Mig langar að vekja athygli á þessari fréttaskýringu Lóu Pind Aldísardóttur á Stöð 2 í gærkvöldi. Svona er staðan hjá æði mörgum og þarf ekki endilega vísitölufjölskyldu til. Og – eins og segir í fréttaskýringunni – ótalmargir eru með miklu lægri laun en hjónin í þessu dæmi.
Stöð 2 – 28. mars 2010
Ástæðan fyrir þessari stöðu almennings er meðal annars þessi:
Halldór Baldursson – Morgunblaðið 29. mars 2010
Lára Hanna,
Með „samantekt“ átti ég við blogfærsluna þína sem er tilvísun og smá umfjöllun um eina frétt og eina skopmynd. Ástæða þess að ég velti fyrir mér tilgangnum með færslunni þinni er sú að ég reikna með að umfjöllunarefni þín og annarra í sambærilegri stöðu (t.d. Egils Helgasonar sem er í sama boxi og þú á Eyjunni) séu hlutir sem ætti að bæta úr en það sé ekki bara verið að velta sér upp úr vonleysinu og veseninu (kallaði ekki einhver það „kreppuklám“?). Tilgáta mín, sem er ekki rökstudd (og þess vegna vildi ég halda henni fyrir mig) var að þú værir að leggja til e-k upptöku gerðra saminga (skuldaniðurfærslu) enda væri það væntanlega það eina sem leyfði svona fólki að halda áfram þeirri neyslu sem höfð var til viðmiðunar.
Sæl Lára Hanna,
mér fannst fréttin góð. Hún lýsir því sem er að gerast og mun væntanlega gerast í mun meira mæli í framtíðinni.
Ástæða þess er að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vill ekki leiðrétta kjör almennings sem verður undir hruninu.
Sjá:http://www.efnahagsraduneyti.is/media/Acrobat/LOI_final_for_signing_TYDING_draft.pdf
Þennan texta þarf að lúslesa til að ná samhenginu.
Það er því gagnslaust að rífast við Steingrím og félaga, í raun, þau eru bara fallbyssufóður sjóðsins.
Sendum sjóðinn heim og stjórnum okkur sjálf!
Gerið þið ykkur gerið ykkur grein fyrir því hvað Meðaltal er?!
(150 + 150 + 170 + 270+ 350+ 1000)/6 = 348.3 En ef ég tek út hæstu og lægstu tölu fæ ég 235
Brennivínstölur og sígarettutölur eru teknar úr sölutölum og deilt í fjölsk
utanlandsferðir einnig!
Þannig getur ríka fólkið BJAGAÐ tölurnar all verulega! Því það fólk getur „leyft“ sér meira en aðrir.
En hjá því verður ekki litið að rekstur heimilis er mjög erfiður!!!! Og flestir hafa sniðið stakk eftir vexti hverju sinni, en nú er svo komið að hrunið hefur valdið því að miðstéttin er hrunin!! Og eftir verða öreigar og Ríka fólkið. Ekki glæsileg framtíð!!
Heyr heyr Sigrún E! Svo innilega sammála þér. Ég þurfti að standa í biðröðum hjá Mæðrastyrksnefnd LÖNGU fyrir kreppu. Hef aldrei nokkurntímann á ævinni séð hærri brúttótekjur en 250.000 per mánuð. ALDREI. Ættingjum og vinum hefur verið fullkunnugt um erfiðar aðstæður hjá mér en aldrei nokkurtímann, í eitt einasta skipti, hefur ættingi t.d. spurt mig hvernig mér reiði af eða boðist til að aðstoða mig á einhvernhátt. Ég hef plumað mig ágætlega og er þakklát því ég veit ég hef það þrátt fyrir allt, betra en margir aðrir. Ég verð að segja eins og er að ég hló upphátt þegar ég horfði á fréttina og Lóa Pind talaði um „lúxusfríu“ fjölskylduna. Vá! Fjölskylda sem drekkur eina vínflösku og six pack af bjór per helgi, er með börn í gítar, ballet og fótbolta, kort í ræktina, kaupir fatnað mánaðarlega, snyrtivörur, fer í bíó osfrv. osfrv. er í mínum augum alls ekki lúxusfrí!!! Fyrir mér er þetta algjört munaðarlíf;-) Svo mætti alveg fara að skoða það hvernig EINHLEYPINGUM reiðir af í kreppunni. Það eru margir sem halda að lífið sé mun einfaldara og þægilegra þegar maður er einn í heimili en það er langt frá því auðvelt að vera einn að reka heimili, borga allar skuldir og matarreikninga með lágar tekjur og ENGAN stuðning af neinu tagi.
Sumir þeirra sem leggja hér orð í belg, gera greinilega ráð fyrir að allir búi á höfuðborgarsvæðinu og geti nýtt sér almenningssamgöngukerfi. Svo er ekki. Það býr líka fólk á landsbyggðinni, fólk sem ÞARF að eiga bíl.
Mér finnst þessi umræða ólíkindum. Við erum 4 manna fjölskylda í fínum málum. Við höfum aldrei haft þessi laun sem Lóa Pind talar um í frétt sinni, enda höfum við aldrei nokkurntíman getað eða viljað leyfa okkur það sem hún telur upp. Ég skil ekki hvað fór úrskeðis í hugsunarhætti Íslendinga, hvenær varð það eðlilegasti hlutur að eiga 10% í húsnæði sínu, og bíl á lánum? Reynið ekki að verja það með því að segja að það sé “ mannsæmandi“!
Sjálf er ég ómenntuð, og unnið láglaunavinnu meiri hluta æviminnar. Ég keypti mér húsnæði 22 ára, var með lítið barn. Húsnæðið sem við bjuggum í var 43 fm, og ég vann aukavinnu í mörg ár og átti ekki bíl. Get sagt ykkur að fenginni reynslu, það er nú bara ekkert að þessu almenningssamgöngukerfi. Mér finnst þetta væl alveg óþolandi, það er fullt af fólki sem hefur það verulega slæmt, t.d. öryrkjar og láglaunafólk, sem getur ekki skorið neitt niður, það hefur aldrei getað leyft sér neitt. Hafið þið ,sem hafið haft það ágætt hingað til, nokkurntíman rétt því fólki hjálparhönd?
Það er nokkuð ljóst að Ingibjörg rekur ekki fjölskyldu.
Það að kaupa föt á börn sem eru að vaxa kostar slatta mikið, t.d. úlpa kostar yfir 10 þús og dugir í 1 ár ef vel má vera. Skór duga í 1 ár max og þarf alla vega að eiga 3-4 pör (börn slíta skóm og fötum mjög hratt). Íþróttaföt fyrir börn er hrikalega dýrt. Föt fyrir fullorðna kosta líka sitt! Skór, buxur, peysur, skyrtur. En auðvitað þurfum við ekki að skipta eins oft út fötum (nema tískufólk)
Matur já 100 þús finnst mér lítið. Kvöldmatur fer ekki undir 2000-3000 kr á dag(fiskur, kjöt, heilsubaunabuff etc), mjólk, morgunkorn, safi, nesti, hádegismatur fyrir mann sjálfan, ég er með 5 manna fjölsk og er ég ekki að eyða í vitleysu en neyslan kostar um það bil 130 þús á niskum mánuði. Og þá er ekki verið að fara út að borða (KFC = 3000 kr lágmark, Pizza 3500 kr lágmark). Og ef bakarísmat er bætt við eykst þetta enn meira.
Sjúkrakostnaður fyrir börn má kannski deila um, en að fara með barn til læknis kostar sitt, tannlæknir, lyf, krem etc.
Rekstur á bíl, er bara bull, tryggingar, bifreiðargjöld, eldsneyti, lánaafborganir
Fasteign: Tryggingar, fasteignagjöld, hiti, rafmagn, lánaafborganir, VIÐHALD
Þessar tölur eru alls ekki fjarri lagi og hrikalega erfiðar aðstæður við að reka heimili!!!!
Ef það ætti að útskýra í smáatriðum hvernig tölur eru fengnar í svona hagfræðilegum útreikningum þá yrði fréttin hálftíma löng. En flestir með almennt grunnnám gera sé grein fyrir að inn í tölunum eru allir þættir er varða útgjaldaliðinn, eða eins og hér hefur komið fram, afborgarnir, opinber gjöld, hússjóðir, tryggingar, rekstur, viðhald. Þannig að útgjaldaliðirnir húsnæði og bíll tel ég alls ekki ofreiknaða í þessu dæmi. Flest annað var svo skorið af. Ég tel að nú sé svo komið að almennur húsnæðiseigandi verði að rísa upp og krefjast þess að höfuðstóll íbúðalána verði færður aftur til mars 2008 og þak sett á verðbætur frá og með þeim tíma. Þetta er mál málanna í dag og snertir alla eða velflesta Íslendinga. Þeir sem eiga sitt húsnæði skuldlaust eru annað hvort þeir sem fengu „verðbólgugjöfina“ á sínum tíma eða fjáðir einstaklingar sem það að kaupa íbúð (eða láta eignarhaldsfélag kaupa hana fyrir sig og almenning síðan borga) vefst ekki fyrir þeim og þeir þurfa engin úrræði. Mér er illa við að kalla slíka menn ríka eða auðmenn, í raun eru þetta mestu fátæklingar landsins, þeir eiga ekki einu sinni mannorð. Meginkrafan í dag hlýtur að vera úrbætur á húsnæðislánunum, þar getum við gert breytingar, það er heimaverkefni ríkisstjórnarinnar og ekki háð neinu erlendu valdi eða viðsemjendum. Bílarnir mega bíða, og hægt að vera án þeirra, gengið ráðum við illa við í augnablikinu og matvaran verður áfram dýr, en það gæti verið tímabundið. En húsnæðismálin ráðum við við og úrræði ríkisstjórnarinnar duga því miður ekki enn fyrir almenning, þetta hafa helst verið lengingar í lánum en ekki leiðréttingar. Krefjumst þessara leiðréttinga af fullum krafti, sendum þingmönnum bréf (einn þeirra er nú að skrifa hér)og gefum þetta ekki eftir. Þetta er réttlætismál. Ef þetta er vandamál vegna lífeyrissjóðanna þá eigum við þá líka og þeir eiga að sinna þörfum okkar NÚNA, það er meira áríðandi en hvað þeir þurfa að gera eftir 20 ár.
Tvennt í útgjöldum þessa fólks jaðrar við þjófnað. Matur fyrir 100 þúsund og húsnæði fyrir nærri 200 þúsund. 60% af ráðstöfunartekjum fara í mat og húsnæði. Þetta segir okkur að verðlag hér er allt of hátt og vextir allt of háir. Heimtum lægra verð og lægri vexti!
Þetta er bara stefnan frá AGS. Útrýma millistéttinni og færa alla niður fyrir fátækramörk.
@Steini
Ég átta mig fullkomlega á því að hvernig fréttamaðurinn vann þessa frétt.
Þrátt fyrir það get ég ekki orða bundist og hlýt að mega það.
Framsetning fannst mér afar léleg og ég verð að segja það, að ef þetta var „MEÐALTAL“ verður þetta enn óskiljanlegra. Ertu Steini að segja að þetta sé sú staða sem flestir eru í? Það finnst mér með ólíkindum. Að fréttamaðurinn hafi notað tölur frá meðaltalstölum og útreikningum Hagstofunnar á neyslu er engin trygging fyrir að úrvinnslan hafi verið rétt.
Já, þetta er sorglegt dæmi. Og það sem ríkisstjórnin gerir til að lagfæra þetta er að banna ljósabekkjanotkun undir 18 ára, banna vændi, setja lög um kynjakvóta, banna áfengisauglýsingar, standa í vegi fyrir hverslags framkvæmdum því það gæti einhver grætt á þeim, auk þess að hækka skatta og álögur á almenning.
Að auki átti þetta allt að lagast við það að reka Davíð úr Seðlabankanum, en það lagaðist ekkert við það.
Þá var málið að sækja um aðild að ESB, því þá myndi allt lagast hér strax. En það gerðist hinsvear ekki.
Nú er málið að samþykkja bara Icesave-klafann, því þá muni allt lagast. Galið!
Myndin hans Halldórs segir allt sem segja þarf, þó svo að margir afneiti því að þetta hafi í raun verið svona.
Ég get alveg tekið undir með þeim sem sjá ekki þessar tölur í tengslum við eigin lifnaðarhætti. Sjálf er ég afleitur neytandi og nægjusöm. Ég á erfitt með að heimfæra svona tölur upp á sjálfa mig. En ég er heldur ekki með börn lengur á heimilinu.
Staðreyndin virðist engu að síður vera sú – eins og Steini bendir á – að þetta er nálægt því sem þessi kjarna- eða vísitölufjölskylda lifir. Eins og Lóa Pind segir í upphafi fréttaskýringarinnar: „Við notuðum tölur frá Hagstofunni en leituðum líka fanga víðar. Við lögðum dæmið síðan fyrir hagfræðing ASÍ og með hans athugasemdir í farteskinu lítur rekstrarreikningur kjarnafjölskyldunnar svona út.“
Þetta er ekki spurning um að vera sammála mér eða ekki – ég tengi ekki við þessar tölur miðað við minn fábrotna lífsstíl. En við erum öll ólík með mismunandi þarfir.og miðað við vinnubrögð Lóu Pind hefur hún örugglega rannsakað málið vandlega áður en hún vann þessa fréttaskýringu.
@ Ingibjörg: Eitt orð „MEÐALTAL“
@Gamli. Þú áttar þig væntanlega á að þetta dæmi er út frá meðaltalstölum og útreikningum Hagstofunnar á neyslu. Sumir eru með minna, aðrir meira, en þetta er MEÐALTAL.
Oftar en ekki er ég sammála þér Lára Hanna. En þessi fréttaskýring þarfnast skýringar.
Í fyrsta lagi – er matarkostnaður 4 manna fjölskyldu virkilega 100 þúsund krónur á mánuði, um 3500 krónur á dag?
Er fatakostnaður 4 manna fjölskyldu virkilega 35000 krónur á mánuði?
Er sjúkrakostnaður 4 manna fjölskyldu virkilega 22000 krónur á mánuði?
Svo tek ég undir með þeim sem sem skrifaði hér að ofan og spurðist fyrir um barnabætur og vaxtabætur.
Þessi fréttaskýring kann að sýna fram á eitthvað en hún er alls ekki altæk og hefði mátt vera betur unnin af fréttamanninum Lóu Pind Aldísardóttur. Ég treysti því hreinlega að hún taki þetta upp aftur og skýri betur fréttaskýringuna sína.
Ég á bágt með að trúa að ung hjón með tvö börn séu í húsnæði upp á 200 fermetra.
Bæði reykja en eyða 120 þúsund krónum í líkamsrækt. Reyndar fannst mér uppsetning þessar „fréttar/fréttaskýringar“ öll með eindæmum. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr vandamáli fólks almennt, en var þessi uppdiktaða fjölskylda að lifa um efni fram, jafnt fyrir og eftir kreppu?
Einar… Gætirðu útskýrt hvaða tilgangi þessi spurning þín þjónar? Hvaða samantekt ertu að tala um og hvaða tilgátur hefurðu?
Er ekki hægt að lifa á Íslandi án þessa að eiga bíl? Er sjálfur búsettur erlendis og hef ekki þurft að eiga bíl í mörg ár til að komast í vinnuna eða ferðast, hvað kostar að eiga og reka bíl á Íslandi í dag?
@ Einar. Hvaða endemis rugl er þetta? Má ekki tala um eitt eða neitt án þess að vera með einhverjar „lausnir“ á öllu? Það er svona ruglandaháttur og útúrsnúningar sem rugla alla heilbrigða umræðu hérna á Íslandi í dag.
Lára Hanna,
Gætirðu útskýrt hvaða tilgangi þessi samantekt þín þjónar? Það er freistandi að koma með tilgátur en betra ef þú skýrir það sjálf. Hver væri t.d. þín lausn á vandamálinu?
Dæmi:
Við erum 6 manna fjölskylda í 138 fm. húsi og greiðum af einu erlendu bílaláni. Vorum í góðum málum fyrir hrun og áttum dálítið sparifé. Ég hef verið atvinnulaus í tæplega hálft ár og á þeim tíma höfum við gengið á spariféð sem nú er upp urið. Það kostar orðið hálfan handlegg að fæða fjölskylduna. Um næstu mánaðamót munum við fara í mínus. Ég held að nákvæmlega þetta sé að gerast hjá ótrúlega mörgum fjölskyldum. Að fólk geti haldið sér á floti í ákveðinn tíma – en ekki endalaust.
@b – Hjartanlega sammála um að tveir bílar séu lúxus. Því miður er erfitt að að samræma einn bíl við vinnustaði á sitthvorum enda höfuðborgarsvæðisins og dagvistun á tveimur stöðum. Almenningssamgöngur hjálpa lítið við þá samræmingu.
Þær lausnir sem er verið að bjóða miða allar að því að gera alla að jafn miklum öreigum. Þeir sem voru svo fjandi vitlausir að leggja fram pening við kaup á húsnæði eða bíl til að minnka lán eiga að tapa sínu þegar öll lán verða klippt við 110% af metnu verðmæti. Eftirá að hyggja hefði verið betra að taka 100% lán á allt, eyða peningunum (höfuðstólnum) og láta núna færa lánin niður.
Tek einnig undir með Sigurði#1, hvernig fær Anna út 60 milljóna húsnæðislán? Það var talað um að KOSTNAÐUR við húsnæðið væri 185 þús á mánuði sem þýðir afborganir, fasteignagjöld, rafmagn og hiti. Það þýðir ekki að afborgun af láninu sé 185þ.
Það er komið í óefni hjá mörgum og stutt í vargöld.
Tek undir með Sigurði #1 Hvernig fær Anna út 60m húsnæðislán og 10 milljóna bíla???? Inni í þessum tölum var kostnaður við bílinn, sem er væntanlega líka bensín, skattar, tryggingar og viðhald.
Ég er t.d. með 13 milljóna húsnæðislán (verðtryggt) og er að borga tæplega 100 þús af því. Tvo bíla, annar keyptur 2006 á kr 1.200 þús og hinn keyptur 2008 á 880 þús. Af þeim er ég að borga samtals tæplega 70 þús fyrir utan tryggingar og bílaskatt, og það er fyrir utan tryggingar og bensín.
Anna
29.3 2010 kl. 16:06
Hvaðan hefur þú þessa dellu um 60 og 10 miljónir???
Mér finnst nú reiknað með frekar háum meðallaunum í þessari fréttaskýringu. Ég var í ágætis málum fyrir hrun, enda þá með vinnu á yfir meðallaunum. Núna atvinnulaus og með mikið meira en milljón á ári í mínus, enda húsnæðislánin í frystingu og samt næ ég ekki endum saman.
Hmm … þetta fólk er að borga af 60 mkr húsnæðisláni og 10 mkr bílaláni! Vísitölufjölskylda?
Færeyjar eru farnar að hljóma ágætlega.
Ríkisstjórnin stendur sig ákaflega vel í að taka á þessum vanda. Ég trúi því staðfastlega að neyðarlög á sólbaðsstofur og súlustaði hafi verið það mest áríðandi í stöðunni. Ætli þetta fari ekki allt að lagst úr þessu fyrst að búið er að taka á þeim vanda?
Erfiðar aðstæður en má ekki setja spurningamerki við fólk í meðallaunum takandi 100% lán á bíl og býr í 200 fermetra húsi? Fjölskylda mín er búinn að vera á svipuðum launum jafnvel aðeins hærri en ekki hefur mér dottið í hug hingað til að ég hafi efni á að búa svona stóru húsnæði. Ég keypti ódýranbíl sem ég gat staðgreitt og ekki treyst mér í að stækka við mig meðan allt hækkaði viðstöðulaust. Að eiga 2 bíla líkt og „Mínusmaður“ nefnir er einnig talsverður lúxus að mínu viti og hefur alltaf verið.
Án þess að vera að gera lítið úr stöðu fólks finnst mér mikilvægt að ganga ekki út frá svona hlutum sem lágmarks gæðum. Ýmsar forsendur hafa breyst sem gerir stöðuna verri en upp var lagt með(sbr. hækkanir og atvinnuleysi), en margir lögðu líka upp með að ekkert myndi breytast nema til batnaðar.
Það er þó allavega búið að banna ljósabekkjanotkukn yngri en 18ára…..
Eitt sem mér fannst vanta í þessa upptalningu var, hvort fjölskyldan fengi einhverjar barnabætur eða vaxtabætur, eða einhverjar aðrar bætur frá ríkinu eða vexta af innistæðum. Það þarf að passa í svona umræðu að ekki sé hægt að hanka umfjöllun á eitthvað vanti í upptalningu.
Vandamál fjölskyldna eru nóg, þannig að þegar sýna á fram á það þarf að passa upp á alla þætti svo umræðan fari ekki að snúast um hvað er oftalið og hvað er vantalið í upptalningunni.
já.. þetta er sannarlega sorgleg þróun
Þetta er súr og sár sannleikur.
Nefni dæmi um mig og mína fjölskyldu. Erum hjón um þrítugt með tvö börn yngri en 5 ára. Vorum fyrir hrun í ágætis málum. Bæði með örugga vinnu, áttum 25% í fasteigninni og vorum með tvo bíla. Fasteignin er með verðtryggt lán en bílanir blöndu af verðtryggðu og gengi (við vildum hafa vaðið fyrir neðan okkur ef annaðhvort færi á flug).
Við áttum það mikið afgangs á mánuði að 75þ fór í sparnað, fórum í helgarferðir til útlanda einu sinni á ári og jafnvel sólarlandaferð annaðhvert ár.
Núna er staðan þannig að það útgjöld umfram tekjur eru 55þ á mánuði. Viðsnúningurinn frá því í janúar 2008 er því 55þ + 75þ kr sparnaðurinn + annað sem eytt var í „óþarfa“ eins og ferðalög til útlanda. Það má ekki mikið útaf bregða til að sparnaðurinn étist allur upp í einu, núna hverfur hann hægt og rólega.
Skv skattframtalinu er íbúðalánið komið fast upp að fasteignamatinu, sem er langt yfir gangverði sambærilegra íbúða.
Bílalánin eru þannig að annað er mun hærra en verðmæti bílsins og hitt á pari verið verðmætið. Í báðum tilfellum var borgað inná bílana 30-35% af kaupverðinu.
Ég er bara venjulegur borgari, eitt af „breiðu bökunum“ sem var alinn upp við að borga mínar skuldir og vera í skilum. Ég geri það með því að klára sparnaðinn smátt og smátt. En hvað svo??