017 - 23:28 - FB ummæli ()

Jafnrétti í Landsrétti

Alþingi hefur nú samþykkt breytingar á lögum um dómstóla sem gefur hæfisnefnd leyfi til að meta hæfi umsækjenda um dómarastöður við hinn nýja Landsrétt, rétt eins og aðra dómstóla. Það er ekki hægt að árétta nægilega mikið hversu mikilvægt það er, að í Landsrétt veljist hæfar konur jafnt sem hæfir karlar.

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, sagði í ræðustól Alþingis þann 7. febrúar í svari við fyrirspurn Jón Steindórs Valdimarssonar, þingmanns Viðreisnar: „Ég myndi hallast að því að lög sem almennt gilda í landinu gildi auðvitað um öll svið samfélagsins, þar með talið dómstóla.“ Þar var ráðherrann að ræða um jafnréttislög í tengslum við skipan dómara við Landrétt. Ég tek undir með ráðherra, að við hljótum að ganga út frá því að dómstólar og ráðherra sjálfur fari að jafnréttislögum þegar kemur að skipan dómara.

Mat á hæfi er að mörgu leyti huglægt og við slíkt mat er ekki óeðlilegt að fólk leiti í eigin reynsluheim, jafnt áþreifanlegan sem óáþreifanlegan. Það er einmitt af þeirri ástæðu sem mikil áhersla var lögð á að í umræddri hæfisnefnd yrðu sem jöfnust kynjahlutföll og nú sitja þar 3 konur og 2 karlar. Þessi staðreynd, til viðbótar við jafnréttislög, hlýtur að leiða til þess að við getum endanlega kvatt þá tíma þegar karllæg sjónarmið voru allsráðandi við ráðningar dómara. Og í kjölfarið þá tíma þegar þau sömu sjónarmið skinu í gegn í mörgum dómum.

Við afgreiðslu málsins á Alþingi vorum við þingmenn Viðreisnar gagnrýndir af hluta stjórnarandstöðunnar fyrir að taka ekki undir tillögu þeirra um að árétta enn frekar að ráðherra skyldi „gæta þess að kröfum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sé fullnægt.“ Þar var það einfaldlega mat okkar að jafnréttissjónarmið við mönnun hæfisnefndar og jafnréttislög dygðu til. Ef svo reynist ekki vera þá þurfum við öll, hvar í flokki sem við stöndum, að endurskoða hvernig við nálgumst jafnréttismál!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.2.2017 - 18:04 - FB ummæli ()

Gamlir draugar komnir á stjá

Sjávarútvegurinn hefur staðið undir lífskjörum og aukinni hagsæld íslensku þjóðarinnar í gegnum tíðina og gerir enn. Breytingar á síðustu árum og áratugum hafa gert útgerðina að öflugri og sókndjarfri atvinnugrein. Sérstaða Íslands er ekki hvað síst fólgin í því að hér er sjávarútvegur ekki niðurgreiddur af almannafé. Sá árangur sem hefur náðst er verulega til eftirbreytni, bæði hér á landi hvað varðar aðrar atvinnugreinar og fyrir sjávarútveg annarra þjóða. Það er ekki tilviljun að þar hefur gjarnan verið leitað til Íslands eftir fyrirmyndum.

Við eigum að vera stolt af þessari sérstöðu og standa vörð um hana. Íslenskt samfélag hefur á undanförum áratugum fært ákveðnar fórnir til að gera sjávarútveginn samkeppnisfæran, sjálfbæran og óháðan beinni ríkisaðstoð. Það væri mikil eftirsjá að þessari sérstöðu. Þess vegna væri óráð að endurvekja gamla drauga og taka útgerðina út fyrir sviga í íslensku atvinnulífi þegar kemur að því að vinnuveitendur og launþegar semja um kaup og kjör.

 Mikilvæg kortlagning á áhrifum verkfallsins

Það er yfirlýst stefna stjórnvalda að aðilar á vinnumarkaði leysi kjaradeilur sín á milli án inngripa ríkisvaldsins. Opinberlega hafa bæði sjómenn og útvegsmenn tekið undir þetta sjónarmið. Ef marka má ónefnda heimildarmenn Morgunblaðsins er nú komið annað hljóð í strokkinn. Það væri áhugavert að heyra formlega í talsmönnum samningsaðila varðandi það hvort hér hafi átt sér stað stefnubreyting. Ef sú er raunin, hvað veldur? Af hverju er æskilegt að binda enda á verkfall með lagasetningu? Hvernig er rökstutt að það sé samfélagslegt verkefni að niðurgreiða launagreiðslur útgerðarinnar? Eru ekki brýnni verkefni sem bíða?

Verkfallið var orðið mánaðargamalt þegar nýr ráðherra tók við. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir setti vinnu í gang við að kortleggja áhrif verkfallsins og hefur kallað eftir tilnefningum í vinnuhóp frá velferðar- og sveitarfélagaráðuneytum, auk Sambandi íslenskra sveitarfélaga, ASÍ og SA. Úttekt á áhrifum verkfallsins á byggðir, atvinnulíf og þjóðarhag almennt er stjórnvöldum mikilvæg til þess að fá yfirsýn yfir vandann. Það er hins vegar ekki síður mikilvægt að deiluaðilar; sjómenn og útvegsmenn, fái skýra mynd af afleiðingum verkfallsins vegna þess að ábyrgðin á lausn kjaradeilunnar er á þeirra herðum.

Það er merkilegt að sjá þingmann Framsóknarflokksins skjóta á ráðherra sem hefur í embætti sjávarútvegsráðherra í tæpan mánuð. Framsóknarflokkurinn fór með þennan málaflokk í þrjú og hálft ár, en sjómenn hafa verið samningslausir í 6 ár. Er ekki hér verið að kasta steinum úr glerhúsi? Og fyrir forvitni sakir, hverjar eru aðgerðirnar sem þingmaðurinn er að leggja til af hálfu stjórnvalda?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hanna Katrín Friðriksson
Þingmaður Viðreisnar.
RSS straumur: RSS straumur