Þriðjudagur 08.12.2009 - 07:45 - FB ummæli ()

Þjóðskráin er herramannsmatur

Mótmælafundir á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna og Nýs Íslands hafa verið haldnir undanfarna tvo laugardaga. Ég sagði frá þeim fyrri hér. Ef fólk tekur undir kröfurnar er næsti fundur á Austurvelli laugardaginn 12. desember klukkan 15. Helstu kröfur eru:

1. Leiðrétting höfuðstóls lána.
2. Afnám verðtryggingar.
3. Að veð takmarkist við veðandlag.
4. Að skuldir fyrnist á 5 árum.

Einar Már Guðmundsson, rithöfundur, flutti ræðu á fundinum síðasta laugardag. Einar Már hefur tekið mikinn þátt í baráttu almennings fyrir réttlæti og sanngirni, m.a. með greinaflokki sínum í Morgunblaðinu í fyrravetur og tveimur greinum í haust, auk þess sem hann gaf út Hvítu bókina í sumar – sem að mínu mati er skyldulesning. Hér er ræða Einars Más á laugardaginn og upptöku má nálgast á vefsvæðinu Hjara veraldar (8. myndband að ofan vinstra megin).

Ræða Einars Más Guðmundssonar á Austurvelli 5. desember 2009

Góðir fundarmenn!

Ég ætla að rifja upp mannætubrandarann sem ég sagði í fyrra og sem skráður er í  Hvítu bókina:

Það er til mannætubrandari sem er einhvern veginn svona: Mannæta flýgur á fyrsta farrými. Flugfreyja kemur með matseðil, skrautlegan með nokkrum valkostum. Mannætan er afar kurteis, einsog mannætur eru víst við fyrstu kynni. Mannætan rennir augunum yfir seðilinn og segir svo við flugfreyjuna: Ég sé ekkert bitastætt á matseðlinum. Vilduð þér vera svo vænar að færa mér farþegalistann?

Ég ætla ekki að fara að líkja auðmönnum Íslands, sem hafa ásamt stjórnvöldum komið hafa okkur á kaldan klaka, við mannætur, ekki í bókstaflegri merkingu, en eftir að hafa fengið nánast allt upp í hendurnar, banka, ríkisfyrirtæki og kvóta, virðast þeir samt hafa sagt við stjórnvöld o eftirlitsstofnanir: Það er ekkert fleira bitastætt á matseðlinum. Vilduð þið vera svo væn að rétta okkur þjóðskrána?

Svo segir í kafla tvö: Má ekki bjóða yður þjóðskrána?

Það fer ekki á milli mála. Við erum aftur mætt á Austurvöll. Og af hverju erum við mætt aftur á Austurvöll? Af því að það er ekki hlustað á okkur nema við mótmælum. Það er ekki hlustað á okkur nema við látum í okkur heyra.

Ég ætla að rifja upp annan bút úr Hvítu bókinni, nú úr síðasta kaflanum Landráð af gáleysi.

Tímarnir eru að breytast, ekki í fyrsta sinn. Það á sér stað vakning og margt bendir til að hún verði um allan heim. Það eru ekki bara hjól atvinnulífsins sem þurfa að snúast. Hjól sögunnar snýst einnig, jafnvel þó dekkin séu löskuð og teinarnir brotnir. Búsáhaldabyltingin var fyrsti vísir mikillar vakningar hér á Íslandi, og þessi vakning er bæði andleg og þjóðfélagsleg. Hún var gott fordæmi og eftir henni var tekið víða um heim. Hún er án efa besta landkynning sem Ísland hefur fengið, svo ég nú leyfi mér að grípa til þeirrar klisju. En þetta skiptir máli, því auðstétt landsins og stjórnvöld hafa gengið frá mannorði okkar, og það fáum við ekki aftur nema við sýnum hvað í okkur býr. Með öðrum orðum, við endurheimtum mannorð okkar með því að breyta þjóðfélaginu, ekki með því að væla yfir að það sé horfið og reyna að sleikja upp útlenda höfðingja. Búsáhaldabyltingin var fyrsta skrefið, þó að henni fylgdi í sjálfu sér lítill áþreifanlegur árangur, ekki annar en sá að við sýndum hvað í okkur býr, og það er út af fyrir sig mikill árangur. Við björguðum orðstír okkar og stolti, sem gjörspillt frjálshyggja, vanhæf stjórnvöld og siðlaus yfirstétt höfðu troðið niður í svaðið.

Ívitnun lýkur.

Já, við sýndum hvað í okkur býr. Það er kjarni málsins. Og nú þegar við erum mætt aftur á Austurvöll er einsog við höfum aldrei farið. Sumir hafa líka staðið hér í okkar nafni í allt sumar og haust. Það vantar ekki að stjórnmálamenn kunni að telja atkvæði. Og nú rignir yfir okkur skoðanakönnumum, ánægjukönnunum, álit matsfyrirtækja. Og hver er boðskapur þessara kannana? Jú, það hefur ekkert breyst. Og skilaboðin til okkar, það þýðir ekki að breyta neinu. Það er margt sem bendir til þess að auðstéttin líti svo að rykið sé fallið til jarðar, einsog Jóhannes í Bónus orðaði það svo snyrtilega fyrir ári síðan. Hann sagðist myndu tjá sig þegar rykið væri fallið til jarðar, og nú er hann byrjaður að tjá sig og hann tjáir sig um raunveruleikann, skuldirnar í raunveruleikanum sem eru ekki raunveruleiki en samt raunverulegar. OG bankamenn stíga fram með kröfur í þrotabú bankanna; sjálfir hrunverjarnir vilja fá verðlaun fyrir hrunadansinn sem þeir stjórnuðu og þeir eru ráðnir til aðstoða félagsmálaráðherra til að greiða úr málefnum heimilanna. Það má segja að hér fari fram Íslandsmót í Hrundansi. Og stjórnarandstaðan þæfir málin, en ekki af því að hún að skilji kjarna þeirra, heldur vill hún sjálf sjá um málalyktir, setjast að kjötkötlunum, sínum eigin brunarústum. Þeir sem kveiktu í húsinu eru að bjóða fram krafta sína sem innanhúsarkítektar. Við hljótum að segja: Nei takk. Við höfum fengið nóg af smekk ykkar.

Kirsten Halvorsen, fyrrverandi fjármálaráðherra Noregs, hefur sagt að við Íslendingar getum sjálfum okkur um kennt fyrir frjálshyggjutilraun okkar; og hefur nokkuð til síns máls. En það eru tilraunadýrin sem gjalda tilraunarinnar en ekki þeir sem stjórnuðu henni eða höfðu virkilega gaman af henni og raunverulegan hag. Þetta er víst gangur sögunnar. Hinir margfrægu óreiðumenn verða þjóðin, tæru snillingarnir, það erum við, og smám saman læðist þetta allt inni í tungumálið og við erum farin að greiða úr skuldunum sem við stofnuðum ekki til, búin að játa á okkur glæpinn sem við frömdum ekki og allt er í járnum. Okkur er sagt að best sé að játa strax, þá verði fangavistin bærilegri. Þennan boðskap heyrum við úr öllum áttum, jafnvel frá skynsamasta fólki. Eigum við að hafna honum? Ég segi: Já. Þetta er málflutningur uppgjafarinnar, málflutningur meðvirkninnar. Ríkisstjórnin vill að við borgum tilraunina í topp og sú greiðsla á að vera inngöngumiði í Evrópusambandið. Þetta er dýrasti aðgöngumiði sem seldur hefur verið inn á nokkurn dansleik, og ekki einu sinni víst að það verði gaman á ballinu eða að það verði yfirhöfuð nokkurt ball. Og arkítektar spilavítisins, menn einsog Vilhjálmur Egilsson, fá að hrópa og grenja í öllum fréttatímum. Það væri betur komið fyrir þjóðinni ef hún hefði alltaf gert öfugt við allt sem Vilhjálmur Egilsson hefur boðað: framsal á kvóta, einkavæðingu banka og nú skefjalausa stóriðju. Það er skrýtin þjóð sem alltaf vill gera brennuvargana að innanhúsarkítetum. Eða er þetta einhver ofur kurteisi?

Málsmetandi hagfræðingar um allan heim eru að segja okkur það sama: Hlítið ekki skilmálum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og sendið hann heim. Þessir hagfræðingar eru nú í stöðu þeirra sem vöruðu okkur við hruninu en var ekki hlustað á. Nú þjóta orð þeirra sem vindur um eyru ráðamanna og verða rifjuð upp seinna. Hvað lögmál eru hér í gangi? Ráðamenn setjast í stólana og alþjóðasmafélagið byrjar að tala í gegnum þá. Einsog véfrétt. Einsog þeir hætti að hugsa sjálfstætt og snúi öllu við sem þeir hafa sagt áður. Ég er enn ekki búinn að finna réttlætinguna fyrir því að við, almenningur á Íslandi, eigum að borga ICESAVE-skuldirnar. Við eigum að vísa ICESAVE-skuldbindingunum til föðurhúsanna og láta reyna á fáránleika innistæðutryggingarinnar. Í rauninni er orðið innistæðutrygging bara fínt heiti yfir þjóðnýtingu á tapi. Heimspeki einkareknu bankanna var sú að þeir bæru ábyrgð á athöfnum sínum. Með því að gangast undir skilmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins erum að játa á okkur glæp sem við frömdum ekki. Hryðjuverkalög Gordons Brown voru ekkert annað en stríðsyfirlýsing, fjárhagsleg stríðsyfirlýsing, og þegar við sjáum það svart á hvítu hvað við eigum vonda bandamenn eigum við hreinlega að leita nýrra bandamanna. Það var tekið veð í þjóðskránni án þess að þjóðin væri spurð og nú eigum við að viðurkenna veðið. Með því að veifa innstæðutryggingunni framan í okkur einsog páfadómi er verið að segja við okkur að við berum ábyrgð á einhverju alþjóðlegu spilavíti. Einhvern tíma í framtíðinni kemur afsökunarbeiðni. Stjórnvöld hika ekki við að hræða okkur. Það er Úlfur Úlfur á hverjum degi. Það fer allt á annan endann og annar hver maður í hundana ef við hlýðum ekki Gordon Brown og félögum. Hér fer allt í lás segja þeir ef ekki er hlustað á hringlið í lyklakippu Gordons. Þeir segja að við verðum Kúba norðursins ef við samþykkjum þetta ekki. En ættum við þá ekki að bæta því við: Við verðum Haítí norðursins ef við samþykkjum þetta. Þar var gengið að öllum kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og nú ríkir þar hungursneyð. Um daginn sagði Steingrímur J. Sigfússon að allir hefðu ætlað að græða á stofnbréfum í sparisjóðum. Reyndu margir sem hér standa að græða á stofnbréfum? Nei, hættu þessu bulli Steingrímur! Hvert runnu peningarnir af ICESAVE-reikningunum? Þeir runnu til útrásarvíkinganna og fyrirtækja þeirra. Eignir eru færðar yfir á önnur fyrirtæki en skuldir skildar eftir. Og aldrei skortir lögfræðiátlitin eða endurskoðendahjörðina. Bara arðgreiðslurnar úr loftbólufyrirtækjunum sem nú hvíla á ríkinu voru jafn háar og ICESAVE skuldibindingar ríkissjóðs og sömuleiðis ágóði íslenskra auðmanna af skortstöðutökum gegn íslensku krónunni. Í rauninni er vandi ICESVE skuldbindinganna ekki vandi þjóðarinnar heldur eigenda þessa einkavædda banka sem rakaði til sín fé í gegnum ICESAVE reikningana á sínum tíma. Okkar vandi er sá að stjórnvöld þessa lands og stjórnmálamenn vilja taka þennan vanda af eigendum bankans og færa hann yfir á okkur og ekki síst afkomendur okkar. Samkvæmt viðskiptablaði Morgunblaðsins fyrir stuttu renna bestu bitarnir úr gömlu fyrirtækjunum aftur til fyrri eigenda. Þessir aðilar hafa allir valdið svo miklu tjóni með fyrirtækjarekstri sínum að það á að ganga á önnur fyrirtæki þeirra og eigur. Það hefur enginn rétt á að setja þjóð á hausinn með þessum hætti. Og þjóð sem lætur setja sig á hausinn með þessum hætti, hver verða eftirmæli hennar?

Ríkisstjórn sem vill að við fórnum okkur fyrir fjármálaelítu heimsins og ríkisstjórnir á hennar snærum, er ekki að hlusta eftir félagslegum lausnum. Almenningur í þessum löndum hefur ekkert verið spurður. Hann fer í vaxandi mæli út á götur og segir: „Við neitum að axla ábyrgð kreppu auðvaldsins.“ En við erum með stjórnvöld sem segja að það sé bara allt í fínu að við játum á okkur glæp sem við höfum ekki framið. Svo er okkur líkt við Jesús Krist af því að við eigum að bera syndir alþjóðasamfélagsins.

Hvað hefur skilað þjóðfélagi okkar árangri? Það er ekki hin sjálfumglaða fáviska sem lagt hefur mesta áherslu á að taka út úr þjóðfélaginu en ekki að skila því neinu tilbaka. Mál bankaforkólfanna sem gera kröfur í þrotabú Landsbankans spegla þetta. Þessir menn settu þjóðfélagið á annan endann með því að taka of mikið til sín, en nú vilja þeir fá borgað fyrir það eftir gömlum reglum sem ríktu í þeirra valdatíma. Einn þessara manna var framkvæmdastjóri verðbréfsviðs Landsbankans og þar með yfirmaður fjárstýringu bankans. Hann var því einn af aðalleikendum í hruni bankans og bankanna. Svo kann líka einhver að spyrja: Hvað ætla mennirnir að gera við alla þessa peninga? Og hvað fengu þeir mikla peninga á meðan dansinn
dunaði í kauphöllunum? Þegar við bætist að sá hinn sami er ráðgjafi félagsmálaráðherra eða hver nú titillinn er, rýkur þá ekki allur trúverðugleiki norrænu velferðarinnar út um gluggann? Eina ferðina enn. Hlýtur þingflokkur Vinstri grænna ekki að gera þá kröfu að frjálshyggjumennirnir yfirgefi félagsmálaráðuneytið? Hvaða erindi eiga loftbólukapítalistar og verðbréfaprangar þangað?

Þessir sömu menn segja að það sé ekkert svigrúm til að laga stöðu heimilinna, en vilja svo að bankarnir efni loforðin sem þeir gáfu sjálfum sér á meðan þeir stjórnuðu bönkunum. Í hagkerfi nýfrjálshyggjunnar tóku þessir menn út verðmæti sem þeir áttu ekki og hirtu arð sem engin innistæða var fyrir. Nú vilja þeir áfram fá borgað á sömu forsendum og áður; og þetta eru vitaskuld forgangskröfur. Þeir sem í raun ættu að skila peningum tilbaka heimta meiri peningana. Eru þetta mannasiðir Samfylkingarinnar? Ætlar Norræna velferðarstjórnin að láta þetta yfir okkur ganga?

Einn þessara manna er hægri hönd félagsmálaráðherra, en félagsmálaráðherra er frjálshyggjumaður sem hugsar ekki um neitt nema kjötkatla Evrópusambandsins og var einn af forsvöngvurum bankakerfisins. Þess vegna ræður hann til sín mann sem lítur á það sem hlutverk sitt að bjarga kúlulánaliðinu, en hluti þess situr á þingi. Þessir menn eru sannarlega í björgunarleiðangri. Þeir eru reiðubúnir að hamast á öryrkjum og ellilífeyrisþegum og heimilunum í landinu. Þar er ekkert svigrúm. Ef við hugsum út í málin þurfum við ekki að fara ýkja langt aftur í tímann og skólaganga er ekki sjálfsagaður hlutur, og heilbrigðisþjónusta ekki heldur eða önnur almenn samhjálp. Það var barátta alþýðunnar sem skilaði okkur þessu, öflugu velferðarkerfi, skólakerfi, heilbrigðiskerfi. Góðærið svonefnda fólst í því að afrakstur þessarar baráttu, sameignin, var einkavædd og seld. Það sem áður var sameign fólksins, fiskurinn, síminn og bankarnir var fært til einkaaðila á silfurfati og því síðan sólundað í kauphöllum heimsins. Verði Icesave-samningarnir samþykktir og skuldabyrgðinni velt yfir á þjóðina stöndum við aftur í hinum gömlu sporum ójafnréttis þar sem hvorki skólaganga né heilbrigðisþjónusta verða sjálfsögð mál. Við þurfum að geta horft nokkrar kynslóðir aftur í tímann og spurt okkur hvað sé framundan. Fjármagni fólksins hefur verið eytt i einskisnýtt drasl, glerhallir og partí og fátt er eftir til að selja. Þótt stór hluti góðærisins væri hagbóla, byggð á draumórum, þá má ekki gleyma því að undirstaða þess voru raunverulegar eignir fólksins: Fiskurinn, lífeyrissjóðirnir og ríkisfyrirtækin. Við þurfum að brjótast undan bölvun þeirrar spillingar sem nú ríkir. Það er alveg ljóst að þessi ríkisstjórn er ekki að brjótast undan bölvun spillingarinnar. Hafi hún ætlað að gera það hefur hún löngu gefist upp á því. Það er fjármálakerfið sem er að taka allar stóru ákvarðanirnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er fulltrúi þess. Þetta fjármálakerfi sem Viðskiptaráð kom á hér á landi með ýmsar kanónur hrunsins innanborðs er úrsérgernigð um allan heim.  Frelsi er að segja Nei við þetta kerfi, nei við þetta fólk, nei við bankaforkólfana, nei við frjálshyggjumennina í ríkisstjórninni, og frjálshyggjuna yfirhöfuð. Við þurfum nýtt afl, breiða samstöðu fólks þar sem ekki er spurt um flokksskírteini. Stjórnmálaflokkarnir hafa fengið sitt tækifæri en eru óðum að klúðra því. Þess vegna erum við mætt hér. Þess vegna krefjumst við breytinga.

Flokkar: Bloggar

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Ummæli

  • Flott ræða hjá Einari. Tími breytinga nálagast.

  • Hér breyttust hlutir þegar við kveiktum elda og brutum rúður en um leið og þeir voru slökktir fór valdakerfið að brjóta aftur sigra átakanna. Við þurfum því væntnanlega að vera talsvert harðari í næstu átakahrynu ef við viljum ná fram breytingum sem eru varanlegri.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Einar er flottur. Eini gallinn við hann er hvað hann er þolinmóður og kurteis. Þeir sem eru þannig berjast með orðum en þeir sem ekki eru þolinmóðir og kurteisir nota vopn.
    Verstur andskotinn að hafa ekki endurnýjað veiðikortið.

  • Eftir lestur þennan verð ég enn sannfærðari en áður að eina leiðin til að breyta hlutum hér á landi er bylting, hvernig svo sem farið verði að henni. Á þessu rúma ári frá hruni hefur lítið sem ekkert breyst. Sömu leikendur í stjórnmálalífi og viðskiptalífi eru enn að þrátt fyrir átakanlega vanhæfni og spillingu. Það er engu líkara en að okkur sé ætlað að fara til andskotans og ömmu hans. Örlög sem ekkert fái breytt.
    kveðja að norðan.

  • Ragnheiður

    Frábær ræða hjá Einari Má, og gott til þess að vita að einhver getur ennþá hugsað skýrt á ísaköldu landi. Séð úr fjarlægð virðist þetta vera raunsæ og skynsamleg skilgreining á ástandinu í dag og því sem AGS-framtíðin hljóðar uppá. Þetta skúringaviðhorf Samfylkingar og Vinstri Grænna gengur ekki. Ríkisstjórnin er ekki skyldug til að taka til eftir partíið hjá kapítalistunum. Það er rétt athugað hjá Einari að meðvirknin er máttug. Það eru margir fangar hennar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur



Eldri færslur

Dagatal

desember 2009
S M Þ M F F L
« nóv   jan »
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031