Mánudagur 11.11.2013 - 16:33 - FB ummæli ()

Afrek ríkisstjórnarinnar

Að ýmsu leyti virðist þessi ríkisstjórn einkennilega duglaus.

En einhver þar innandyra er þó að vinna sína vinnu, og það með óvæntum árangri.

Ríkisstjórnin byrjaði á því að losa sægreifana við milljarða veiðigjöld, ekki af því þeir þyrftu á því að halda, heldur bara af því að ríkisstjórnin vill vera góð við sægreifa.

Svo lagði hún af auðlegðarskatt, af því hún vill líka vera góð við þá sem eiga pening.

Það er skiljanlegt, því þeir sem standa að ríkisstjórninni eiga einmitt pening.

En með því að svipta ríkið öllum þessum tekjum, þá varð ljóst að ekki tækist að leggja aukið fé í heilbrigðiskerfið, eins og þarf þó svo sárlega að gera.

En einhvern veginn er ríkisstjórninni nú að takast að telja furðulega mörgum trú um að ástæðan fyrir því að heilbrigðiskerfið fær ekki sína peninga sé ekki gjafmildin við sægreifana og ríka fólkið.

Nei, heldur sé það fégræðgin í íslenskri menningu.

Til að breiða yfir hvert ætti auðvitað að sækja peningana sem heilbrigðiskerfið þarf á að halda, þá hefur þessari ríkisstjórn tekist að efna til ófriðar um íslenska menningu.

Það er líklega einhvers konar afrek.

Nú eiga allir að fjasa um peninga sem fara til Þjóðleikhússins meðan sægreifarnir telja peningana sína í friði.

Æltum við að láta blekkjast?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!