Þriðjudagur 22.03.2011 - 20:41 - FB ummæli ()

Lögbann og leyndarhyggja

Fjölmiðlar

Fjölmiðlar

Eins ánægð og ég er með sýknudóm í héraði yfir Svavari og félögum á RÚV er ég rasandi yfir lögbanni sem Landsbankinn fékk sett á umfjöllun DV um málefni bankans og fjárfestingafélaga í eigu hans. Bankastjóri Landsbankans var í yfirreið um landið nýverið í þeim tilgangi að fegra ímynd bankans – sem er jú sá eini sem er í eigu ríkisins, þ.e. okkar almennings. Lögbann sem þetta hjálpar nú varla bankanum við að endurskapa ímynd sína.

Leyndarhyggja og bankaleynd var tvímælalaust meðal þess sem olli hruninu eins og kemur skýrt fram í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Skemmst er að minnast þegar reynt var að fá lögbann á umfjöllun fréttastofu RÚV um lánabók Kaupþings. Undanfarin tvö ár hefur verið kallað eftir… nei, hrópað á afnám bankaleyndar, meira gagnsæi í öllum málum, heiðarleika og hreinskiptni í samskiptum yfirvalda og stofnana við almenning. Og bætt siðferði og réttlæti. Ég er hrædd um að fólki finnist ansi djúpt á þeirri hugarfarsbreytingu sem þarf til að lappa upp á samfélagssáttmálann sem hrundi til grunna í hruninu.

Okkur skattborgurum er nú gert að borga alls konar skuldir sem við stofnuðum ekki til. Ætli gjaldþrot Seðlabankans vegi þar ekki einna þyngst, en auðvelt væri að benda á ótalmargt fleira – það nýjasta kom fram í fréttum RÚV í gærkvöldi:  Íbúðalánasjóður og Lánasjóður landbúnaðarins – alls tæpir 100 milljarðar króna. Ótalmargt fleira mætti tína til og enn er ekki allt komið í ljós.

Við eigum því heimtingu á að vita hvernig gæslumenn fjármuna almennings fara með þá og hvort óhreint mjöl er í pokahorninu. Hvað er verið að fela? Hlutverk fjölmiðla er að upplýsa okkur um hvað er að gerast – og það á ekki að þurfa að segja „á bak við tjöldin“. En þannig er það, tjöldin eru stór og þykk, og leyndarhyggjan grasserar sem aldrei fyrr. Ritstjórar DV hafa gefið út yfirlýsingu um að þeir muni ekki afhenda gögnin sem þeir hafa í höndunum því þau geti vísað á heimildarmenn. Það er ábyrg afstaða sem allir fjölmiðlar halda í heiðri skilyrðislaust. Ég tek undir fordæmingu ritstjóranna og styð ákvörðun þeirra. Enginn á að gjalda þess að segja sannleikann um mál sem snerta almannahag, hvorki einstaklingar né fjölmiðlar.

Ekki er víst að allir þekki þetta mál sem um ræðir og lögbannið nær yfir, svo ég klippti greinarnar út úr DV og birti þær allar hér fyrir neðan (smellið í læsilega stærð). Ég skoðaði líka umsvif Hermanns Más Þórissonar, framkvæmdastjóra fjárfestingafélags Landsbankans – Horns. Skoðið tenglana fyrir neðan greinarnar og rúsínuna í pylsuendanum neðst.

Horn Landsbankans vill kaupa í Stoðum – DV 14. mars 2011

Horn Landsbankans vill kaupa í Stoðum - DV 14. mars 2011

Horn Landsbankans vill kaupa í Stoðum - DV 14. mars 2011

Horn íhugar að greiða arð upp á 10 milljarða – DV 18. mars 2011

Horn íhugar að greiða arð upp á 10 milljarða - DV 18. mars 2011

Horn íhugar að greiða arð upp á 10 milljarða - DV 18. mars 2011

Legg til að „ég taki við hlutverki stjórnarformanns“ – DV 21. mars 2011

Legg til að "ég taki við hlutverki stjórnarformanns" - DV 21. mars 2011

Legg til að "ég taki við hlutverki stjórnarformanns" - DV 21. mars 2011

Ég fletti upp Hermanni Má Þórissyni, framkvæmdastjóra Horns og lögbannsbeiðanda, og þeim félögum sem hann tengist. Eflaust geta margir gleymt sér við að skoða þetta og tengja við mann og annan – og fyrirtæki. Tengslamyndirnar eru í boði snillingsins Jóns Jósefs Bjarnasonar og Rel8 gagnagrunnsins hans.

Hermann Már Þórisson

Klifur fjárfestingar ehf.

Eyrir Invest ehf.

Horn fjárfestingarfélag hf.

Lífsval ehf.

Valaból ehf.

Atorka Group hf.

Landsbanki Vatnsafl ehf.

Promens hf.

Svo er það rúsínan í pylsuendanum – sjálfur bankastjóri Landsbankans, Steinþór Pálsson. Hann er einmitt stjórnarformaður hjá Horni Fjárfestingarfélagi hf. þar sem Hermann Már er framkvæmdastjóri. Ég hef séð svo margar tengslamyndir að þær koma mér sjaldnast á óvart lengur. En þessi kom mér verulega á óvart – enda er ég hvorki kunnug tengslum í fjármálaheiminum né ættfróð. Smellið í læsilega stærð.

Steinþór Pálsson – tengslamynd – Rel8

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans - Rel8 - mars 2011

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans - Rel8 - mars 2011

Að lokum skal tekið fram að ég tengist báðum fjölmiðlunum sem ég nefni hér að ofan. RÚV á þann hátt að ég á það í félagi við alla Íslendinga og ég er varamaður í stjórn DV – en þó ekki hluthafi.

Flokkar: Bloggar

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Ummæli

  • Á myndinni stendur „Stjórnarformaður“ við tengingu Steinþórs við NBI.

  • DV hefur greitt fyrir upplýsingar í gegnum tíðina. Það hét fréttaskot. Annars er þessi umræða merkileg. Páll Gunnar Pálsson sagði í viðtali við Kastljós að Ragnar Önundarson yrði að koma með einhver gögn sem styddu ásakanir um samráð bankanna. Orð Jóhönnu Sigurðardóttur og Ragnars Önundarsonar duga ekki til að Páll Gunnar Pálsson hreyfi á sér rassgatið. Þau þurfa að koma með einhver gögn.

    Fréttablaðið 23. febrúar 2007:2 “Leynd yfir fundum fjármálafyrirtækja”:

    http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=272864&pageId=3933920&lang=is&q=Helgi%20H.%20Steingr%EDmsson

    Fréttablaðið 26. febrúar 2007:2. “Engin ákvörðun um rannsókn á fundum fjármálafyrirtækja verið tekin. Skoðun ekki til lykta leidd”:

    http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=272867&pageId=3934175&lang=is&q=P%E1ll%20Gunnar%20P%E1lsson

  • Carl Jóhann Lilliendahl

    Það á bara að kæfa svona aumingja eins og Harðsnúnu Hönnu með því að hundsa skrif hennar (eða hans) þegar hún (eða hann) er svona þvílíkur aumingi og ræfill að þora ekki að skrifa undir nafni.

  • …“rétta menntun“ þýðir í þetta tiltekna starf.

  • Þessi umræða svipar mjög til WikiLeaks umræðunnar og hvort hægt sé að sækja „ritstjóra“ WikiLeaks til saka fyrir að birta illa fengin gögn. Bandaríkjamenn eru enn sveittir við að finna einhverja lagastoð í þeim efnum.

    Íslenskt löggjafar-dóms-og framkvæmdarvald, sem státar af því að hafa frumkvæði í IMMI (Icelandic Modern Media Initiative) verkefni sem m.a. Birgitta Jónsdóttir hefur barist fyrir, er auk þess með fyrirliggjandi skýrslu frá Rannsóknarnefnd þar sem hvatt er til að öll fundarborð og fundarherbergi séu úr gegnsæju gleri og helst með upptökutækjum, og síðast en ekki síst hrunið efnahagskerfi af völdum fólks, sem margir telja að séu að sækja í sig veðrið á ný í skjóli eignarhaldsfélaga í eigu banka – Horn og Hömlur- og hvað þetta nú heitir( pása meðan ég dreg andann) ……. getur ekki látið hanka sig með lögbannskröfu um sannleika á grundvelli „bankaleyndar“.
    Hér er verið að víla og díla með stærstu fyrirtæki landsins, sem öll fóru meira eða minna á hausinn og afskriftir milljarða.
    DV er satt best að segja eini „pönkarablaðið“ sem hægt er að treysta á.
    Hin blöðin eru að pönkast í röngum hlutum með andlitið á kafi í eigin nafla.
    Nauðavörn DV væri eiginlega að leka þessum gögnum til WikiLeaks.

    Varðandi tengslanet bankastjórans, þá kemur ekki á óvart að aðili með rétta menntun, hafi langa reynsluslóð og eigi mörg systkini sem fetað hafa svipaða brautir. Það sem einna helst skortir er að hann hafi ekki reynslu sem successful bankastjóri á krísutíma, sem er æskilegur eiginleiki fyrir svona starf.
    Aðalatriðið finnst mér samt enn vera með þennan bankastjóra, að hann hefur tiltölulega hreinan „hrunskjöld“ samanborið við marga aðra, systur þeirra og bræður að foreldrum meðtöldum.

    Afsakið málæðið.

  • Harðsnúna Hanna

    Heiða, Landsbankinn er vissulega í almannaeign. Það sem ég er að velta upp er hvort þessi lögbannskrafa sé gerð til að vernda viðskiptavini bankans, starfsmenn þeirra fyrirtækja sem um ræðir eða nafngreinda einstaklinga í þessum gögnum. Ég get í fljótu bragði ekki séð að þau gögn sem DV hefur birt komi sér eitthvað sérstaklega illa fyrir Landsbankann.Orðið bankaleynd hefur fengið mjög neikvæða merkingu í netheimum eftir hrun. Hins vegar held ég að allir sem eiga í viðskiptum við banka geri ráð fyrir því að þeirra bankamál séu ekki til birtingar fyrir hvern sem er.
    Það hefur aldrei verið leyndarmál að DV hefur greitt fyrir fréttir. Ég þekki fólk sem hafði ansi gott upp úr því að fá 5000 kall fyrir hvert fréttaskot hér á árum áður.

  • Svavar Bjarnason

    Ansi er ég hræddur um að Guðmundur Sóphusson sýslumaður hafi beygt sig fyrir „ákveðnum“ hagsmunum.

  • Heiða B Heiðars

    Hanna; þú gerir þér grein fyrir því að það er munur á einstaklingi og fyrirtæki í almannaeign?

    Og þú skrifar;
    „Það vita þeir sem vilja vita að DV hefur í gegnum tíðina greitt heimildamönnum sínum fyrir upplýsingar“

    Hverjum, hvenær og hvað mikið?
    Væri ekki rétt að þú gætir rökstutt svona fullyrðingar?

  • Harðsnúna Hanna

    Nb. svo það sé á hreinu þá veit ég ekkert um það hvort þú hefur tekið myntkörfulán eða yfir höfuð notað kreditkort. Það sem ég er að benda á er að ef fjölmiðill hefði slíkar upplýsingar væri það þá að þínu mati „fair game“ að birta upplýsingarnar?

  • Harðsnúna Hanna

    Lára, þú verður að virða það að ég vil ekki koma fram undir nafni. Ef einhver á að taka þessu bloggi þínu alvarlega verður að vera svigrúm fyrir mismunandi skoðanir. Mín skoðun er sú að blaðamenn á Íslandi hafa allan rétt á því að vera gagnrýnir á banka, stjórnmálamenn og öll þau málefni sem varða almenning. Hins vegar verða blaðamenn að virða lög og reglur í þessu landi. Það vita þeir sem vilja vita að DV hefur í gegnum tíðina greitt heimildamönnum sínum fyrir upplýsingar. Er eðlilegt að borga fyrir stolin gögn/þýfi? Birting slíkra gagna á rétt á sér ef upp kemst um sviksemi, brot á lögum eða annað sem sannarlega á erindi við almenning. Ég sé ekki í fljótu bragði þessi rök eiga við í þessu máli. Það er líka rétt að benda þér á að þessi „leyndarhyggja“ sem þér finnst að eigi að vera hluti af „gamla Íslandi“ á sér tvær hliðar. Getur verið að Landsbankinn sé með þessari lögbannskröfu að vernda viðskiptavini sína? Gefum okkur að hluti gagnanna væri yfirlit um 100 milljón króna myntkörfulánið þitt og kannski kreditkortayfirlitið þitt sl. 12 mánuði. Ég geri ráð fyrir því að þú færir fram á það við bankann að hann myndi beita sér fyrir því að þau gögn yrðu ekki birt á forsíðu DV, eða hvað….?!?

  • Bjarni Gunnlaugur

    Svo argur sem maður er og leiður á þessum „bisnismönnum“ okkar og svo endalaust óáhugaverðar sem þær geta verið þessar „viðskiptafréttir“ nema fyrir það að liðið var víst á sínum tíma að díla með eigur almennings og á ábyrgð hanns og gæti hugsanlega verið enn, ÞÁ VAKNA samt eftirfarandi spurningar:
    1. Er einhver glæpur í gangi(sem DV er að upplýsa), svo fremi sem það sé ekki glæpur að stunda viðskifti á Íslandi?
    2. Upplýsingaleki getur verið fínn sbr. nauðsyn þess að upplýsa um mikilvæg mál (t.d. stríðsglæpi af hálfu BNA sbr Wilkileaks málið hennar Birgittu,) en er ekki verið að „ofnota“ þessa leið ef allt á að koma fram jafnvel nauðaómerkileg bisnisplott?

    Ég skal fúslega játa að ég er varla læs á þessar viðskiftafréttir þó ég þykist gera mér grein fyrir því að sumpart sama liðið er sumpart enn við sama heygarðshornið og fyrir hrun. En – það var aldrei búið að afleggja markaðshagkerfið eða hvað? Vonandi er búið að styrkja samkeppniseftirlit (hm. einokun leyfð á svínakjötsmarkaði),tryggja rétt smárra hluthafa (hvar,hvernig?),afleggja geðveikisleg ofurlaun(Jóa og Steingrímur hljóta að vera að vinna í þvi;-))búið að draga helstu gerndur hrunsins til ábyrgðar, búið að…, æi nei það er víst ósöp lítið búið að gera.
    Þeir mættu kanski byrja á því að kalla þessi gömlu fyrirtæki sínum „réttu“ nöfnum, t.d. „Sæplast“, „Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna“ 😉

  • Heiða B Heiðars

    Hanna hefur ekkert nema orð þeirra í „Horni“ fyrir því að þetta sé þýfi og ekki getur ritstjórn DV svarað því á neinn hátt nema með tilheyrandi áhættu fyrir heimildarmann/menn sína.
    Sorglegt bull í þér Hanna…. auk þess sem leyndarhyggjan og þöggunin á ekki að trompa gagnsæi..sérstaklega ekki þegar um fyrirtæki í ríkiseign er að ræða

  • Sýndu nú kjark og komdu fram undir nafni, „Harðsnúna Hanna“. Þá skulum við ræða saman.

  • Segðu mér, hvað hefur breyst í þessu þjófafélagi ? Það eru allir sömu þjófarnir , en þeir eru núna verndaðir af stjórnmálamönnum ! Hugsið ykkur, okkur er sagt að við völd sé félagshyggjustjórn ? Það var slegin skjaldborg um alla glæpamennina og þeir ganga allir lausir og leika sér allir enn á kostnað okkar hinna !

    Allt er þetta í boði VG og samfylkingarinnar, með dyggri aðstoð framsóknarflokksins og sjálfstæðisflokksins !!!

    Skoðið alla fjölmiðla , copy/paste lið í boði gælpaliðs ?

    Fjármálafyrirtæki, bankar og lífeyrissjóðir, hefur eitthvað breyst ?

    Enn er þessu öllu stjórnað af sömu klíkunum , ef til vill eru þetta allt glæpaklíkur ?

  • Harðsnúna Hanna

    Lára, finnst þér í alvöru í lagi versla með þýfi? Gögnin sem DV hefur undir höndum eru augljóslega illa fengin. Ekkert af þessum upplýsingum sem DV hefur birt á eitthvað erindi við almenning. Ekki er um neina óeðlilega viðskiptahætti að ræða eða annað sem gefur tilefni til birtingar á þessum gögnum. Blaðamenn þessa lands verða að fara að lögum eins og aðrir.

  • Já, það er hann, Rósa.

  • Rósa Halldórsdóttir

    Gunnar Páll bróðir Steinþórs, er það fyrrverandi formaður VR?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur



Eldri færslur

Dagatal

mars 2011
S M Þ M F F L
« feb   apr »
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031