Sunnudagur 15.11.2015 - 11:55 - FB ummæli ()

„Hvílið í friði englar“

Isobel Bowdery er 22ja ára stúlka frá Suður-Afríku sem var inni á hljómleikastaðnum sem hryðjuverkamennirnir réðust inn á í París í fyrradag. Hún skrifaði Facebook-færslu sem mér fannst ástæða til að þýða.

Þetta skrifaði hún:

Screen Shot 2015-11-15 at 11.54.36

Isobel Bowdery

Þér dettur aldrei í hug að það geti komið fyrir þig. Þetta var bara föstudagskvöld á rokktónleikum. Andrúmsloftið var fullt af hamingju og allir voru dansandi og brosandi. Og svo þegar mennirnir komu inn um aðalinnganginn og byrjuðu að skjóta vorum við þau flón að halda að þetta væri hluti af sýningunni.

En þetta var ekki bara hryðjuverkaárás, þetta var blóðbað. Margir tugir voru skotnir til bana beint fyrir framan mig. Blóðpollar voru um öll gólf. Neyðaróp fullorðinna karla sem héldu um lík vinstúlkna sinna skáru loftið á þessum litla tónleikastað. Framtíðin í molum, fjölskyldur sundurkramdar. Á einu augnabliki.

Miður mín og alein þóttist ég vera dáin í meira en klukkustund, lá innan um fólk sem horfði upp á ástvini sína hreyfingarlausa. Ég hélt niðri í mér andanum, reyndi að hreyfa mig ekki – vildi ekki opinbera þessum mönnum óttann sem þeir þráðu að sjá. Ég var ótrúlega heppin að lifa af. En svo margir gerðu það ekki.

Fólkið sem hafði komið þangað af sömu ástæðu og ég – til að skemmta sér á laugardagskvöldi – það var saklaust. Þessi heimur er grimmur. Og svona verknaður ætti að opinbera hvað manneskjan er grimm og myndin af þessum mönnum þegar þeir hringsóluðu kringum okkur eins og gammar mun aldrei líða mér úr minni. Hvernig þeir miðuðu vandlega og skutu fólk á gólfinu allt í kringum mig án þess að leiða einu sinni hugann að lífi þess.

Þetta var óraunverulegt. Á hverri stundu bjóst ég við að einhver segði að þetta væri bara matröð. En af því að ég lifði þennan hrylling af get ég varpað ljósi á hetjurnar.

Manninn sem hughreysti mig og lagði líf sitt í hættu til að reyna að hylja höfuðið á mér ef ég skyldi fara að snökta.

Parið sem skiptist á ástarorðum á sinni hinstu stundu gerði mér kleift að trúa á það góða í veröldinni.

Lögreglumennirnir sem náðu að bjarga hundruðum mannslífa.

Ókunnugi maðurinn sem tók mig upp af götunni og huggaði mig þær 45 mínútur sem ég var sannfærð um að drengurinn sem ég elska væri dáinn.

Særði maðurinn sem ég hafði haldið að væri sá drengur og þegar það rann upp fyrir mér að hann væri ekki Amaury tók hann utan um mig og sagði mér að þetta yrði allt í lagi þótt hann væri sjálfur aleinn og hræddur.

Konan sem opnaði dyr sínar fyrir þeim sem lifðu af.

Vinur minn sem bauð mér húsaskjól og fór út að kaupa ný föt svo ég þyrfti ekki að vera í þessu alblóðugu blússu

Þið öll sem hafið sent mér hlý skilaboð og stuðning.

Þið öll gerið mér kleift að trúa því að heimurinn gæti batnað, svo þetta gerist aldrei aftur. En aðallega skrifa ég þetta fyrir þær 80 manneskjur sem voru myrtar inni á staðnum, sem voru ekki eins heppnar og ég, og sem vöknuðu ekki í morgun, og vinir þeirra og fjölskyldur sitja uppi með sársaukann.

Mér finnst þetta svo hræðilegt. Ekkert getur læknað sársaukann. Mér er heiður að því að hafa verið viðstödd á dánarstund þeirra, fullviss um að ég myndi á hverri stundu deyja með þeim, og ég get lofað ykkur að síðustu hugsanir þeirra voru ekki um þær skepnur sem ollu þessu.

Þær snerust um fólkið sem þau elskuðu.

Þar sem ég lá í blóði annars fólk og beið eftir kúlunni sem myndi binda endi á mín ekki nema 22 ár, þá sá ég fyrir mér andlit hverrar sálu sem ég hef elskað og hvíslaði: Ég elska þig. Aftur og aftur og aftur. Ég hugsaði um stóru stundirnar í lífinu. Ég vonaði að þau sem ég elska vissu hve mikið ég elskaði þau, og vissu að sama hvað hefði komið fyrir mig, þá héldi ég áfram að trúa á það góða í fólki. Að láta ekki þessa menn sigra.

Í gærkvöldi breyttist líf svo margra og það veltur á okkur að verða betra fólk. Að lifa því lífi sem hin saklausu fórnarlömb þessa harmleiks létu sig dreyma um en verður nú aldrei að veruleika. Hvílið í friði englar. Þið gleymist aldrei.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 14.11.2015 - 13:33 - FB ummæli ()

Ásta Sóllilja býr um alla jörðina

Sjálfsagt er og eðlilegt að þeir sem hryðjuverkamenn ráðast á verji hendur sínar – og það af fullri hörku. Mikilvægt er hins vegar að sú harka lendi ekki á þeim sem ekkert hafa til saka unnið.

Við Íslendingar munum náttúrlega aldrei „taka þátt í“ stríðinu gegn Ísis að neinu marki – nema hvað við getum tekið vel á móti þeim flóttamönnum undan Ísis og öðrum ofbeldisöflum sem hingað leita. Það er fólk sem á líka um sárt að binda, rétt eins og íbúar í París.

Tökum á móti þeim með samhygð. Ásta Sóllilja býr um alla jörðina.

 

(Þetta er Facebook-færsla sem ég set hér líka því þetta er svona það sem ég hef að segja um voðaverkin í París.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.9.2015 - 20:25 - FB ummæli ()

Mótmælum Sádi Arabíu

Það er ekki vansalaust hvernig við Íslendingar höfum tekið þátt í því með öðrum vestrænum þjóðum að láta eins og Sádi Arabía sé kjörið bandalagsríki fyrir lýðræðisþjóðir þegar raunin er sú að um er að ræða eitthvert versta kúgunarríki á jarðarkringlunni.

Af því Sádar eiga góðan hluta af þeirri olíu sem hingað til hefur verið brúkuð á Vesturlöndum, þá höfum við og aðrir látið yfir okkur ganga að þar eru stjórnarandstæðingar kúgaðir og jafnvel teknir af lífi, konur sæta einhverri ömurlegustu kúgun sem um getur í nokkru ríki heims, samkynhneigðir mega þakka fyrir ef þeir sleppa lifandi, og svo framvegis.

Að ekki sé minnst á stuðning Sáda við forstokkaða útgáfu íslams sem hefur átt mjög stóran þátt í þeirri útbreiðslu ofsatrúar sem síðan hefur endað með hryðjuverkum og glæpaverkum bæði á Vesturlöndum en þó í mun meiri mæli í löndum múslima sjálfra.

Ég get í fyllstu einlægni ekki séð að stjórnarfarið í Sádi Arabíu sé öllu skárra en í Norður-Kóreu – og það þykir nú ekki par fínt.

Nú ætla Sádar að taka af lífi ungan mann sem var 17 ára þegar hann vogaði sér að mótmæla kúgunarapparatinu sem konungsættin þarna heldur úti.

Hann heitir Ali al-Nimr og það á bæði að krossfesta hann og hálshöggva – mönnum ber ekki saman um í hvaða röð.

Það er algjörlega óboðslegt annað en Íslendingar mótmæli svona svívirðu kröfuglega.

Skrifið endilega undir þessa undirskriftasöfnun hér þar sem Ólafur Ragnar Grímsson forseti er hvattur til að nota sambönd sín og embætti til að gera kúgunarstjórninni í Sádi Arabíu ljóst að það er fylgst með þeim, og framferði þeirra vekur andstyggð.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.9.2015 - 11:23 - FB ummæli ()

Sagan um pabba

Karl faðir minn hefði orðið 82ja ára í gær og ég minntist þess á Facebook með því að birta gamla mynd af honum. Þá fékk ég bréf frá konu sem sagði mér fallega sögu um hann. Ég fékk leyfi hennar til að birta hana á Facebook-síðunni minni og sagan fékk fádæma góð viðbrögð. Af því að Facebook-færslur tínast fljótt í ljósvakanum, þá birti hana hér líka – svo hún sé aðgengileg þeim sem vilja.

Svona var FB-færslan:

Faðir minn Jökull Jakobsson hefði orðið 82ja ára í dag en hann lést langt fyrir aldur fram 1978. Það mun flestum kunnugt að hann átti við sína púka að stríða og var ekki alltaf bestur sjálfum sér. En þegar ég birti mynd af honum áðan vegna afmælisdagsins, þá fékk ég þessa fallegu sögu af honum senda að norðan, og fékk síðan leyfi til að deila henni. Mér þykir nú þegar ansi vænt um hana.

Bréf konunnar var á þessa leið:
„Í tilefni dagsins langar mig að segja þér smá sögu. Þannig var að eitt vorið á áttunda áratugnum dvaldi ég á Borgarspítalanum um nokkurra vikna skeið, nánar tiltekið á geðdeildinni. Ég var barnshafandi og alein og rétt skriðin í 19 árin. Á hverjum degi var ég tekin á teppið hjá einni hjúkku deildarinnar þar sem ég var hvött til að gefa barnið. Ég var skíthrædd og þunglynd en það hafði aldrei hvarflað að mér að gera það, ekki frekar en að fara í fóstureyðingu. Það var aðeins ein manneskja á deildinni sem ég gat deilt þessu með og það var faðir þinn. Hann dvaldi þar inni á sama tíma og ég og varð eini vinur minn og mín eina stoð og stytta. Hann var sá eini sem náði sambandi við þennan sveitakrakka sem ég var.

Svo yfirgaf ég þessa stofnun og sá hann aldrei aftur. Eignaðist drenginn minn sem var skírður um jólin, og þá hringdi ég að norðan í föður þinn og lét hann vita að hann ætti lítinn nafna í dalnum bjarta. Þetta er einkasonur minn Jökull. Langaði bara að segja þér þessa litlu sögu. Sumir geta ekki hjálpað sjálfum sér en er lagið að gefa til annarra.“

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 12.9.2015 - 15:04 - FB ummæli ()

„Þarna fer ríka fólkið“

Áðan flugu tvær þyrlur vestur yfir.

Ég var í Laugardalslauginni að svamla mína kílómetra og þegar ég kom upp að bakkanum dólaði þar á að giska hálfáttræður karl, og hann gjóaði augunum upp að þyrlunum tveimur sem voru stórar og pattaralegar eins og fiskiflugur á sólardegi.

Og hann sagði stundarhátt:

„Þarna fer ríka fólkið.“

Þetta var hraustlegur maður og bar með sér að vera brosmildur. Hann hefur verið strákur á fyrstu árum lýðveldisins þegar þjóðin trúði því í raun að Ísland væri stéttlaust samfélag, eða svo til.

Jafnvel alla mína grunnskólatíð og lengur var því trúað að hér ríkti jafnrétti að mestu óháð eignum og peningum. Gögn og landsins gæði stæðu öllum jafnt til boða – og þá sérstaklega þau sem mestu skiptu, menntun, heilbrigði og velferð.

Samkvæmt því hefur karlinn í sundlauginni ugglaust alið upp sín börn.

Og þess konar samfélag hefur hann viljað skilja eftir sig handa barnabörnunum.

Kannski var stéttleysið aldrei alveg raunverulegt, en það var alla vega það sem að var stefnt, það vissi hann.

En á efri árum hans tekur skyndilega nýrra við.

Græðgi verður góð.

Og þær raddir heyrast að samhjálp sé úrelt og hlægileg.

Og þótt þessar raddir valdi hruni, þá þagna þær ekki.

Þvert á móti komast þær aftur til valda.

Silfurskeiðungar og krókamakarar, sægreifar og auðvaldsherrar.

Sko.

Sjálfsagt voru erlendir ferðamenn á þessum þyrlum.

En við höfum látið líðast að hér verði til samfélag þar sem roskinn maður lítur upp eftir langa starfsævi og segir með sjálfum sér:

„Þarna fer ríka fólkið.“

Eigum við að þola þetta?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.8.2015 - 14:51 - FB ummæli ()

Sigmundur Davíð hefur fengið nýja ráðgjafa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur fengið nýja ráðgjafa.

Og þeir eru ekki svo vitlausir.

Þeir áttuðu sig á því að Sigmundur Davíð var að gera þjóðina algalna og í hvert sinn sem hann birtist í fjölmiðlum óx óþol fólks.

Því hefur Sigmundi Davíð nú bersýnilega verið uppálagt að halda sig til hlés.

Í fyrsta lagi fór hann í lengsta sumarfrí sem sögur fara af að íslenskur ráðherra hafi tekið.

Í 40 daga fundaði ríkisstjórn Íslands ekki.

En jafnvel eftir að hann kom úr fríinu langa, þá hefur Sigmundur lítið látið á sér kræla í fjölmiðlum.

(Það fréttist helst af honum að tala við Ólaf Ragnar Grímsson.)

Þetta er greinilega eftir forskrift hinna nýju ráðgjafa.

Nú er þetta líka að sumu leyti mjög heillavænleg ráðgjöf – bæði fyrir Sigmund Davíð og okkur hin.

Sérhver dagur án Sigmundar Davíðs er sannkölluð hátíð.

En er samt ekki eitthvað asnalegt við að hafa forsætisráðherra sem þarf að láta sig hverfa til að fela vanhæfni sína og vitleysisgang allan?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.8.2015 - 21:24 - FB ummæli ()

Íslenskir rithöfundar 1930: Þórbergur á kjólfötum og glæsimennið Kristmann

Sigurjón Magnússon rithöfundur sendi í aldarbyrjun frá sér afskaplega fína skáldsögu sem heitir Borgir og eyðimerkur og fjallar um Kristmann Guðmundsson rithöfund. Hann var á sínum tíma einna frægastur höfundur á Íslandi og raunar erlendis líka framan af ferli sínum; skrifaði fyrstu bækur sínar á norsku og bjó þar í landi, en kom svo til Íslands rétt um það bil sem heimsstyrjöldin síðari hófst og skrifaði á íslensku síðan. Þótt enginn gæti efast um ástríðu Kristmanns til ritstarfa mætti hann ýmsum mótbyr eftir að hingað var komið, bæði listrænum og þó ekki síður pólitískum. Um ýmsa þætti í ævi Kristmanns fjallar Sigurjón á afar skemmtilegan og næman hátt í sögu sinni.

Screen shot 2015-08-05 at 9.19.15 PM

Sigurður, Harriet, Kristmann og Gunnar. Um myndina skrifaði Sigurjón Magnússon: „Oskar nokkur Vistdal hefur skrifað mikið verk um tengsl Gunnars Gunnarssonar við Noreg og hann gróf myndina upp á skjalasafni norska rithöf. sambandsins, þannig að hún dálítið rarítet. Hún er tekin á rithöfundaþingi í Osló 1930 og hefur hvergi birst nema í rafútgáfu af bók Oskars.“

En öll sú saga er enn inní óséðri framtíðinni á mjög skemmtilegri ljósmynd sem Sigurjón sendi mér að gamni sínu í dag, en hún sýnir Kristmann og Gunnar Gunnarsson rithöfund hönd í hönd á rithöfundaþingi í Osló í Noregi árið 1930. Þeir eru giska reffilegir, báðir tveir, sem og Sigurður Nordal sem einnig er á myndinni, og Harriet Haalund, sem var önnur eiginkona Kristmanns, og Sigurjón segir mér raunar að þau Kristmann hafi gengið í hjónaband aðeins fáeinum dögum eftir að myndin var tekin.

Saga Gunnars og Kristmanns var á yfirborðinu nokkuð svipuð, þótt sem rithöfundar væru þeir gjörólíkir – báðir hösluðu sér völl erlendis í upphafi ferilsins og skrifuðu á erlendum málum, Kristmann á norsku og Gunnar á dönsku. Það má fylgja sögunni að báðir náðu þeir afar miklu valdi á því tungumáli sem þeir kusu sér. Kristmann þótti skrifa frábæra norsku, og ekki minni manneskja en söngkonan Gagga Lund sagði einu sinni í mín eyru að Gunnar hefði skrifað einhverja þá fegurstu dönsku sem hún hefði nokkru sinni lesið, og las hún þó mikið á móðurmáli sínu alla ævina.

Og ekki skaðaði að Kristmann þótti einstakt glæsimenni, eins og raunar má auðveldlega sjá af myndinni.

Bæði Gunnar og Kristmann komu svo heim í stríðsbyrjun og lentu í ákveðnum erfiðleikum hér heima, og spilaði pólitík inn í fyrir þá báða. Áhrifamestu mennirnir í íslensku bókmennta- og menningarlífi voru nær allir vinstrisinnaðir og litu leynt og ljóst hornauga þá sem skipuðu á hægri vænginn í menningarskærum kalda stríðsins.

gglax

Gunnar Gunnarsson og Halldór Laxness.

En á ljósmyndinni er sem sagt allt í góðu gengi – og það má kannski líta á hana sem einskonar fyrirrennara þeirrar menningarpólitísku blokkar sem Kristmann og Gunnar skipuðu sér – eða var skipað í – seinna meir. Í því ljósi er líka gaman að Sigurður Nordal sé í útjaðri myndarinnar, því hann neitaði ævinlega að taka þátt í flokkadráttunum í menningarlífinu, en var stundum grunaður um að vera svona heldur hægra megin en hitt.

Aðallega var Sigurður þó líklega enginn öfgamaður á tímum sem kröfðust þess að allir ættu að taka afstöðu.

Nema hvað, myndin var semsagt tekin á rithöfundaþingi í Osló 1930 og svo vill til að Alþýðublaðið birti viðtal við einn af öðrum íslenskum þátttakendum, en það var enginn annar en Halldór Laxness.

Blaðamaður Alþýðublaðsins skrifar:

„Ég hitti Halldór Kiljan Laxness í gær og bað hann um að segja mér eitthvað um hið merka rithöfundamót í Osló. Fórust honum orð á þessa leið:

Thordarson,Thorbergur_02.jpg.550483

Þórbergur.

Mótið hófst 1. júní og endaði 6. júní. Slík mót og þetta eru haldin fimta hvert ár. Sækja þau rithöfundar af öllum Norðurlöndum. Að þessu sinni tóku Íslendingar fyrsta sinni þátt í þessum mótum. Vorum við 5 staddir þar: Sigurður Nordal, Þórbergur Þórðarson, Kristmann Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson og ég. — Margir fyrirlestrar og umræðufundir voru haldnir, og enn fremur margar veizlur hjá ýmsum merkum mönnum, t. d. Movinckel forsætisráðherra.

Voru fyrirlestrarnir afar fróðlegir og athyglisverðir og umræðufundirnir mjög fjörugir. Var oft glatt á hjalla í veizlunum, enda voru rithöfundarnir gleðimenn miklir. En Þórbergur, sem er bindindismaður og grængresisneytandi, tók einkum þátt í hinum andlega hluta mótsins, en samt fengum við þá ánægju að sjá hann kjólklæddan í síðustu næturveizlunni, þar sem hann tók öflugan þátt í gleðskapnum.“

Síðar spyr blaðamaður:

„Hvað segið þér um landa okkar, sem dvelja erlendis, Gunnar og Kristmann ?

Gunnar Gunnarsson tók þátt í mótinu sem formaður Bandalags íslenzkra listamanna. Hann hélt ræðu fyrir okkar hönd við opnun mótsins. Gunnar er alt af að vaxa og nema ný lönd í listinni. Hann er og alt af í raun réttri að nálgast meir og meir sitt íslenzka eðli. Hann telur sig og íslenzkan rithöfund fyrst og fremst, enda þótt hann sé hins vegar góður danskur ríkisborgari um leið.

Kristmann Guðmundsson mun vera ákaflega duglegur og afkastamikill rithöfundur. Einn af merkustu bókmentagagnrýnendum Noregs, Charles Kent, kvað hann mjög efnilegan og sumar mannlífslýsingar hans aðdáunarlegar. Kristmann skrifar norsku framúrskarandi vel. Það, sem einkennir Kristmann mest, eru lýsingar hans. Hann flytur engan boðskap.

Mótið var alt mjög ánægjulegt. Þarna stofna orðsins menn til vináttu sín á milli, og slík vinátta miðar að vaxandi bræðralagi milli þjóðanna og auknum skilningi.“

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.7.2015 - 23:41 - FB ummæli ()

Sæll aftur þjófur, varstu á ferð í Álakvísl?

Þú hefur því miður ekki enn séð sóma þinn í að skila hjólinu góða sem þú stalst frá henni dóttur minni fyrir tveimur sólarhringnum.

11411928_10206027163017079_2343148285006131403_oSjá þennan pistil hér.

Það er illa gert af þér að vera ekki búinn að skila því, því þótt þetta sé ekkert rándýrt hjól, þá er það fallegt og skemmtilegt og stúlkunni þykir vænt um það.

Og hún á það, ekki þú. Gerðu nú það eina rétta og skilaðu hjólinu. Þú getur komið því aftur á sinn stað á Leifsgötu 10, eða látið okkur vita á Facebook eða með öðrum hætti.

Vertu nú svo elskulegur.

Ég fékk í kvöld ábendingu frá manni sem sagðist hafa séð manneskju á þessu hjóli að hjóla um Álakvísl, svona milli átta og níu í kvöld.

Kannski missýndist manninum og ef svo var, þá hlýt ég að biðja velvirðingar íbúa þar um slóðir að varpa skugga þessa leiðindamáls á þá.

En ef þetta varst þú, þá býrðu kannski í því hverfi eða þar í grennd. En hvar sem þú býrð, blessaður vertu, skilaðu nú hjólinu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.7.2015 - 21:55 - FB ummæli ()

Kæri þjófur

Fyrir tæpum sólarhring eða svo stalst þú þessu hjóli við Leifsgötu 10 í miðborg Reykjavíkur.

11411928_10206027163017079_2343148285006131403_oÞað var vand-lega læst svo þú þurftir að hafa þó nokkuð fyrir því að komast með það burt. En það tókst sem sé.

Það er hún Vera dóttir mín sem á þetta hjól, ekki þú. Hún keypti sér það fyrir þó nokkra tugi þúsunda sem hún aflaði sér með sinni eigin vinnu. Það var ekki hugsun hennar að vinna sleitulaust í lengri tíma svo þú gætir eignast hjól.

Né heldur hefur hún nostrað við það síðan, svo þú getir verið að sperra þig á því á götunum.

Henni þótti strax vænt um hjólið sitt, og finnst afar súrt í broti að þú skulir hafa stolið því.

Svo nú væri best að þú skilaðir einfaldlega hjólinu. Það væri heiðarlegast, og það býr nú í þér heiðarleg taug, er það ekki?

Þú gætir skutlast með það aftur á Leifsgötu, eða látið annaðhvort okkar vita hvar hægt væri að nálgast það. Við erum bæði auðfinnanlega á Facebook, til dæmis.

Gerðu þetta nú – þetta er ekki þitt hjól.

En ef einhverjir aðrir sjá nú hjólið, þá bið ég þá endilega að láta okkur vita. Hjólsins er sárt saknað.

Og sá sem nú skartar því á ekkert í því.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.7.2015 - 08:37 - FB ummæli ()

„Eitthvað standard prógramm sem menn þylja upp“

Ég veit – það á víst ekki að „fara í manninn“ eins og það heitir núorðið.

Það er bara svolítið erfitt að sleppa því í tilfelli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar vegna þess að persónulegir dyntir hans, fordómar og þráhyggjur spila greinilega stórt hlutverk í því undarlega leikriti sem stjórnmálaferill hans er að verða.

Þingi lýkur loksins, eftir að allt hefur verið upp í loft vikum og mánuðum saman.

Hið stóra mál ríkisstjórnarinnar – samningar við kröfuhafa föllnu bankanna – hefði átt að verða lárviðarkrans Sigmundr Davíðs en nú er komið í ljós að kannski voru samningarnir ekki svo góðir sem boðað var með lúðrablæstri í byrjun.

Meira að segja InDefence hópurinn, sem segja má að hafi skapað Sigmund Davíð sem stjórnmálamann, og getur aldrei flokkast til óvina hans, hann telur að ná hefði mátt 400 milljörðum í viðbót út úr þeim samningum. (Sjá hér.)

Og peningatilfærslan mikla („Leiðréttingin“) stendur brátt berstrípuð eins og keisarinn í sögu H.C.Andersens.

Þetta var ekki almenn aðgerð, margir hópar fengu ekkert og fáránlega stór hluti peninganna fór til miðaldra fólks í góðum efnum.

Og jafnvel til hinna forríku.

Komandi kynslóð mun borga brúsann.

Í flestum tilfellum verður ábatinn af þessari tilfærslu horfinn á fáeinum misserum í mesta lagi – í stað þess að nota hefði mátt þessa peninga til að borga niður skuldir ríkissjóðs eða í einstök brýn verkefni eins og Landspítalann.

Þannig er nú komið um helstu mál ríkisstjórnarinnar.

En einmitt á þeim degi eyðir forsætisráðherrann þriðjungi af blaðagrein sinni í Fréttablaðinu í að ráðast með dæmalausum og raunar óskiljanlegum hætti á tvo blaðamenn blaðsins, fyrir að skrifa ekki af nægilegri undirgefni um Sigmund Davíð sjálfan og verk hans.

Sjá hér.

Þessi ótrúlega uppákoma lýsir ekki bara heimskulegum vanskilningi Sigmundar Davíðs á eðli fjölmiðlunar (já, ég veit að hann var einu sinni fréttamaður), heldur er þetta líka ruddaleg tilraun til að „siða“ alla blaðamannastéttina til – og fá hana til að umgangast Sigmund Davíð framvegis af tilhlýðilegri virðingu.

Svo vogar þessi maður sér að grenja undan „ofsóknum“ gegn sér!!

(Meðal annarra orða – af hverju er Blaðamannafélag Íslands ekki búið að senda frá sér harðorða ályktun til stuðnings þeim Kolbeini og Snærósu? Það á ekki að gefa með þögninni til kynna að svona árásir æðstu valdhafa séu eðlilegur hlutur.)

En svo að lokum – þá mætir Sigmundur Davíð í sjónvarpsviðtal og gasprar náttúrlega í hástigi eins og venjulega um „árangursríkasta þing síðari ára, ef ekki áratuga“.

Skyldi hann trúa þessu sjálfur? Ég er mest hræddur um það.

En þegar hann er svo spurður um þær gríðarlegu deilur sem ríktu á þinginu um mörg grundvallarmál samfélagsins – svo sem makrílfrumvarpið sem snýst um eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum, um rammaáætlun, sem snýst um meðferð okkar á náttúru okkar og umhverfi – þá segir Sigmundur Davíð:

„[Þ]etta er eitthvað standard prógramm sem menn þylja upp.“

Þetta er skilningur forsætisráðherra Íslands á lýðræðislegri umræðu um mestu alvörumál samtímans.

Ég ætla að endurtaka þetta:

„[Þ]etta er eitthvað standard prógramm sem menn þylja upp.“

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rásHleð...

Eingöngu gamlar fréttir!