Fimmtudagur 05.05.2011 - 11:29 - FB ummæli ()

Að þefa uppi kellíngu á Hellu

Hún var skemmtileg fréttin, sem Kristján Már Unnarsson flutti í gærkvöldi á Stöð 2 um rannsóknir á ferðum hvítabjarna.

Þar kom fram að hvítabirnir geta synt sem svarar vegalengdinni milli Íslands og Grænlands næstum þrisvar sinnum án þess að nærast.

Það er því fáránlegt að halda því fram að hvítabirnir sem hér komi á land séu svo örmagna eftir sund jafnvel frá ísröndinni sem hefur miklu nær en Grænlandi, að þeir muni aldrei geta synt héðan brott aftur.

Þess vegna verði að skjóta þá.

Hvítabjörninn sem skotinn var á Hornströndum virtist vel á sig kominn og hraustur, og hann var hvergi nærri nokkurri einustu mannabyggð.

Það hefði því verið nægur tími til að finna hálsól á hann með GPS-tæki meðan hann flakkaði um Hornstrandirnar, skjóta hann með deyfilyfi og síðan festa á hann ólina.

Þannig hefðum við getað fylgst með því hvort hann nálgaðist mannabyggðir, eða jafnvel eitthvað af okkar ginnheilaga sauðfé!

ÞÁ hefði mátt bana honum.

En líklega hefði hann synt á haf út, þegar hann var búinn að ganga úr skugga um hvort hér væru einhverjir ætir kópar.

Það kom nefnilega líka fram hjá Kristjáni Má að hvítabirnir eru svo vefnæmir að hundar eru eins og með bundið fyrir nefið með klúti vættum í Chanel 5 í samanburði við þá.

Reyndar orðaði Kristján Már það ekki svona.

En hvítabirnir finna altént lykt af nýfæddum kópum tugi kílómetra á haf út. Kópar fæðast hér á vorin, og þetta er líklega ástæðan fyrir því að hvítabirnir rekast hingað á þeim árstíma.

Þeir eru ekki á höttunum eftir rollum, og hvað þá mannakjeti.

Ég held okkur sé alveg óhætt að leggja af þennan ótta við hvítabirnina.

Og hætta að skjóta þá.

Ein skemmtileg staðreynd enn kom fram hjá Kristjáni Má.

Það er nefnilega til dæmi um að hvítabjarnarkall þefaði upp hvítabjarnarkellíngu úr 100 kílómetra fjarlægð.

Það er engin smá vegalengd.

Það væri eins og ef kall stæði hnusandi út í loftið á Lækjartorgi og fyndi lykt af kellíngu austur á Hellu.

Sú vegalengd er 100 kílómetrar.

Dýr með svona hæfileika – hvaða leyfi höfum við til að drepa þau, bara af því við NENNUM EKKI að standa í að vísa þeim af höndum okkar án blóðsúthellinga?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!