Í síðasta pistli rifjaði ég upp umfjöllun um viðskiptalífið á Íslandi og mennina á bak við það. Nefndi hvernig tekið var á gagnrýninni og viðvörunum sem voru hunsaðar, gagnrýnendur niðurlægðir, hæddir og reynt að þagga niður í þeim. Í leiðara Fréttablaðsins 31. janúar 2005 stendur þetta m.a.: „Metár er að baki í rekstri íslenskra fjármálafyrirtækja og hagnaðartölurnar utan skynsviðs meðalmannsins sem glímir við að stemma af tekjur sínar og útgjöld. Þegar slíkar tölur birtast fer um ýmsa og þeir sjá í tölunum táknmynd óréttlætis, misskiptingar og græðgi. Þetta er varhugaverður hugsunarháttur. Stundum virðast eindregnustu andstæðingar græðgi einmitt vera fórnarlömb annarrar dauðasyndar sem er öfundin. Öfundin er síst betri en græðgin í hópi dauðasyndanna sjö.“ Það stirnir á hrokann og yfirlætið í þessum orðum. Þeir sem sáu fáránleikann, skildu hann, vöruðu við honum og gagnrýndu hann voru bara öfundsjúkir. Hér er þessi magnaði leiðari eftir Hafliða Helgason og ég þakka ES fyrir að benda á hann í athugasemd við síðustu færslu. Svona var mórallinn í ársbyrjun 2005 og hann átti bara eftir að versna.
Leiðari Fréttablaðsins 31. janúar 2005
Ég minni meðal annars á þetta vegna þess, að á ýmsum sem hafa verið í hlutverki gagnrýnandans frá hruninu hafa dunið skammir og skætingur fyrir að gera einmitt það – að gagnrýna. Fyrir að horfa um öxl, persónugera vandann, vera „neikvæðir niðurrifsmenn“, stunda nornaveiðar og þar fram eftir götunum. Þó er þetta fólk bara að biðja um réttlæti. Um uppgjör – pólitískt, lagalegt og ekki síst siðferðilegt. Það þýðir ekkert að setja plástur á svöðusár, við verðum að sótthreinsa rækilega og sauma vandlega saman. Endurskoða svo ótalmargt, þar á meðal siðferðið og hvernig við skilgreinum spillingu. Ákveða hvort við ætlum að halda áfram að dæma og fangelsa smákrimma á meðan stórþjófarnir sleppa, sjá í gegnum fingur við grunaða, líða þeim að dvelja í vellystingum á sólarströndum og veita þeim jafnvel fyrirgreiðslu og ívilnanir fyrir næsta ævintýri.
Við verðum sem þjóð að taka ákvörðun um hvort við viljum endurtaka leikinn, hleypa sömu pólitísku öflum til valda og ollu hruninu og leyfa spillingunni í stjórnkerfinu að grassera áfram eins og bakteríusýkingu í kýli á viðkvæmasta stað þjóðarlíkamans. Forystumenn hrunflokkanna hafa ekkert lært og ýmsir aðrir ekki heldur að því er virðist. Ekkert. Þeir neita að gangast við ábyrgð og leiðtogar tveggja þeirra eru sjálfir auðmenn af stjórnmálaættum – annar með vafasama fortíð í viðskiptum. Öfgaöfl fara hamförum og láta frá sér fara þvílíka steypu að það hálfa væri yfirdrifið. Þetta fólk reynir einmitt, af ótrúlegum hroka og yfirlæti, að gera lítið úr gagnrýni á sig og sína og hlut sinn í hruninu með því að beina athygli að öðru, niðurlægja gagnrýnendur og gera þá tortryggilega. Vonandi taka fáir þá trúanlega.
Ég minni hér á nokkra gerendur í aðdraganda hrunsins – við megum ALDREI gleyma hverjir það voru og hvað þeir gerðu – og gerðu ekki – sem varð til þess að efnahagur landsins hrundi. Aldrei! Og við verðum að læra af reynslunni – reynslunni af þeim og gjörðum þeirra. Ekki byggja framtíðina á sömu fúaspýtunum.
Fréttir Stöðvar 2 – 11. til 23. desember 2009
Að lokum enn ein áminningin um hvernig mórallinn var í samfélaginu. Hvernig spilað var á hégóma, græðgi og löngun sumra til að vera í „rétta liðinu“ – að vera „Hinir útvöldu“ sem óku um á Range Rover.
Auglýsing í Fréttablaðinu 21. ágúst 2008
Guðni Elísson nefnir þessa auglýsingu í stórfínni grein sem ég mæli eindregið með og birtist í Tímariti Máls og menningar nú í desember. Greinin heitir Staðleysan Ísland og mýtan um okkur sjálf.
Tómir Gleðibankar á Íslandi. Galtómir.
Guðni skrifaði líka ágæta grein í Sögu, tímarit Sögufélags:
„Vogun vinnur … Hvar liggja rætur íslenska fjármálahrunsins?“
Takk, Tryggvi – lagaði strax. Munar ansi miklu um eitt ár stundum!
range rover aulýsingin er ekki rétt dagsett .. Annars er allt í gúddí
Hafliði Helgason virðist nú vinna fyrir Bjarna Ármans í orkumálum?! Af því að hann studdi Bjarna svo vel árin á undan?
Hér segir að Hafliði Helgason sé framkvæmdarstjóri Sjávarsýnar:
http://www.linkedin.com/pub/haflidi-helgason/15/508/629
Og hér segir að Bjarni eigi Sjávarsýn og hafi gert samning við OR:
http://www.litlaisland.net/corruption/209/sjavarsyn-ehf/
http://www.hvitbok.vg/Profilar/BjarniArmannsson/Sjavarsyn/
Magnað!
Fyrst var þjóðinni hótað með dauðasynd fyrir að efast um loftbóluhagkerfið. Núna er henni legið á hálsi fyrir hafa ekki efast af sama áróðurspésa, Fréttablaðinu, vera heimsk í ofanálag og nánast skipað að borga.
„Sjálfritskoðun“ óháðra áróðursmeistara Fréttablaðsins þeirra Gunnars Smára Egilssonar, Hafliða Helgasonar og Jóns Kaldal virðist hreinlega engin takmörk sett.
Þeir hljóta bara að lenda á kreditlistanum í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar.